Monthly Archives: January 2003

Uncategorized

Menn í svörtu og vísindin

Já. Próf í morgun í strjálli stærðfræði, gekk þokkalega en skildi ekki eina spurningu, maður les fræðin á ensku og svo á maður að svara á íslensku með allt öðrum orðaforða!

Kaldir vindar blása um vinnumarkaðinn þessa dagana. Það virðist þó ekki vera sama Jón eða ríkisbubbi Jón. Forráðamenn fyrirtækja reka starfsmenn og þeir fá 3 mánuða uppsagnarfrest en þegar forráðamennirnir hætta fá þeir tugi eða hundruð milljóna til að bæta fyrir óþægindin. Svona. Fólk. Flengja.

Til þess að létta aðeins á brúninni tókum við gamanmyndina Men in Black II, hún stóðst væntingarnar sem gerðar voru til hennar sem létt afþreying.

Úr heimi vísindanna er gaman að lesa um kynlífsráðgjafa skordýra, spendýra og ótal annara tegunda. Hún Dr. Tatiana er með dýralífsþátt þar sem tekið er á óheppilegum atriðum eins og grænleitum typpum hjá fílum og önnur vandræðalega málefni.

Meira af kynlífi dýra, hingað til hafa vísindamenn grínast með það að karlkyns köngulær reyni að ríða öllu sem þeir sjá, hvort sem það er lífs eða liðins. Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar afsannað þessa kenningu. Karlarnir virðast vera mjög vandfýsnir og vilja helst stelpur með djarfar línur.

Öllu verra er að heyra um skaðleg áhrif A-vítamíns sé það tekið í of miklu mæli. Það virðist auka líkur á beinbrotum talsvert.

Ef við færum okkur um set í heimi vísindanna þá finnum við þessa frásögn af huldueindum sem þjóta í gegnum jörðina á ofsahraða og bora sig án vandkvæða í gegnum jörðina þvera. Varasamt að lenda í vegi fyrir þeim.

Af tölvumálum er það helst að frétta að á meðan að bandaríski herinn þjáist af bandvíddarskorti sökum tíðra PowerPoint sendinga og lifandi strauma frá hernaðartækjum þá er enn eitt forritið til að auðvelda skráaflutninga milli notenda í vinnslu, hæpið að það komist í tölvur hermannanna.

Endum á friðsamlegum nótum með ljóðum gegn stríði.

Uncategorized

5 ár

Nákvæmlega 5 ár í dag.

Í Noregi hefur þingmaður beðist afsökunar á því að hafa spilað stríðsleik á tölvunni sinni á meðan að á þingfundi stóð. Davíð Oddsson þarf hins vegar ekki að biðjast afsökunar á því að skrifa smásögur í vinnunni á Alþingi, hann er svo fyndinn nefnilega.

Það er mikið pundað á Bandaríkjamenn núna eins og gefur að skilja. Berlusconi, Blair og hinir kjölturakkarnir hafa hins vegar gefið út yfirlýsingu sem best er að lesa “við líka!” og lýsa þar yfir stuðningi við stríð sem á að vernda friðinn (hvernig sem Bush reiknar það út).

Pravda skjóta nokkrum skotum. Þeir nefna hryðjuverkasveitir Bandaríkjamanna og Breta sem eru í Írak þessar vikurnar, þeir eru góðu karlarnir þannig að það má örugglega ekki kalla þá hryðjuverkamenn samt. Þeirra málstaður er réttari.

Svo eru það marmelaðiverksmiðjurnar sem að vopnaeftirlitsmennirnir leita að efnavopnum í, vel völdum skotum miðað þarna að Bandaríkjamönnum frá Rússum.

Það eru þó ekki bara Rússar, Nelson Mandela lætur þung orð falla og segir Bandaríkjamenn vilja helför.

Mexíkóar vilja svo klippa “United States” hlutann úr nafni sínu, reyndar er það ritað Estados Unidos Mexicanos á spænsku. Þeim finnst það minna um of á gráðuga nágrannann sem hefur ekki verið þeim góður stóri bróðir.

Ummæli dagsins á þó maður uppalinn í Bandaríkjunum, Dimitri Piterman, sem fæddur er í Úkraínu. Hann var að kaupa ráðandi hlut í knattspyrnufélaginu Racing Santander og vill stjórna þar öllu sjálfur. Aðspurður hvort að hann ætti að stjórna liðinu þar sem hann er ekki með þjálfararéttindi svaraði hann:

“There’s a complete idiot running a very powerful country without a qualification to his name – and you tell me that I have to have a diploma to manage a football team?”

