Monthly Archives: February 2006

Uncategorized

Súkkulaðið

Súkkulaði er víst meinhollt fyrir gamla fólkið og aðra sem vilja ógjarnan fá hjartakvilla. Mars fyrirtækið er á leiðinni með "hollustusúkkulaði".

Í tilefni þess að leitarvél frá Leit.is kaffærði netumferðina hérna heima þá greip ég til þess ráðs að setja upp mod_cband og get með því stjórnað umferðarhraða og notkun á vefþjóninum. Sjáum hvort það leysi ekki vandann. 

Uncategorized

Flóð

Það er víst svo að ég hef ekki ritað hérna í nokkrar vikur, og á meðan hef ég sankað að mér fjölda tengla á ýmislegt áhugavert efni, velt fleiri verkefnum fyrir mér og að auki lesið í og hlustað á ýmsar menningarafurðir.

Menningin

Við skruppum á frönsku kvikmyndahátíðina og sáum Les Poupées russes sem er framhald Evrópugrautsins sem okkur fannst frábær.

Pantaði þær Eoin Colfer bækur sem vantaði upp á og las Artemis Fowl bókina The Opal Deception og The Supernaturalist (ekki Artemis Fowl bók). Supernaturalist er áhugaverð framtíðarpæling. Á eina bók eftir sem er Artemis-tíningur.

Ég las líka aðra bókina hans Cory Doctorow á stafrænu formi eins og hina fyrstu. Eastern Standard Tribe fjallar um hópamyndun á tímum Internetsins, hvernig einstaklingar laga sig að því tímabelti sem hefur áhugaverðasta hópinn að þeirra mati og ýmsa magnaða atburði sem gerast í kringum það.

Á National Geographic sá ég mynd sem er byggð á sönnum atburðum. Two Men Went to War fjallar um tvo tannlækna í breska hernum sem leiðist að fá ekki að spreyta sig á vígvellinum í seinni heimsstyrjöldinni og ræna því fiskibát og sigla til Frakklands þar sem þeir gera árás á þýska hlustunarstöð.

Tveir blöndudiskar sem hægt er að fá frítt á netinu hafa heillað mig. Fyrst ber að telja The Beastles þar sem blandað er saman tónlist Bítlanna og Beastie Boys. Mögnuð útkoma. Því næst er það Best of Bootie 2005 þar sem tónlist úr öllum áttum er blandað saman, nokkur frábær lög að finna þarna. Ég er ekki eins hrifinn af Beatallica þar sem hljómsveit spilar bítlalög í Metallicu-búningi. Metallica var í uppáhaldi hjá mér fyrir 16-17 árum síðan. Ekki lengur.

Öðruvísi blanda fór fram í samkeppni sem Gizmodo efndi til. Þar voru notuð hljóð sem myndast við dauðateygjur harðra diska og þeim blandað í ýmsa tónlist. Skemmtilegustu lögin þarna eru án efa Crizzash og Rootin’ and Falootin’.

Af tónlistinni er það einnig að frétta að komin er opin útgáfa af forriti sem líkist iTunes. Það er frá Mozilla-mönnum og öðrum og nefnist Songbird. Að lokum er svo til sniðugur vefur sem nefnist Pandora þar sem þú slærð inn nafn á lagi eða tónlistarmanni og þú færð að sjá svipaðar hljómsveitir og kynnist þannig vonandi nýjum og góðum tónlistarmönnum. Þetta virðist virka þokkalega, ég sló inn Beastie Boys og þriðji valmöguleikinn var Quarashi!

Tenglahreinsunin

Eins og hjá Neil Gaiman þá safnast upp tenglar á ýmislegt sniðugt, skrítið og skelfilegt hjá mér í pósthólfinu mínu. Líkt og hann ætla ég að demba þeim á netið með smá texta. Raðað í grófri tímaröð…

Oops!
Flestir hafa heyrt um Qing-postulínsvasana sem óheppinn og klaufskur maður braut í bresku safni. Þetta er þó ekki einsdæmi eins og Laura Barton greinir frá.

Seven years for a pound of butter
Refsiramminn hér áður fyrr var svolítið öðruvísi en í dag. Þetta er frétt úr The Guardian á nítjándu öldinni þar sem menn eru sendir til Ástralíu fyrir litlar sakir.

Dream Anatomy: Gallery
Safn af líffærafræðamyndum frá fyrri tíð.

