Monthly Archives: May 2002

Uncategorized

HM er byrjað! Sambúð opinber!

Dagurinn byrjaði á því að ég skutlaði Sigurrós í vinnuna, og fór svo og keypti snakk og gos í 10-11. Svo var haldið heim í Betraból og kveikt á Sýn, því að HM er byrjað! Opnunarathöfnin var bara sæmileg, reyndar fór um mig kaldur hrollur þegar að rottan í mannsmynd (Sepp Blatter) fór með arfaslakt erindi á enn verri ensku. Zen-Ruffinen hefur samþykkt að hætta og þeir sem lögðu fram kæru á hendur Blatter hafa dregið hana til baka, þetta er eins og úr Guðföðurnum, nema að Blatter er rotta, ekki einu sinni mafíósi. Sveittan.

Þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður leit svo Valur (nú 2 drengja faðir) við í sína fyrstu heimsókn í Betraból. Horfðum á leikinn saman og fengum pizzu í hálfleik (tímasetning pöntunar hjá mér var óaðfinnanleg). Snakk, gos og pizza verða þó ekki á dagskrá daglega næstu tvær vikurnar, þetta var bara svona mín opnunarhátíð.

Frakkland 0-1 Senegal
Andlausir Frakkar, baráttuglaðir og sprækir Senegalar. Fínn 1-0 sigur og mjög verðskuldaður.

Eftir að sjá Frakka tapa þessu verðskuldað (í gærkvöldi varð ég reyndar vitlaus, og ákvað að skipta út Burgos fyrir Barthez í draumaliðinu… smá mistök…) hélt ég af stað í mikinn leiðangur. Fyrst var farið til Terra Nova Sól til að láta Sigurrós skrifa undir “Staðfesting á sambúð” pappírinn, því næst fór ég á Hagstofuna þar sem ég skilaði staðfestingunni inn ásamt flutningstilkynningu. Við erum núna ekki bara trúlofuð heldur í opinberri sambúð. Þetta mjakast allt, gifting eftir ár líklega, og krakki eftir 2-3.

Svo fór ég í Nóatún og keypti í matinn fyrir kvöldið og morgundaginn. Öllu skilað í Betraból áður en lengra var haldið. IKEA var næst á dagskrá þar sem að mataráhöld, panna og leslampar voru keyptir. Þaðan fór ég á Kambsveginn þar sem að bíllinn var fylltur af eigum okkar, svo og svo og svo á Flókagötu þar sem ég trillaði öllu upp stigana.

Skaust svo í vinnuna og náði í kryddhilluna mína sem að hefur átt samastað þar undanfarið ár, setti í staðinn gamla trjámynd af indjána sem að ég gef mér að sé Apache indjáni (en Apache er einmitt besti vefþjónninn). Það er alltaf svo heimilislegt í horninu mínu.

Náði í Sigurrós, fórum á Kambsveginn og nýttum okkur sturtuaðstöðuna þar, sturtan okkar er ekki tilbúin ennþá. Héldum svo heim og Sigurrós tók til við eldamennskuna, á meðan að ég skaust í 11-11 (þriðja matvöruverslun dagsins).

Kvöldmaturinn var hátíðarmatur í tilefni af opinberun sambúðarinnar, piparsteik, bakaðar kartöflur og Piat Beaujoulais rauðvín. Nú erum við að fara að horfa á tvöfalt grínkvöld af Skjá einum sem var tekið upp fyrir okkur. Skjár einn næst nefnilega mjög illa hjá okkur, þetta þarf að laga, líklega eina vonin að fá breiðvarpið inn í húsið.

Fjörið heldur áfram!

Áhugavert:

  • FIFA boots out Linux and Mac users
  • Uncategorized

    Óskírður Valsson

    Valur eignaðist sinn annan dreng í nótt, 00:44 fæddist 13 marka drengur við góða heilsu. Að sjálfsögðu fékk nýbakaði faðirinn hamingjuóskir.

