Monthly Archives: July 2005

Uncategorized

Da Vinci, lax, einhyrningur og fornrapp

Þar sem ég velti mér um í sjúkrabeði mínu, með hita og fleiri krankleika, þá endist ég oft í fátt annað en að glápa á sjónvarp. Tölvur og bækur eru mun erfiðari viðfangs í veikindum.

Síðasta sunnudag sá ég þátt sem verður endursýndur næstkomandi sunnudag, Unlocking Da Vinci’s code. Þetta er eitthvað versta rusl sem ég hef séð á þessari ágætu stöð. Spyrillinn/þulurinn Elizabeth Vargas er hrikaleg og atriðin þar sem hún endurtekur í hneykslunartón orð viðmælandans og rúllar augunum ættu að vera kennsluefni í “Hvernig á ekki að gera heimildaþætti”.

Í veikindum mínum hafa landsmenn notið sólarblíðu, þeim er bent á að til að brenna ekki er ráðlegt að borða lax og aðra fæðu sem inniheldur Omega-3 fitusýruna. Hún ku víst vera mjög öflug sólarvörn.

Við höfum nú opnað á myndahluta Brúðkaupsins. Þeir sem eru enn í makaleit ættu að hafa þessar vísindalegu niðurstöður í huga… gefið konum gjafir sem endast ekki. Þetta á víst að minnka hættuna á að giftast konu sem er bara gullgrafari.

Eitt af því sem að ég er mjög viðriðinn í vinnunni er að geyma safnmuni á stafrænu formi. Þegar maður les um Capturing the unicorn fyllist maður lotningu… ekki erum við með svona fín tæki hjá okkur.

Að lokum, hálf vinnutengt líka, Chaucer’s tales become rap songs. Spurning um að prufa þetta með fornsögurnar? DJ Ari með Sturlungarapp?

Uncategorized

Kettir og umferð

Þá er búið að finna hvers vegna kettir eru svona matvandir… þeir finna ekki sætt bragð og eru því frekar önugir! Mig grunar að kattaelskandi súkkulaðiháðar kattakonur gráti katta sinna vegna núna.

Ætlaði að fara upp Laugaveginn framhjá Hlemmi í dag en þá er bara búið að útlandavæða Hlemm og breyta leiðinni í risa-stoppistöð. Mér sýnist nýja leiðarkerfið ekki gagnast mér til að komast til vinnu innan klukkustundar hvora leið og held því áfram að vera á bílnum.

Uncategorized

Ég um mig

Jákvæðar fréttir úr fótboltanum, Homeless world cup kicks off og Old’un Athletic. Of mikil neikvæðni í gangi þessa dagana í kringum íþróttina.

Þar sem maður er að stilla sig inn á að fara að vinna aftur eftir brúðkaup og hveitibrauðsdaga þá dundaði ég mér aðeins á netinu á meðan að ég hlóð inn myndum frá ferðinni. Samkvæmt þessu persónuleikaprófi þá er ég INTJ týpa sem að er víst dæmigerður vísindamaður, rökréttur snillingur og fleira. Týndi saman nokkur uppáhaldsbrotin mín, sem mér finnst eiga ágætlega við mig og útskýra kannski fyrir öðrum af hverju ég er stundum eins og ég er 🙂

the INTJ is driven to translate their ideas into a plan or system that is usually readily explainable, rather than to do a direct translation of their thoughts. They usually don’t see the value of a direct translation, and will also have difficulty expressing their ideas, which are non-linear.

Other people may have a difficult time understanding an INTJ. They may see them as aloof and reserved. Indeed, the INTJ is not overly demonstrative of their affections, and is likely to not give as much praise or positive support as others may need or desire. That doesn’t mean that he or she doesn’t truly have affection or regard for others, they simply do not typically feel the need to express it. Others may falsely perceive the INTJ as being rigid and set in their ways. Nothing could be further from the truth, because the INTJ is committed to always finding the objective best strategy to implement their ideas. The INTJ is usually quite open to hearing an alternative way of doing something.

