Uncategorized

Jákvæð neitun?

Ætli maður taki ekki örfáa klukkutíma í jólafríinu til hliðar og uppfæri dagbókarkerfin. Það er neitun í setningunni og samt þýðir hún að ég muni taka frá tíma? Eitthvað flókið spurningardæmi… ætli?

Tölvuleikir

Er hægt að lögsækja einhvern fyrir það sem gerist í tölvuleik? Það er ein þeirra spurninga sem reynt verður að svara á ráðstefnu í New York. Margir leggja gífurlegan tíma og mikla vinnu í að skapa sinn eigin heim í ýmsum netleikjum og í mörgum þeirra er hægt að missa allt á augnabliki, vegna svika eða annars. Það leggst auðvitað þungt á marga sem hafa lagt þetta mikið á sig, mér finnst þetta svo sem alveg sambærilegt við þá sem skrifa ritverk sem hverfa svo. Spurningin er hins vegar sú hvort þú getir farið í mál við þá sem ollu þér tjóninu?

Skóli

Síðastu skilin voru í morgun, við héldum fyrirlestur og ég kom vel út úr þessu þrátt fyrir lítinn svefn. Síðasti skóladagurinn á morgun, svo eru það próf í næstu og þarnæstu viku og strax á eftir þeim er það 3 vikna hörpunámskeið… hörpu sökum árstíðar, ég er ekki að fara út í músíkina.

Einkalíf

Keypti hræódýran DVD-spilara í dag, Samsung er ekki búið að bíta úr nálinni með bilaða ofurspilarann okkar en þangað til verður 7 þúsund króna spilarinn að duga.

Uncategorized

Nú flokkað!

Hmmm… pæling að fara að koma upp flokkunarkerfi á dagbókarskrifunum.

Tölvumál

Enn ein Linux útgáfan og hún virðist vera með gífurlegan stuðning á bak við sig. Góðar fréttir þar sem Rauðhöttar eru að færa sig af almennum markaði yfir í fyrirtæki.

Það eru víst nokkur ár í það að við gleraugnafólkið getum fengið okkur minnisgleraugu en þau virðast vera sniðug.

Pólitík

Einn ríkasti maður heims, George Soros, heldur áfram að leggja pening í það að koma Bush frá völdum. Hann segir aðferðir og bullið sem viðgengst hjá Hvíta Húsinu minna sig verulega á nasistana sem hann flúði á sínum tíma.

Gamanmál

Nokkrir hafa bent á fyndna frétt The Onion um mömmuna sem fann blogg sonar síns. The Onion er í svipuðum dúr og Baggalútur. Held reyndar að Baggalútsmenn hafi sótt eitthvað til The Watley Review. Aðrir álíka vefir eru til dæmis Glossy News og Broken Newz. Hægt að finna lista yfir fleiri álíka vefi hér.

Íþróttir

Í tilefni þess að heiðra á “Sir” Charles Barkley hefur NBA komið upp síðu um kappann og tíma hans hjá Phoenix Suns. Þetta voru góðir tímar þó að tapið fyrir Chicago í leik 6 hafi lagst þungt á mig.

Daglegt líf

Það er alltaf til nóg af fólki sem reynir að gera lítið úr öðrum og það nýjasta í Ameríkunni er að háskólastúdentar alhæfa um hina með því að skoða hvaða lög þeir hafa í iTunes hjá sér. Það er nefnilega hægt að deila safninu sínu með öðrum (sem geta þá hlustað á þína tónlist) og tískukapphlaup um tónlistarsmekk virðist hafa hafist. Æðislegt.

Einkalíf

Pabbi kom í kvöld með sófa sem Guðbjörg var að losa sig við, okkur tókst að drasla þessu flykki upp stigana með ýmsum fettum og brettum. Þegar hann var svo kominn á sinn stað stækkaði stofan okkar til muna!

Uncategorized

Ástarbréf, afsakanir, fótbolti og nöldur

Búið er að gefa út bók með ástarbréfum tveggja elskenda sem gátu ekki eytt ævinni saman eins og þau vildu. Það sem virðist merkilegast er að þetta er á seinni hluta 18. aldar en af bréfaskrifunum að dæma (sem eru víst verulega góð) voru þau fólk sem hefði passað vel inn í 21. öldina. Þeirra ólán var að vera aðeins á undan sinni samtíð og í Feneyjum sem voru hnignandi stórveldi.

