Monthly Archives: April 2004

Uncategorized

Víruð plötuumslög

Það er orðið svolítið (les: soldið) síðan að ég kíkti í Wired, las þar ágætis greinar um Google, nýjasta ógeðið sem tekur yfir tölvur og svo RSS vandamálin.

Ameríkan er orðin ótrúlegt lögregluríki, 15 ára gutti var yfirheyrður af Secret Service (sem verndar forsetann) af því að hann teiknaði ófagrar myndir af Gogga Bush. Helvíti var George Orwell slappur, þetta átti að vera 2004 en ekki 1984!

Ljúkum deginum (sem í kjötheimum var svolítið merkilegur) með enn einum listanum yfir hræðileg plötuumslög.

Uncategorized

Kill Bill

Jú við tókum Kill Bill (1) í kvöld, ætlum að kíkja á (2) um helgina líklega.

Splatterið soldið mikið en frásögnin og myndatakan og öll smáatriðin alveg mögnuð. Tarantino er listamaður, listamaður sem vill sletta soldið blóði en það gerir hann ekkert verri!

Uncategorized

Maður bara trúir þessu ekki

Sepp Blatter er magnaður andskoti og andskoti lýsir honum vel!

Ég hef áður minnst á það að hann vill að kvenfólk leiki í þrengri búningum en karlmenn mega það ekki og eru sektaðir fyrir, að auki var hann mikill aðdáandi gullmarksreglunnar sem ein og sér náði að drepa niður fjöldamarga úrslitaleiki.

Það nýjasta er að nú vill karlandskotinn hætta með jafntefli í fótbolta, annað hvort séu sigurvegarar eður ei!

Ætti maðurinn ekki að vera forseti Alþjóða blaksambandsins (þar sem konur spila í þrengri búningum nú en áður og ekki hægt að gera jafntefli) frekar en Alþjóða knattspyrnusambandsins ef honum líkar svona illa við það sem fer fram í knattspyrnu?

Þetta er möppudýr sem hefur náð ótrúlega langt og löngu kominn tími á að stoppa þetta viðrini af!

Já þetta gerði mig pirraðan!

Uncategorized

Fáninn fær blessun

Haldiði ekki bara að færsla gærdagsins hafi komið fyrir augu írasks kúrda sem býr og vinnur á Íslandi. Samkvæmt henni er nýi fáninn hið besta mál.

Í kvöld var svo garðvinna á dagskránni, ég fékk einnig að hlýða á raunir nágrannans sem er sífellt í veseni með ADSLið sitt hjá Símanum. Ég er alveg 100% að það er eitthvað rugl í símstöðinni hjá þeim fyrir þetta hverfi, þegar við vorum hjá Símnet þá var þetta eintómt vesen og ég rakti vandræðin í netþjóna hjá þeim. Þeir sóru hins vegar af sér alla sök þó svo ég gæti sýnt þeim tæknileg gögn (traceroute meðal annars) og því skiptum við yfir til OgVodafone sem er eins og smurt.

Ætli nágranninn fylgi ekki okkur með það enda fengið eindæma vonda þjónustu þrátt fyrir gífurlega biðlund.

Uncategorized

Fánabreyting

Fyrir Gettu betur-fólk og aðra áhugamenn um fána þá má geta þess að lögð hefur verið fram tillaga um nýjan þjóðfána Íraks.

Fimm hafa nú skoðað íbúðina. Sjáum hvort eitthvað gerist.

Uncategorized

Rushdie nær sér í konu

Já þá eru þau Padma Lakshmi og Salman Rushdie gift! Padma þessi er indversk ofurskutla sem hefur setið fyrir á allmörgum myndum og er sjónvarpsstjarna á Ítalíu. Rushdie er rithöfundur, nokkuð eldri en Padma og þar til nýlega var hann á dauðalista heittrúaðra múslima fyrir bók sína Söngvar Satans.

Uncategorized

JPEG í hættu?

Fórum í Smáralind í dag og kíktum þar í fyrsta sinn á Burger King. Fínir borgarar eftir að maður plokkar laukinn af, biðjum næst um að sleppa honum.

Eins og sjá mátti í Morgunblaðinu í dag er hægt að sjá líkkistur hermanna sem hafa fallið í Írak á MemoryHole, nánar tiltekið hér.

Flestir sem hafa unnið vefi kannast við GIF-vandamálið sem var það að einhver átti hugverkaréttindi sem tengdist því, það rann út 2003 þannig að GIF-myndir eru aftur orðnar frjálsar til notkunar.

Núna bregður svo við hins vegar að sama vandamál er að koma upp með JPEG-myndir, sjá greinina Forgent Sues Over JPEG Patent. Ekki alveg nógu sniðugt.

Uncategorized

Góðir dagar

Undanfarnir dagar hafa verið sérdeilis prýðilegir. Brosið varla farið af manni.

Í dag komu fréttir af prófinu ógurlega og útkoman var mun betri en ég þorði að búast við! Það lítur því allt út fyrir útskrift án endurtektarprófa, tvennar niðurstöður enn eftir en það yrði meiri háttar klúður ef ég hef fallið í öðru hvoru þeirra.

Svolítið síðan að ég tengdi út í lönd, bæti aðeins úr því.

Hjá Wired.com má lesa að búið er að finna fræðileg takmörk þess hversu hratt er hægt að skrifa gögn á tölvudiska, sem betur fer er það þúsund sinnum hraðara en bestu diskar í dag þannig að þetta er ekki alveg að fara að plaga okkur strax.

Þar má einnig lesa um hvernig fátækir eru að verða stór markaður í Afríku varðandi netið og upplýsingatækni. Þarna er til dæmis sagt frá internetinu í formi pínulítils minniskubbs sem svo er hjólað með í næsta bæ til að tengja þar í nettengda tölvu, og svo heim aftur. Gagnaflutningshraðinn nokkuð seinn en mun betri en aðrar aðferðir sem hafa verið prufaðar.

Svo má ljúka deginum með því að sjá nakið fólk stilla sér upp til að skrifa nafnið manns eða önnur orð (íslenskir stafir virka ekki).

Uncategorized

Fólk í fyrirrúmi

Eins og sjá má af myndunum var gleðskapur gærdagsins fámennur eins og til stóð en ótrúlega góðmennur.

Mér finnst partý yfirleitt skemmtilegust þegar hægt er að ræða saman, því var tónlist sett í bakgrunn þannig að samræður héldust í gangi án þess að grípa þyrfti til aukakrafta fyrir raddbönd og lungu.

Mér fannst þetta takast einstaklega vel og þakka gestum öllum kærlega fyrir komuna!

Við Sigurrós höfðum ekki náð miklum svefni nóttina áður og því orðin frekar þreytt þegar kom að því að kíkja í bæinn. Við afþökkuðum því óskir hinna um að fylgja þeim á áframhaldandi djamm, efumst ekki um að það hefði þó verið ýkja gaman. Það er kannski bara næst 🙂

Í dag var svo kíkt á Selfoss í Sumardagskaffi til tengdó og hún sýndi trakteringar sem sjúkraþjálfarinn mælti með að hún stundaði.

Uncategorized

Hræringar

Já það er ýmislegt í gangi! (Nei, ekki barneignir)

Meira um það seinna.

Í kvöld verður smá vinafagnaður til að fagna próflokum!