Jólastúss í dag, gjafakaup, matarinnkaup og sendiferðir.
Þá er ég búinn að ná að lesa pínulítið um hvað er að gerast í heiminum. Nú hefjast fréttir, þessi liður er víst sá vinsælasti á síðunni hjá mér, svo segja tveir af þremur lesendum! 🙂
Lazio er enn næstefst í Serie A og enn hafa leikmenn ekki fengið laun síðan í sumar. Það er þó ekki aðaláhyggjuefnið hjá naglanum Diego Simeone. Hann hefur mestar áhyggjur yfir því að leikmenn Lazio hafi fagnað mörkunum í vetur með því að taka dansspor úr Ketchup-laginu. Honum finnst það ekki nógu karlmannlegt greyinu.
Texas er eitt mesta lýtið í mannréttindasögu Bandaríkjanna. Nú til dags mega kennarar ekki einu sinni nefna kynmök sínum réttu nöfnum í kynfræðslutímum. Mikið er nú gott fyrir heiminn að sonur Texas sé forseti Bandaríkjanna. Því hafa fjöldamörg samtök um allan heim kynnst, hjálparsamtök eru skikkuð til þess að hætta að bjóða upp á fóstureyðingar eða missa alla fjárhagsaðstoð ella. Það eru ekki bara fóstureyðingar, bannað er að veita fræðslu um getnaðarvarnir, skírlífi er það sem að þessir forpokuðu afturhaldsseggir vilja í sínu Texas-ríki og andskotinn hafi það, nú skal heimurinn líka gjöra svo vel að lifa skírlífi fyrir giftingu! Þessa menn þarf að taka úr umferð, ekki láta þá vera voldugustu menn heims.
Ástandið í Texas og hluta Bandaríkjanna er næstum jafn slæmt og í Pakistan þar sem að maður hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að trúa því að annar maður hafi verið spámaður. Íslömsk lög segja að Múhammeð hafi verið síðasti spámaðurinn og dauðasök liggur við því að halda þykjast vera spámaður eða fylgja honum.
Ekki er þetta betra í Íran þar sem að búið er að handtaka rakara fyrir að klippa stúlkur eins og drengi svo þær gætu klætt sig sem stráka á almannafæri.
Meira frá Texas, þar er dómskerfið þannig að kviðdómur ákveður bæði sekt og refsingu. Saksóknarar hafa nú frestað öllum málum þar sem að kviðdómendur gætu verið of meyrir í kringum jólahátíðina. Best finnst saksóknurum að hafa réttarhöld um miðjan apríl þegar að kviðdómendur eru pirraðir vegna skattskila. Æðislegt réttlætið þarna!
Nú eru komnar vísindalegar niðurstöður fyrir því að bölvunin sem átti að vera á gröf Tútankamons hafi bara verið bull frá breskum blaðamönnum. Varla stórfrétt þar á ferð en þó nokkrar bækur og kvikmyndir hafa þó verið gerðar þar sem að einmitt er gengið út frá því að bölvunin hafi verið raunveruleg.
Lifandi fuglar og orkídeur í töskunni og sprækir apar í buxunum, bara enn einn dagurinn í tollinum.
Nú er örstutt í fyrsta klónaða barnið. Kanadískir félagar í Raelians-trúarhreyfingunni hafa gefið út tilkynningu þess efnis að það ætti að fæðast á jóladag. Fjögur “systkyni” þess munu svo fæðast á næsta ári.
Bjórdrykkjumenn í Þýskalandi eru núna líklega að hamstra bjór þar sem það lítur út fyrir bjórskort þar snemma á næsta ári. Það er vegna hertra reglna um óendurnýttar umbúðir en Þjóðverjar hafa ekki verið nógu duglegir við endurvinnsluna. Gott á þá segi ég bara, ef þú gefur skít í umhverfið færðu skít til baka!
Mér hafa borist fregnir af því að íbúar Stokkseyrar séu allra manna duglegastir að skreyta fyrir jólin og toppa víst marga Bandaríkjamenn. Þó hefur ekki borið á jólasveinaránum þar, í Toronto er húseigandi núna að safna saman niðursuðuvörum til að geta leyst jólasveininn sinn úr haldi manna sem vilja að niðursuðuvörunum sé dreift til fátækra fyrir jólin. Skreytingin er víst ekki sú sama þar sem hreindýrin eru víst hálf ráðlaus án jólasveinsins. Ekki langar mig til að sjá þessa skreytingu, jólasveinalausa eður ei!
Belgar halda víst fastast um budduna fyrir jólainnkaupin. Ég held að það sé ekki endilega slæmt mál, jólagjafir ættu að vera smálegar og persónulegar, ekki eitthvað dýrt glys eða nýr bíll.
Það er erfitt líf að vera íþróttamaður á heimsmælikvarða. Rúmenar eru alltaf að reyna að ná sér í aukapening enda með fátækari löndum Evrópu. Þrír fimleikamenn hafa verið bannaðir í fimm ár fyrir að gera fimleikaæfingar naktir í ljósblárri mynd. Þetta er allt komið í rugl þegar að íþróttamenn eiga að vera geldar steríótýpur sem ekkert mega gera. Skil einkalífs og opinberrar þátttöku eru alltaf að minnka í hugum fasista þessa heims.
Talandi um íþróttir, tímasetning skiptir öllu þar og barnsfæðingar eru engin undantekning. Á morgun fer fram einvígi Liverpool og Everton og til að missa ekki af því lét Richard Wright (markmaður Everton) setja konu sína í gang svo að annað barn þeirra fæddist áður en leikurinn færi fram.
Það er ekkert slor afmæliskortið sem forsætisráðherra Indlands fær á jóladag þegar hann verður 78 ára. Kortið er rúmlega hálfur kílómeter á lengd!
Andstæðingar Evrópusambandsins gera auðvitað sitt besta til þess að rangtúlka ákvarðanir þess. Það nýjasta af þessum vettvangi var orðrómur sem fór í gang á Ítalíu um að búið væri að leggja friðhelgi sunnudaga af! Þetta var auðvitað bara bull, samþykktin hljómaði upp á það að aðildarlöndin réðu sjálf hvaða vikudagar væru almennir frídagar.
Lýkur þá fréttunum, einn gullmoli þó handa þeim sem entust að lesa allt ofantalið. Aldrei skal gefa okkur Sigurrós blóm! Við erum vonlaus í því eins og sjá má á jólarósinni okkar. Við frábiðjum okkur allar gjafir sem að líf bærist með.