Monthly Archives: October 2005

Uncategorized

Not George Washington

Þar sem ég sat í biðröð til að fá vetrardekkin undir hafði ég nógan tíma til að lesa megnið af Not George Washington eftir P.G. Wodehouse. Kláraði svo í kvöld, Wodehouse er alltaf fínn í hugarfettur og brettur.

Bíllinn er nú kominn í vetrarformið, var í viðgerð í morgun og settur í vetrarskæði eftirmiðdegis. Þá getum við loks aftur skotist út á land þegar þurfa þykir.

Uncategorized

Sturta!

Það var mikið gleðiefni í dag að fara í sturtu hérna heima. Loksins búin að skipta út blöndunartækjum og í fyrsta sinn síðan við fluttum hingað þurfti ég ekki að stilla hitann tuttugu sinnum á milli þess sem kalt og heitt vatn barði mig.

Gaman að fara í sturtu sem maður kemur endurnærður úr í stað þess að vera uppgefinn eftir hitasveiflur og stillitilraunir!

Uncategorized

Sjálferfidrykkja og þingmannavakt

Það er til margt vitlausara en að halda sína eigin erfidrykkju.

Það þarf að koma upp íslenskum útgáfum af http://www.publicwhip.org.uk og http://www.theyworkforyou.com/. Þarna er sumsé reynt að veita þingmönnum smá aðhald og leyfa kjósendum þeirra að fylgjast með verkum þeirra og hversu duglegir þeir eru að draga taum leiðtogans í stað þess að fara eftir stjórnarskrá og velja eftir eigin sannfæringu.

Dagný hefði til dæmis voðalega gott af því að lesa stjórnarskrána aðeins, fyrst að hún heldur að hún sé í fótboltaliði á þingi. 

Heimdallur var með smá vísi að þessu í Frelsisvaktinni sem virðist nú vera horfin.

Uncategorized

30 árum seinna

Ég var tæplega 10 vikna gamall í kerru í miðbænum fyrir 30 árum þegar Kvennafrídagurinn var.

Í dag leit ég í bæinn um fjögurleytið og sá mannhafið og heyrði óminn af dagskránni. Fólk flæddi frá Ingólfstorgi upp Laugaveginn og fjölmargir komust ekki nær en á Austurvöll. Fáránleg staðsetning, en frábær fjöldi.

Í gær bárust fréttir af kynjatengdum mun, nú er víst komið á hreint að heilar karla og kvenna bregðast mismunandi við lyfjum og því þarf að fara að huga betur að ýmsum lyfjum sem hafa einungis verið reynd á karlmönnum.

Uncategorized

Going Postal

Búinn að spila Football Manager 2006 yfir helgina og tók mér loks frí seinni parts dagsins og las Going Postal , nýjustu kiljuna frá Terry Pratchett. Núna eru það fjárglæframennirnir sem fá á baukinn fyrir að taka yfir fyrirtæki, minnka þjónustu, hækka verð og brjóta að lokum upp, allt með skammtímahagnað að markmiði.

Hitti líka nokkra EVE-spilara sem komu erlendis frá og vildu hitta mig þó ég sé hættur í leiknum. Kom í fyrsta sinn á Players við það tækifæri. Svolítið öðruvísi staður en ég hafði haldið.

Jónas og Helga komu upp til að laga ofnana þannig að hitastigið hérna heima ætti að skríða yfir 22°C loksins!

Uncategorized

Þumlaveiki

Farsímanotendur landsins kannast kannski við það að þumlarnir eða aðrir fingur eru farnir að vera ofurlítið aumir vegna gríðarlegrar SMS-notkunar. OgVodafone var svo að starta Blackberry-bylgju og því er ljóst að þumlaveiki er að bæta við sig fórnarlömbum. Greinin The Agony of ‘BlackBerry Thumb’ segir frá nokkrum.

