Monthly Archives: June 2002

Uncategorized

HM:D25 – Davíð hinn gleymski

Gekk illa að sofna í nótt, og rétt drattaðist því framúr klukkan 10. Las smávegis áður en leikurinn hófst, sem og í hálfleik og eftir hann. Dapurt veður úti þannig að það var aðeins skárra að vera innivið og lesa en í gær.

Pabbi og Kári litu við með gasgrillið hans pabba sem að við fáum nú lánað til lengri tíma. Það hefur víst dvalið í geymslu undanfarið og nú komið að okkur að kveikja á því.

Davíð Oddsson heldur áfram að gera sig að fífli:
Davíð: “Evrópusambandið er eitthvert ólýðræðislegasta skriffinskubákn sem menn hafa hafa fundið upp.” (Mbl. 23.06.2002)
Sabathil sendiherra ESB: “Yfirlýsingin er mjög hörð […] undarlegt að Ísland skrifaði undir samninga við svona ólýðræðislega stofnun” (RÚV 27.06.2002)
Davíð: “Mér finnst mjög sérstakt að sendiherra í einhverju landi ráðist með þjósti að forsætisráðherra viðkomandi ríkis. […] Að vísu hef ég séð til þessa sendiherra áður hluti sem eru með miklum ólíkindum. […] Ef hann þekkir ekki það sem menn kalla almennt í Evrópu lýðræðisvanda Evrópusambandsins er hann gjörsamlega úti að aka.” (Mbl. 30.06.2002)

Spurt er, hvor er árásaraðilinn og hvor svarar með þjósti? Það verður spennandi að sjá hvað verður eftir af löppunum á Davíð ef hann heldur áfram að skjóta sig í þær. Það er enn langt til kosninga þannig að hann hefur nógan tíma til að gera sig lappalausan og meira til, verst fyrir sjálfstæðismenn að þar er bara já-lýður við kjötkatlana og því enginn sem getur velt kónginum úr sessi.

Davíð klikkir út með gullkorni: “Það er alltaf jákvætt að hafa mótvægi. Það skapar heilbrigðar umræður og hvort sem sendiráði eins og sendiráði Evrópusambandsins líkar lýðræðislegar umræður eða ekki þá líkar okkur það vel hér” (Mbl. 30.06.2002)

Gakk fram Davíð Oddsson, málsvari málfrelsis og tjáningarfrelsis! Bara ekki líta til baka á verk þín undanfarnar vikur… þá verðuru blindur og að öllum líkindum að eilífu.

Úrslitaleikurinn Brasilía 2-0 Þýskaland
Fyrir leikinn var mér nákvæmlega sama hvort óþolandi liðið ynni þetta. Leiklistarakademía Brasilíu vs Kolanámur Þýskalands. Hins vegar voru það Þjóðverjar sem að fengu mig á sitt band með því að vera betri aðilinn og sækja af krafti. Það breytti því þó ekki að Brasilíumenn tóku þetta á sekúndubrotunum sem að Þjóðverjar klikkuðu. Kahn varði vel skot Rivaldos en blautur boltinn (það rigndi mest allan leikinn.. regntímabilið munið þið) spýttist úr fangi hans og Ronaldo mættur til að pota boltanum inn. Seinna markið kom svo þegar að Þjóðverjarnir voru hættir að hugsa um vörnina að mestu. Kahn átti góðan leik þrátt fyrir að missa boltann þarna, það er ekki hægt að sigra bæði andstæðinginn og veðrið trekk í trekk.

Ég er þó sæmilega sáttur með þetta HM, ýmis ytri skilyrði hafa átt sinn stóra þátt í óvæntum úrslitum, en þessi óvæntu úrslit og árangur minni liða er til hins betra fyrir knattspyrnuna. Ef að keppnin hefði byrjað á réttum tíma (þá væri hún rétt hálfnuð nú) er líklegt að stórveldin sem skitu á sig nú hefðu verið mun betri. Svo var þó ekki. Árangur Suður-Kóreu og Japans er mikil lyftistöng fyrir knattspyrnuna í Asíu, það er bara jákvætt fyrir knattspyrnuna í heild. Verst var þó að sjá rottuna Blatter þarna að reyna að spila sig kóng… innan árs verður maðurinn orðin ærulaus og í fangelsi ef að réttlætið nær fram að ganga.

