Uncategorized

Að hafa samband

Las í gærkveldi aðra bókina um Artemis Fowl á ensku. Betra flæði en í fyrri bókinni, ekki eins smábarnaleg framvinda í sögunni. Umhverfisboðskapur kemur talsvert við sögu, ágætis lesning fyrir unga og aldna. Hef reyndar ekki lagt í það að reyna að ráða dulmálið sem er neðst á hverri blaðsíðu, þar er víst að finna einhver skilaboð frá álfunum til okkur mannanna.

Það er sorglegt að einmitt þegar að við höfum ótal leiðir til að hafa samband við hvort annað þá nýtum við það eiginlega ekkert. Fólk sem manni líkar virkilega vel við heyrir ekkert frá manni svo mánuðum skiptir af því að enginn gefur sér nokkrar mínútur til þess að slá á þráðinn, hvað þá að líta við í heimsókn. Það er ekki nema fyrir algjöra slysni stundum að samskiptin komast aftur á! Sorglegt 🙁

Væri efni í nýársheit ef ég vissi ekki að þau væru til þess að brjóta þau.

Þetta kemur heldur seint varðandi jólagjafirnar en hér er að finna ágætis leiðbeiningar fyrir karlmenn sem eru að vandræðast í því að finna sniðug undirföt fyrir konuna. Ætli afmælin þeirra séu ekki næsta tækifæri?

Uncategorized

Íbúð, þjófavörn og annað

Leit í örstutta heimsókn til Arnar og Regínu til að sjá nýju íbúðina þeirra, glæsilegt útsýni yfir Fossvoginn og vesturbæi Kópavogs og Reykjavíkur.

Hitti líka Val og Erni Þór, held ég hafi ekki séð þann stutta í rúmt ár eða svo.

Rétt áður en ég fór var einhver sprengja sprengd nálægt bílaplaninu, þjófavarnarkerfið í Phoenix fór af stað með látum, fyrsta sinn sem það gerist. Vonandi verður hann ekki vælandi allt gamlárskvöld.

Það kemur mér ekki ýkja mikið á óvart að Ian McKellen sé hinn nýi Dumbledore, held að það hafi verið nokkuð augljóst þegar að Richard Harris lést.

Meira varðandi Hringadróttinssögu (McKellen = Gandálfur), vefurinn Landover Baptist er alveg snilldar satíruvefur sem að tekur alla þessa prédikara og flettir þá klæðum með því að nota sama orðalag og þeir sjálfir og vitna jafn duglega í Biblíuna. Nýjasta “fréttin” frá þeim er vegna samkynhneigðrar náttúru sem birtist í The Two Towers. Snilldarlesning, ef maður vissi ekki betur héldi maður að þetta væri beint frá Billy Graham, Pat Buchanan eða öðrum af þeirra sauðarhúsi (Ísland, sjá Omega og Gunnar í Krossinum).

Ágætis tækifæri fyrir auðmenn sem vilja eignast sinn eigin bæ, Playas í Nýju-Mexíkó (BNA) er til sölu eins og hann leggur sig. Aðeins 280 milljónir sem eru kjarakaup fyrir 259 heimili, félagsmiðstöð, keilusal, tvær kirkjur (tvær!), ródeóhring, flugbraut, pósthús, lögreglustöð, banka, heilsugæslu og slökkvistöð.

Í dag lýkur sölu á öðru krummaskuði í Bandaríkjunum, Bridgeville í Kaliforníu. Það var hins vegar boðið upp á eBay og er nú verið að fara í gegnum tilboðin til að sjá hvort þau standast.

Ættu íslensk sjávarþorp sem hafa verið tekin aftan frá af óréttlæti núverandi kvótakerfis og siðspilltum mönnum að grípa til þessa örþrifaráðs að hreinlega bjóða sig á eBay?

Það er ekki öll vitleysan eins í Ameríkunni, verslunarkeðjan Wal-Mart selur byssur og skotfæri í verslunum sínum en kippti ófrískri vinkonu Barbie úr hillunum eftir kvartanir viðskiptavina. Ameríka, þar sem kynlíf er verra en morð.

Uncategorized

Heima er best

Rólegur dagur sem fyrr hjá okkur. Pabbi, Guðbjörg, Edda og Jón Ingi komu til Rögnu í kaffi. Við Sigurrós héldum svo heim um rúmlega kvöldmatarleytið.