Sjálfur er ég fanatískur í því að hafa aðstöðuna hjá mér sem skársta og hef því fest kaup á Stowaway Universal Bluetooth Keyboard. Að auki nota ég svokölluð „Natural Keyboard“ bæði í vinnu og heima (annað frá Microsoft og hitt frá Logitech). Þau vekja ennþá eftirtekt annara sem skilja ekki í svona bognum og stórum lyklaborðum. Í vinnunni eru fáránleg skrifborð þar sem músin er yfirleitt mun hærra uppi en lyklaborðið, það var að drepa mig (handleggina reyndar). Því hunsaði ég allar hugmyndir arkitektsins um hvernig maður ætti að sitja við skrifborðið og kom mér fyrir á sem skásta máta. Það ætti að flengja arkitekta sem hugsa ekki um vinnuaðstöðu starfsmanna heldur velja húsgögn eftir því hvernig þau tóna við loft, gólf eða veggi.

SMS-in frá mér eru svo alræmd fyrir að vera stutt. Yfirleitt samanstanda þau einfaldlega af „Já“ eða „Nei“. Ég hringi bara ef eitthvað þarf að ræða málin umfram það!

Ég er því þumlaveikifrír! Megi það endast.

Uncategorized

Sourceforge

Í dag var mitt fyrsta framlag á SourceForge. SourceForge er vefur fyrir hugbúnaðarþróun þar sem hver sem er getur orðið hluti af þróunarteymi ýmiss konar forrita og kerfa. Þau eru fjöldamörg tólin sem þaðan hafa komið sem ég hef getað nýtt mér, en ekki hef ég lagt neitt til málanna þar áður.

Ég byrja reyndar mjög pent, setti inn íslenska þýðingu á TinyMCE ritlinum. Heimilisfólk Betrabóls á vefnum mun sjá íslenskuna taka yfir um helgina í umsjónarsvæðum sínum.

Uncategorized

NATO: vaktar þig

Samkvæmt greininni Arrest that chav! He’s got no shirt on and he’s ruining our atmosphere mun NATO leggja til njósnaflugvélar til að fylgjast með gestum á HM 2006 í Þýskalandi.

When it comes to football hooliganism, fashionable concerns about human rights fly out of the window.

Vissulega er til slatti af gargandi vitleysingum sem nota stóratburði til þess að láta eins og bardagahanar. Á HM 98 lést einn lögreglumaður í árás þýskra bullna en þetta var eitt einangrað atvik og hundruðir þúsunda sáu leiki án þess að nokkuð kæmi upp á. Sjálfur mætti ég á tvo leiki 8-liða úrslita sem og undanúrslit og bronsleik. Það var nóg af vopnuðum gæslumönnum (her og lögregla) en engar njósnavélar sveimuðu um né voru eftirlitsmyndavélar sem tóku mynd af hverjum þeim sem um gekk.

Hrikalega margir virðast vera orðnir hallir undir Stóra bróður þessa dagana. Allt of margir.

Uncategorized

Verkalistinn

Smellti í dag upp síðu sem sýnir hvaða íslensku rit (eða rit um Ísland) eru til á Project Gutenberg eða eru á leiðinni þangað í gegnum Distributed Proofreaders.

Þarna má til dæmis finna lögbókina Járnsíðu, Kvennafræðarann frá 1888, Mjallhvíti og Rímur af Grámanni í Garðshorni.

 

Tenglar

Uncategorized

Farice

Netsamband við útlönd er búið að vera óþolandi í dag. Þetta er vegna þess að önnur af tveim aðalumferðaræðum Íslands datt út í níunda sinn á árinu vegna bilana í Skotlandi.

Farice er sumsé sá nýrri af tveimur sæstrengjum sem tengja Ísland við umheiminn en virðist eiga mjög erfitt með að hanga uppi.

Ef það eru ekki togarar að tæta hafsbotninn í sundur og sæstrengi með, þá er það eitthvað handónýtt dót í Ameríku (þangað sem Cantat-3, hinn sæstrengurinn liggur) eða Skotlandi sem kippir okkur úr sambandi.

Dagurinn hefur því farið í innanhúsmál, geisladiskasafnið er nú að hlaða sér upp í kössum og á hörðum drifum. Áætlaður tími: 100 klukkutímar.