Hvað upplifunina varðar þá er það auðvitað alveg ljóst að það er allt annað að horfa á þetta í sjónvarpi, eða að vera á staðnum. Einhvern veginn fannst manni þetta HM minna en 1998 þegar maður var sjálfur á vellinum í 4 skipti og sá meðal annars Frakka leggja Króata í undanúrslitum. Stefnan er sett á að fara á annað hvort EM 2004 í Portúgal eða HM 2006 í Þýskalandi.

Hinn úrslitaleikurinn Bútan 4-0 Montserrat
Liðin sem eru neðst á styrkleikalista FIFA öttu kappi í dag um hvort væri verra, Montserrat tapaði leiknum þannig að þeir unnu líklega titilinn?

Áhugavert:

  • How Soccer Galvanized South-Korea
  • Uncategorized

    HM:D24 – Innivera á sólardegi

    Ekki líst mér á það hjá Sverri að vilja hafa vegi malbikaða! Steypan er málið enda stunda allar siðmenntaðar þjóðir það að steypa alla vegi nema sveitavegi. Ég skil ekki þessa visku sem að er fólgin í því að búa til bútasaumsteppi úr malbiksbleðlum, hvað þá þessa árlegu malbikun aðalumferðaræðanna. Ein yfirferð með steypu dugar í mörg ár!

    Í dag var sólardagur, og í dag hélt ég mig inni við. Eftir helgina eru lokaprófin á þessari sumarönn og þar sem að maður var slakari við námið en ætlunin var verður að bæta úr því núna, síðasti séns til þess.

    Bronsleikur
    Tyrkland 3-2 Suður-Kórea
    Þetta hefði nú átt að vera úrslitaleikurinn en leiðinlegu liðin komust í úrslitin, þannig að maður varð að sætta sig við að þetta væri bara um þriðja sætið. Hinn hingað til frábæri varnarmaður Suður-Kóreu, fyrirliðinn Hong Myung-bo, klikkaði illa á 10 sekúndu þannig að Tyrkir skoruðu á þeirri 12. Þar var að verki afturgangan Hakan Sukur sem allt í einu virtist hafa tekið lýsi og meira til, þvílíkur kraftur í manninum. Ef að drengurinn hefði andskotast til þess að taka þetta lýsi nokkrum dögum fyrr værum við að sjá Tyrkina á morgun í úrslitaleiknum. Suður-Kóreumenn jöfnuðu með glæsilegri aukaspyrnu, svo gerðu þeir önnur varnarmistök og Tyrkir komnir yfir. Einfaldur þríhyrningur hjá Tyrkjum setti svo vörnina á afturendann og staðan var orðin 3-1 í fyrri hálfleik. Seinni hálfleikur aðeins daufari þangað til undir lokin þegar að Suður-Kóreumenn settu allt í botn, uppskáru mark á lokamínútunum en það var ekki nóg.

    Leikurinn var mikil skemmtun og tilþrif beggja liða til fyrirmyndar. Ekkert þessu líkt mun sjást á morgun, um það efast ég ekki. Bæði þessi lið voru í góðu bókinni hjá mér og að leik loknum stimpluðu þau sig enn betur í bókina, þar sem leikmenn þeirra tóku höndum saman og fögnuðu áhorfendum. Liðin á morgun eru bæði í vondu bókinni og mér er næstum því eiginlega sama um hvernig það leiðindarugl fer.

    Uncategorized

    It’s a fine day tonight…

    Fínasti dagur í dag, mætti rúmlega 9 í vinnuna (sem er í seinna lagi nú til dags hjá mér) og varð vel úr verki. Fékk útborgað og var snöggur að borga húsbréfin, fengum fyrst í dag rukkanir vegna flutninga á lánum og svoleiðis dæmi. Ekki mikið sem verður eftir í buddunni eftir að VISA-reikningurinn hefur verið greiddur, ég fer mjög sparlega með VISA venjulega en síðustu tveir mánuðir hafa verið gildir á kortinu vegna endurbóta á íbúðinni og innkaupum á búslóð.

    Kvöddum Fribbu, Stefaníu og Paolo í vinnunni í dag. Fribba að fara að eignast sitt annað barn og hin tvö að flytja til Ítalíu.

    Rakst á þetta í dag. Jósep Valur sem að er fyrrum samherji í boltanum forritaði fínasta java-forrit þarna sem að er mjög flott til að fylgjast með mataræði og samsetningu kaloría. Tóti félagi kom svo nálægt útlitinu, hann hafði samt ekkert sagt mér frá þessu?

