Category Archives: Molasykur

Molasykur

Rabarbía – vöruhönnun sem bregst

Rabarbía er vörumerki bænda á Löngumýri á Skeiðum. Þetta var verkefni í samvinnu við Listaháskóla Íslands og mér til mikillar gleði var útkoman brjóstsykur úr rabarbara.

Ég fór í frú Laugu í gær og verslaði eina Rabarbía brjóstsykurstöng til að prófa. Umbúðirnar voru skemmtilegar, löng og þykk brjóstsykurstöng umvafinn grænu innan í pappa sem líkir eftir rabarbara. Þegar það átti að prófa þetta vandaðist hins vegar málið. Stöngin er þykk og hörð og til að fá eitthvað sem passar í munn þarf að brjóta. Handaflið dugði til að smækka stilkinn niður í allmarga minni stilka, en þeir voru þá enn stærri en karamella ætti að vera svo vel væri.

Vonbrigðin voru svo talsverð, þetta er rjómakaramella sem minnir á Werther’s Original, það er fínt í sjálfu sér en ekki það sem ég hélt að ég væri að kaupa. Rabarbarinn finnst vart í þessu, einstaka sinnum hélt ég að ég hefði fundið rabarbarabragð en það var í svo miklum minnihluta að grátlegt var.

Umbúðirnar og frágangurinn eru hérna að gera vörunni talsverðan óleik með því að gera kaupanda erfitt um vik að gæða sér á henni. Stilkurinn er flottur en ekki nothæfur, betur væri ef stilkurinn væri niðursneiddur innan umbúðanna þannig að auðvelt væri að stinga hverri flís í munn án þess að þurfa að grípa til hamars og annara vopna gegn ofurbrjóstsykrum.

Hvað bragðið varðar þá ættu Rabarbía og karamellumeistarinn Örvar Birgisson að margfalda rabarbaramagnið. Það er engum greiði gerður að selja þetta sem rabarbaravöru þegar bragðið finnst vart nema með einbeittum vilja, yfirgnæft af rjómanum.

Mig langar ofsalega að fá mér rabarbarasælgæti af lífrænum rabarbaraökrum, en það þarf þá að bragðast rétt en ekki eins og rjómi!

Molasykur

Fríðindi elsta systkinis

Norskir vísindamenn telja sig hafa sýnt fram á það að við sem erum elsta systkinið séum gáfaðri en hin. Spurning hvort þetta sé vegna meiri ábyrgðar eða óskiptrar athygli. Eða þvæla.

Svo virðist reyndar sem að systkini hækki sig í gáfum ef að eldra systkini deyr.

Annars var tæplega 3 ára gömul stúlka að fá inngöngu í gáfumannaklúbbinn MENSA.

Molasykur

Louis og Johnny

Maður vissi það ekki að Louis Armstrong hefði verið eitthvað í kántrí-tónlistinni. Stutt myndband segir frá þessu og í seinni hluta þess má sjá Johnny Cash og Louis Armstrong að sprella saman.

Molasykur Samfélagsvirkni

Ekki sitja beinn í baki!

Það er svo að maður hlustar oftar á líkama sinn en einhver boð og bönn. Ég hef stundað það að sitja langt í frá beinn í baki, og nýlegar niðurstöður staðfesta það að það er slæmt að sitja beinn í baki !

Stellingin sem ég hef verið í er mun betri fyrir líkamann, hættið nú að segja börnum að sitja bein í baki!

Molasykur

Endurfundirnir

Í nóvember mætti ég á endurfundi grunnskólahópsins míns. Þarna voru 80% meðlima Dead Sea Apple sem og fréttamaður, barnalæknir, húsmæður, gröfumaður, grafískir hönnuðir, tölvuleikjahönnuður og aðrir.

Skemmtileg kvöldstund og ég var hás af tali, lét mig svo hverfa þegar stefnan var sett á reykmettað veitingahús, astminn nógu slæmur í borgarloftinu þó svo ég tefli ekki í tvísýnu og reyni við reykjarmökk líka.

Molasykur

Krókódílamaðurinn

Steve Irwin látinn. Ekki náðu krókódílarnir honum heldur stingskata! Skilur eftir sig konu og tvö ung börn.

Molasykur

Flautukall, Nígeríusvindl og LEGO

Ég bendi á alveg magnað myndband sem sýnir þvílíkan listamann að spila á flautur.

Hollendingar voru að nappa svona Nígeríuhring sem er búinn að pretta fólk með tölvupóstum og föxum þar sem þeir lofa gulli ef maður gerist milliliður. Þetta streymir samt áfram til mín.

Fyrir einhverju síðan benti ég á LEGO sem voru að leita að nýjum LEGO-meisturum í skemmtigarða sína. Úrslitin eru ljós og þrjú voru svo heppinn að láta draum rætast og vinna nú hjá LEGO við að kubba. Vel þess virði að skoða myndir af verkum þeirra.

Molasykur

Barn drekans

Tími fyrir nokkra magnaða tengla:

Molasykur

Bend It Like Beckham

Fórum í dag í bíó, nokkuð sem hefur ekki gerst í háa herrans tíð, nánar tiltekið fórum við síðast á Austin Powers:Goldmember þann 31. ágúst. Guðbjörg dvelur hjá okkur núna í nokkra daga (fyrsti næturgesturinn okkar) og kom auðvitað með.

Fyrir valinu varð Bend it Like Beckham. Stórfín mynd með fótbolta, kvenfólki, ástarsögu, afbrýðissemi og meiri fótbolta. Svo ég verði nú alvarlegri þá var þetta reyndar mjög góð mynd með góðum söguþræði og varpaði smá ljósi á indverska menningu í Bretlandi sem og kvennafótbolta (sem er á uppleið um allan heim) og gerði góðlátlegt grín að ýmsum fordómum.

Var að fara í gegnum skúffur og kassa hjá mér og fann þessa snilldarmynd sem var myndskreyting við grein um aðalþingmenn verkamannaflokksins, greinin birtist í The Independent 13. desember 1992. Þar var Tony Blair (lengst til vinstri á myndinni) sagður of veiklyndur og of mikill lögfræðingur, um viðureignir hans og Kenneth Clarke var sagt að það væri “a bit like Bambi versus Vlad the Impaler”, Blair sem Bambi þá. Lengst til hægri á myndinni er þáverandi leiðtogi Verkamannaflokksins, John Smith, sem lést úr hjartaáfalli minnir mig.

Molasykur

Liðugi kjálkinn

Tannlæknirinn í Þingholtsstræti sagði mér að þetta væri nú bara tognun sem er að há mér í kjálkanum. Mælti með tveim æfingum, opna og loka munninum með tungubroddinn í efri gómi (svo ég opni ekki of mikið), og söngla mmmmm (þá slaknar svo vel í kjálkanum). Þannig að ef ég er einhvers staðar sönglandi mmmmm þá er það ekki af trúarástæðum, og ef ég er að opna og loka munninum ótt og títt án þess að ég sé að tala, þá er það ekki kækur.

Aðrir sem að verða varir við það að það smelli í kjálkanum ættu að reyna þessar æfingar og reyna að slaka á í kjálkunum, passa upp á stellinguna þegar setið er, þegar hausinn lútir fram (“þú ert bara kominn inn í skjáinn!”) þá reynir kjálkinn að hjálpa hálsvöðvunum og stífnar upp.

Áhugavert: