Monthly Archives: April 2003

Uncategorized

Sumarvinna, tölvugleði og myndbönd

Dagur góðra frétta. Ég er kominn með sumarvinnu hjá Bílanausti og byrja þar strax að lokinni verkefnavinnu. Í tilefni af því og að ég fékk orlof frá Hugviti útborgað uppfærði ég heimilistölvuna og splæsti meira að segja í flottan kassa utan um uppfærsluna.

Kári benti mér á þessa frábæru síðu þar sem tölvumýs eru notaðar á ótrúlegan hátt í listsköpun.

Fyndnast er þessa dagana að fylgjast með forsvarsmönnum Frjálshyggjufélagsins bölsótast yfir einstaklingum sem eru að nýta sér markaðsmátt sinn (sem er GUÐ Frjálshyggjufélagsins) til að hafa áhrif á það hvar og hvernig þessi fyrirtæki auglýsa. Fyrir utan kaldhæðnina í þessu þá eru nokkrir þeirra á bakvið batman.is sem að er duglegur að tengja á klámefni, þessi vefur er einmitt eitt umkvörtunarefna þessara einstaklinga.

Skemmtilega léleg röksemdafærslan svo sem kom fram í Kastljósinu hjá formanni félagsins sem sýndi mikla vanþekkingu á jafnréttislögunum. Það er svo sem ekki furða því stefna félagsins er að hér verði til frumskógur þar sem einungis hinir hæfustu lifa af, ekki samfélag þar sem allir eiga rétt á mannsæmandi lífi. Frumskógarlögmálið er einu lögin sem þeir þekkja.

Í Bandaríkjunum virðast orð eins valdamesta þingmanns repúblikana um að “hommar séu í lagi svo lengi sem þeir iðka ekki hommalega hluti” vera að leiða í ljós tvískiptingu siðapostulanna innan flokksins.

Konni benti svo á mjög spennandi mynd sem kannski kemur til landsins á kvikmyndahátíð, hún heitir Winged Migration og má sjá þarna kynningu á henni.

Uncategorized

Siðgæðið

Sjúklega vondir opinberir starfsmenn sem standa fyrir svona og geta svo ekki einu sinni látið vesalings fólkið fá börnin sín aftur. Ég væri búinn að sparka þeim úr starfi.

Dixie Chicks mótmæltu þeirri meðferð sem þær fengu með því að sitja naktar fyrir á forsíðu tímarits, eins og ég hef áður minnst á. Hér er svo myndin af þeim.

Uncategorized

Kosningaauglýsingar

Ég horfi á sjónvarp einu sinni í viku og því ekki séð kosningaauglýsingar fyrr en í dag.

Framsóknarflokkurinn er með fínar auglýsingar, verst að ég trúi ekki orði af því sem er sagt í auglýsingunum og í flestum þeirra er reyndar bara verið að gera hefðbundin gylliboð.

Sjálfstæðisflokkurinn datt niður á viðeigandi þema í einni auglýsingunni sinni, flogið yfir jökul og ís og einmitt þannig mun Ísland enda undir þeirra stjórn, vonlítill og kaldur heimur í miðju Atlantshafi.

Ungir sjálfstæðismenn eru svo með arfaslakar auglýsingar þar sem ungt fólk segir “sko að ég sko bara vil bara ekkert að hlutir breytist svo sko ég geti gert áætlanir” og svo er mjög ósmekkleg persónuárás á Ingibjörgu Sólrúnu.

Ef að þetta unga fólk heldur virkilega að það sé betur sett til að gera áætlanir undir “vernd” bláu handarinnar þá er það með lélegar áætlanir. Gerir það ráð fyrir hugsanlegum veikindum? Nei auðvitað ekki, á þessum aldri er maður ósigrandi. Kerfið sem Sjálfstæðisflokkurinn vill koma á að bandarískri fyrirmynd þýðir að um leið og þú veikist alvarlega þá ertu úr leik, þú ert skuldum vafinn fyrir lífstíð og hefur ekki efni á lyfjum og meðferð. Nú þegar eru margir sem hreinlega hafa ekki efni á læknishjálp og þeim fer fjölgandi.

Júlli rifjar upp afrek ríksisstjórnarinnar (partur 1).

Núna hamra margir á því að kosningar eigi EKKI að snúast um fólk. Davíð hefur verið geymdur í aftursætinu sem er ólíkt fyrri kosningum þar sem hann VAR ástæðan fyrir því að yfirhöfuð kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekki nýtt að Flokkurinn snúist í marga hringi með því sem frá honum kemur, þeir gera iðullega allra manna mest af því sem þeir gagnrýna hjá öðrum.

Kosningar eiga víst að snúast um málefni en málefnin eru það fyrsta sem hverfur þegar ný ríkisstjórn er mynduð. Þá er það fólkið sem skiptir máli. Þetta er því marklaust hjal manna…. það er fólkið sem skiptir máli í kosningunum, málefnin eru alltaf fyrsta fórnarlambið í alvöru pólítiskum hildarleikjum eins og ríkisstjórnarmyndun.

