Monthly Archives: February 2007

Tækni

Uppfærsla á póstþjóni

Nú um helgina er ég að uppfæra póstþjóninn sem þjónar betra.is og skyldum lénum.

Búast má við smá hiksti, ef pósturinn þinn er geymdur hér og er enn í fýlu á sunnudagskvöldið, þá veistu hvern á að hafa samband við. 

Samfélagsvirkni

Sýkn nema játað sé

Væging dóms yfir barnaníðingi um daginn vakti skiljanlega athygli og reiði almennings. Lögfróðir menn æstu sig þó allra minnst enda var þarna verið að “jafna refsinguna” við aðra dóma yfir barnaníðingum.

Lögfróðum mönnum finnst fátt sjálfsagðara en að lagabókstafurinn sé hunsaður þegar dómar eru kvaddir upp, í fyrndinni var kveðinn upp léttur dómur fyrir þungar sakir en dómarar nútímans eru ekki menn eða konur til þess að gefa ný fordæmi sem sýni að þessi háttsemi sé litin alvarlegri augum nú en hún var af dómurum fyrri tíðar sem fannst níðingsskapur jafnast á við litlar sakir.

Menn gripu andköf þegar Morgunblaðið birti myndir þessara sporgöngumanna sem milduðu þegar vægan dóm í hlægilegan dóm. Jón Steinar var ekki meðal þeirra en áður en hann varð dómari þreyttist hann aldrei á að fara með möntruna um að sömu glæpum ætti að fylgja sama refsing, sem hljómar eðlilega.

Þar gleymist hins vegar að taka með í reikninginn níðingsvinina í dómarasætum fyrri tíma sem létu ofbeldismenn, níðinga og nauðgara sleppa gífurlega létt.

Dómarar nútímans eru svo bleyður sem eru ófærar um að setja ný fordæmi. Eitt fordæmi um aldir alda. Þingmenn geta lengt refsirammann eins og þeim lystir, það hefur ekki áhrif á dómarana… nema að örlitlu leyti, meðaldómur er nú 1 ár í stað 2, eftir að refsiramminn fór í 12 ár. Kannski náum við 3 ára meðaldómi með því að hækka refsirammann í 24 ár!

Virðing dómstólana var dregin fram af þeim sem hneyksluðust á myndbirtingu Morgunblaðsins.

Virðing dómstólanna ræðst af verkum þeirra, virðingin fyrir þeim er ekki mikil þegar níðingar, nauðgarar og ofbeldismenn varla tylla tám í réttarkerfinu.

Ekki hjálpar til þegar dómstólar viðurkenna ekki lengur að þýfi sé nóg til að sanna sekt, samanber eftirfarandi af Textavarpinu áðan:

Karlmaður var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur af 2 þjófnaðarákærum þótt megnið af þýfinu fyndist í bíl hans nóttina sem því var stolið.

Hann var líka ákærður fyrir að hafa stolið 8 flatskjám úr gámi við verslun. Hann var handtekinn um nóttina með skjáina í bíl sínum en ekki þótti sannað að hann hafi stolið þeim.

Þýfi hefur því greinilega horfið af listanum yfir gild sönnunargögn.