Category Archives: Ferðalög

Ferðalög

Frakkland: Dagur 10

Kjúklingur í hádegismatinn og súkkulaðikaka í eftirrétt. Veðrið þokkalegt, sæmilega hlýtt og sól. Skruppum í Grand Place af því að Sigurrós bara varð að fá þennan leðurjakka sem hún sá á degi 4 þegar við komum hingað síðast. Því næst var bara haldið á lestarstöðina hérna í Grenoble og þar kvöddum við Jean með virktum.

Eftir 70 mínútna bið kom svo TGV-hraðlestin okkar á stöðina og við flýttum okkur að finna sætin okkar. Sigurrós hafði reynt að fara á gjaldklósett á lestarstöðinni en þar vantaði klósettpappír og allt frekar ógeðfellt. Í lestinni var svo sama uppi á teningnum og í fyrra skiptið, það var slökkt á vatninu á salernunum og því varð það frekar ógeðfellt þegar á leið ferðina. Ótrúlega fáránlegt dæmi, þetta var nú ekki svona slappt 1998 þegar við félagarnir vorum hérna á HM. Að auki var kortalesarinn í matsölunni bilaður og við vorum búinn að eyða mestu af gjaldeyrinum þannig að við fengum aðeins eitt lítið Toblerone þar, sem við vorum ekki lengi að klára.

Þegar til Parísar var komið vorum við stödd á Gare de Lyon-lestarstöðinni. Þar keyptum við okkur miða á Orly-flugvöll. Við sumsé tókum RER A (RER eru hrað-metro lestir, sem stöðva á færri stöðvum)frá Gare de Lyon í áttina að St. Germain en fórum út á Chatelet les Halles. Þar tókum við RER B í áttina að Antony, og fórum þar út. Þar komumst við svo í sérstaka hraðlest (Orly Val) sem fer eingöngu á milli þessarar lestarstöðvar og Orly-flugvallar.

Á Orly-flugvelli vorum við svo snögg á salernin og svo að innrita okkur, röðin í innritun var mjög stutt en þegar að við vorum að ganga burtu til að fá okkur að borða mættum við um 150 manna hópi Íslendinga, þar var á ferð hjónaklúbbur sem að fer árlega í svona fjöldaferð. Við vorum mjög fegin að hafa verið á undan þeim í innritunina, röðin sem myndaðist hlykkjaðist um stöðina nærri endilanga.

Okkur til undrunar sáum við að nú var búið að loka salernunum, heljarinnar járngrind nú komin fyrir, þarna höfðum við líka sloppið naumlega. Nú fórum við að leita okkur að æti og ekki gekk það mjög vel, eini veitingastaðurinn á svæðinu var með eitthvað sem okkur leist ekkert of vel á, barnaskammturinn leit ágætlega út, nokkrir kjúklingabitar og franskar, eitthvað sem við gátum vel hugsað okkur. Hins vegar var okkur neitað um hann, þar sem einungis börn mættu panta hann. Því kunnum við illa og héldum því för okkar áfram. Sjoppurnar voru nokkrar þarna, en þar var allt orðið galtómt, á endanum fengum við okkur tvær Oranginur og eina samloku, allt annað virtist vera búið. Nokkrum mínútum seinna lokuðu svo sjoppurnar, greinilegt að allt hætti þarna á slaginu 22:00, sem að okkur finnst undarlegt á svona alþjóðlegum flugvelli.

Síðasti viðkomustaður okkar á franskri grund var svo bóksalan í flugstöðinni, þar urðum við að kaupa fyrir lágmark 60 franka til að geta borgað með kreditkorti og keyptum við okkur einhver sætindi til að hafa í vélinni, National Geographic og teiknimyndabók á frönsku til að lesa.

Á meðan að við biðum svo eftir að vera kölluð í vélina sáum við svo þó nokkuð marga meðlima þessa ferðahóps lifa sig inn í gömlu íslensku utanferðastemmninguna, vodka- og viskípelar teknir upp og fólk staupaði sig fyrir flugið, eins og það hefur gert síðastliðin 40 ár (þetta var allt miðaldra fólk og eldra).

