Monthly Archives: July 2002

Uncategorized

Skattmann kemur

Í dag fengu landsmenn að vita hversu mikið þeir skulda ríkinu þrátt fyrir alla blóðpeningana sem þeir hafa innt af hendi hingað til. Hjá mér voru það sjö þúsund krónur sem ég verð að gjalda, ekki mikið en kemur samt við budduna.

Garðurinn hefur ekki verið sleginn síðan að ég gerði það síðast og var orðinn all skuggalegur. Þar sem að ekki hefur verið þurrt undanfarnar vikur hef ég ekkert farið í það fyrr, en tók sénsinn í kvöld. Mér til vonbrigða var grasið enn frekar blautt og gekk því mun verr að slá en síðast. Grey sláttuvélin var farin að spúa reyk þrátt fyrir að ég hefði bætt olíu á hana, vonandi kemur þurr dagur eftir tvær vikur eða svo, annars gæti greyið brennt úr sér þá.

Áhugavert:

  • Stundum kemur vit úr kjaftaski
  • Uncategorized

    Fjármálamál

    Kláraði í gærkveldi The Road to Mars eftir Eric Idle, Monty Pythonmann. Áhugaverð bók, samsærisplott er sett í pott með með fræðilegri tilraun vélmennis til að skilja húmor og gamanleik. Talsverðar pælingar í sögunni, talsverð írónía, talsvert grín, nokkrir fimmaurabrandarar og meira til. Fín lesning, gæti kíkt á annað frá Idle við tækifæri.

    Nú eru 11 dagar þar til að við greiðum lokagreiðsluna fyrir íbúðina, því var farið af stað í dag að redda hinu og þessu. Á nú von á gullkortum, debet og kredit, bankinn sendi mér einmitt í síðustu viku boð þess efnis að þeir vildu fá mig í Sérkjör, enda skilvís með afbrigðum. Eins gott að maður vinnur með námi, námslán næðu aldrei aldrei aldrei að dekka húsnæðiskaup, nám og fæði. Sums staðar meta þjóðfélög námsfólk það mikið að það fær í rauninni laun fyrir að stunda vinnu. Eitthvað sem að við ættum að líta á, því hærra menntunarstig, þeim meiri þjóðarframleiðsla og hagvöxtur.

    Í kvöld litu tveir frændur Sigurrósar við, þeir Bjarki og Unnsteinn. Bjarka tókst að troðast í gegnum þrautirnar á Harry Potter DVD-disknum þannig að við fengum að sjá 7 atriði sem ekki voru í myndinni. Það var samt ekki verið að gera þetta voðalega auðvelt.

    Áhugavert:

  • Salon.com grabs a lifeline
  • Grein frá mér á Huga/windows
  • Uncategorized

    “En við erum svo lítil”

    Eitthvað er leiðari sunnudagsmoggans í gær aumingjalegur. Fyrst áttar höfundur (væntanlega ritstjóri Morgunblaðsins) sig alls ekkert á því hvernig það geti verið að palestínsk börn séu vannærð þar sem að þarna er tiltölulega friðsamlegt miðað við óróasvæði og hjálparstarfsmenn á hverju strái.

    Höfundurinn hefur greinilega ekki lesið copy/paste greinar Moggans frá AP og Reuters þar sem hver hjálparstofnunin á fætur annarri kvartar undan ísraelska hernum sem að gerir sitt ítrasta til að tefja líknarstarf. Íslendingi var nýlega vikið burtu af hernumdu svæðunum þar sem hann sinnti hjálparstarfi, ekki las höfundurinn neitt um það greinilega. Höfundur er greinilega ekki heldur kunnugur því að iðulega er í gangi útgöngubann dögum saman, ekkert rafmagn að finna á mörgum stöðum og því haldast matvæli ekki fersk og ekki er hægt að kaupa ný vegna útgöngubannsins. Fréttir eins og þessi sýna grimmdina.

    Fyrir utan það Palestínumenn eru stofufangar á eigin heimilum án aðgengis að mat og öðrum nauðsynjum, þá stendur nú varla uppi skóli á svæðinu. Þar myndu börnin ef til vill fá heitan hádegismat og þess háttar, en það er útilokað mál þessa og næstu mánuði. Nær allar opinberar byggingar í Palestínu eru nú rústir einar.

    Því næst fárast höfundur yfir því að einhverjir hér heima séu það barnalegir að halda að við, kotbændurnar á Íslandi, höfum einhver áhrif á gang mála þarna.Ætli svona smásálarhátt sé ekki að finna á þessari síðu alla daga, ekki les ég þetta reglulega en rak augun í þetta í gær og finnst lítið til höfundar koma.