Las í kvöld Artemis Fowl á ensku. Sæmilegasta saga en greinilega beint að yngri lesendahóp, setningar eru stuttar og hnitmiðaðar og sjaldnast langur aðdragandi að neinu.

Uncategorized

Rólegur jóladagur

Sváfum fram að hádegi og vorum bara mjög róleg í tíðinni. Fórum svo í Urðartjörn til Guðbjargar og krílanna hennar þar sem við fengum veitingar, skoðuðum tölvulærdómsleiki fyrir börn og kvenfólkið spilaði svo Rummikubb.

Eftir kvöldfréttir héldum við (ég, Sigurrós og Ragna) til Stokkseyrar þar sem við skoðuðum nokkur hús þar sem eigendurnir höfðu farið frekar yfirum í jólaskreytingum.

Uncategorized

Endajaxla-taka 2

Þetta var nú ævintýri í gærkvöldi. Við vorum að fá okkur snöggan kvöldverð svona áður en við kláruðum að keyra út pakka og héldum á Selfoss til að verja jólunum hjá tengdó. Eftir að hafa kyngt síðustu bitunum af hamborgaranum fann ég allt í einu að eitthvað var laust í munninum. Sekúndu síðar lágu tannbrot og fylling á disknum mínum, rannsókn með aðstoð tungunnar færði sönnur á grun minn. Signi endajaxlinn (kominn neðar en allar aðrar tennur) var nú rétt rúmlega hálfur eftir og hvassar brúnir voru frekar leiðinlegar viðkomu.

Neyðarvakt tannlækna bauð mér að koma strax og ég var mættur í Hlíðarsmára 17 örfáum mínútum seinna. Þar tók Anna D. á móti mér og eftir að hún ygldi brúnir yfir ljótum leifum endajaxlsins sagði ég henni að tennurnar í mér væru að jafnaði með tvær rætur sem krókuðust í sitthvora áttina.

Hún hlustaði á ráð mín (heimilislæknar athugið! ekki óvitlaust að hlusta á sjúklingana… þeir vita oft hvað amar að sér og af hverju!) og tók röntgenmynd sem staðfesti þennan grun. Eftir nokkra glímu fór að losna örlítið um jaxlinn, þá heyrðist brothljóð og ég hélt að nú hefði krúnan brotnað frá rótunum (eins og gerðist síðast). Tannlæknirinn sagði hins vegar “þetta hljómaði nú ekki vel” og hélt áfram að tjakka jaxlinn upp mér til undrunar þar sem ég bjóst ekki við því að það væri hægt við hann svona krúnulausan. Eftir talsvert puð náðist jaxlinn upp og þá sá ég hvað það var sem hafði brotnað, það var ekki jaxlinn sem var í fínu formi fyrir utan þar sem fyllingin og tannbrotið höfðu verið, jaxlinn hafði hins vegar rifið með sér hluta af kjálkabeininu sem var eiginlega samgróið jaxlinum. Því er örlítið þynnra sums staðar hjá mér kjálkabeinið en annar staðar þessa stundina. Þetta á þó að gróa og var í rauninni bara smáflís. Jaxlinn reyndist svo við talningu vera með þrjár rætur og hinn mesti hnullungur.

Harðjaxlinn ég tók þessu öllu af mestu ró, búinn að fara í gegnum svona áður og ég virðist koma vel út úr þessum jaxlatökum miðað við marga aðra. Flestar hryllingssögur hafa reyndar verið tengdar neðri endajöxlunum, þeir leynast enn uppí mér.

Kom svo að lokum heim, farangri skellt í bílinn og brunað af stað upp í Miðhús þar sem nýfrágenginn og glæsilegur arininn sómdi sér vel í stofunni. Því næst var komið við hjá pabba og hann dreif okkur á bensínstöð til að jafna loftþrýstinginn í dekkjunum áður en við héldum yfir heiðina.

Skutumst heim til að ná í það sem gleymdist og eftir að hafa skilað af okkur einu póstkorti náðum við loksins að yfirgefa bæinn tæplega þremur tímum á eftir áætlun. Hellisheiðin var svo vitavonlaus, 4 stikna skyggni í miklum vindi og rigningarsudda. Alltaf jafn gaman að koma niður Kambana í mun skaplegra veður!