Í vélinni mátti svo heyra fylleríslætin í gömlu köllunum og kellingunum, á meðan að yngra fólkið var prúðmannlegt og kunni sig.

Gömlum hundum er víst erfitt að kenna að sitja.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 9

22°C og hálfskýjað.

Hádegismaturinn var quiche með skinku, ágætismatur en fengum smá brjóstsviða af honum.

Héldum út fyrir Grenoble og komum eftir smá akstur að Chartreuse-klaustrinu, reyndar safni þess. Chartreuse-klaustursreglan er ein sú stærsta í heiminum víst, og í safninu fengum við að sjá sögu hennar og upplýsingar um nunnur þess og munka.

Aðalklaustur reglunnar er rúmlega kílómeter fyrir ofan safnið, og almenningur má aðeins fara þangað fótgangandi. Við töltum því upp nokkuð bratta brekkuna að klaustrinu, þar er almenningi hins vegar bannaður aðgangur og eftir stutt stopp þar héldum við því aftur til baka.

Chartreuse-munkarnir hafa víst bruggað elixír síðan á 15. öld eða svo, og við héldum því til bæjarins Voiron í nágrenninu þar sem brugghús þeirra er staðsett. Klukkan var hins vegar orðin það mikið þegar að við komum þangað að við gátum ekki tekið túr um það.

Kvöldmaturinn var nú í boði okkar, við héldum á veitingastaðinn Rustique Auberge sem að við Sigurrós höfðum farið á áður, hún reyndar nokkuð oftar. Fyrir 10.000 krónur fengum við þríréttaðan veislumat og fínt rauðvín með. Eitthvað hefði þetta kostað mun meira hér heima.

Þegar heim var komið bauð Jean okkur upp á þennan elixír munkanna, hann átti víst flösku með honum, og reyndist þetta vera eitthvað það versta áfengi sem ég hef smakkað, nokkurs konar furunálavodki. Það eru víst um 100 mismunandi plöntur notaðar í þennan drykk, en ég hef sterkan grun um að furunálar séu mikill meirihluti hráefnis.

Því næst kvöddum við Zouzsu, hún þurfti að vakna snemma til vinnu næsta morgun og þar sem þetta var síðasta nóttin okkar myndum við ekki hitta hana aftur í bráð.

Ég kláraði svo Blue Mars, síðustu bókina í Mars-trílógíunni fyrir háttinn.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 8

Fínt veður, sól og 23°C hiti. Fórum í gönguferð um Jarrie og skoðuðum okkur aðeins um, heimsóttum svo nágranna sem að Sigurrós hafði átt í miklum samskiptum við þegar hún var au-pair í næsta húsi. Þau buðu okkur að nota sundlaugina þeirra, nema hvað að hún var íííísköld, 18°C sem er frekar kalt. Við gengum því niður mikla brekku í steikjandi sól og komum loksins að sundlauginni. Okkur til ótrúlegrar skelfingar var hún hins vegar lokuð, þarna var eitthvað starfsfólk að njóta sólarinnar í sólstólum og það tjáði okkur að síðasti dagurinn hefði verið daginn áður, nú væri sundlaugin lokuð fram til næsta sumars. Sundlaugatímabilið væri búið! Okkur Íslendingunum fannst þetta auðvitað eitthvað það ótrúlegasta sem við höfðum heyrt, sundlaugar lokaðar á veturna!

Við fengum að hringja hjá þeim til Jean svo hann gæti sótt okkur, og keyptum okkur tvo íspinna til að kæla okkur niður, ég var sjálfur alveg að deyja enda þoli ég mikla sól og mikinn hita mjög takmarkað. Síminn var fyrir framan sundlaugina sjálfa og þarna sáum við hana, vatn í henni og allt var svo heiðblátt og heillandi að það var freistandi að hoppa bara útí. Við gátum grátið að vera að deyja úr hita en fá ekki að fara í þessa æðislegu sundlaug.

Þegar heim var komið var farið í sturtu til þess aðeins að kæla sig niður. Kvöldmaturinn var svo kartöfluréttur með rjóma, ekki heldur eitt af uppáhöldunum okkar en annað var ekki í boði.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 7

Sól og 23°C hiti og nú var lagt í mikið ferðalag. Fyrst var þó borðaður hádegismatur, sem nú var brokkólíréttur, ekki alveg uppáhaldsgrænmetið mitt en ég náði nú að fá einhverja næringu.

