Uncategorized

Eldstrókur á himni?

Hmmm.. Sigurrós tók eftir undarlegum hlut sem flaug yfir Reykjavík þar sem við sátum við matborðið. Þetta sýnist nú ekki stórt á þessari mynd en þetta virtist fjarska langt í burtu og talsverður eldhali. Ég veit ekki hvort þetta var lofsteinn eða flugferlíki með langan eldhala eða geimdrasl að koma til jarðar. Veit einhver þetta? Fór nokkuð hratt yfir í beinni línu.

Stóra verkefnið komið í gang, “proof of concept” vél keyrir og þá er það bara að snurfusa skýrsluna. Ég verð alltaf jafn barnslega glaður þegar að svona hlutir ganga upp.

Nú utan úr hinum stóra heimi er svo auðvitað áhugavert að lesa játningu George W. Bush:

“I think the American people are patient during an election year, because they tend to be able to differentiate between, you know, politics and reality.” (src)

Sko… meira að segja Bush er farinn að viðurkenna að pólitík og raunveruleikinn eiga ekkert skylt saman. Það frýs þó í helvíti áður en íslenskir pólitíkusar játa það.

Þjálfari íraska landsliðsins í knattspyrnu vandar svo ekki bandaríska hernámsliðinu kveðjurnar enda fótboltavellir nú orðnir að bílastæðum skriðdreka. Fótbolti sem vinsælasta íþróttagrein heims (í áhorfendum talið amk, held að iðkendur í einhverjum öðrum greinum séu fjölmennari) hefur nefnilega alveg ótrúleg áhrif og getur verið uppbyggjandi. Annars er það svo að Morgunblaðið kallar nú hernámsliðið í Írak “setulið”. Ætli þeir viti meira en við? Talandi um það, Davíð og Halldór hafa ekkert þurft að svara fyrir hvaða óyggjandi sannanir þeir sáu sem leiddu til þess að Ísland gerðist aðili að stríði í fyrsta sinn.

Frá Súdan kemur svo óhugguleg frétt, 11 manns hafa látist af völdum engisprettna… nánar tiltekið lyktarinnar af milljónum þeirra. Þær fara víst svona illa með astma-sjúklingana. Ég með minn lélega háls er guðslifandi feginn að vera ekki á staðnum.

Uncategorized

Að finna upp hjólið

Þegar ég var að útskýra fyrir Sigurrós hvað verkefnið okkar Birnu í Sérhæfðum gagnasafnskerfum gengi út á og að enginn virtist hafa gert svipað sagði hún að við værum að finna upp hjólið.

Það er að miklu leyti rétt hjá henni, verst að HÍ segir að HR sé ekki rannsóknaháskóli þannig að þetta telst víst ekki með? Það eða HÍ hefur ekki hugmynd um hvað er í gangi í HR.

Uncategorized

Hrekkjavaka

í gær fórum við í hrekkjavökupartí til Unnar og Bjarna. Sigurrós fór sem óþekk álfastelpa og ég fór sem andskotinn sjálfur. Reyndar datt mér líka í hug að fara sem sagnfræðingur í tilefni af nýfengri gráðu Unnar en átti því miður ekki ljósbrúnar flannelsbuxur, græn-bláa-brúna peysu með v-hálsmáli né pípu. Hárið hefði legið sleikt greitt til hliðar. Þess í stað fór það allt upp í loft í þessari múnderingu.

Það virðist hafa tekist nokkuð vel þó að fáir leikmunir væru notaðir hjá mér. Ég reyndi líka að halda mér aðeins í karakter og hræddi Loru Langsokk með tvíeggja tilvitnun. Ég hef nú fylgst með ævintýrum hennar í Suður-Ameríku og það var gaman að hitta hana, hún hlær líka verulega krúttlega og var afar hamingjusöm.

Við fórum annars snemma heim enda miklir verkefnatímar í gangi hjá mér.

Sáum annars Matrix 2 í gær. Ææææji, jæja sum atriðin voru vel tölvuteiknuð.

Uncategorized

Svarti listinn

Byssufélagið (NRA) í Ameríku er farið að setja fólk á svartan lista, allir sem þykja hafa skoðanir sem ekki eru eftir þeirra geðþótta detta á hann. Andstæðingar NRA hafa sett upp síðu þar sem vakin er athygli á þessum lista.

Uncategorized

Harðjaxlarnir

Forritaði í dag aðeins í rök-forrit-unar-málinu Prolog og fannst það æði. Margar fyrirspurnir sem SQL ræður illa við sem hægt er að útfæra í þessu. Verandi veikur fyrir gagnagrunnum var þetta auðvitað sá flötur sem ég sá á þessu fyrrum óskabarni allra forritara.