Sven Göran Eriksson er búinn að tilkynna enska landsliðshópinn fyrir vináttuleik við Dani og hefur bara tilnefnt þrjá sóknarmenn, Wayne Rooney, Emile Heskey og Darius Vassell. Rooney liggur reyndar með flensu sem þýðir að Heskey og Vassell eru einir til taks. James Beattie hjá Southampton komst ekki á listann þó að hann sé búinn að skora fleiri mörk á tímabilinu en þessir þrír til samans. Ég held að Eriksson sé ekki alltaf í sama heimi og ég. Hann er reyndar í stjórastólnum en ekki ég. Hins vegar höfum við unnið jafn marga titla með landsliðum 🙂 (enga!).

Nú er búið að tilkynna hverjir eru tilnefndir sem Knattspyrnumaður Evrópu . Minn maður Nedved á nú alveg að taka þetta. Finnst reyndar skrítið að konur fái ekki svo mikið sem eina tilnefningu af þessum fimmtíu?

Næsti tengill er á grein um Howard Dean og Ronald Reagan. Ronnie kallinn sem er í MIKLU uppáhaldi meðal Flokksmanna hér á landi lýsti margoft yfir stuðningi við aðskilnaðarstefnu Suðurríkjamanna og taldi að eyðni væri refsing homma fyrir kynvillu sína. Frábær fyrirmynd allra sannra Flokksmanna.

Las einmitt pistil í Mogganum í dag þar sem spyrt var saman samkynhneigð, sadómasókisma, vændi, nauðgunum, sjálfsvígum og ég veit ekki hverju. Hvar nákvæmlega samkynhneigð og sadómasókismi koma inn í þennan ofbeldispakka veit ég ekki? Sjáum til hvort greinarhöfundur geti svarað því.

Uncategorized

Góðir dagar með Rauðhatti

Já, þá er ég bara ekkert búinn að keyra upp Windows á vélinni minni í allan dag!

Ég nota iðulega Mozilla fyrir vefráp og tölvupóst og það er að sjálfsögðu til á Linux. Ég hef verið að nota OpenOffice (nota reyndar svona skrifstofubúnað nánast ekki neitt) og það er auðvitað líka til á Linux.

Svo sótti ég mér stuðning fyrir NTFS-skráakerfi og mp3-hljóðskrár og get því skoðað innihaldið á Windows-drifunum og spilað alla tónlistina sem ég á tölvutæka, sakna reyndar iTunes aðeins!

Er svo í sambandi við alla sem eru á MSN í gegnum Psi spjallforritið sem er með Messenger stuðningi meðal annars.

Þetta er líklega 3ja tilraun mín til að nota Linux sem vinnuumhverfi og í hvert sinn kemst ég lengra en áður. Slatti af forritum sem ég á og nota á Windows reyndar þannig að maður er ekki alveg sloppinn en þetta er samt verulega sætt.

Uncategorized

Forritað í emacs

Sko til, þá er maður að gera verkefni í emacs í XWindows-gluggaumhverfi á Linux.

Oft reynt að gera Linux að aðalstýrikerfinu en það er alltaf í öðru sæti sem vinnuumhverfi, vef- og póstþjónarnir mínir hafa hins vegar keyrt Linux í fjölda ára.

Uncategorized

Jessica Lynch

Loks er maður kominn í málstofur í háskólanáminu þar sem gert er meira af því að finna heimildir og lesa þær en að kjagast í gegnum sama textann ár eftir ár. Þessi hluti annarinnar hefur verið ánægjulegur. Bóklegu fögin eru “same old”, eitthvað sem þarf að klára.

Við gagnaöflun rekst maður oft á ritgerðir sem eru á .ps formi (PostScript). Þá er nú flott fyrir okkur sem erum aðallega á Windows að fá ókeypis skoðara eins og ROPS til að geta lesið þær. Stóri bróðir þess er svo GhostScript en ég hef aðrar hugmyndir fyrir það… tengdar lógóum.

FCM Bacau var um tíma undir verndarvæng WFO þar sem við vorum að reyna að koma þeim í gang á netinu. Þeir eru nú í fréttunum fyrir að hafa verið orðnir of fáir inn á vellinum til að geta lokið leiknum af. 3 reknir út af, 2 meiddir, 6 manns gegn 11 er mjög tæpt og reyndar ólöglegt samkvæmt knattspyrnulögunum.

