Monthly Archives: September 2003

Uncategorized

Hægri halli ?

Wesley Clark sem sækist eftir tilnefningu sem forsetaframbjóðandi demókrata er handviss um það að það hlýtur að vera hægt að slá ljóshraðamúrinn. Það væri svo sem ekki verra en er verulega ólíklegt.

Óheppinn maður lenti í því að ruslpóstari falsaði lénsnafnið hans á ruslpóstinn sinn. Greyið fékk því þvílíkan haturspóst en náði þó að finna hvaðan ruslpósturinn kom raunverulega og náði að loka á það í bili. Það er vonandi að lénið manns verði ekki svona fórnarlamb.

Efni sem notað er í bleyjum meðal annars er svo hugsanlega næsti bjargvættur bóka sem lenda í vatnsbaði. Virðist nokkuð magnað!

Fór ekki í skólann í dag, var heima að vinna að verkefni sem skila skal á morgun og að auki er ég búinn að vera undarlegur síðustu daga. Verkur sem byrjaði í taug eða vöðva í hálsinum hægra megin hefur fært sig ofar og það er eins og ég sé að fá eyrnaverk og hausverk hægra megin af og til. Afar pirrandi en virðist mikið til fara eftir hreyfingum og stellingum sem ég er í?

Endurgreiddi LÍN í dag rétt tæpar 40 þúsund krónur sem þeir segja að hafi verið mistök að láta mig fá og það hafi verið mér í óhag að fá þær? Ég sendi þeim póst þar sem ég fór fram á að endurskoða þetta fáránlega orðalag, það væri greinilega mér í óhag að þurfa að auka yfirdráttinn til að borga námslán sem er ekki einu sinni gjaldfallið.

Uncategorized

Kirkjugarðar, fita og geggjun

Rússarnir eru hoppandi yfir því að Lettar opnuðu kirkjugarð fyrir lettneska SS-meðlimi með pomp og prakt. Við þá athöfn var minnst á að þessir menn hefðu gengið í SS til að berjast móti Rússagrýlunni. Rússunum finnst þetta súrt og gleyma alveg því hve illa þeir fóru með Eystrasaltsríkin, Lettarnir eru bara vanþakklátir!

Dave Barry er nokkuð góður greinahöfundur, hann er með eina góða grein hér: He ain’t heavy — he’s fat.

G e g g j a ð   að gera í skólanum, miðannarpróf, skýrslur og heimaverkefni að hlaðast upp.

Uncategorized

Tréð sem drap Ítalíu

Þetta er nú alveg magnað, svo virðist sem að trjágrein hafi tekið rafmagnið af Ítalíu. Það þarf ekki mikið til, þessi rafmagnsleysisfaraldur undanfarnar vikur er nokkuð magnaður.

Time Magazine listar kurteisislega upp nokkur atriði varðandi Írak og Bush í greininni So, What Went Wrong?

Nú er bara að vona að Räikkonen vinni í Japan og Schumacher sprengi dekk eða dúndri sjálfum sér útaf. Það er eina vonin! Bévítans rigning að eyðileggja fínan kappakstur.

Uncategorized

Dóri enskudjöfull og skondið bíó

Sigurrós gerir verkum dagsins ágæt skil. Þegar við vorum hjá ömmu heyrðum við þessa líka nauðgun á enskri tungu í sjónvarpinu, var ekki utanríkisráðherrann mættur og gerði gjörsamlega út um alla möguleika á að Ísland væri tekið alvarlega sem aðili að Öryggisráðinu. Ég efast um að menn vilji hafa okkur þar ef þeir geta ekki einu sinni skilið hvað embættismenn okkar segja! Grey Dóri, hann er bara hræðilegur í enskunni sem er helvíti bagalegt fyrir Ísland á alþjóðavettvangi.

Tölfræðin sýnir víst að Bagdad var öruggari þegar Saddam var þar við völd. Grátlegt. Í Ameríkunni vilja menn svo fá syni sína og dætur heim frá Írak og finnst helvíti hart að missa þau vegna lyga Bush.

Las í gærkveldi þessa grein um móður sem að veitti fjölfötluðum syni sínum líknardauða. Hann lenti í bílslysi og var bara fangi í eigin líkama eftir það.

Arianna Huffington er einn aðalframbjóðendanna til fylkisstjóra í Kaliforníu. Hún gerir mikið út á húmorinn eins og sést í þessum fyndnu auglýsingum þar sem hún tekur aðalkeppinautana fyrir: The Special Interest Brothel og Hybrid vs. Hummer – The Movie.

Uncategorized

Vinna, kolkrabbar, Apple, Segway og Moussaoui

Ofurduglegur í vinnunni í dag, geystist inn og á 5 tímum tókst mér að redda öllu sem einhverjum hafði nokkru sinni dottið í hug að væri sniðugt að fá/laga.

Frá Wired koma fréttir af því að kannski getum við brátt séð svipað og kolkrabbar sjá, Apple er að breyta lógóinu aðeins og Segway farartækin eru hættuleg þegar lítið er eftir af batteríinu.

Nú í Ameríkunni þá vilja menn alls ekki að Moussaoui fái að yfirheyra aðra sem taldir eru hafa verið tengdir 11. september 2001. Frekar fella þeir niður kærur gegn honum, það varðar víst þjóðaröryggi að fá að heyra sannleikann.

Uncategorized

Öryggi í tölvuskjá?