Masterminds are the most open-minded of all the types. No idea is too far-fetched to be entertained-if it is useful. Masterminds are natural brainstormers, always open to new concepts and, in fact, aggressively seeking them.

To outsiders, INTJs may appear to project an aura of “definiteness”, of self-confidence. This self-confidence, sometimes mistaken for simple arrogance by the less decisive, is actually of a very specific rather than a general nature; its source lies in the specialized knowledge systems that most INTJs start building at an early age. When it comes to their own areas of expertise — and INTJs can have several — they will be able to tell you almost immediately whether or not they can help you, and if so, how. INTJs know what they know, and perhaps still more importantly, they know what they don’t know.

Furðu margt þarna sem passar við mann… auðvitað ekki algildur sannleikur en þetta virðist gefa ágætlega grófa mynd af mér eins og ég held að ég sé… það er svo annara að dæma… en það er ekki eins og mér sé oftast ekki slétt sama um hvað aðrir dæma mig! 😉

Að lokum, einn illkvitnislegur tengill á snúinn leik!

Uncategorized

Lögregluríkin

Jæja. Kominn heim frá Frakklandi. Í París er enginn skortur á hermönnum og vopnuðum lögreglumönnum sem rölta um með vélbyssur og rifla. Þeir eru gífurlega paranojaðir þessa dagana og ég vorkenni Parísarbúum þegar að þeir lentu í því ítrekað að þeim var meinaður aðgangur að sínum eigin götum.

Það jafnast þó ekki á við það að skjóta mann fimm sinnum í hausinn.

Afsökunin sem að maðurinn sem skipaði “shoot to kill” ætti að vera í gangi, Lord Stevens er svohljóðandi:

But we are living in unique times of unique evil, at war with an enemy of unspeakable brutality, and I have no doubt that now, more than ever, the principle is right despite the chance, tragically, of error.

Þetta er einhver hrikalegasta setning sem ég hef heyrt! Þarf aðeins að grafa í George Orwell og Aldous Huxley bókunum mínum til að sjá hvort að þetta er ekki orðrétt úr þeim… mig minnir það sterklega.

ÞETTA ER EKKI SVARIÐ! Vilt þú verða næsta saklausa fórnarlambið? Skotinn af lögreglu/her af því að þú virtist grunsamlegur? Ef að þeir höfðu rangt fyrir sér þá er það bara “sorrý, en við drápum þig til að bjarga öllum hinum… sem voru ekki í hættu”.

Uncategorized

Giftur

Eða var ég kvæntur? Giftast ekki konur og menn kvænast?

Jæja, hvort svo sem það er þá er ég eigi lengur maður einsamall heldur erum við saman einn maður (samkvæmt prestinum). Mér finnst nú skemmtilegra að hugsa um okkur sem sitthvort heldur en sem einn mann samt 😉

Mynd komin á brúðkaupsvefinn. Nú er allt á milljón og við höfum ekki einu sinni haft tíma til að kíkja á gjafirnar ennþá.

Allt tókst framar vonum og dagurinn var frábær, takk fyrir okkur!

Uncategorized

7. júlí – sitt hvor heimurinn

Yfir 40 manns drepin í sprengingum í Bretlandi. Fjölmiðlar upp til handa og fóta, þeir bresku mjög stóískir reyndar enda vanir IRA-sprengingum áður fyrr.

Yfir 40 manns drepin í Írak. Fæstir eyða orðum í það. Nema BBC, besti fjölmiðill heims. Sláandi tölur á þessari síðu. Til dæmis eru 50% án aðgangs að öruggu drykkjarvatni. (Sem minnir mig á Pawel Bartoszek og idjótíska grein hans á Deiglunni).

Hryðjuverkin eru auðvitað ámælisverð, bæði í Bretlandi og Írak sem og annar staðar þar sem tugir manna létu lífið í dag, fyrir hendi hryðjuverkamanna sem ýmist báru borgaraleg klæði eða herklæði ríkja.