Jessica Lynch greyið reynir að gera sem minnst úr því sem kom fyrir hana í Írak. Pentagon hins vegar sá þarna alveg brilljant tækifæri til að koma með áróður og gerði hana að hetju og nú er búið að búa til sjónvarpsmynd um hana sem er víst slatti langt frá sannleikanum en alveg samkvæmt því sem Pentagon laug um hana.

Held ég skrifi bara Dabba og Dóra og spyrji þá hvaða sannanir Pentagon hafi sýnt þeim til að tryggja stuðning okkar, það er greinilega engu trúandi að vestan síðan að Rumsfeld dúkkaði aftur upp.

Jú sko, búinn að senda þeim afar kurteist bréf þess efnis. Áhugavert að vita hvort þeir lesi sjálfir póstinn sinn?

Uncategorized

Kjarakaup, dugnaður og bland í poka

Ha! Sko, 2600 krónur færðu okkur 72 mjúkar klósettrúllur, rúllan á 36 krónur. Nemendur Háteigsskóla fara sér vonandi ekki að voða erlendis með þetta fé.

Núna eru dugnaðardagar í gangi, gengið í þau verkefni sem eftir eru og reynt að klára vel fyrir dauðlínur (hmmm… deadline bókstafsþýðist greinilega illa).

Bush toppar sig alveg, gagnrýnir Íran (sem er með meiri lýðræðisríkjum 3ja heimsins þó þeir séu ekki barnanna bestir) fyrir að vera ekki með lýðræði á meðan að Sádar eru góðir gæjar (vandfundnara meira einræðisríki),
Simpson-þættirnir hafa gefið ýmsum mönnum hugmyndir, einn hefur búið til tómbakk (tómatur + tóbak) plöntu og svo er annar sem gerði tilraunir með bjór og Skittles.

Stærsti ísjakinn hefur nú klofnað í tvennt. Hann drap víst 75% allra mörgæsa í einhverri nýlendu þeirra með því að loka á aðgang þeirra að sjó hér um árið.

Uncategorized

Guli miðinn

Hmmmm…. ekki verri staður en hver annar til að minna mig á að hafa handbært fé á morgun fyrir söfnun.

Uncategorized

Geisp

Úff.. búið að vera nokkuð slitrótt undanfarna 40 tíma eða svo, náði að leggja mig í klukkutíma í morgun, svo var hamast við að ná að skila klukkan 11 og það náðist. Í gærkveldi skilaði ég 10%, í morgun 20% og þá er þetta námskeið búið að mestu. Bara eftir að fá að vita hvernig gekk (er þegar komin með 10 fyrir 20% verkefni).

Hrafnkell var mikil hjálparhella undir lokin og líklega einn sá færasti hér á landi til að lesa yfir þessi fræði.

Lagði mig svo eftir skilin og svo var það vinnan. Held ég skríði snemma upp í rúm, það eru 60% eftir í verkefnum í öðru fagi!

Ekki veit ég hvort að eldhnötturinn okkar leit út eins og þessi. Við vorum lengra í burtu.

Uncategorized

Blestyashchiye

Enn hefur enginn séð aumur á okkur og útskýrt með fullri vissu hvað þetta var í gær. Hrafnkell sá þetta líka. Mig grunar lofstein eða geimbrak en Hrafnkell sagði að þetta hefðu verið tveir hlutir sem voru stopp í loftinu? Ég er nú ekkert að fara að elta einhver geimskip en vildi gjarnan fá staðfestingu á hvað þetta var.

Skýrsluvinna í fullum gangi, skil á morgun. Fingur krosslagðir.

Ég er með smá súpu af tenglum annars, við getum lesið um Ástralina sem virðast á góðri leið með kosningavélar (ólíkt Bandaríkjamönnum sem eru að skíta verulega á sig).

Svo eru það dúkkurnar með “attitjúdið”, þar með talin hommadúkkan Elton.

Einnig má lesa pistil um rússneskt popp, stelpuböndin þar heita hinum þjálu nöfnum Blestyashchiye (Birta?) og Slivki (Rjómi) og allir poppararnir virðast vita vonlausir. Samt halda Rússarnir tryggð við þá. Sel ekki álitið dýrara en ég afritaði það en það er víst að til er nóg af vita vonlausri popptónlist.

Aðdáendur Guðjóns Þórðarsonar geta svo hlýtt á hann ræða málin eftir hvern leik Barnsley, hér talar hann um síðasta leik.

P.S. Aldurinn er að ná mér, textastærð hefur verið stækkuð á síðunni.