Í dag var slappað af í Sóltúni, matur hófst svo klukkan sex með dýrindis aspassúpu, dönskum hamborgarahrygg og meðlæti.

Gjafir voru opnaðar stuttu eftir mat og þar sem að krílin eru frekar óþolinmóð tók það ekki ýkja langan tíma að tæta í gegnum hrúguna.

Fékk Discworld-bók, The Amazing Maurice and his educated Rodents, bók sem ég hafði eitt sinn talið að væri ekki í Discworld-seríunni en komst að því fyrir nokkrum mánuðum að hún væri í seríunni mér til undrunar og gleði. Þá var hún aðeins til í harðspjaldaútgáfu, en eins og allir vita eru þær bækur á verði mannsmorðs. Ég var eiginlega búinn að gleyma henni þegar að ég loksins sá hana í pakkanum mínum í kiljuformi. Las hana í kvöld, Pratchett klikkar sjaldnast.

Uncategorized

Engin jól hér!

Árið er víst að enda, maður er ekki fyrr orðinn vanur því að skrifa 2002 þegar maður skrifar dagsetningar en maður þarf að fara að muna að það er komið 2003. Nú má búast við holskeflu af greinum þar sem farið er lauslega yfir liðið ár í ýmsum flokkum. Sæmilega samantekt um Internetið má lesa hjá Salon.

Á öðru vefriti sem nefnist Deiglan er að finna óborganlega greinahöfunda, aðalsprautan á bakvið Deigluna skrifar í dag um áhrifalausu mussukellinguna hana Ingibjörgu Sólrúnu sem að á víst upphefð sína að þakka Framsóknarflokknum. Þess má geta að flestir pennar Deiglunnar eru gallharðir sjálfstæðismenn en vefritið auglýsir sig þó sem óháð þó fæstir pennanna séu það. Þessi grein kom fram brosviprum hjá mér, líklega ekki af sömu ástæðu og höfundur greinar ætlaðist til.

Repúblikanar eru líklega að velja Bill Frist sem nýja þingflokksformanninn, hann er þekktur hjartaskurðlæknir og talinn frekar hófsamur. Mesta snilldin finnst mér þó vera sú að 1970 fékk Bill Frist verðlaunin “William Martin Award for best all around boy in the school” í skólanum sínum í Nashville, Tennessee. Hver vill ekki vera “best all around boy”!

Áhugavert:

  • Erfitt að vera fótboltastjarna
  • Blogs Make the Headlines
  • Internet villain nominees revealed
  • US government database spy site fading away
  • Power Puff Goth Girls
  • Uncategorized

    Tilbúin

    Fyrir jólin! Jólahreingerning fór fram í dag og allt er nú spikk og span hjá okkur (eins og sumir segja).

    Sá einhvern tala um hvað allir væru væmnir og svona um jólin og hvað allir væru voða vingjarnlegir (sjá frétt gærdagsins um saksóknarana í Texas!). Þetta nær þó að sjálfsögðu ekki til bandarískra stjórnvalda sem að hafa murkað lífið úr saklausum borgurum og óbreyttum hermönnum undanfarna mánuði. Þessar fréttir birtast þó ekki í almennum fjölmiðlum, að minnsta kosti ekki hér á landi.

    Hvernig ætlast menn til þess að Írakar fagni Bandaríkjamönnum þegar að þeim er ekki óhætt að ganga um eigin götur?

    Bragarbót hefur verið gerð á textastærð á þessum smávef mínum, letur verið stækkað og notendur Internet Explorer geta sjálfir ráðið leturstærðinni núna (Internet Explorer er tregur mjög og það þarf að strjúka honum blíðlega til að hann geri eins og hann ætti að gera).

    Uncategorized

    Nú verða sagðar fréttir

    Jólastúss í dag, gjafakaup, matarinnkaup og sendiferðir.