Þegar IRA sprengdi London árum saman hlupu íslensk stjórnvöld ekki upp til handa og fóta og gerðu okkur lífið enn erfiðara.
Þegar al-Qaida sprengdi London gerðu þau það hins vegar.

Þetta verður notuð sem næsta afsökun þegar að lögreglan fer að keyra um á hlustunarbílum… Stóri bróðir er kominn ofsalega nálægt okkur í dag eins og Deiglan bendir á. Íslenskir fjölmiðlar eiga að skammast sín fyrir að stemma ekki stigu við alræðishyggju framkvæmdavaldsins.

Fjöldi hryðjuverkamanna á Íslandi síðustu áratugi: 1 (Paul Watson og hann slapp billega).

Bók dagsins:
Take life in the large view, and we are most reasonable when we seek that which is most wholesome and tonic for our natures as a whole; and we know, when we put aside pedantry, that the great middle object in life—the object that lies between religion on one hand, and food and clothing on the other, establishing our average levels of achievement—the excellent golden mean, is, not to be learned, but to be human beings in all the wide and genial meaning of the term.
On Being Human by Woodrow Wilson

Uncategorized

Tungumálafimleikar

Ég skil vel að fyrirsögninni “Norðmenn taka æ meira upp í sig” hafi seinna verið breytt í “Munntóbaksnotkun Norðmanna eykst hratt” á Textavarpinu!

Einnig er þessi síða bráðfyndin. Þarna eru birt skjáskot úr sjóræningjaútgáfu af Star Wars:Episode III, sem hefur verið þýdd yfir á ensku úr kínverskri þýðingu.

Fæst af textanum virðist skila sér eftir að hafa farið í gegnum þessa tvöföldu þýðingu.

Bók dagsins:
Winter Evening Tales, by Amelia Edith Huddleston Barr

Uncategorized

Bók dagsins

Bók dagsins:
Adventures of Tom Sawyer by Mark Twain (einnig fáanleg í hljóðformi)

Ókeypis sem fyrr!

Uncategorized

Syngjandi hundar…

Einhvern veginn varð mér hugsað til Björns Bjarnasonar og Geir Jóns lögregluvarðstjóra þegar ég sá þessa snilld.

Bók dagsins:
The War of the Worlds by H. G. Wells (einnig fáanleg í hljóðformi).

Bæði ókeypis sem fyrr!

Uncategorized

Distributed Proofreaders!

Hvað er það sem að á nú hug minn hálfan? Ja ég skal bara segja frá því. Þetta er voldug færsla en svo stútfull af upplýsingum og áhugaverðu efni (að mínu mati) að það er vonandi enginn svikinn af því að nýta 2-3 mínútur í að renna yfir þetta.

Öll þessi upptalning er þó bara ein leið til að kynna fyrir fólki það að með því að nota vafrann sinn geti það lagt sitt af mörkum á einfaldan máta til að byggja besta bókasafn heims. Jafnvel þó að viðkomandi leggi bara eina síðu af mörkunum, þá er það vel þegið framtak! Best er líklega að skoða myndirnar sem er að finna neðst til að sjá hversu einföldum hlut þessi roknafærsla lýsir.

Þeim sem hafa litla þolinmæði en vilja vita af hverju ég tengi á Leiðarvísir í ástamálum: II. fyrir ungar stúlkur og hvað ég hef verið að bauka geta svo hoppað á viðeigandi stað í færslunni.

Distributed Proofreaders

Hvað er þetta?
Þetta er vefur sem rekinn er af sjálfboðaliðum. Sumir þeirra skanna inn gamlar bækur eða skjöl og senda inn. Þar tekur einhver ábyrgð á bókinni/verkinu og kemur því í ferlið. Endaútkoman er svo yfirleitt tvær rafrænar útgáfur af verkinu, annars vegar snyrtileg vefsíða, með myndum ef við á, og hins vegar einföld og hrá textaskrá. Þeim er svo komið fyrir á Project Gutenberg, sem er gríðarlega metnaðarfullt verkefni sem er í raun ókeypis bókasafn á netinu. Þar má lesa verk Shakespeare í ýmsum útgáfum og þýðingum og sama á við verk Hamsuns og ótal fjölda annara rithöfunda, finna ævafornar uppskriftabækur, manntöl, barnabækur (til dæmis Little Lord Fauntleroy) og svo margt margt margt fleira!