Svo var haldið í átt að Járnkrossskarði sem er í næstu sýslu. Á langri leiðinni fórum við fram hjá miklum stífllum sem að voru í gríðarlöngum dal, merkilegast fannst mér þó að sjá hús í 45°halla á nibbum sem að ég hefði aldrei byggt sjálfur á. Þorp voru á víð og dreif í dalnum, og tré út um allt að sjálfsögðu, sást ekki í grjót neins staðar.

Undir lokin fóru fjöllin aðeins að breyta um svip, um leið og við vorum komin í Savoie-sýslu urðu fjöllin íslenskari, mosi tók við í stað trjánna og mér leið eins og heima. Brátt komum við að stað þar sem að sést í Mont Blanc í gegnum mikinn dal, gaman að sjá fjallið þó að það væri í nokkurra kílómetra fjarlægð. Þarna voru svo nokkrir fallhlífasvifmenn, sem hoppuðu fram af fjallsbjörgum og létu sig svífa í uppstreyminu.

Smá spotta frá komum við svo að áfangastað, Járnkrossskarði (??) hvar við sáum vel yfir mikinn dal og svo byrjun Alpanna handan við hann. Mjög flott útsýni, og þarna komin í 2 km hæð. Ég og Jean skruppum í smá göngutúr niður að nokkrum litlum vötnum sem voru fyrir neðan skarðið, og eitthvað varð maður andstuttur í þessari hæð af áreynslunni. Í Járnkrossskarðsskála (íslenskan er frábær!) fengum við okkur svo heitan kakóbolla áður en haldið var heim á leið.

Þegar heim var komið eftir þessa vel heppnuðu ferð ætluðum við Sigurrós í sundlaugina í Jarrie, en hættum við að ráði Jean.

Kláraði Green Mars.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 6

Leti laugardagur, Nanoo (dóttir Jean og Zsouzsu) og Alexander kærasti hennar kíktu í heimsókn. Grillað í garðskýlinu, peruís (ekki rjómaís, heldur svona glace) og svo tók ég síestu á meðan að allir frönskumælandi spjölluðu saman og spiluðu Memory.

Um kvöldið var svo vináttuleikur Síle og Frakklands (í Síle) sýndur á TV1. Zamorano var þarna að leika sinn síðasta landsleik og sýndi snilli sína á 4. mínútu með því að klobba Desailly og renna boltanum á Galdames sem að gat ekki klikkað, 1-0 fyrir heimamönnum.

Í hálfleik fékk ég svo perutertu með peruís og rauðvín að auki, ekki amalegt það.

Á 50. mínútu skora heimamenn svo skondið marka, Navia á síðustu snertinguna.

Frakkarnir ná svo að klóra aðeins í bakkann á 73. mínútu þegar að Sílemenn skipta um markmann og Trézeguet skorar.

Gaman að sjá Frakkana yfirspilaða af skemmtilegu liði heimamanna.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 5

Voðalega íslenskt veður í dag, 16°C og skýjað/rigning. Ætlun dagsins var sú að fara upp á virki sem að er á fjalli sem gnæfir yfir Grenoble og síðar í klaustur nokkuð lengra frá. Sökum þessa veðurs var því slegið á frest og fyrri hluti dags fór í bókalestur og spjall.

Hádegismaturinn var mun betri en í gær, úrvalskótilettur og að sjálfsögðu borðrauðvín með sem alltaf.

Upp úr þrjú miðdegis virtist sem að veðrinu væri að slota þannig að haldið var í virkið, þá var hins vegar svo mikil þoka að ekki sást nema 3 metra fram yfir þverhnípta fjallsbrúnina, 200 metrum neðar var svo Grenoble. Rigningin snéri svo aftur þannig að við héldum bara aftur heim á leið.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 4

Þegar við vorum í Vizille í gær keyptum við Frosties til að hafa í morgunmat. Frosties pakkinn var mun ódýrari en kornflex pakki þannig að hann varð fyrir valinu þó óhollari væri. Þegar við ætluðum svo að fá okkur kalda mjólk út á komumst við að því að það er ekki til siðs að hafa kalda mjólk í Frakklandi. Við fengum því volga G-mjólk (mjólk með geymsluþol einhverja 6 mánuði að minnsta kosti) út á morgunmatinn, sem var ekki ýkja gott.