    Grétar búinn að fá sér sitt eigið lén, fær auðvitað tengil á það.

    Í Bandaríkjunum sjáum við nú hvað afnám reglugerða og græðgi mannsins veldur, hvert fyrirtækið á fætur öðru að tilkynna um vitlaust bókhald upp á margföld fjárlög Íslands og þar með eru tugþúsundir að missa vinnuna og eftirlaunastaða margra í hættu. Nú vill Bush minnka eftirlitið með fyrirtækjum enn meira og að auki leggja lífeyrissjóðina niður að mestu?

    Áhugavert:

  • Deiglan með enn eina “Bush al akhbar” greinina
  • Uncategorized

    Síðasti skóladagurinn

    Kvaddi í dag Elínu sem er á leið í mánaðar InterRail flakk um Austur-Evrópu, þar af í tvær vikur alein. Vonandi að íbúðin okkar verði orðin sýningarhæf þegar hún kemur til baka, við erum ekki búin að bjóða mikið af fólki í heimsóknir ennþá.

    Mazdan mín leit við í pústviðgerð eina ferðina enn, í þetta sinn var ekkert eftir til þess að sjóða í þannig að nýtt stykki var keypt og sett undir.

    Síðasti tíminn í skólanum var svo í kvöld. Prófin eftir helgina og svo frí fram í 3ju vikuna í ágúst. Þessi skólatörn er orðin nokkuð góð.

    Eftir tímann fór ég í Kringluna að versla verkfæri fyrir heimilið og fá mér að borða. Þegar ég var svo að fara af Stjörnutorgi hitti ég hóp af kórkrökkum frá Minnesota. Einn guttinn gaf sig sumsé á tal við mig og eftir stuttar samræður vorum við sammála um að Jesús elskaði mig þó að ég elskaði hann ekki. Drengurinn var sumsé dæmiger Kani sem að trúði á sköpunarsöguna og ekki á Darwin, hann var alveg klár á því að guð hefði skapað mennina á degi sex (minnir mig… langt síðan að ég las þessa sögu).

    Ég er umburðarlyndur og fólk sem að trúir á guði, stokka og steina má gera það í friði fyrir mér, bara svo lengi sem það eyðir ekki óhóflegum tíma í að reyna að fá mig til að gera hið sama.

    Bandaríkin væru mun betra land ef að skip Púrítananna hefðu sokkið á leiðinni, þarna sjáum við hvað það er hættulegt að senda alla ofstækismennina á sama staðinn, nú er allt brjálað af því að stjórnarskráin mælir fyrir trúfrelsi en dagleg þula skólabarna segir að þau séu ein þjóð undir Guði. Dómur í San Fransisco um að Guðs-parturinn ætti að detta út hefur auðvitað vakið mikil viðbrögð ofsamannanna, sem að eru flestir við kjötkatla ríkisins.

    Áhugavert:

  • Salon auditors doubt firm can survive
  • The gang that couldn’t loot straight
  • Uncategorized

    HM:D23 – Ekki minn dagur

    Ekki byrjaði dagurinn vel, fyrst náðum við okkur varla upp úr rúmi, svo eftir að hafa skutlað Sigurrós dó pústið á leið í vinnuna.

    Ég er enn draghaltur, Brasilíumenn unnu Tyrki, mig vantar fleiri millistykki út af loftnetinu og svo er hitt og þetta vesen í gangi varðandi það að koma íbúðinni í tipp topp lag.

    Ljós punktur við daginn í dag var að finna tónlist með Terranova, fyrirtaks tripp-hopparar með talsverðu hipp-hopp ívafi. Er að hlusta á plötuna “Close the Door”.

    Brasilía 1-0 Tyrkland
    Vandamálið hjá Tyrkjunum var einfalt, það heitir Hakan Sukur. Hann er búinn að vera arfaslakur allt HM en liðið hefur fylkt sér að baki hans og reynt að koma honum í gang. Það hefur ekki gengið hingað til og gerði það ekki heldur í þessum leik. Í staðinn fyrir að reyna sífellt að koma honum í gang átti að taka hann út af og setja lifandi sóknarmann inn á í staðinn fyrir svefngengilinn. Tyrkirnir spila fantafínan fótbolta og mun betri en Brasilíumenn. Það sem færir Brasilíumenn hins vegar í úrslitaleikinn er galdramáttur framherjanna þeirra. Þeir þurfa ekki að gera einn einasta hlut allan leikinn fyrir utan þrjár sekúndur þegar að þeir galdra eitthvað og úr verður mark. Ronaldo bjó sitt mark til sjálfur með fínu hlaupi og skotið kom öllum að óvörum, einfalt táarskot sem að Rüstü var nálægt því að halda úti en vantaði aðeins uppá.

