Monthly Archives: May 2014

Stjórnmál

Bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi 2014

Uppfært 23. maí – kynjaskiptingu bætt við

Nú er rétt rúm vika í bæjarstjórnarkosningar 2014 í Kópavogi. Það er hægt að lesa yfir eldri kosningaúrslit á Wikipedia-síðunum sem ég setti saman fyrir hreppsnefndarkosningar og bæjarstjórnarkosningar. Nokkrir sögupunktar þar sem ekki allir þekkja.

Hverfi KópavogsÉg náði í framboðslistana á vef innanríkisráðuneytisins og smellti þeim saman í eina gagnagrunnstöflu (hér sem .xls skrá) og reiknaði þar út aldur frambjóðenda á kjördag og merkti inn kyn þeirra. Einn frambjóðandinn á einmitt afmæli á kjördag, hann Kristinn Sverrisson fótboltaþjálfari og kennaranemi sem verður 35 ára þann daginn. Ég notaði svo nýja hverfaskiptingu Kópavogsbæjar til að flokka frambjóðendur eftir hverfum.

Tölfræðin var tekin saman bæði fyrir listana í heild sem og fyrir 5 efstu frambjóðendur hvers lista, af könnunum er ljóst að Sjálfstæðisflokkur á einn von um 5, gæti reyndar náð 6 ef fylgi dreifist mikið á minnstu flokkana.

 

Aldur frambjóðenda

Meðalaldur allra frambjóðenda listanna er frekar svipaður í kringum fertugt, undantekningarnar eru Vinstri grænir og félagshyggjufólk sem eru eldri að meðaltali, yfir fimmtugt,  og svo Píratar sem eru mun yngri að meðaltali, tæplega þrítugir.

Meðalaldur allra frambjóðenda

 

Þegar við kíkjum á fimm efstu sjáum við áfram meðaltal um fertugt nema að Dögun er eilítið yngri, nær 35. Píratar skera sig svo gjörsamlega úr með meðalaldurinn tvítugt hjá efstu 5 á lista.

Meðalaldur 5 efstu frambjóðenda

 

 

Hverfaskipting frambjóðenda

Ný hverfaskipting Kópavogs hefur tekið gildi og þar sjáum við Kársnesið (Vesturbærinn), Digranes, Smárann (Smárar og Dalvegur), Fífuhvamm (Lindir og Salir) og Vatnsenda (Kórar, Hvörf og Þing).

Elstu hverfin hafa nokkra yfirburði, Digranesið eitt og sér með um 40% íbúa, enda þéttbýlt. Kársnes fylgir í humátt á eftir. Smárinn er fámennastur eins og má telja eðlilegt miðað við að vera það hverfi sem hefur fæsta íbúa.

Fjöldi allra frambjóðenda eftir hverfum

Ef við skoðum bara 5 efstu á lista sjáum við enn betur yfirburði Digraness. Gamli Austurbærinn ber þarna ægishjálm yfir öll hin hverfin á meðan að Vatnsendi rétt svo nær á blað.

hverfi-5efstu

 

Þá er næst að skoða hverfaskiptingu eftir flokkum. Gömlu hverfin eru greinilega mikið vígi Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar á meðan að Vatnsendi kemur sterkur inn hjá Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Dögun er svo nær eingöngu á Digranesi, aðeins tveir aðilar á 11 manna lista þeirra eru í öðru hverfi, Næst besti flokkurinn er einnig með þungamiðju sína á Digranesi.

Fjöldi frambjóðenda eftir hverfum og flokkum

 

Að lokum er það svo hverfaskipting efstu 5 á lista hvers framboðs. Þá hverfur Vatnsendi nærri því af kortinu og yfirburðir Digraness sjást enn betur, Næst besti flokkurinn er þarna eingöngu í Digranesi og Dögun næstum því.

Hverfaskipting 5 efstu hvers flokks

 

Kynjaskipting frambjóðenda

Flestir listanna hafa 22 frambjóðendur (hámarkið þegar 11 bæjarfulltrúasæti eru í boði) en Dögun er með 11 (lágmarkið) og Píratar og Næst besti með 14 frambjóðendur. Nokkuð fleiri karlar eru í heildina í framboði en konur. Það er einn listi sem skekkir þessa mynd talsvert, Píratar sem eru næstum allir karlmenn.

kynjaskipting-allir

 

Ef við skoðum bara efstu sætin sést að oddvitastaðan er í höndum karlmanna hjá öllum nema Bjartri framtíð. Theodóra er eini kvenmaðurinn sem er í efsta sæti.

Kynjaskipting 5 efstu eftir sæti á lista

 

Alls eru þetta 40 manns sem eru í efstu 5 sætunum, fjöldi kvenna í öðru og þriðja sæti dekkar skekkjuna sem er í oddvitasætinu, alls eru 20 karlar og 20 konur í 5 efstu sætunum. Ef við kíkjum á flokkana skera tveir sig út úr. Næst besti er með karlmann sem oddvita en næstu sæti eru skipuð kvenmönnum, hjá Pírötum eru 4 efstu karlmenn en í fimmta sæti er eini kvenmaðurinn á lista þeirra.

Kynsjaskipting 5 efstu eftir flokkum

Ef við skoðum alla frambjóðendur þá sést að Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafa jafnt hlutfall kynja á sínum lista. Vinstri grænir eru eini listinn þar sem kvenmenn eru í meirihluta og Píratar eru sá listi þar sem kynjaskiptingin er ójöfnust, 13 karlmenn og 1 kvenmaður.

kynjaskipting-flokkar-allir

 

Samantekt

Fjölmennasta hverfið, gamli Austurbærinn Digranes verður með nóg af fulltrúum í næstu bæjarstjórn á meðan að önnur hverfi eru ekki öll örugg með að fá einu sinni inn fulltrúa. Hærri aldur Vinstri grænna og mjög ungur aldur á lista Pírata eru aðrar stærðir sem vekja athygli. Mikil kynjaskekkja á lista Pírata er það sem helst sker í augun sem og kynjaskipting oddvitasæta.

 

Kosningarétturinn hefur ekki verið sjálfsagður í sögunni og er það ekki enn á heimsvísu, ég hvet alla til að mæta á kjörstað og í versta falli að skila auðu ef enginn kostur er þeim þóknanlegur.

 

Hjólað í vinnuna

Hjólað í vinnuna

Ákvað í dag að sýna smá pepp fyrir vinnustaðinn sem er í harðri samkeppni við annan jafn stóran.  Við fengum hnakkhlíf og tvö lítil blikkljós fyrir þátttökuna og hnakkhlífina varð fyrir valinu sem fyrirsæta í dag.

Smellti myndum inn á Instagram, taggaði og tók yfir forsíðuna á hjoladivinnuna.is í einhvern smá tíma.

isbstaff-hjoladivinnuna