    Kláraði það sem þurfti að klára í vinnunni, fríið er nú hafið og nú skal sko koma öllu í Betrabóli í lag. 2 vikur framundan af heimalærdómi, fótbolta og tiltekt, breytingum og bætingum.

    Sumarkvöldin eru alveg brilljant hérna, það sést vel yfir borgina, umferðarniðurinn langt í burtu og fuglarnir syngja sem mest þeir geta. Íslensk sumur eru númer eitt.

    Uncategorized

    Fataskápur

    Skruppum eftir vinnu og festum kaup á fínum fataskáp í Rúmfatalagernum. Fengum greiðabíl til að keyra hráefnið heim og tókum svo til við að setja saman. Sem betur fer leit pabbi við að kíkja á ljósið í baðherberginu því að hurðarfestingarnar á skápnum þurftu borvélar við til að skrúfa þær. Skápurinn virðist veglegri að flestu leyti en IKEA skápar í sama verðflokki (9.990 kr.), enda danskur að uppruna.

    Þegar ég sá fyrirsögnina Björn sendiherra Íslands í Malawi hélt ég eitt andartak að Björn Bjarnason hefði verið sendur úr landi með hraði eftir gloríuna í kosningunum og afsakanirnar eftir þær. Svo var víst ekki, ennþá.

    Skandall dagsins er að sjálfsögðu sá að Sepp Blatter var endurkjörinn forseti FIFA. Fátæku knattspyrnusamböndin í Suður-Ameríku, Norður-Ameríku, Eyjaálfu, Asíu, Afríku og Austur-Evrópu ákváðu að það væri betra að halda manninum sem að gefur þeim brauðmola af veisluborði sínu að völdum. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá sætir Blatter nú rannsókn vegna óútskýrðra fjárútláta úr sjóðum FIFA til vina hans. Framkvæmdastjóri FIFA hefur sagt að Blatter gefi út vitlausar bókhaldstölur og standi í umsvifamikilli svikamyllu, og 11 stjórnarmenn FIFA hafa óskað eftir lögreglurannsókn á fjárreiðum samtakanna.

    Sorglegt að sjá að Blatter er jafn slæmur og fyrri forseti FIFA í spillingarruglinu. Sorglegt að sjá menn selja atkvæði sín (ásakanir um mútugreiðslur hafa verið í gangi í langan tíma). Sorglegt að fá svona fréttir áður en HM byrjar.

    Svo maður snúi sér að skemmtilegri hlutum tengdum knattspyrnunni þá stofnaði ég deild í Draumaliðsleiknum og bauð vinum og vinnufélögum í hana. Potaði saman þokkalegu liði að ég held, set traust mitt á markagráðuga miðjumenn (Okocha, Scholes, Nakata, Ballack) og trausta vörn(Nesta, De Boeck, Deflandre, Samuel og Burgos í marki), frammi eru svo Crespo og Trezeguet sem ættu að skila einhverjum stigum í búið. 3 Argentínumenn, Nígeríumaður og Englendingur.. dauðariðillinn gæti farið illa með mig ef allt klikkar.

    Áhugavert:

  • Our shiny happy clone future
  • The 2002 World Cup In Numbers, Part One
  • Uncategorized

    Fyrsta kvöldmáltíðin

    Sigurrós eldaði fyrstu kvöldmáltíðina okkar í kvöld, fyrir valinu varð fajitas, sem að við fáum okkur yfirleitt einu sinni í viku.

    Kvöldið hjá mér fór í að hlusta á fyrirlestra, núna vofa tvö skilaverkefni yfir mér, og miðannarpróf í næstu viku.

    Áhugavert:

  • The Naked Truth
  • Fótbolti = hrísgrjón? Klikkaður kani
  • Soccer? Not America’s Cup of Tea
  • Það styttist í stórmyndina!
  • Uncategorized

    Bara mánudagur

    Áhugavert að fara svona nýja leið í vinnuna, maður er kominn mun lengra í burtu frá henni, þannig að þetta tekur aðeins meiri tíma en áður.