Til hvers er það?
Distributed Proofreaders (sem ég hef þýtt sem Dreifðir prófarkalesarar) er vettvangur fyrir almenning til að leggja sitt af mörkum til þessa glæsilega verkefnis sem Project Gutenberg er. Þetta færir okkur nær því sem margir hafa óskað eftir, að hver sem er getur kallað fram næstum hvaða texta sem er fram hvar sem hann er. Verkamaður í Pittsburgh í Bandaríkjunum getur sest við tölvuna sína og kitlað forn-ensku áhuga sinn með því að lesa Bjólfskviðu, amma í Glasgow getur fundið barnasögu og prentað hana út og lesið fyrir barnabörnin sín, japanskur áhugamaður um Da Vinci getur kynnt sér glósur hans, ítölsk kona getur lesið ljóð um sléttur Karolínufylkis í Bandaríkjunum og íslenskur áhugamaður um Filippseyjar getur lesið ekki bara bindi 1 og upp úr um sögu Filippseyja 1500-1800 heldur líka kynnt sér þjóðsögur þaðan og svo margt margt fleira.

Hvað er þarna?
Á vef DP er að finna umhverfi sem leyfir hverjum sem er að byrja að leggja sitt af mörkum. Sumir gera það vegna svipaðra hugsjóna og er lýst að ofan, aðrir hafa náð sér í gífurlegt efni af Project Gutenberg og vilja þakka fyrir sig með því að leggja til vinnu, sumir fá þarna útrás fyrir þörf sína til að leiðrétta villur í texta sem þeir sjá og sumir líta á þetta sem góða leið til að lesa ótrúlegustu hluti sem þeir myndu aldrei annars rata í, enn aðrir horfa svo til fjölda síðna sem þeir hafa prófarkalesið og eru í endalausri keppni um að komast ofar á listann. Ástæðurnar fyrir því að fólk leggur sitt af mörkum eru margar og misjafnar rétt eins og verkefnin sem þangað rata. Ég mæli sterklega með því að fólk lesi að minnsta kosti fyrstu síðuna í þessari umræðu þar sem nokkrir þátttakendur segja frá hvers vegna þeir nýta frítíma (og stundum vinnutíma) sinn í þetta.

Hvernig gera þeir þetta?
Það skref sem flestir taka þátt í er að opna eina blaðsíðu og leiðrétta textann sem kemur úr ljóslestrinum (þegar tölva les mynd af blaðsíðu og reynir að herma eftir, nefnist OCR á ensku). Aðeins þarf að hafa nýlegan vafra (Internet Explorer, Firefox, og svo framvegis) til þess að geta tekið þátt í þessu. Margir hafa nokkra dauða tímapunkta á hverjum degi sem þeir nýta með því að lesa yfir eins og eina eða fleiri síður. Eftir tíu mínútna setu geta þeir slökkt á vafranum og snúið sér að öðru, vitandi það að þeir hafa lagt sitt af mörkum í verkefni sem næstu ættliðir munu geta nýtt sér.

Hvert verkefni fer í gegnum að minnsta kosti tvær umferðir af prófarkalestri, um seinni umferðina sér einhver sem hefur sannað sig og sýnt að honum er annt um að gera sitt besta til að skila efninu frá sér. Að prófarkalestri loknum tekur einn einstaklingur við efninu, raðar blaðsíðunum saman, snyrtir textann til og skoðar hvort að prófarkalesturinn hafi ekki skilað árangri. Hann skilar svo frá sér vefsíðu og textaskjali sem mun enda á Project Gutenberg. Á eftir honum kemur svo lokaaðilinn sem athugar hvort að vefsíðan og textaskjalið standast kröfur Project Gutenberg og ef svo er, kemur þeim þangað.