    Þá er ég búinn að ná að lesa pínulítið um hvað er að gerast í heiminum. Nú hefjast fréttir, þessi liður er víst sá vinsælasti á síðunni hjá mér, svo segja tveir af þremur lesendum! 🙂

    Lazio er enn næstefst í Serie A og enn hafa leikmenn ekki fengið laun síðan í sumar. Það er þó ekki aðaláhyggjuefnið hjá naglanum Diego Simeone. Hann hefur mestar áhyggjur yfir því að leikmenn Lazio hafi fagnað mörkunum í vetur með því að taka dansspor úr Ketchup-laginu. Honum finnst það ekki nógu karlmannlegt greyinu.

    Texas er eitt mesta lýtið í mannréttindasögu Bandaríkjanna. Nú til dags mega kennarar ekki einu sinni nefna kynmök sínum réttu nöfnum í kynfræðslutímum. Mikið er nú gott fyrir heiminn að sonur Texas sé forseti Bandaríkjanna. Því hafa fjöldamörg samtök um allan heim kynnst, hjálparsamtök eru skikkuð til þess að hætta að bjóða upp á fóstureyðingar eða missa alla fjárhagsaðstoð ella. Það eru ekki bara fóstureyðingar, bannað er að veita fræðslu um getnaðarvarnir, skírlífi er það sem að þessir forpokuðu afturhaldsseggir vilja í sínu Texas-ríki og andskotinn hafi það, nú skal heimurinn líka gjöra svo vel að lifa skírlífi fyrir giftingu! Þessa menn þarf að taka úr umferð, ekki láta þá vera voldugustu menn heims.

    Ástandið í Texas og hluta Bandaríkjanna er næstum jafn slæmt og í Pakistan þar sem að maður hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að trúa því að annar maður hafi verið spámaður. Íslömsk lög segja að Múhammeð hafi verið síðasti spámaðurinn og dauðasök liggur við því að halda þykjast vera spámaður eða fylgja honum.

    Ekki er þetta betra í Íran þar sem að búið er að handtaka rakara fyrir að klippa stúlkur eins og drengi svo þær gætu klætt sig sem stráka á almannafæri.

    Meira frá Texas, þar er dómskerfið þannig að kviðdómur ákveður bæði sekt og refsingu. Saksóknarar hafa nú frestað öllum málum þar sem að kviðdómendur gætu verið of meyrir í kringum jólahátíðina. Best finnst saksóknurum að hafa réttarhöld um miðjan apríl þegar að kviðdómendur eru pirraðir vegna skattskila. Æðislegt réttlætið þarna!

    Nú eru komnar vísindalegar niðurstöður fyrir því að bölvunin sem átti að vera á gröf Tútankamons hafi bara verið bull frá breskum blaðamönnum. Varla stórfrétt þar á ferð en þó nokkrar bækur og kvikmyndir hafa þó verið gerðar þar sem að einmitt er gengið út frá því að bölvunin hafi verið raunveruleg.

    Lifandi fuglar og orkídeur í töskunni og sprækir apar í buxunum, bara enn einn dagurinn í tollinum.

    Nú er örstutt í fyrsta klónaða barnið. Kanadískir félagar í Raelians-trúarhreyfingunni hafa gefið út tilkynningu þess efnis að það ætti að fæðast á jóladag. Fjögur “systkyni” þess munu svo fæðast á næsta ári.

    Bjórdrykkjumenn í Þýskalandi eru núna líklega að hamstra bjór þar sem það lítur út fyrir bjórskort þar snemma á næsta ári. Það er vegna hertra reglna um óendurnýttar umbúðir en Þjóðverjar hafa ekki verið nógu duglegir við endurvinnsluna. Gott á þá segi ég bara, ef þú gefur skít í umhverfið færðu skít til baka!

    Mér hafa borist fregnir af því að íbúar Stokkseyrar séu allra manna duglegastir að skreyta fyrir jólin og toppa víst marga Bandaríkjamenn. Þó hefur ekki borið á jólasveinaránum þar, í Toronto er húseigandi núna að safna saman niðursuðuvörum til að geta leyst jólasveininn sinn úr haldi manna sem vilja að niðursuðuvörunum sé dreift til fátækra fyrir jólin. Skreytingin er víst ekki sú sama þar sem hreindýrin eru víst hálf ráðlaus án jólasveinsins. Ekki langar mig til að sjá þessa skreytingu, jólasveinalausa eður ei!

    Belgar halda víst fastast um budduna fyrir jólainnkaupin. Ég held að það sé ekki endilega slæmt mál, jólagjafir ættu að vera smálegar og persónulegar, ekki eitthvað dýrt glys eða nýr bíll.

