Category Archives: Bækur

Bækur Tækni

Gutenberg, Rutherfurd og Wooly Bully

Birti í gær tvo nýja texta á Project Gutenberg eftir að þeir fóru í gegnum DP-Europe.

Grámann er rímútgáfa af ævintýri sem ég held að sé franskt að uppruna. Leiðarvísirinn kom út samhliða Leiðarvísir í ástamálum: II. fyrir ungar stúlkur, enn eru til tveir í viðbót held ég.

Ég hef nú lesið The Forest og Russka (sem greinir frá Rússlandi) eftir Edward Rutherfurd og er hæstánægður með þá lesningu. Á History Channel var einmitt verið að byrja að sýna Russia Land of the Tsars þegar ég var að ljúka lesningunni sem kom ágætlega inn í efni bókarinnar.

Nú þarf ég bara að redda London í millisafnaláni eða með öðrum leiðum og líklega versla mér sjálfur Dublin: Foundation því að í Gegni er ekkert safn skráð fyrir henni.

Enda þetta á léttu nótunum, það þekkja flestir á mínum aldri og eldri lagið Wooly Bully… það er auðvitað til á YouTube:

Bækur

Bókvitið

Datt af tilviljun af Google inn á síðu NMK í dag þar sem ég sá að enn í dag halda þeir BEMKÍGÁF, eða spurningakeppni innan skólans sem ég stofnaði og nefndi svo fyrir næstum 15 árum! Ætli þeir haldi líka próf fyrir fyrstu bekkinga eins og við gerðum til að sigta út efnilega Gettu betur keppendur?

Bekkjakeppni MK í gáfumannaleik minnir mig að skammstöfunin standi fyrir. Gaman að sjá að hún lifir enn góðu lífi og nú eru þeir líka með MORMÍK sem er þeirra útgáfa af MORFÍS.

Talandi um bókvitið þá hef ég legið í bókum síðustu mánuði á meðan á lokahluta meðgöngu stóð yfir og nú vel eftir fæðingu (3ja mánaða!).

Meadowland hefur legið á borðinu hjá mér síðan um jólin, þetta er nýjasta sögulega skáldsagan frá Tom Holt, að þessu sinni um Vínlandsfundina. Tveir aldnir víkingar segja frá fjölmörgum ferðum sínum til Vínlands með Bjarna, Leifi og hinum sem þangað fóru. Mun skemmtilegri lesning en þessi þurra klausa mín segir til um.

Ég hef lengi ætlað að lesa Cryptonomicon eftir Neal Stephenson og komst loksins í það í vor. Áhugaverð blanda af sögu, tæknilegum útskýringum og ævintýri.

Holy Fire og smásagnasafnið A good old fashioned future, báðar eftir Bruce Sterling, voru ágætis lesning en skildu lítið eftir.

Doðranturinn Tigana eftir Guy Gavriel Kay gerist í ævintýraheimi en undirtónninn er hve auðvelt er að þurrka heila siðmenningu út úr almannavitund. Þokkaleg skemmtilesning en ekkert mikið meira en það.

Bókin Sarum var hins vegar stórbrotin 1400-síðna lesning þar sem Edward Rutherfurd fer í gegnum sögu Sarum-svæðisins í Englandi (Salisbury og nágrenni) allt frá þeim tíma er Neanderdalsmenn gengu þar um og til 20. aldar. Hann notar þar þá aðferð að blanda tilbúnum persónum við sannsögulegar persónur og atburði þar sem við einblínum á nokkrar ættir yfir árþúsundin. Mjög fróðleg og lifandi lesning.

Næst var það Anansi boys eftir Neil Gaiman, ágætis bók frá snilldarhöfundi.

Stysta bókin á þessum lista er svo The god of small things eftir Arundhati Roy. Þetta er verðlaunabók en ég gafst upp á að lesa lengra þegar ég var kominn inn í miðju, svo óáhugaverð var hún fyrir mér.

Ég uni mér því við að lesa næsta stórvirki Rutherfurds, The Forest, sem gerist í Hampshire, sumir kannast kannski við Southampton sem er þar.

Bækur

Dýrið maðurinn

Las í dag bókina Leila, stutta bók um þjáningar bosnískrar stúlku sem var margnauðgað, misþyrmt og komið fram verr við en hötuðustu húsdýr. Ein margra þúsunda kvenna sem varð fyrir þessu í Bosníu, og þá er eftir að telja tugþúsundin í öðrum stríðum fyrr og síðar.