Uncategorized

Heimsfréttirnar

Indverjum fjölgar afskaplega ört og til þess að reyna að stemma stigu við því geta menn nú fengið nýtt reiðhjól ef þeir láta kippa sér úr sambandi.

Rússum fer hins vegar fækkandi, mjög umdeilanleg kenning er sett fram hér varðandi ástæður þess.

Meira af Rússum, ungur maður slapp líklega með skrekkinn þegar hann frysti vininn við biðskýli þar sem hann var að míga eftir kráarferð, ekki hefur spurst frekar til hans síðan hann forðaði sér eftir björgunina.

Í Hong Kong er það víst brottrekstrarsök að lita hárið á sér ljóst. Þetta fékk lögreglukona þar í landi að reyna þar sem hún mætti með nýju klippinguna og litinn til vinnu.

Ef við lítum vestur um haf fáum við frétt af manni sem að sat inni í 29 ár vegna rúðubrots. Grey karlinn hvarf í kerfinu og er loksins núna, næstum áttræður að aldri, laus úr prísundinni.

Önnur frétt að vestan er um grey konuna sem fékk fótlegg látins föður síns sendan í kælikassa. Hún fer nú í mál og vill skaðabætur vegna andlegs áfalls sem hún varð fyrir vegna þessa (enda óhuggulegt að fá líkamshluta látinna senda heim til sín óumbeðið).

Frá Vesturheimi kemur líka þetta skemmtilega ádeilubréf, prófessorinn sem reit það tók saman nokkra góða punkta um Íraksáhuga Bush-feðga og setti í búning nígerísks ruslpósts sem að allir hafa án efa fengið.

Ef við lítum okkur nær þá eru breskir bændur frekar óhressir með það að vera núna skikkaðir til þess að sjá svínum sínum fyrir leikföngum. Mér finnst þetta reyndar ekki eins vitlaust og þeim, ánægt svínakjöt er gott svínakjöt!

Örlitlu sunnar fréttum við af traktor sem að á víst að hafa mælst á 100 km hraða á gatnamótum. Bóndinn kannast ekkert við málið enda aldrei farið hraðar en á 8 km hraða á klukkustund hingað til á gripnum.

Úr tækniheiminum kemur svo þessi litla elska, heimagræjur í fínasta tölvukassa á kjaraverði.

Færslu dagsins lýkur með einni góðri myndasögu með víkingnum Hrolli.

Uncategorized

Sandkassaleikur

Gleymdi að minnast á það í gær að Daði bróðir tók Toyotuna í smá fegrun í gær, þreif bílinn, skipti um perur og fleira smálegt.

Gleymdi líka að nefna það í gær að ég fór í sandkassaleik í vinnunni. Ákvað að taka til á borðinu til að fá betra vinnupláss og gróf upp skjöl frá síðustu 18 mánuðum, ekki oft tekið til hjá mér. Nú vill svo til að ég sit við glugga.

Það vill líka svo til að undanfarna mánuði hafa verið miklar framkvæmdir við ströndina, uppfyllingar verið gerðar allt frá athafnasvæði Viðeyjarferju og næstum upp að Elliðaósi (hvað það nú heitir) og í það hafa stór sandfjöll verið notuð. Að auki hefur verið dýpkað við athafnasvæði Samskipa sem er rétt fyrir neðan okkur og þar hafa ófá tonninn af sandi fokið upp. Því er oft svört slikja á skrifborðinu mínu, ofboðslega fíngerð sandkorn sem smjúga inn um gluggann og þekja allt.

Við þrifin í dag þá safnaðist þetta saman í litla hrúgu sem ég held að hefði verið hægt að nota í eins og eina litla sandköku. Er ekki hægt að fá miskabætur frá þessum sandgreifum, þeirra framkvæmdir þýða sandstorm innandyra hjá mér og svo held ég að tölvurnar séu ekki voðalega jákvæðar fyrir því að fá agnarsmá sandkornin inn í viðkvæman vélbúnaðinn. Eitt sandkorn sem kemst inn í harðan disk getur gert svipaðan skaða og glerbrot sem er stungið ofan í geislaspilara á ferð.