    Í dag var það bara vinnan, svo bauð Ragna okkur í kvöldmat (enda við potta- og pönnulaus og án örbylgjuofns) og þar horfðum við á Survivor. Í gærkveldi kom nefnilega í ljós að Skjár 1 næst ekki hér, við sjáum hann með fimmföldum draugi og stórhríð. Við kaup var okkur tjáð að allar sjónvarpsrásir næðust vel, nú þarf því að ganga í að redda þessu. Héldum svo áfram að taka upp úr kössum, og pabbi setti upp ljósið í baðherberginu.

    Áhugavert:

  • Blatter bókhaldari
  • Uncategorized

    Matarboð hjá mömmu

    Mamma og Teddi buðu okkur og Rögnu og Hauki í mat, svona til þess að við þyrftum ekki að elda sjálf í miðri kassahrúgunni okkar. Fórum tvær ferðir á Kambsveginn, og erum enn ekki búin að losa allt okkar dót þar. Kippti með mér tveim bókakössum frá mömmu, og enn fleiri bíða mín þar. Ef að gólfið hérna væri ekki steinsteypt yrði ég hræddur um að við myndum pompa niður með allar bækurnar okkar niður á næstu hæð, hillurnar hafa allar svignað undan þunganum.

    Geggjað veður í gær og seinnipart dagsins í dag, á svona dögum er þetta besta land í heimi. Úrslit kosninganna í gær voru svo líka mjög fín, fínt að fá F-listann inn, og gott að rassskella Björn Bjarnason. XD í Kópavogi á þó enn taug í mér, þeir stóðu sig vel og er ánægður með það.

    Ég vil fara að sjá fólk í framboði, ekki framboðslista.

    Uncategorized

    Við erum flutt!

    Til hamingju við! Jóhannes Birgir og Sigurrós Jóna eru nú íbúar að Flókagötu 61. Við fluttum flesta pinkla, pjönkur og húsgögn í dag, aðeins á eftir að ná í minni kassa héðan og þaðan.

    Sem mín er von og vísa þá tóku þessar breytingar gildi á simaskra.is í gær, ADSL-tengingin beið hér eftir okkur og nú þarf ég bara að klára að stilla ADSL-routerinn okkar til að njóta háhraðanettengingar.

    Þessi fyrsta færsla mín af Flókagötunni er gerð í gegnum eitt lítið módem, líklega í síðasta sinn sem ég nota svoleiðis fornaldartækni á þessu heimili.

    Pabbi var að sjálfsögðu aðalmaðurinn í flutningunum, reddaði bíl og bar með mér mest af draslinu, Örn lét sjá sig og tók til hendinni og Kári bróðir kíkti með í síðustu ferðinni og lagði sitt af mörkum.

    Það eru þreyttir en ánægðir íbúar sem að munu leggjast til hvílu á nýju heimili nú á eftir.

    Uncategorized

    Flutningar hefjast

    Unnur andvarpaði víst þegar hún las svar mitt og annara sem að tjáðu sig um skrif hennar. Nú gæti það bara verið ég en er ekki best að mæta róg um eigið hverfi með því að mæra það, frekar en að rægja önnur hverfi? Mér finnst það að minnsta kosti besta aðferðin, og svo er örugglega besta karmað sem að því fylgir. Ég hefði að minnsta kosti ekki sagt orð við því ef hún hefði sagt okkur frá dásemdum 101, í stað þess að segja hvað allt hitt væri dautt.

    Ætlum að hefja flutningana í Betraból af alvöru í kvöld, og á morgun fara svo stærstu hlutirnir með sendibílnum. Fór í dag og skilaði breiðbandsmódeminu, ADSL-tengingin er til staðar þannig að nú þarf ég bara að koma tölvunum á sinn stað og tengja mig. Háhraðanettengingin klikkar ekki á mínu heimili, fyrst kom ísskápur, svo ADSL, og við erum ekki einu sinni flutt inn.