    Reyndar er ég ánægður með þetta táarskot per se, sjálfur hef ég oft gripið til táarskota í fótbolta og skorað nokkur flott mörk þannig, í vinklana og svona. Það hefur ekki breytt því að menn hafa litið á mig og hnussað fyrir að hafa ekki skorað sama mark á sama glæsilega hátt nema hvað með innafótar-/utanfótar-/ristarskoti. Ég hef aldrei skilið þetta, af hverju þykir ófínt að skjóta með tánni þegar að það skilar góðu og jafnvel glæsilegu marki? Þegar táarskot er tekið þarf meira að segja meiri nákvæmni til að boltinn fari þangað sem honum er ætlað, smá ónákvæmni og boltinn getur farið í 90° beygju.

    Lifi táarskot, merki manna sem kunna fótbolta og hafa ekki fordóma.

    Áhugavert:

  • FIFA’s comedy of errors
  • Noble Korea bow out at last
  • Most loyal football fan in the world
  • Uncategorized

    HM:D22

    Vírusgáttin okkar stöðvar talsvert af skeytum á hverjum degi, eitt vakti athygli mína í dag, það var sumsé sýktur póstur sem að ossur@althingi.is var skráður fyrir. Menn verða nú að passa sig á hvað þeir smella, Alþingi vantar greinilega svona vírusgátt.

    Þýskaland 1-0 Suður-Kórea
    Sæmilegasti leikur og eitthvað af færum, ef að Þjóðverjarnir væru með einhvern annan markmann en Kahn (sem að Star Trek aðdáendur stunda víst að kalla Khhhaaaaaaaaaaan samanber atriði úr einni myndinni) væru þeir fallnir út. Kóreumenn áttu ekki mjög mörg færi en tvö-þrjú voru dauðafæri sem að Kahn bjargaði. Mark Þjóðverjanna kom eftir mistök hjá Suður-Kóreu, markmaðurinn varði reyndar en heppnin var í liði með Þjóðverjum og boltinn endaði í markinu. Þýska liðið er að skapa voða lítið af færum, þeir eru samt komnir í úrslitaleikinn, og væru óverðskuldaðir sigurvegarar ef þeir ynnu. Suður-Kórea stóð sig sæmilega en vantar illilega að hafa alvöru sóknarmann frammi sem að fær vörnina til að skjálfa í skónum. Þeir fá þó að leika bronsleikinn á heimavelli, og svei mér þá ef að þeir ættu ekki bara að vinna þann leik á því.

    Ég bind nú vonir við að lögmálið haldi, að Brasilía og Þýskaland muni ekki mætast í leik í HM, eins ótrúlegt og það er þá hefur það ekki gerst enn. Mínir menn í tyrkneska liðinu verða að hefna fyrir fyrsta leik keppninnar, þar sem að dómaradrusla gaf Brasilíu sigurinn á ótrúlegan hátt með því að færa brot til um 3 metra svo að úr yrði vítaspyrna. Tyrkir voru betri en Brasilíumenn í þeim leik, og vonandi verður svo aftur nú.

    Áhugavert:

  • Apocalypse How?
  • Uncategorized

    Survivor lýkur… í þetta sinn

    Fylgdist með lokum einu sápuóperunnar sem ég horfi á, Survivor. Þáttaröðinni lauk í kvöld með úrslitum sem hægt var að una við, illskárri kosturinn sem að fékk aðalverðlaunin. Verst að Kathy sem að ég hefði viljað fá sem sigurvegara var stungin í bakið í lokin og lenti í þriðja sæti. Það er kjarnakona. Fyndið að sjá svo breytinguna á keppendunum, Neleh virðist ekki hafa hætt að éta síðan að hún kom frá Marquesas (og lái henni hver sem vill) og virtist hafa þroskast að auki, plús það auðvitað að hún var stífmeikuð. Allt önnur stelpa sem að sat þarna en var í þáttunum.

    Örbylgjuloftnetið reyndar ekki að plumma sig nógu vel, spurning hvort að það þurfi að færa það til á svölunum. Vesen vesen.