Skaust til tannsa til að láta taka myndir af mér, endajöxlunum reyndar. Grunur minn var staðfestur, annar neðri endajaxlinn sver sig í ætt við þá efri sem komu út með miklum harmkvælum og brutu meðal annars hluta kjálkabeinsins. Sá fyrri reyndist þung raun fyrir tannlækninn og kom út í þremur hlutum. Sá seinni var ævintýralegri, brotnaði úr honum í þá mund sem við ætluðum að fara til Selfoss til jólahalds og ég fór á neyðarvakt tannlækna að kveldi Þorláksmessu. Sjá má myndir af þessum hnullungi hér og hér. Á síðari myndinni má sjá tannræturnar þrjár gægjast upp úr kjálkabeinsflísinni sem er orðin dökk og blóðsprungin.

Röntgenmyndir dagsins í dag leiddu sumsé í ljós að vinstri endajaxlinn niðri er með tvöföldum vinkli en sá hægri er með þeim saklausari þó vel boginn sé. Mér hefur því verið vísað til sérfræðinga til að leggja á ráðin þar með næstu skref. Ég bíð spenntur eftir því að taka mynd af enn einum harðjaxlinum og smella hér á netið til að hrella þá sem eru með ósköp óspennandi og venjulegar tennur. Ég er víst með tanngarð úr ættinni hans Dalla afa þar sem jaxlar eru sko alvöru harðjaxlar.

Uncategorized

Ekki minnast á kynlíf!

Já, hvaða nám ætti maður að skella sér í þegar maður loks klárar B.Sc í tölvunarfræði? Ég get fullyrt að M.Sc í tölvunarfræði er ekki sterkur kandídat þar!

Það er alltaf smá huggun að því að þó að það séu kolklikkaðir menn við stjórnvölinn hér á landi þá eru þeir enn geggjaðri í Ameríkunni. Samtök sem stunda alvöru kynfræðslu þar og tala um smokka (!), kynlíf fyrir hjónaband (!) og viðlíka svakalegheit (að mati Bush og félaga) fá sko að finna fyrir því. Þau eru tekin fyrir sí og æ í endurskoðanir og það virðist vera eingöngu vegna þess að þau gútera ekki fáránlegar aðferði r(og gjörsamlega ósannað að þær beri árangur) Bush og félaga (sem þeir fengu í arf frá t.d. Reagan) um að táningar eigi að vera skírlífir þar til í hjónaband er komið.

Talandi um Reagan þá á að fara að sýna sjónvarpsseríu um kallinn, vinir hans Bjössa hjá WND eru æfir og eru klárir á því að almenningi bjóði svo við því að farið sé svona með “hetjuna” að CBS-sjónvarpsstöðin leggi upp laupana. Mér finnst þá álíka trúlegt og að Ísland verði fyrir eiturgasárás hryðjuverkamanna, reyndar höfum við orðið fyrir mikilli mengun af hálfu ameríska hersins en það virðist vera auðvelt að fyrirgefa og gleyma, ha Bjössi?

Uncategorized

Eldingum kastað

Mel Gibson er greinilega ekki trúaðri en svo að hann hunsar það þó að eldingum ljósti niður í þann sem leikur Jesú við tökur á myndinni.

Það virðist stórvarasamt að fara í fjallgöngubrúðkaupsferðir samkvæmt frétt Pravda. 50 manns hafa látist við göngur, fjallgöngur og flúðasiglingar á þessu ári í Rússlandi.

Ekki vissi ég að Maine hefði lýst yfir stríði gegn Kanada!

Uncategorized

*v*

Hmmm… ætli þessi stafatákn hér að ofan nái að sýna hversu kipruð augu mín eru af þreytu? Erfið nótt, við virðumst hafa smitast af Snúra litla í gær og skiptumst á að vakna í nótt, hvorugt grét þó og ekki þurfti að skipta á okkur eða gefa að borða.

Aðdáendur CSI ættu ekki að láta þessa frétt um CSI:Crime Scene Insects framhjá sér fara.

Uncategorized

‘Snúri’ heimsóttur

Í kvöld heimsóttum við Örn, Regínu og Snúra litla. Snúri er sumsé gælunafnið sem er notað þangað til að drengurinn verður skírður í desember.

Við ákváðum að vera ofsa góð við þau og komum með matinn með okkur og elduðum fyrir þau og Sigurrós vaskaði meira að segja upp. Vonandi að það hafi hjálpað þeim enda búnir að vera strangir og erfiðir dagar og nætur svo ekki sé talað um endalausan gestastraum sem hefur verið. Við ákváðum að við gætum beðið nokkra daga og vildum bara hitta þau í rólegheitum og fórum því ekki fyrr.

Örn er nú búinn að læra að nota myndaalbúmið og dældi inn í kvöld fyrstu myndunum af krílinu (einnig hægt að skoða sem “slideshow“).

Uncategorized

Leiðast?

Ekki skil ég fólk sem getur leiðst. Það er alltaf nóg að gera!

Því miður hefur dagurinn verið kúfullur frá A-Ö og því neyddist ég til að sleppa útskriftarveislu, það leiddist mér. Maður er stundum of týpískur Íslendingur, með of mörg járn í eldinum.