Hádegismaturinn var svo eitthvað það versta sem ég hef smakkað, einhverjir kjötbögglar vafðir í belg, svo virtist sem kjötið væri af ýmsum tegundum dýra og misógeðslegt, mig grunar að þetta hafi verið ungverskrar ættar. Hitastigið var nú 25°C, sól en einhver ský á himni.

Jean skutlaði okkur í aðalverslunarmiðstöðina í Grenoble, Grand Place, þar ætluðum við að finna á mig ljósar buxur og stuttbuxur, en aðeins fundust ljósar khakí-stuttbuxur á mig, Sigurrós fékk hins vegar peysu á sig fyrir veturinn, og rak augun í jakka sem henni leist mjög vel á.

Fórum því næst með sporvagni frá verslunarmiðstöðinni inn í miðborg Grenoble, því förinni var nú heitið til Maríu, sem var vinnukonan á heimilinu sem Sigurrós var au-pair á. Hún og fjölskylda hennar búa við eina aðalgötu Grenoble, sem hins vegar engir sporvagnar fara að. Því fórum við gangandi frá miðbænum í átt að heimili hennar, nema hvað að þá hóf þessa líka úrhellisrigningu. Áður en við fórum að heiman höfðum við lýst yfir áhyggjum af skýjafarinu, en Jean sagði að það myndi sko ekki rigna, það væri bókað. Því höfðum við ekki regnjakkana með, en þeir hefðu komið að góðum notum. Nú upphófst merkilegur kafli þar sem við gengum búð úr búð í leit að regnhlífum, en alltaf var okkur vísað á næstu líklegu verslun. Loksins fundum við regnhlífar í stórverslun, og festum kaup á tveimur litlum og nettum. Út fórum við og höfðum regnhlífarnar uppi, auðvitað fór regninu þá að slota nokkrum mínútum síðar.

Eftir langan göngutúr um aðalumferðaræðar Grenoble komum við að blokkinni þar sem María býr. Það urðu fagnaðarfundir þegar að hún og Sigurrós hittust aftur, ég hafði hitt hana þegar ég fór út en hún talaði enga ensku og franskan mín var fátækleg þannig að samskipti okkar á milli fóru fram í gegnum Sigurrós.

Kvöldmaturinn hjá þeim hjónum Maríu og Paolo (þau eru bæði portúgölsk) var svo portúgalskur saltfiskréttur með kartöflum og ólívum. Mun betra en hádegismaturinn en samt ekki alveg uppáhaldið mitt. Hvítvín var drukkið með, og á eftir var okkur boðið að bragða púrtvín. Heimilisfaðirinn var orðinn eitthvað ölvaður, en þrátt fyrir það heimtuðu þau að skutla okkur heim, þannig að ölvaður karlmaður heimilisins settist í bílstjórasætið, ég í hitt framsætið og Sigurrós, María og synir hennar tveir fóru í aftursætið. Sem betur fer kom Paolo mér á óvart með því að vera úrvalsökumaður, besti ökumaður reyndar sem ég hef keyrt með í Frakklandi, Jean gamli hins vegar er svaðalegur í umferðinni.

Þegar heim var komið buðu Jean og Zsouzsa þeim inn, og við buðum upp á íslenskt nammi. Því var ekki ýkja vel tekið, strákarnir smökkuðu lakkrísinn en skiluðu honum strax aftur. Hvað er með þessa lakkrísómenningu þarna í Evrópu?

Eftir að María og fjölskylda hélt svo heim fórum við Sigurrós í háttinn, og ég kláraði að lesa Red Mars eftir Kim Stanley Robinson, fyrstu bókina í Mars-trílógíu hans.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 3

Sváfum loksins út, orðin vel þreytt eftir ferðalagið til Frakklands og svo þeytinginn um sveitirnar hérna í kring síðustu daga.