Ég kíki einu sinni í mánuði á fréttavef Morgunblaðsins, í gær var dagur janúarmánaðar og þar sá ég þessa frétt þar sem Powell segir : “Neitun Íraka við því að afvopnast ógnar enn friði og öryggi á alþjóðavettvangi”. Á sama tíma berast fréttir af enn einum voðaverkum Ísraela á heimilum palestínskra borgara þar sem íbúðarhverfin sitja eftir með gapandi sár og fjölskyldur á vergangi og/eða syrgjandi sína nánustu. Þetta er daglegt brauð. Að auki hafa Ísraelsmenn hunsað ALLAR ályktanir sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sent frá sér vegna þessarar óaldar sem þarna er í gangi.

Það er greinilega ekki sama Jón og séra Jón, eða í þessu tilfelli Abdullah og Abraham. Gereyðingarmáttur Ísraela er nýttur daglega og þeir brjóta allt sem hægt er að brjóta í alþjóðasamfélaginu en samt heyrist ekki píp um það að þeir ógni friði og öryggi á alþjóðavettvangi.

Abraham er æðri Abdullah.


Fékk í dag sem aðra daga slatta af ruslpósti en náði þó að stöðva mig í tæka tíð áður en ég eyddi út einum pósti sem sagði að ég hefði unnið eitthvað. Ég hafði nefnilega unnið eitthvað! Piltarnir hjá Zend (þeir búa til PHP vélina sem að fjöldamargir vefir keyra á) drógu mig og fjóra aðra út og gáfu okkur Zend Studio, flott (en þungt) þróunarumhverfi fyrir PHP.


Þetta er búinn að vera öflugu dagur á vafrinu (engin vinna í dag sökum skóla).

Þeim sem sakna móðurmjólkarinnar er bent á að fara til Changsha í Kína en veitingahús þar er með rétti með brjóstamjólk í boði.

Fann alveg magnaða smásögu, læknisfræðileg sci-fi með miklu tölvuívafi, varla hægt að stíla meira inn á mig!

Sá að það er verið að gefa út Adult Edition af fimmtu Harry Potter bókinni. Eini munurinn er víst kápan þó að Adult Edition gæti gefið meira í skyn.

Eins og flestir vita fór Internetið illa út úr helginni sökum öryggisholu sem þeir hjá Microsoft voru með í SQL-gagnagrunninum hjá sér og fleiru. Þeir gáfu reyndar út plástur fyrir þessu fyrir 6 mánuðum en mönnum er oft illa við að setja inn nýja plástra þar sem að þeir laga kannski einn hlut en skemma 4 aðra í staðinn. Því voru margir veikir fyrir þessum tölvuormi, meira að segja Microsoft sjálfir en netið þeirra hrundi sökum álagsins sem ormurinn olli innanhús hjá þeim.

Þá er Pravda komin í vefgáttina mína. Gott að fá fréttir að sem víðast!

Fyrsta fréttin frá Prövdu er um sæorma sem kannast ekkert við sólarljós né hafa þörf fyrir það, þeir nýta sér hitann úr iðrum jarðar og þykir þetta mikil uppgötvun varðandi líkur á lífi á öðrum hnöttum.

Lýkur þar með færslu dagsins.

Uncategorized

Þá eru það rammarnir

Líf mitt snýst þessa dagana um það að vinna og læra. Það verður tími til að slappa af í sumar, enginn sumarskóli þetta árið.

Fagið í dag eru tölvusamskipti, rammar og ljóshraði koma þar við sögu. Ljóshraðinn er reyndar mismunandi, hraðastur í tómarúmi en hægastur í ljósleiðara (merkilegt nokk).

Rakst á eina þokkalega grein í dag, barnaklám er vissulega grafalvarlegt en menn ættu að slaka aðeins á nornaveiðunum. Mæður geta ekki lengur ljósmyndað börnin sín í bölum nema vera kallaðar á lögreglustöðina til að svara fyrir þær sakir.

Uncategorized

Nú var það strjált

Dagurinn farið að mestu í fag sem ber nafnið strjál stærðfræði, það er víst þýðing á discrete mathematics. Bein þýðing væri reyndar laumuleg stærðfræði og á það betur við. Ljóta torfið sem er að finna í bókinni þar sem menn slá um sig með stórum orðum í löngum bunum en afar fáum sýnidæmum. Maður á víst að geta lesið það út úr þulunum hvernig maður reiknar svo út úr dæmunum.

Þessi bók er þó sögð vera sú besta sem er til á markaðnum upp á læsileika. Örgreinarnar um mikilmenni í stærðfræðinni eru forvitnilegar reyndar, skemmtilegra að lesa um Fermat sjálfan en litlu kenninguna hans svo ég taki nú einn þessara manna sem dæmi (hingað til hefur aðeins ein kona verið nefnd, Ada Lovelace sem hefur fengið forritunarmál nefnt eftir sér).