    Á morgun vonast ég svo til að sjá Suður-Kóreumenn vinna Þjóðverja, og að Tyrkir vinni svo leiðindalið Brasilíu á miðvikudaginn.

    Áhugavert:

  • A catalogue of errors
  • Gifts to Korea… and other hosts
  • Colosseum og fótboltavellir nútímans
  • Rannsóknin heldur áfram!
  • Uncategorized

    Letikast

    Byrjuðum daginn í letikasti, hristum svo af okkur slenið og fórum í veiðiferð á Kambsveginn, komum þaðan með tölvuborð og sitthvað smálegt. Það er allt að taka á sig mynd nú í vinnuherberginu, hægt og rólega þó.

    Mig langar í Aeron-skrifstofustól! 12 ára ábyrgð og bakið á mér yrði eilíflega þakklátt.

    Áhugavert:

  • Hiddink-mania rages out of control
  • Alþingi svívirt
  • Enskur blaðamaður búinn að tapa sér á HM
  • Uncategorized

    HM:D21 – Utandeildarbikar

    Voðalega er það leiðinlegt þegar að antisportistar sjá ekki lengra en nefi þeirra nær, og eru að auki komnir upp á dómgreind annara varðandi hvaða lið þeir horfa á, Ágúst virðist maður með fulla femm og jafnvel meira til, spurning hvort að maður fari að klippa saman kennslumyndband og halda námskeið í skilningu á knattspyrnu, af hverju hún sé skemmtileg, hvað er skemmtilegt og af hverju tekur heimurinn andköf þegar að HM er í gangi. Það eru haldin námskeið þar sem menn læra að meta rauðvín og einstaka þætti þess (ég hef enn ekki farið en finnst þó rauðvín gott), af hverju ekki þannig fyrir fótbolta?

    Skrapp í sund í dag, fyrsta sinn í marga mánuði sem ég geri það. Það voru þau Sigurrós og Örn sem drógu mig í þetta. Fórum í Kópavogslaug, allt í góðu standi þar.

    Fór á leik í bikarkeppni utandeildar, þar voru frændur mínir sem og fyrrum skólafélagar í FC Puma að keppa við félaga mína í Iceland United. FC Puma eru sigurvegarar utandeildarinnar síðastliðin tvö ár, Iceland United varð í síðasta sæti að ég held í fyrra. Liðið í ár er hins vegar mun betra, og þegar hefur þremur sigrum verið landað. Puma tók þetta hins vegar örugglega, ég fór þegar að staðan var 5-0 í seinni hálfleik, hann Jommi í Iceland United segir svo að þeir hafi tapað 10-1, og að hann sé hættur. Mér finnst það nú svolítið dramatískt, liðið var fínt í byrjun en missti tvo meidda menn útaf og breiddin á bekknum var voðalega lítil, engin ástæða til þess að gefast upp þrátt fyrir einn skell.

    Spánn 0-0 Suður-Kórea
    Spánverjar nokkuð sprækir en svakaleg vörn Suður-Kóreu át flest allt. Spánverjar áttu þó góð færi sem þeir fóru misvel með, í þau skipti sem að boltinn fór í markið þá var það dæmt af. Markið sem var dæmt af Helguera virtist vera útaf engu, og markið sem að var svo dæmt af í framlengingu var fullkomlega lögleg, það var bara enn einn hálfblindur línuvörðurinn sem tók það af. Joaquin var suddagóður á kantinum hjá Spáni, en undir lok framlengingar var greinilega af honum dregið. Þess vegna leist mér tæplega á það þegar að hann fór á vítapunktinn, menn sem að eru uppgefnir í lok leiks eiga ekki að taka vítaspyrnur. Enda var hann með slaka spyrnu sem var varinn, suður-kóreski fyrirliðinn kláraði svo dæmið með pottþéttri vítaspyrnu. Mögnuð vörn Suður-Kóreu og dugnaður þeirra ásamt mistökum línuvarðar og dómara slógu því Spánverja út.

    Tyrkland 1-0 Senegal
    Þeir sem hafa ekki kunnað að meta Tyrki í síðustu leikjum þeirra hljóta að hafa lært að meta þá núna. Áttu leikinn frá A til Ö og óðu í færum. Hakan hin halti Sukur átti að vera kominn með þrennu en virtist vera með heilahristing eða lasinn, gat ekki hitt tuðruna þó að henni væri sparkað til hans. Senegalir virtust sprungnir, og El Hadji Diouf virðist ekki vera mjög mikið fyrir það að gefa boltann, hann nöldrar talsvert og því verður áhugavert að sjá hann í ensku deildinni næsta vetur, hann gæti fengið nokkur gul spjöld fyrir nöldrið þar.