Klukkan 12 fórum við í Parc de Vizille, lystigarð í Vizille, sem er bær örstutt frá Champ sur Drac. Byrjuðum á Byltingarsafninu sem er uppfullt af alls konar dóti tengdri byltingunni 1789. Það var víst í Vizille sem að forsprakkarnir komu saman og lögðu á ráðin. Safnið er allt í lagi en ekkert hrikalega áhugavert, svo var skondið að hafa starfsmenn ofan í manni þegar að maður skoðaði málverkin. Hvernig ætli maður fái starf við að sitja í herbergi og passa málverkin í því, 8 tíma á dag, hverjar eru hæfniskröfurnar og hvernig er vinnumórallinn? Fara menn að tala við myndirnar?

Úti var sól og 28°C þannig að eftir skoðunarferðina fórum við í garðinn og gengum aðeins áður en við settumst á bekk, þar byrjaði ég á fyrstu bókinni af Mars-trílógíunni, Red Mars XX eftir XX. Eftir smá dvöl þar hófum við svo aftur göngutúr um þennan stóra garð, og reyndum að koma auga á hin ýmsu dýr sem þar er að finna. Þau virtust vera dugleg að fela sig fjarri girðingunum, þannig að eftir þennan duglega göngutúr fundum við okkur annan bekk og dunduðum okkur þar við lestur/bréfaskriftir þar til að klukkan varð 17 og Zsouzsa sótti okkur eins og um hafði verið samið.

Kvöldmaturinn var í léttara lagi eins og Frakka er siður, nema hvað að nú var hann mjög léttur, pönnukökur með sykri og öðrum sætindum.

Mikið þrumuveður um nóttina, nokkuð sem að maður er ekki mjög vanur frá Íslandi. Eldingar og þrumur héldu aðeins fyrir mér vöku, svo ekki sé minnst á rakann.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 2

Dagurinn tekinn snemma, vaknað rétt fyrir 9 og haldið af stað klukkan 10 í langt ferðalag. Zsouzsa átti frí í dag og því fór hún með okkur. Að auki kom vinafólk þeirra með okkur, þau Monique og Serge. Fyrst fórum við í Grands Goulets, mikið gljúfur, og gengum þar dágóðan spotta. Því næst fórum við í smá lautarferð, hitinn var 30°C og glampandi sól þannig að við leituðum að skugga, og fundum hann í skógarlaut við lækjarstraum.

Ferðinni var því næst heitið í einstæða dropasteinshella, Grottes de Choranche, sem eru í Vercors fjöllum, talsverðan spotta frá Grenoble, sæmilegur akstur þangað. Þarna eru bæði dropasteinar og dropastrá, ég efast um að orðið dropastrá sé til í íslenskum orðabókum þar sem að þetta er jarðfræðifyrirbrigði sem að finnst að ég held eingöngu í þessum hellum. Þetta eru sumsé dropasteinar sem eru örmjóir, á að giska hálfur cm í þvermál, og holir að innan, vatnið kemur innan úr stráinu og steinefnin setjast utaná, þannig að rörin lengjast bara og lengjast. Leiðsögumaðurinn stýrði ljósasýningu í hverjum hluta hellanna, ágætlega heppnað, og yndislegt að komast inn í smá kulda (12°C eða svo) úr hitanum sem var fyrir utan.

Svo var haldið heim á leið þar sem við buðum Frökkunum uppá kvöldmat með íslensku þema, flatkökur með hangikjöti og graflax með ristuðu brauði og graflaxsósu. Zsouzsa gekk reyndar fram af mér með því að fá sér graflaxinn með laukstykki og sítrónu, henni fannst íslenski mátinn ekki nógu góður.

Um kvöldið kláraði ég svo fyrstu bókina sem ég hafði með mér út, Childhood’s End eftir Arthur C. Clarke. Áhugaverð bók með góðum pælingum.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 1

Rita þetta á gamla mátann með penna á blað. Sett þetta á rafrænt form þegar ég kem heim, og svo verður um allar Frakklandsfærslurnar.