    Það er erfitt líf að vera íþróttamaður á heimsmælikvarða. Rúmenar eru alltaf að reyna að ná sér í aukapening enda með fátækari löndum Evrópu. Þrír fimleikamenn hafa verið bannaðir í fimm ár fyrir að gera fimleikaæfingar naktir í ljósblárri mynd. Þetta er allt komið í rugl þegar að íþróttamenn eiga að vera geldar steríótýpur sem ekkert mega gera. Skil einkalífs og opinberrar þátttöku eru alltaf að minnka í hugum fasista þessa heims.

    Talandi um íþróttir, tímasetning skiptir öllu þar og barnsfæðingar eru engin undantekning. Á morgun fer fram einvígi Liverpool og Everton og til að missa ekki af því lét Richard Wright (markmaður Everton) setja konu sína í gang svo að annað barn þeirra fæddist áður en leikurinn færi fram.

    Það er ekkert slor afmæliskortið sem forsætisráðherra Indlands fær á jóladag þegar hann verður 78 ára. Kortið er rúmlega hálfur kílómeter á lengd!

    Andstæðingar Evrópusambandsins gera auðvitað sitt besta til þess að rangtúlka ákvarðanir þess. Það nýjasta af þessum vettvangi var orðrómur sem fór í gang á Ítalíu um að búið væri að leggja friðhelgi sunnudaga af! Þetta var auðvitað bara bull, samþykktin hljómaði upp á það að aðildarlöndin réðu sjálf hvaða vikudagar væru almennir frídagar.

    Lýkur þá fréttunum, einn gullmoli þó handa þeim sem entust að lesa allt ofantalið. Aldrei skal gefa okkur Sigurrós blóm! Við erum vonlaus í því eins og sjá má á jólarósinni okkar. Við frábiðjum okkur allar gjafir sem að líf bærist með.

    Uncategorized

    Bílamálin

    Þá loksins getum við kjaftað frá nýjustu fréttum. Við höfum þagað yfir þessu undanfarið til að við gætum komið tengdó á óvart þegar hún heimsótti okkur í dag. Við höfum sumsé fest kaup á “nýjum” bíl. Eftir 9 ára samveru sagði ég loks skilið við mína traustu Mözdu (hún hefur þó átt sína slæmu daga en líka góðu) og yngdi upp um ein 6 ár. Við keyptum hann Phoenix af Daða bróður og hann fékk Mözduna uppí. Þetta er þriðji bíllinn minn (áður átti ég Lödu í eitt ár) en sá fyrsti sem að Sigurrós eignast. Þess má geta að ég hef aldrei nefnt bílana mína en það hefur Daði gert og Toyotan fær að halda nafninu sínu. Auðvitað er svo hið besta mál að hún heiti sama nafni og uppáhalds íþróttaborgin mín í Bandaríkjunum, Phoenix þaðan sem hetjurnar mínar í Suns koma.

    Förinni var annars heitið í Fagrahjallann þar sem Ingunn frænka (Sigurrósar) var að útskrifast sem stúdent hálfu ári á undan áætlun sem er auðvitað glæsilegt!

    Áhugavert:

  • Merkileg tíðindi varðandi verð á prenthylkjum
  • Áminning varðandi tjáningarfrelsi á vefnum
  • Uncategorized

    Tíminn flýgur

    Tíminn flýgur svo hratt þessa dagana, nú er maður byrjaður að taka þátt í jólaundirbúningnum og lét meira að segja draga mig í Kringluna til að versla þar á mig og fyrir aðra.

    Skondnu smáfréttirnar sem ég hef grafið upp verða að bíða að minnsta kosti einn dag enn, ég hef ekki haft tíma til að lesa þær yfir og pikka nokkrar góðar úr. Ætli það verði ekki löng rulla þegar ég loksins kemst í það.

    Get þó sýnt áhugasömum jólaskreytinguna mína í ár, hún er staðsett niðrí vinnu. Þess má geta að það er ákveðið concept á bakvið uppröðun flasknanna og liti þeirra. Ekki allir virðast átta sig á því.

    Áhugasamir geta fengið stærri myndir af herlegheitunum sé þess óskað!