    Við erum lítil þjóð og eigum því ekkert að vera að ybba okkur, er greinilega skoðun höfundar. Man hann ekki eftir því þegar að Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, og að eftir það flykktust önnur ríki til þess að viðurkenna það líka. Algengt mynstur í hópum fólks er að enginn vilji taka á sig ábyrgð þegar að eitthvað ber að höndum, allir bíða eftir að einhver annar geri eitthvað, en um leið og einhver einn byrjar, fara oft aðrir af stað. Einhver þarf að taka frumkvæðið, og þá skiptir ekki máli hvort að það er dvergur eða risi.

    Uncategorized

    Sólvellir

    Eftir letikast fyrir framan sjónvarpið þar sem Michael Schumacher var í sunnudagsbíltúr (lagði af stað, keyrði og stoppaði og enginn ógnaði honum) enda á langbesta bílnum, var haldið til Selfoss þar sem að við ætluðum að heimsækja tengdó í fyrsta sinn í nýja raðhúsið.

    Fórum lengri leiðina enda gott veður og sólskin. Þrengslin skemmtilegri að flestu leyti en Kambarnir.

    Íbúðin var frábær. Allt var miklu stærra en við höfðum haldið eftir að hafa legið yfir teikningunum og Sigurrós og tengdó raðað inn á teikningar öllum húsgögnunum.

    Kvöldmaturinn var svínakjöt og með matnum var fínasta rauðvín sem að Ragna fékk sem innflutningsgjöf.

    Tókum stafræna myndavél með í för, tókum nokkrar myndir sem að sendar verða til útlanda til ættingja þar til að sýna glæsislotið.

    Á leiðinni til baka voru svo nokkur myndastopp. Þessi vél var í láni, stafræn myndavél er á innkaupalistanum okkar… en nokkuð neðarlega enda dýrt tæki (100þ fyrir góða vél).

    Uncategorized

    Kennóteiti

    Mig grunar að þetta sé eitthvað sem aðeins Óli Njáll eða Stefán Pálsson geti skilið og haft gaman af… ekki náði ég reglunum…

    Fór í gær og keypti slökkvitæki og eldvarnateppi. Eldverk reyndist vera í eigu Öryggismiðstöðvar Íslands sem að sífellt virðist stækka og stækka.

    Las í gærkveldi The World Jones Made eftir Philip K. Dick. Fín lesning, pælingar um heiminn eftir kjarnorkustyrjöld og þar sem að hvers kyns trúarbrögð eru bönnuð geti þau ekki sannað staðhæfingar sínar. Þá kemur fram spámaður sem að sér ár fram í tímann og getur sannað það… málin flækjast talsvert við það.

    Í dag hins vegar var því tekið rólega framan af. Fórum í sund í Árbæjarlaug og þar fékk ég vægan hausverk af klórnum (sem var mikill) og látunum sem voru inni. Laugin sjálf er skemmtileg en þessi búningaaðstaða er síðasta sort… hvernig væri að koma upp skápaaðstöðu þarna eins og hjá öðrum siðuðum sundlaugum?

    Kvöldmatur var borðaður á Indókína. Þar komumst við að því að með því að fara á staðinn borgar maður 50% meira fyrir mun minni mat en ef maður pantaði heim (sem við gerum stundum). Næst pöntum við heim eða förum á Nings held ég.

    Í kvöld er Sigurrós með teiti fyrir stúlkur úr Kennó. Ég verð líklega eini karlmaðurinn á svæðinu.

    Áhugavert:

  • Net Users Try to Elude the Google Grasp
  • Uncategorized

    Föstudagur

    Las í gærkveldi We Can Build You eftir Philip K. Dick. Mun skemmtilegri stíll en hjá Gibson. Konurnar hjá PKD virðast vera í svipuðu fari, annað hvort vélmenni eða jafn stífar og vélmenni. Bókin er pæling um geðheilbrigði og tilverurétt vélmanna, ef að ég gerist djarfur og súmmera mjög gróft efni bókarinnar. Sæmilegasta lesning. Fleiri PKD bækur liggja á náttborðinu, verð að klára að lesa þær áður en ég skila þeim á Borgarbókasafnið.

    Áhugavert:

  • The Jackson Jive
  • Uncategorized

    Stöðnun og afturfarir

    Las í gærkveldi bókina Virtual Light eftir William Gibson. Framtíðarpæling nokkur ár fram í tímann þar sem heimurinn hefur leyst upp í hundruð smáríkja, Ítalía og Kanada til dæmis ekki lengur til sem heild. Stíllinn er frekar tyrfinn, mér finnst þetta ekki mjög skemmtilegur stíll en þrælaðist þó í gegnum hann. Sagan er áhugaverð en eftir talsverða uppbyggingu smellur allt of vel saman og of auðveldlega, eins og Gibson hafi ekki nennt að skrifa meira og bara ákveðið að slútta þessu. Mæli ekkert sérstaklega með þessu sem lesningu nema í neyð.