Heimurinn er fullur af vondu fólki, og hann er líka fullur af hjarðdýrum sem að gera vonda fólkinu kleift að ná metorðum og halda þeim. Þetta er auðvitað málefni sem æsir mig auðveldlega upp, en pistill minn um þetta mál verður stór og mikill, og fer því frekar á www.betra.is en joi.betra.is. Ætlunin er að opna www.betra.is á næstum mánuðum með vel útpældum greinum sem að ég ætla að leggja þó nokkra vinnu í. Meir um það síðar.

Horfðum í kvöld á Legally Blonde. Stórskemmtileg kvikmynd um fordómana sem að fallegt, ljóshært og vel vaxið kvenfólk verður fyrir, og ádeila á það að dæma fólk við fyrstu sýn. Margir launfyndnir punktar í henni, mæli með þessari.

Bækur Molasykur

Sannleikurinn

Skrapp í Eymundsson til að kaupa “Café Creme 1” bækurnar sem að ég mun notast við í frönskunáminu. Því miður var bara vinnubókin til, þannig að ég þarf að fara aðra ferð til þess að finna lesbókina. Það sem kom mér hins vegar mest á óvart var að ég sá í hillu nýjustu kiljuna frá Terry Pratchett, “The Truth”. Það sem að kom mér svona mikið á óvart var að Amazon.co.uk segir að hún komi ekki út fyrr en 1. nóvember!

Það undarlega í þessu er að Pratchett er breskur rithöfundur, og The Truth er komin út í kilju í Ameríku (en mikið skelfilega er sú kilja ljót) og er til sölu á Amazon.com. Þessi kilja sem ég keypti er gefin út af Corgi í Bretlandi, og lítur út eins og allar hinar Discworld kiljurnar mínar (25 talsins með The Truth), en samt er Amazon.co.uk ekki að fá að selja hana fyrr en 1. nóvember? Amazon er raunar í miklu uppáhaldi hjá mér, vefurinn þeirra er til fyrirmyndar sem og þjónustan.

Það er annars orðið að sið hjá mér að borða Doritos “Nacho cheese” og fá mér kóksopa á meðan að ég les Discworld bók, man ekki alveg hvernig sá siður kom til en þetta er skemmtilegur og bragðgóður siður að mínu mati, ég er orðinn svo staðfastur að fá mér sjaldan kók og snakk, en fyrir svona bækur gerir maður undantekningar.

Sá eitt skrítið í umferðinni í dag, bíll á undan mér var kyrfilega merktur Sjóvá-Almennum og Olís, og svo stóð með stórum stöfum víðs vegar á honum “umferðaröryggisfulltrúi”. Ég er ekki alveg viss um hvað hann á að gera, gæti verið áhugaverð starfslýsing. Annars er alltaf jafn gaman að velta þessum germanska sið að búa til löng samsett orð fyrir sér, á meðan að rómanski siðurinn er sá að setja la og de og þess háttar forsetningar á milli orða, þannig að ofangreint starfsheiti væri á að giska 5 orð í frönsku, jafnvel meira?

Áhugavert lesefni:

Bækur

Dwarf rapes nun, flees in UFO

Var að klára að lesa fyrstu kiljuna sem ég tók á Borgarbókasafninu. Hún hét þessu skemmtilega nafni hér að ofan, og er eftir blaðamanninn margreynda Arnold Sawislak (gefin út 1985). Þetta er saga um smábæjarblað sem að er tekið yfir af skuggalegum náungum og breytt í örgustu gulu pressu. Skondin og skemmtileg lesning.

Ákvað að lesa hana fyrir brottför þar sem að kiljan er frekar illa farin með lausum síðum út um allt. Gallinn við kiljur er sá að þær endast frekar illa, þarna erum við með 16 ára gamla kilju sem er orðin heiðgul og kjölurinn að gefa sig. Ég hef smá áhyggjur af því að kiljusafnið mitt endi svona illa farið, spurning með að finna hvort að eitthvað eitt rakastig eða annað geti lengt líftímann.

Bækur

Grófin

Fór í fyrsta sinn á nýtt heimili Borgarbókasafnsins í gær, í svonefndu Grófarhúsi. Þetta hefur svo sem ekki sama sjarma og gamla Aðalbókasafnið, en mun rúmbetra. Eina sem hefði mátt vera væri að við innganginn væri svona skema sem að sýndi hvar hver deild væri á hverri hæð. Við komumst svosem í “vísindaskáldsögukiljur á ensku” og “ástarsögukiljur á ensku” deildina fyrir rest, en skema við innganginn hefði látið okkur líta aðeins minna út fyrir að vera villtir túristar. 🙂