Uncategorized

Gagnaflutningur

Í gær sáum við þátt í seríunni Vinir þar sem kom fram að Monica vissi að starf Chandlers væri flutningur og umbreyting á gögnum (ég var næstum búinn að kjafta frá en mundi að almennar útsendingar hér á landi eru ekki komnar svo langt). Í dag hefur dagurinn hjá mér farið í ofangreint, ég hef verið að flytja gögn úr MySQL-gagnagrunni og yfir í PostgreSQL-gagnagrunn. Þetta ætti að vera einfaldasta mál í heimi ef ekki væri fyrir eitt oggulítið vandamál.

Stafasettið sem MySQL er að nota er ISO 8859-1 (sem er meðal annars notað í Vestur-Evrópu) en PostgreSQL setti ég upp með UTF-8 stafasettinu, UTF-8 var reyndar hluti af því hvers vegna ég er að flytja gögnin yfir. UTF-8 er sumsé hluti af Unicode staðlinum en með honum er hægt að skrifa öll þekkt skriftákn eins og til dæmis íslenska stafi, kínverska stafi, japanska stafi og meira að segja Klingon.

Eftir miklar pælingar, vangaveltur og tilraunir fann ég loksins aðferð sem virkar:

  1. Gera “dump” úr MySQL í .cvs skrá
  2. Opna “dumpið” í Excel, hentugt fyrir dálkatilfærslur
  3. Vista skrána sem Tab-delimited text
  4. Opna þá skrá með jEdit sem iso8859-1 skrá en vista sem UTF-8 skrá
  5. Senda skrána á gagnagrunnsþjóninn
  6. Flytja skrána inn í PostgreSQL með psql-tólinu og COPY skipuninni

Krókaleið en hún virkar.

Uncategorized

Tenglasúpa

Vinna, verkefni og Vinir.

Lögin sem kveða á um mesta eftirlit ríkis með þegnum sínum fyrr og síðar eru að mæta einhverri andstöðu á þingi Bandaríkjanna, þingmönnum er farið að finnast þetta kannski aaaaðeins of mikið.

Það sem lengi hefur verið hugarfóstur í sci-fi heiminum er nú orðið að raunveruleika, vísindamönnum tókst að láta önd fæðast með gogg kornhænu og kornhænu með andargogg með því að víxla erfðaefni á milli. Þetta gæti verið skref í átt að því að koma í veg fyrir ýmsa erfðagalla í fóstrum.

Útvarpsstöðvar eru alltaf með einhverja vitlausa leiki í gangi til að fá smá athygli, idjótunum á BRMB stöðinni tókst þó að ganga lengra en flestir hafa gert hingað til. Þeir létu fjóra keppendur sitja á þurrís til að keppa um miða á tónleika. Eftir keppnina þurfti að fara með alla keppendurna á sjúkrahús þar sem þurrísin var -108°C og allir hlutu veruleg kalsár.

Allir skrifa matreiðslubækur þessa dagana og nú hafa húmoristanir í þýsku leyniþjónustunni (BND) gefið út matreiðslubók og krydda hana með sögubrotum af njósnurum, bæði sönnum og skálduðum.

Langar þig til að sjá kvikmyndastjörnur aðeins öðruvísi en vanalega? Hérna er að finna síðu með mörgum myndum sem menn hafa leikið sér að búa til í myndvinnsluforritum þar sem þeir taka stjörnurnar og breyta um kyn á þeim. Margt listavel gert en varúð, síðan er með mörgum stórum myndum og því hæg hjá sumum heimanotendum.

Að lokum þá er tilvalið að enda daginn með smá leik í fótboltaspili, þú getur keppt við tölvuna, vin þinn eða bara einhvern á Internetinu.

Uncategorized

Nafnahefð

Í ættarlínu minni að Ingólfi Arnarsyni koma þeir feðgar Narfi Snorrason, Snorri Narfason, Narfi Snorrason og Snorri Narfason allir fjórir fyrir sem og feðgarnir Jón Jónsson og Jón Jónsson.