Loksins í TGV-lestinni, erum að lulla í hægagangi í gegnum alveg æðislegt franskt og friðsælt sveitahérað, með blómlegum ekrum, bóndabæjum með rauð múrsteinsþök, skóglendi, gömlum múrsteinskirkjum og allt þetta í hæðum og dölum undir steikjandi sól. Ekki eitt einasta í þessari lýsingu gæti átt við Ísland, því miður.

Þetta er búin að vera smá maraþonferð hjá okkur, vöknuðum uppúr 10 í gærmorgun og klukkan er núna 8:30, eða 10:30 að staðartíma, og því tæpur sólarhringur sem við erum búin að vera á ferðinni og þó ekki komin á endanlegan áfangastað. Síðustu 12 tímana erum við búin að vera á ferðinni, rúta frá Reykjavík til Keflavíkur, flug þaðan til Parísar, rúta á lestarstöð, metro á aðra lestarstöð og TGV lestin okkar þaðan. Á endastöð í Grenoble mun svo Jean taka á móti okkur og keyra okkur á áfangastað okkar, heimili hans í Champ-sur-Drac, sem er smábær í nágrenni Grenoble. Allt þetta hopp á milli flugvalla og lestarstöðva með farangurinn með knappan tíma til stefnu að auki er stressandi og þreytandi, en áætlunin okkar gekk fullkomlega upp sem betur fer.

Í fríhöfninni í Leifsstöð hinni stærri keypti ég mér 3 geisladiska og svo sólgleraugnadæmi til að festa á gleraugun. Svo keyptum við eitthvað af íslensku nammi til að gefa Frökkunum að smakka.

Klukkan er nú komin að kveldi, við komuna til Champ-sur-Drac var okkur boðið upp á ungverskan gúllasrétt. Gúllasið kom okkur Íslendingunum á óvart, hver einasti biti var meyrt kjöt, annað en við eigum að venjast hérna heima, jafnvel þó að keypt sé “hágæða” gúllas. Því næst tók ég síestu, Sigurrós hafði náð sér í smávegis lúr í TGV-lestinni og rabbaði því við Jean í tæpa tvo tíma, áður en ég var vakinn.

Jean var nefnilega æstur í að sýna okkur hitt og þetta, og því héldum við í langan ökutúr um Isére svæðið (Grenoble er í dal milli þriggja fjallgarða, þar á meðal Isére). Úti var sól og 30°C og við vorum ennþá að reyna að jafna okkur eftir ferðalagið langa og hitann, en ferðin var skemmtileg kynning á landsvæðinu, sem að er að meirihluta til í fjallshlíðum á þessum slóðum. Við sáum tvo ofurhuga hoppa fram af brú sem er í á að giska 200 metra hæð yfir ánni fyrir neðan, sá fyrri var nokkuð rólegur og lítið heyrðist í honum, en sá seinni (og síðasti þennan daginn) ákallaði djöfulinn og mömmu sína af miklum móð ásamt ógreinilegri öskrum.

Húsmóðirin á heimilinu, Zsouzsa, kom heim skömmu á eftir okkur. Hún vinnur á vöktum sem hjúkrunarkona og því var svolítið happa-glappa hvort að hún borðaði með okkur eða eyddi dögunum með okkur. Hún hafði tekið kvöldmatinn okkar með sér, pizza með sveppum og rjóma. Eins og að það væri ekki svolítið undarlega samansett pizza, þá tókst þeim að ganga fram af mér með því að láta hana bara kólna á meðan að farið var að vesenast í því að búa til salat sem var svo gert óætt með því að setja Vinagarette dressingu á það, það var svo borðað áður en svo mikið sem litið var á pizzuna sem að kólnaði óskaplega aumingjaleg í kassanum sínum. Þegar loks var byrjað á vart volgri pizzunni bragðaðist hún merkilega mikið eins og sveppasúpa. Rauðvín var að sjálfsögðu drukkið með, þetta rauðvín sem drukkið er dags daglega er í léttari kantinum en fínt engu að síður. 5 lítra kútur af því kostar rétt um 500 kr. íslenskar (45 frankar eða svo).

Dagurinn var búinn að vera viðburðaríkur og því vorum við þreytt og ánægð þegar að við loksins lögðumst til hvílu. Dagur 1 var búinn.