Uncategorized

Rólegur sunnudagur

Já. Sigurrós komin heim en verður samt grasekkja næstu dagana þar sem ég er í verkefnavinnu næstu vikurnar.

Nýtt kalt stríð er í gangi, Indland og Kína keppast nú um að byggja stærri og betri eldflaugar og vilja komast á tunglið.

Sjálfstæðisflokkurinn er að missa marga þessa dagana, nú síðast Gulla sem líst ekkert undanfarin verk ríkisstjórnarinnar og fullkomnu skeytingarleysi hennar fyrir lýðræðislegum hefðum, sanngirni og tjáningarfrelsi.

Á föstudögum birtir Vísindavefurinn oft skondin svör og þetta er með þeim betri.

Landsbankinn býður svo upp á stólajóga.

Uncategorized

Stórsigur

Sheffield Wednesday hefur ekki tapað leik núna í talsverðan tíma og unnu í dag stórsigur, 7-2 á móti Burnley á útivelli. Þetta breytir því þó ekki að hræðileg frammistaða mánaðanna á undan hefur komið þeim niður í aðra deildina.

Áhugamenn um eimreiðar og tónlist fá smá fróðleiksmola um Casey Jones á þessari síðu.

Hljómsveitin Dixie Chicks lenti í miklum hremmingum þegar þær lýstu því yfir að þær væru á móti hernaði Bandaríkjanna í Írak. Þær ætla nú að svara fyrir sig með því að sitja naktar fyrir.

Góðar fréttir svo úr heimi samskiptanna, lögfræðingaher bíður ósigur fyrir skynseminni.

Uncategorized

Hommi og hommaatferli er ekki hið sama

Bandarískur þingmaður var að verja lög í Texas sem banna kynmök samkynhneigðra manna (sodomy). Hann hefur víst ekkert á móti hommum sem slíkum en hefur mikið á móti kynlífi þeirra.

“And that includes a variety of different acts, not just homosexual,” he said. “I have nothing, absolutely nothing against anyone who’s homosexual. If that’s their orientation, then I accept that. And I have no problem with someone who has other orientations. The question is, do you act upon those orientations? So it’s not the person, it’s the person’s actions. And you have to separate the person from their actions.”

Lesa má um þetta hérna.

Uncategorized

Fínn dagur

Langur dagur í verkefnavinnunni. Allt gengur eins og smurt. Fátt annað af mér að frétta þessa dagana.

Uncategorized

Lakkrís, sumarvinna og barnatennur

Vinna við verkefnið hélt áfram.

Sigurrós fékk sumarvinnu í dag þannig að þar er stóru fargi létt. Hún skilaði líka inn lakkrís sem við keyptum og reyndist vera ársgamall (ekki þarf að hafa dagsetningu á sælgæti fyrr en 1. júní). Fengum fimm nýja poka í stað þessa eina. Aldurinn sást víst á munstri umbúðanna sem var breytt fyrir nokkru.

Tengill dagsins er keimlíkur einum frá því í gær, svo virðist sem að stofnfrumur (sem geta víst hjálpað hjartasjúklingum) sé að finna í barnatönnum og það meira að segja mjög sprækar stofnfrumur, tannálfurinn fer kannski að geta bjargað mannslífum?

Uncategorized

Fátt markvert

Það er bara verkefnavinnan í gangi. Hittum kennarann í dag og allt er ljómandi hjá okkur eins og vera ber.

Þrír tenglar í dag:

iAbolish – vefur sem berst gegn þrælahaldi sem er enn við lýði víða um heim

Online, Some Bloggers Never Die

Own stem cells help heart – merkileg tíðindi sem gætu bjargað mörgum hjartasjúklinginum.

Uncategorized

Soffía sjötug, stórveldi fellur

Enn og aftur tek ég mér frí frá verkefnavinnu að kvöldi til.

Tilefnið núna var að halda upp á sjötugsafmæli ömmu á veitingastaðnum Madonnu.

Þetta var notaleg kvöldstund með henni og börnum hennar og mökum þeirra. Ég var fulltrúi barnabarnanna (þeirra elstur) og auðvitað var Sigurrós mér við hlið. Ekki var svo verra að mamma og Teddi buðu okkur þannig að kvöldið létti ekki í pyngjunni.

Í dag féll eitt af stærri liðum Bretlands niður í aðra deildina (sem áður hét þriðja deildin). Þetta eru mínir menn í Sheffield Wednesday. Öll nótt er þó ekki úti þó að svona hafi farið. Manchester City var fyrir stuttu í þessari stöðu en náði að hreinsa til og byggja upp og er nú í þokkalegum málum í úrvalsdeildinni (áður nefnd fyrsta deildin). Það er vonandi að mínir menn taki sér það til fyrirmyndar.

Tengill dagsins er á grein um líklega mesta internet land Evrópu, Eistland.