Þetta er í raun eins og pýramídi, stór hópur fólks tekur þátt í prófarkalestrinum, hópurinn sem að sendir inn og skilar út verkefnum er minni og fæstir eru í hópnum sem að skilar verkinu að lokum til Project Gutenberg. Margir hafa mjög takmarkaðan tíma og una sér því alsælir í prófarkalestrinum, aðrir hafa meiri tíma aflögu og leggja því í það að taka að sér hin verkefnin. Þeir sem eru áhugasamir og sanna sig geta auðveldlega fært sig ofar í pýramídanum ef þeir vilja það, sumir vilja eingöngu sinna einu ákveðnu hlutverki og gera það því. Það að sjálfboðaliðarnir njóti sín er algjört lykilatriði fyrir framgang slíkra hreyfinga og Distributed Proofreaders er engin undantekning á því.

Af hverju eru til tvær útgáfur af DP og PG?
Distributed Proofreaders er til í tveimur útgáfum, amerískri (DP-int) og evrópskri (DP-eu). Ég valdi evrópska vefinn sem íverustað minn, hann er mun fámennari en með fjölbreyttari tungumál þar sem hinn vefurinn styður ekki öll stafasett (unicode), ólíkt þeim evrópska. Auk þess var ameríska vefnum nýlega breytt þannig að nú fer hver blaðsíða í 4 umferðir yfirlestrar, þar sem annars vegar er textinn skoðaður (stafsetningarvillur) og hins vegar útlit textans (inndregið, feitletrað). Sumir vilja eingöngu vinna í útliti textans og aðrir í stafsetningu hans. Evrópska útgáfan hins vegar fer fram á það að hver prófarkalesari athugi bæði útlit og stafsetningu (sem mér finnst þægilegra). Evrópski vefurinn er að auki til á mörgum tungumálum, þar á meðal íslensku, á meðan að hinn er eingöngu á ensku.

Project Gutenberg er líka til í tveim útgáfum vegna mismunandi stafasetta, ekki er hægt að skoða til dæmis kínverskt eða rússneskt letur á gutenberg.org og því er starfrækt evrópskt Project Gutenberg.

Hvað hef ég verið að gera þarna?
Ég fékk vinnustaðinn til þess að prófa að senda inn verk. Eftir að hafa þýtt megnið af evrópska vefnum yfir á íslensku, fékk ég léðar myndir sem teknar voru af bók sem gefin var út 1922. Ég notaði forrit til að ljóslesa myndirnar og fékk út úr því textaskrár. Ég hafði svo samband við DP-eu og fékk hjá þeim réttindi til að setja inn ný verkefni á vef þeirra. Ég sendi inn myndirnar og textana sem fylgdu með þeim og beið svo á meðan að ýmsir aðilar fóru að prófarkalesa síðurnar og leiðrétta villurnar sem tölvan hafði gert við lesturinn.

Þegar að hver síða hafði verið prófarkalesin tvisvar sinnum var aftur komið að mér. Ég náði í skrá með öllum leiðréttingunum og renndi yfir hana til að sjá hvort að enn leyndust villur og til að laga útlit textans samkvæmt kröfum Gutenberg. Ég bjó svo til vefsíðu og textaskrá sem að ég sendi aftur inn á vefinn. Þar tók annar maður við, sannreyndi að verkefnið stæðist kröfur Project Gutenberg og sendi svo inn á evrópsku útgáfuna, þar er nú að finna Leiðarvísir í ástamálum: II. fyrir ungar stúlkur frá 1922, sem má lesa bæði sem vefsíðu og sem einfalda textaskrá. Þessi bók varð fyrir valinu þar sem hún var stutt og frekar auðveld viðfangs (engar myndir) og því tilvalin sem fyrsta verkefni til að kynnast ferlinu. Af þeim tæpa tug manna sem kom að verkefninu var ég eini Íslendingurinn.