Fyrir margt löngu fékk ég mér toppvél, heil 233 MHz og ég beið í 2 vikur eftir að 13GB diskurinn kæmi í hús. Með þessari eðalvél fékk ég svo 17″ skjá (allt frá Targa). Skjárinn hefur dugað mér síðan þá (þetta var á seinni hluta 20. aldarinnar). Tók reyndar upp á því einn daginn að slá út á Kambsveginum þegar kveikt var á honum en það tókst að redda því með að tengja skjáinn við vél sem tengdi svo í rafmagn.

Nú í dag tók skjárinn aftur upp á þessu, eftir ársdvöl hér að Betrabóli þar sem hann hefur verið voða þægur eftir að við létum setja stærri öryggi í rafmagnstöfluna. Núna slær hann út hvað eftir annað og að þessu sinni er ekki sá möguleiki fyrir hendi að tengja hann í gegnum tölvu.

Spurt er: getur verið að öryggi hafi klikkað í sjálfum skjánum og ætli það sé hægt/ódýrt að skipta um það?

Náði mér í ókeypis Office-pakka í dag, ekki var það nú Microsoft Office heldur Open Office. Þetta er þá þriðji Office pakkinn sem ég hef sett upp, auk ofantalinna er ég með Office pakka frá 602 Software. Allir virðast pakkarnir hafa plúsa og mínusa. Hvað verð varðar þá er Open Office ókeypis, 602 PC Suite er ókeypis/ódýrt og MS Office er rándýrt. Hægt er að ná í Open Office hér innanlands til að spara utanlandsniðurhalið (íslenska er nálægt þýsku í að búa til löng orð).

Ég hefði reyndar ekkert á móti því að eiga eins og eina eða tvær af þessum 1.100 Apple G5 vélum sem mynda saman fyrstu ofurtölvuna úr Macintosh vélum.

Frá Nígeríu koma svo góð tíðindi, Appeal Court Saves Woman From Stoning to Death.

Uncategorized

Þú ert saklaus en við fylgjumst samt með þér

“Prúðmennin” hjá RIAA hafa dregið í land með $300 milljóna stefnu gegn ellilífeyrisþega sem þeir sögðu að hefði dreift fjölda tónlistarskráa. Í ljós kom að grey konan gat ekki verið sek af þessu þar sem hún er með Apple-tölvu en Kazaa er víst ekki til fyrir þær. Þeir sögðu þó að þeir hefðu auga með henni og væru tilbúnir að stökkva á hana um leið og þeir sæu hana gera svona ljóta hluti… ekki það að hóta $300 milljóna lögsókn gegn saklausu fólki sé ljótur hlutur.

Er kominn á fulla ferð í skólanum og ekki seinnna að vænna, miðannarpróf í næstu og þarnæstu viku.

Minnismiði til sjálfs míns: ekki þjösnast fram eftir nóttu við að laga fáránleg vandamál þar sem lykilorðin eru hosts, router, innri ip-tölur, dns og sendmail. Datt reyndar í hug príma lausn en það var eftir góðan nætursvefn.

Uncategorized

Topp tíu, Bush og landflótta kindur

Myndin stórgóða Shaolin Soccer (sem við sáum fyrir nokkru á DVD) er nú á topp tíu listanum yfir þær myndir sem er dreift ólöglega.

Bush sagði Sameinuðu þjóðunum í dag að þær ættu að vera memm og hjálpa til í Írak en fengju ekki að ráða neinu samt. Meiri sandkassatindátinn. Enda fær hann ekki góða dóma frá sínu eigin fólki.

Vantar einhvern svo 50.000 kindur? Þær eru víst landflótta.

Uncategorized

Allt sem ekki var hægt að lesa

Forsíða betra.is (einnig þekkt sem heima.er.betra.is) fékk í gærkveldi langþráða andlitslyftingu.

DNS er nú komið í lag, þetta reyndist vera bilun í öðrum nafnaþjóninum sem hætti að uppfæra sig. Á meðan hefur aðgangur að síðum á betra.is verið mjög skrykkjóttur og flestir hafa bara fengið upp hvíta síðu með svörtum stöfum þar sem á stendur “betra.is flytur”. Aufúsugestir hafa því eitthvað af efni sem þeir geta lesið þó það sé náttúrulega misáhugavert eins og eðlilegt er.

Það var svo sem ekki seinna að vænna að koma þessum málum í lag fyrst að konan fékk verðlaun fyrir Naflaskoðunina sína.

Las í gærkveldi ótrúlega grein um 3 og 4 ára börn sem gera samninga við Reebok, hjólabrettafyrirtæki og drykkjaframleiðendur vegna þess að þau eru flink á hjólabretti eða í körfubolta og svo framvegis.

Uncategorized

Afslappelsi

Afslappelsisdagur, keyptum okkur veigar hjá Jóa Fel í hádeginu. Langt síðan síðast.

Úff. Lazio tapaði líka um helgina. Sem betur fer ná mínir menn í Lyon að halda haus og unnu í dag Le Mans á útivelli með 2 mörkum frá Giovane Elber.

FIFA virðast vera að geggjast enn meir undir forystu Blatters. Nú ætla samtök leikmanna í Englandi að reyna að sporna við tilviljanakenndum árásum á heimili leikmanna þar sem þeir sæta athugun á því hvort þeir neyti ólöglegra efna. Stóri bróðir góðan daginn.

Galíleó kvaddi heiminn með stæl!