New finance chief gets £4.6 million to join RBS
Það eru ekki bara starfslokagreiðslur heldur líka starfshafsgreiðslur! Verst fyrir hluthafana að kannanir hafa sýnt að ofurlaun þýða ekki ofurárangur.

Worlds apart
Fréttamaðurinn Chris McGreal ber saman aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku og aðskilnaðarstefnuna í Ísrael og Palestínu.

Music, wine and will
Tom Stafford greinir hérna frá rannsókn sem sýndi að jafn einfaldur hlutur og að spila franska eða þýska tónlist í víndeildinni hafði afgerandi áhrif á undirmeðvitund kaupenda þó þeir þverneituðu fyrir það að hún hefði haft áhrif á þá.

Employer discontent with graduates
Í Bretlandi virðast atvinnurekendur ekki nógu sáttir við mannaflið sem kemur frá æðri menntastofnunum. Hinir nýútskrifuðu virðast ekki hafa unnið nóg í hópum, koma efni illa frá sér og eru óskrifandi. Eitthvað sem að stytting stúdentsnáms á Íslandi mun meðal annars hafa í för með sér.

Sound of silence leaves shame at the Lane
Simon Hattenstone veltir hér upp skömminni sem áhangendur Tottenham urðu uppvísir að og rekur aðeins hommafóbíuna sem ríkir í fótboltanum.

Finns open playgrounds to adults
Eldri borgarar í Finnlandi eru nú hvattir til að fara á næsta leikvöll og ærslast þar með eða án krakka! Þetta er liður í því að auka heilbrigði eldri borgara og þetta virðist virka, bæði fyrir líkamlegt og andlegt ástand þeirra.

Aerial Photographs of Mexico City
Magnaðar loftmyndir af Mexíkóborg, teknar af þyrluflugmanni. Úthverfin fyrir verkafólkið eru mögnuð, líta út eins og legóborgir.

British secret police caught faking records in Menezes shooting cover-up
Það á ekkert að treysta lögreglunni 100% frekar en öðrum. Lögreglan á að þurfa að standa við verk sín og vera gegnsæ svo hún geti notið þess trausts sem hún krefst. Björn Bjarnason mætti íhuga þetta oftar.

Designer Appliances Vertical Ergonomic Mouse
Þessi mús er sniðuglega hönnuð. Gæti dregið úr álagsmeiðslum fyrir tölvunotendur, kíki á hana við tækifæri.

Birds stay gay
Dýragarði í Þýskalandi hefur mistekist að snúa samkynhneigðum mörgæsum yfir í gagnkynhneigðar svo þær fjölgi sér. Sænsku kvenmörgæsirnar sem voru fluttar inn eru víst ekki nógu framfærnar við karlana sem sýna þeim engan áhuga.

Health gap between rich and poor Scots revealed
Það er marktækur munur á heilsu ríkra og fátækra Skota. Þarna spilar margt inn í, óhollur matur er til dæmis ódýrari en hollur matur og erfiðisstörf eru illa launuð og taka gríðarlegan toll af líkamanum. Með aukinni markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins (hærra verð) og smákóngavæðingu ríkisstofnana (verri þjónusta) eykst líka kostnaðurinn sem kemur harðar niður á hinum verr efnuðu.

Tiffeny breaks Chelsea fast
Chelsea ætla nú að setja smá trukk í kvennaliðið sitt sem er í fallhættu. Það væri alls ekki slæmt fyrir kvennaboltann að fá meiri áhuga og peninga.

U.S. concludes ‘Cyber Storm’ mock attacks
Bandaríkin voru að ljúka æfingum sem þjálfa upp viðbrögð við netárásum frá andstæðingum heimsvæðingar, tölvuþrjótum og bloggurum. Já, bloggurum. Það er verið að æfa varnarviðbrögð við bloggurum…

The photos America doesn’t want seen
Fleiri myndir frá Abu Ghraib. Nýtt sett sem áströlsk sjónvarpsstöð gróf upp. Villimennskan er algjör.

Israely Anti-Semitic Cartoons Contest
Ísraelar ákváðu að svara með krók móti bragði. Í Íran er samkeppni um skopmyndir af helförinni, Ísraelar ætla að keppast um að búa til bestu skopmyndirnar af gyðingum. Enginn gerir eins gott grín að gyðingum og þeir sjálfir halda þeir fram.

Q&A: A lost interview with ENIAC co-inventor J. Presper Eckert
Viðtal við manninn sem hannaði fyrstu nútímatölvuna, ENIAC.