Þar sem mér hafði gengið vel að smíða lokaafurðina ákvað ég að taka að mér annað lítið verkefni. Á vefnum fann ég litla rúmensk-enska ljóðabók sem hafði farið í gegnum prófarkalestur nokkrum mánuðum áður og beið nú bara eftir einhverjum til að koma sér alla leið. Ég náði í skrárnar og vann á sama hátt og áður og sendi inn. Hún bíður nú þess að einhver sannreyni að ég hafi vandað mig og mun svo birtast á netinu á sama hátt og hin (ég mun fylgjast með því). Ljóðskáldið er upphafsmaður nýrrar listastefnu, mér fannst bókin áhugaverð og sótti því næstu ljóðabók hans og hef hana nú hér á tölvunni þar sem ég dútla við að gera hana tilbúna til að fylgja hinni eftir. Hún er reyndar á frönsku þannig að ég get ekki notið hennar á sama hátt en það breytir því ekki að ég ætla að koma henni á Project Gutenberg. Ég ætla að taka fleiri verkefni að mér á sama hátt, bæði íslensk verk sem erlend.

Hvernig geta aðrir hjálpað?
Eitt af lykilatriðunum er einmitt það að prófarkalesarar þurfa ekkert endilega að kunna tungumálin sem þeir eru að prófarkalesa, þeir þurfa bara að passa upp á að textinn sé eins og sá sem er á myndinni af blaðsíðunni. Enginn þeirra sem prófarkalas Leiðarvísinn í ástamálum talaði íslensku, rétt eins og að ég hef prófarkalesið bækur á spænsku og frönsku þó ég kunni aðeins örfá orð í hvoru tungumáli fyrir sig, hvað þá rúmensku.

Þessa stundina er eitt íslenskt verk á DP-int, það er Sæfarinn: Ferðin kring um hnöttinn neðansjávar eftir Jules Verne. Hver sem er getur nýskráð sig á DP-int og byrjað að prófarkalesa hana í fyrri umferð yfirlestrar. Þegar að bókin hefur lokið prófarkalestri ætla ég mér að taka hana að mér og útbúa til birtingar.

Viðkomandi getur einnig nýskráð sig á DP-eu og byrjað að lesa yfir og leiðrétta og lagt þannig sitt af mörkum til að gera efnið aðgengilegt komandi kynslóðum. Á þessari stundu er til dæmis að finna þar verk á ensku, þýsku, frönsku, spænsku, pólsku, ítölsku, bengali og fleiri og fleiri tungumálum. Umfjöllunarefni þeirra er líka margvíslegt, skáldsögur, mannfræði, saga, lögfræði, ævisögur, trúarbragðafræði, bókmenntir, ljóð, ferðalög og fleira og fleira.

Sum verkefnin eru meira sjokkerandi en önnur, karlkyns prófarkalesarar hafa margir hætt að prófarkalesa þetta verkefni þar sem þeim hefur boðið við lýsingum og myndum sem bregða fyrir.

Þeir sem að skrá sig þarna geta svo haft samband við mig á ýmist ameríska eða evrópska vefnum ef þeir eru óöruggir. Nóg er af fólki á báðum vefjum sem að leggur sig fram við að hjálpa fólki, benda því vinsamlega á villur sem það hefur gert og hvetur það áfram til frekari dyggða. Auk þess er til spjallrás helguð þessu og þar er oft hægt að fá góð ráð.

Úff

Þetta er voðalega löng færsla um voðalega einfaldan hlut. Margir notendur DP hafa sagt frá því að þeim hafi langað til að leggja sitt af mörkum en ekki treyst sér í þá svaðalegu vinnu sem þeir héldu að þetta yrði. Raunin varð svo allt önnur.

Til að sýna hversu einfalt þetta er ætla ég því að birta nokkrar skjámyndir! (Smellið á litlu myndina til að fá stærri)

Listi yfir verkefni sem hægt er að prófarkalesa

Prófarkalestur á DP-int (enskt viðmót, íslensk bók eftir franskan höfund):

Prófarkalestur á DP-eu (íslenskt viðmót, frönsk bók eftir rússneskan höfund):