Mér finnst það alltaf frekar klént að skíra börnin eftir sjálfum sér, mun betra að skíra eftir öfum eða ömmum. Ef að verið er að skíra börnin eftir ættmennum þá ætti þó að hafa millinafn, helst þá úr hinni ættinni eða bara óskylt að öllu. Börn eiga að koma í heiminn með hreint borð, enga erfðasynd takk fyrir og þau eiga ekki að vera spegilmyndir foreldranna. Í mörgum fjölskyldum virðist það vera hefð að það þurfi alltaf að vera Jón Jónsson, spurning hversu einstakur manni finnst maður þá vera þegar maður er Jón Jónsson áttundi?

Öllum Jónum Jónssonum sem gætu tekið þetta sem móðgun bið ég forláts, ekki völdu þeir nöfnin sjálfir á sig en gætu kannski íhugað það að skíra son sinn Jón Millinafn Jónsson svona svo að pattinn finni aðeins til þess að vera einstaklingur en ekki einræktaður klóni.

Er ég að fella sleggjudóm yfir nöfnum manna? Líklega, þetta eru ekki heilög vísindi, aðeins fagurfræðilegt mat mitt á sama hátt og að mér finnst fátt ljótara en skærbleikt og ljósblátt herbergi. Ég tek fram að ég tel Jón Jónsson ekki vera minni mann þó hann, sonur hans og afinn beri það nafn, mér finnst það bara ekki mjög smekklegt svona svipað og golfbuxur.

Það vakti líka talsverða kátínu í mínum einstaklingsmiðaða huga að í Íslandssögunni er ég sá eini sem hefur hingað til borið fullt nafn mitt og sama gildir með Sigurrós og Elínu, við erum þau fyrstu sem berum nafnasamsetningar okkar hvert um sig.

Bersi benti á mjög áhugaverða grein sem gefur eilitla innsýn í þá stjórnmála”skóla” sem eru í Bandaríkjunum, umfjöllunin er mest um Jacksonians sem eru einmitt þessir villtu kúrekar sem manni finnst stýra vondri utanríkisstefnu Bandaríkjanna (vond fyrir alþjóðasamfélagið, góð fyrir bandaríska kjósendur).

Gollum var ekki tölvuteiknaður! Over the Hedge gróf upp sannleikann.

Uncategorized

Íslendingabók

Í dag fékk ég í pósti notandanafn mitt og lykilorð að Íslendingabók. Hingað til hef ég ekki verið þekktur fyrir mikla ættfræðiþekkingu eða áhuga. Man þó vel eftir plaggi sem sýndi hvernig ætt föður míns var rakin til Ingólfs Arnarsonar og þaðan yfir til norskra höfðingja, til 600 eða svo… man það ekki svo gerla.

Annars virtust flestir sem ég fletti upp vera skyldir mér í 6.-9. ættlið. Öllum Íslendingum gefst kostur á að fletta upp sér og sínum ættingjum og svo að rekja saman ættir sínar við aðra á vefnum. Aðeins þarf að stimpla inn kennitölu sína og þá berst brátt póstur með notandanafni og lykilorði til að fá aðgang.

Þegar tæknilegir hnökrar (fékk alloft “Óvænt villa hefur komið upp!”) voru ekki að trufla rannsóknir mínar þá gekk bara vel að fletta upp vinum og öðrum. Við Sigurrós eigum sameiginlega langalangalangalangalanga (5x langa) -afa og ömmu, þau hjónin Illuga Þorgrímsson og Hólmfríði Hallgrímsdóttur, sem fædd voru upp úr 1730.

Ég fann líka forföður minn sem hét því magnaða nafni Hallgrímur “sterki” Hallgrímsson. Það er vonandi að æfingarnar hjá mér geti orðið til þess að ég fái svona viðurnefni 🙂

Á Ítalíu hafa nú fallið dómar sem eru aðeins á skjön við hvorn annan, annars vegar er föður falið forræði yfir syni þeirra þar sem móðirin ofverndar drenginn um of, í hinum þá missir faðir forræði þar sem að hann fær stundum aðra til að passa drenginn.

Kosningabaráttur í fullum gangi um allan heim. Í Mexíkó hefur forsetinn Vicente Fox fengið ófæddan sonarson sinn með í baráttuna, á sónarmynd af drengnum virðist sem að hann myndi sigurtáknið (V) sem forsetinn notaði grimmt í síðustu kosningabaráttu. Þetta er nú líklega ein útbreiddasta sónarmynd sem tekin hefur verið. Magnaðir kosningastjórar þarna í Mexíkó.

Nú virðist vera komin æfingatækni sem getur aukið minni okkar mannanna um 10%, BBC er með meira um þetta.

Smá hugleiðingar um stöðu forritunarumhverfisins (og málsins) Java.