    Ég og Geir virðumst vera jafn hrifnir af því fólki sem nú situr á Alþingi. Líklega er ágætis fólk þarna inn á milli en það er þá ekki að láta mikið í sér heyra. Spurningin er hvort að stofnun nýs stjórnmálaafls sé fýsileg? Hef lengi rætt þetta við aðra en málið er að svona nokkuð krefst kjarna fólks sem að er skynsamt og vill vinna. Þó að maður sé sammála einhverjum hópi fólks um mörg atriði þá eru einhver málefni sem að ágreiningur er um og þá þarf skynsemi til að meta hvað gera skal. Þá er auðvelt að detta í foraðið sem er japl, jaml og fuður með málefni og hrókeringar hægri vinstri. Þannig lagað þarf að viðhafa, en þetta er líka það sem geldir hreyfingar.

    Flókið mál en umhugsunarvert, það væri hræðilegt að þurfa að skila auðu í kosningunum af því að ekkert sem í boði væri ætti atkvæðið skilið.

    Ef að við spornum ekki við óheillaþróuninni þá erum við á sömu leið og heimurinn, aftur í miðaldir þar sem allt var alþýðu bannað og allir aðrir en “við” hataðir.

    Áhugavert:

  • Örgjörvi úr hænufjöðrum
  • Uncategorized

    Níðingar og aumingjar

    Í dag fór bíllinn í handbremsugræjun, ég er það mikill sómaökumaður að ég snerti aldrei handbremsuna og þarf því reglulega að skipta um barka þar sem hann ryðgar að innan. Aðeins öðruvísi handbremsunotkun þekkist hjá tveimur bræðra minna…

    Uppfærsla: Upp úr hádegi kom frétt á Textavarpinu þess efnis að utanríkisráðuneytið fordæmdi atburðina. Endilega elta lestina krakkar… fyrst að þið getið ekki betur. Hnuss.

    Það var reyndar eitt í gær sem að var alveg makalaust. 1 tonna sprengja látin falla í íbúðarhverfi, nokkuð sem að Hollywood-mynd hefði ekki vogað sér að gera. Ísraelsmenn ákváðu að drepa (án dóms og laga!) háttsettan mann í Hamas-samtökunum, og létu því þessa leysistýrðu bombu falla. Það að 13 aðrir létust, þar af 9 börn sem voru bara á heimilum sínum, var eitthvað sem að þeim fannst ekkert tiltökumál og Sharon fannst þetta frábærlega heppnuð aðgerð.

    Svona geðsýki var auðvitað fordæmd af ESB, Norðmönnum og Svíum og meira að segja Bush sagði að þetta væri kannski ekki alveg nógu sniðugt. Íslendingar þegja áfram þunnu hljóði… kannski finnst þeim Halldóri og Davíð ísraelskar appelsínur það góðar að þeir þora ekki að fordæma svona níðingsverk ef ske kynni að Ísraelar myndu hætta að selja okkur ávextina. Íslenska ríkisstjórnin – aumingjar Íslands ehf.

    Áhugavert:

  • A fool’s paradise for CEOs?
  • Segway – is it any good?
  • Uncategorized

    Dagur

    Bara einn af þessum fjöldamörgu dögum lífsins sem eru fyrir fátt merkilegir. Fékk reyndar að sjá hvílík þrusuvél þetta er sem ég er nú með í vinnunni, vélakosturinn heima er nærri því eins og ritvélar nú í samanburði. Hentum svo upp [VIT]CStrike aftur, alltaf fjör í vinnunni.

    Af nógu væri að taka ef ég færi að andvarpa yfir heimsku, vonsku og aulaskap heimsins, en mér entist líklega ekki aldur til þess ef ég færi að hlaupa yfir það helsta sem að fékk mig til þess að hrista hausinn í dag. Ég er enn að melta nokkrar stórar ritgreinar með mér.

    Uncategorized

    The Sweetest Thing og Big Fat Liar

    Það þarf ekki mikið til að gleðja mann í vinnunni, 41GB diskur bættist við herlegheitin og vélin nú orðin að toppvél.

    Horfði í kvöld á The Sweetest Thing með stórleikkonunni Cameron Diaz. Fínasta sæt rómantísk fíflagangsgamanmynd. Sæðisbrandari og typpabrandari á sínum stað, enda var myndin stranglega bönnuð börnum í Bandaríkjunum, engin blóðug morð og ýjað að kynferðismálum er mun verra en blóðug morð og skírlífi.

    Seinni mynd kvöldsins var Big Fat Liar með Frankie “Malcolm” Muniz í aðalhlutverki. Þokkalegasta dægradvöl, amerísk krakkamynd þar sem vondi kallinn fær á baukinn hvað eftir annað og allt endar vel.