    Kári bróðir er tvítugur í dag, þá erum við bræðurnir allir komnir af táningsaldri, ég held að ég hafi reyndar elst um þrjú ár við allt þetta fasteignastúss, farinn að líta út eins og hæfir aldri mínum (því miður).

    Áhugavert:

  • World Cup Wallchart
  • Uncategorized

    Saklaus úthverfi líflátin?

    Tær snilld, þeir hjá XXXD.is hafa nú bætt við setningu þar sem segir að vefurinn sé ekki á vegum neins stjórnmálaflokks, og í stað þess að fá SMS frá litlum sætum gagnagrunnum í gervi lítilla sætra stúlkna, er nú búið að henda helmingi stúlknanna út og setja karlmenn í þeirra stað. Það breytir ekki því að lítill sætur gagnagrunnur mun senda SMSin út. Mér sýnist að einhver hafi slegið á puttana á þeim.

    Örn sýndi mér vef utandeildarliðsins sem ég lék með síðasta sumar. Þeir eru víst að æfa núna við Miklatún þannig að maður kíkir kannski á þá, stutt að fara. Hvort ég tek fram skóna eða ekki kemur bara í ljós, ef að meiðslin láta strax á sér kræla er þetta búið spil.

    Unnur var með langa færslu þar sem henni hryllti hugur við úthverfum, þar á meðal Kópavogi. Það mætti segja að hún hafi líflátið þau þar sem að þau eru dauð fyrir henni. Sem gamall úthverfabúi þá sá ég ekki alveg hvaða læti þetta eru, bjó í 20 ár í Vesturbænum (í Kópavogi… innfæddir Reykvíkingar mega margir átta sig á því að Vesturbærinn er ekki © Reykjavík) og líkaði afskaplega vel. Þar sá maður nágrannana sleikja sólina þegar vel viðraði, börn léku sér á götum og skólalóðum og svo fram eftir götunum, ekki minna líf en í miðbænum, og ef eitthvað, mun rólegra, friðsælla og yndislegra.

    Unnur er greind kona, hún hefur bara tekið of nærri sér kosningavaðalinn frá XD um að miðborgin sé glötuð og farin fjandans til. Óþarfi að taka það út á úthverfunum (og útbæjum…).

    Annars er ég núna um helgina að færast nær miðbænum (í Reykjavík…), þegar að við flytjum í nýmálaða og fínpússaða íbúð okkar á Flókagötunni. Sé vissulega marga kosti við þá staðsetningu, en þar sem það er ekki 101 þá er ég víst ennþá úthverfamús (ólíkt miðbæjarrottunum).

    Talandi um XD, held ég hafi kosið þá alla mína kjósendatíð, en ekki mun svo verða þessa helgina. Björn Bjarnason mun ég aldrei kjósa, Ingibjörg er toppmanneskja, verst að fylgdarliðið hennar er misgott (eins og Bjarnar reyndar). Ég kýs núna R-listann til að hindra að Björn komist til valda, og til þess að halda Ingibjörgu, öll kosningaloforð og meðframbjóðendur hafa ekkert að segja eins og venjulega, hvorki í baráttunni né þegar að sigurvegarinn fer að láta til sín taka.

    Áhugavert:

  • Gáfaði brjóstahaldarinn
  • Uncategorized

    ADSL, hér kem ég

    Skaust í verslun Símans í dag og festi þar kaup á ADSL-router. Pungaði út stórfé en verð bara að taka því, routerinn er nauðsyn.

    Eftir vinnu var svo skipt um móðurborð í vefþjóninum, öðlingurinn Konni var þar að verki. Nýja móðurborðið er nákvæmlega eins og það sem fyrir var nema hvað að skipt hefur verið um alla þétta í því, þeir eru mun betri og stærri.

    Er svo búinn að reyna að koma nýjasta tölvukríli heimilisins á laggirnar, það mun nefnast Kambur og verða í eigu tengdó. ATI Rage Pro skjákortið er að valda miklu veseni, ég þooooli ekki svona .dll rugl (vga.dll veldur bláskjássótt).