    Uncategorized

    HM:D20 – Flutningar #3

    Eftir aðeins fjögurra stunda svefn var ég mættur fyrir framan sjónvarpið til að sjá Brasilíumenn sigra arfaslaka Englendinga. Svo var farið í vinnuna en tekið hlé um hálftólf og horft á leik Þjóðverja og Bandaríkjamanna hér í Betrabóli ásamt Val og Erni.

    Eftir vinnu var haldið á Kambsveginn í þriðju flutningana þaðan á einu ári. Fyrst fór Guðbjörg á Selfoss, því næst fórum við á Flókagötu og nú var það Ragna á Selfoss. Þetta gamla ættarsetur er því nú búið að missa sína upprunalegu ætt, Ragna og Oddur byggðu þar ofan á lítið hús foreldra hennar fyrir 22 árum eða svo.

    Á leiðinni á Selfoss sá ég að ég held hana Katrínu hjóla yfir Langholtsveginn, eins stórt og hún tekur upp í sig á vefnum sínum þá er hún afskaplega hlédræg stúlka á mannamótum. Gott dæmi um notkun á alter-ego eins og það er víst kallað.

    Brasilía 2-1 England
    Ekki er hægt að segja að Englendingar hafi verið ógnandi í leiknum, eina mark þeirra kom eftir mistök hjá varnarmanni sem að Owen nýtti mjög vel. Fyrir utan það ógnuðu þeir varla markinu allan leikinn. Ronaldinho lagði upp mark fyrir Rivaldo í viðbótartíma í fyrri hálfleik, skoraði svo úr aukaspyrnu langt utan af velli í seinni hálfleik, og var svo rekinn útaf fyrir grófa tæklingu. Tæklingin verðskuldaði gult spjald, sólinn of hátt á lofti, en rautt spjald er mjög strangur dómur, spurning hvort að aganefnd muni breyta því. Eftir brottreksturinn bökkuðu Brasilíumenn en fóru þó að halda boltanum mun betur. Áhugalausir Englendingar horfðu á þá spila reitabolta og gerðu fátt af viti. Seaman meiddist í fyrri hálfleik og var greinilega ekki góður í bakinu, það sást í báðum mörkum Brasilíumanna, Eriksson hefði betur skipt honum útaf fyrir heilbrigðan markmann. Beckham meiddist líka og haltraði um völlinn, Scholes átti arfaslakan leik og missti boltann oft og mörgum sinnum. Sanngjarn sigur Brasilíumanna, en ekki get ég sagt að ég vilji sjá þá sem heimsmeistara. Óskarsframmistaða Rivaldos er orðinn mjög þreytandi, algjörlega óíþróttamannslegt bull sem að ég líð ekki. Þar að auki komust Brasilíumenn upp með að hlaupa burtu með boltann þegar dæmdar voru aukaspyrnur á þá, nokkuð sem að önnur lið hafa fengið gul spjöld fyrir.

    Þýskaland 1-0 Bandaríkin
    Bruce Arena er greinilega hæfur þjálfari. Veikleikar Þjóðverjanna komu berlega í ljós á fyrstu mínútunum, Bandaríkjamenn sóttu mikið upp kantana og komust þar í auð svæði og sköpuðu talsverða hættu, aðeins Kahn bjargaði þýska liðinu frá því að lenda 2 mörkum undir. Þjóðverjar fóru þó aðeins að hressast og ná völdum á miðjunni en kantarnir voru enn galopnir hjá þeim og fljótir sóknarmenn Bandaríkjanna ullu miklum usla. Að auki voru ungu mennirnir í þýsku vörninni frekar kaldir, reyndu að hlaupa með boltann framhjá sóknarmönnum Bandaríkjanna og brenndu sig oft á því. Ballack skoraði loks með skalla, ég var einmitt nýbúinn að taka hann úr draumaliðinu sökum slaks leiks hans hingað til, jæja. Þjóðverjar ógnuðu talsvert en Bandaríkjamenn sömuleiðis. Sigurinn alls ekki í höfn fyrr en flautað var til leiksloka. Þýska liðið mun betra en 1998, en brotalamirnar eru augljósar, andstæðingar þeirra í næsta leik munu hafa séð í þessum hvernig best er að sækja á þá.