Endajaxla-taka 2

Þetta var nú ævintýri í gærkvöldi. Við vorum að fá okkur snöggan kvöldverð svona áður en við kláruðum að keyra út pakka og héldum á Selfoss til að verja jólunum hjá tengdó. Eftir að hafa kyngt síðustu bitunum af hamborgaranum fann ég allt í einu að eitthvað var laust í munninum. Sekúndu síðar lágu tannbrot og fylling á disknum mínum, rannsókn með aðstoð tungunnar færði sönnur á grun minn. Signi endajaxlinn (kominn neðar en allar aðrar tennur) var nú rétt rúmlega hálfur eftir og hvassar brúnir voru frekar leiðinlegar viðkomu.

Neyðarvakt tannlækna bauð mér að koma strax og ég var mættur í Hlíðarsmára 17 örfáum mínútum seinna. Þar tók Anna D. á móti mér og eftir að hún ygldi brúnir yfir ljótum leifum endajaxlsins sagði ég henni að tennurnar í mér væru að jafnaði með tvær rætur sem krókuðust í sitthvora áttina.

Hún hlustaði á ráð mín (heimilislæknar athugið! ekki óvitlaust að hlusta á sjúklingana… þeir vita oft hvað amar að sér og af hverju!) og tók röntgenmynd sem staðfesti þennan grun. Eftir nokkra glímu fór að losna örlítið um jaxlinn, þá heyrðist brothljóð og ég hélt að nú hefði krúnan brotnað frá rótunum (eins og gerðist síðast). Tannlæknirinn sagði hins vegar “þetta hljómaði nú ekki vel” og hélt áfram að tjakka jaxlinn upp mér til undrunar þar sem ég bjóst ekki við því að það væri hægt við hann svona krúnulausan. Eftir talsvert puð náðist jaxlinn upp og þá sá ég hvað það var sem hafði brotnað, það var ekki jaxlinn sem var í fínu formi fyrir utan þar sem fyllingin og tannbrotið höfðu verið, jaxlinn hafði hins vegar rifið með sér hluta af kjálkabeininu sem var eiginlega samgróið jaxlinum. Því er örlítið þynnra sums staðar hjá mér kjálkabeinið en annar staðar þessa stundina. Þetta á þó að gróa og var í rauninni bara smáflís. Jaxlinn reyndist svo við talningu vera með þrjár rætur og hinn mesti hnullungur.

Harðjaxlinn ég tók þessu öllu af mestu ró, búinn að fara í gegnum svona áður og ég virðist koma vel út úr þessum jaxlatökum miðað við marga aðra. Flestar hryllingssögur hafa reyndar verið tengdar neðri endajöxlunum, þeir leynast enn uppí mér.

Kom svo að lokum heim, farangri skellt í bílinn og brunað af stað upp í Miðhús þar sem nýfrágenginn og glæsilegur arininn sómdi sér vel í stofunni. Því næst var komið við hjá pabba og hann dreif okkur á bensínstöð til að jafna loftþrýstinginn í dekkjunum áður en við héldum yfir heiðina.

Skutumst heim til að ná í það sem gleymdist og eftir að hafa skilað af okkur einu póstkorti náðum við loksins að yfirgefa bæinn tæplega þremur tímum á eftir áætlun. Hellisheiðin var svo vitavonlaus, 4 stikna skyggni í miklum vindi og rigningarsudda. Alltaf jafn gaman að koma niður Kambana í mun skaplegra veður!


Í dag var slappað af í Sóltúni, matur hófst svo klukkan sex með dýrindis aspassúpu, dönskum hamborgarahrygg og meðlæti.

Gjafir voru opnaðar stuttu eftir mat og þar sem að krílin eru frekar óþolinmóð tók það ekki ýkja langan tíma að tæta í gegnum hrúguna.

Fékk Discworld-bók, The Amazing Maurice and his educated Rodents, bók sem ég hafði eitt sinn talið að væri ekki í Discworld-seríunni en komst að því fyrir nokkrum mánuðum að hún væri í seríunni mér til undrunar og gleði. Þá var hún aðeins til í harðspjaldaútgáfu, en eins og allir vita eru þær bækur á verði mannsmorðs. Ég var eiginlega búinn að gleyma henni þegar að ég loksins sá hana í pakkanum mínum í kiljuformi. Las hana í kvöld, Pratchett klikkar sjaldnast.

Comments are closed.