Íbúð, þjófavörn og annað

Leit í örstutta heimsókn til Arnar og Regínu til að sjá nýju íbúðina þeirra, glæsilegt útsýni yfir Fossvoginn og vesturbæi Kópavogs og Reykjavíkur.

Hitti líka Val og Erni Þór, held ég hafi ekki séð þann stutta í rúmt ár eða svo.

Rétt áður en ég fór var einhver sprengja sprengd nálægt bílaplaninu, þjófavarnarkerfið í Phoenix fór af stað með látum, fyrsta sinn sem það gerist. Vonandi verður hann ekki vælandi allt gamlárskvöld.

Það kemur mér ekki ýkja mikið á óvart að Ian McKellen sé hinn nýi Dumbledore, held að það hafi verið nokkuð augljóst þegar að Richard Harris lést.

Meira varðandi Hringadróttinssögu (McKellen = Gandálfur), vefurinn Landover Baptist er alveg snilldar satíruvefur sem að tekur alla þessa prédikara og flettir þá klæðum með því að nota sama orðalag og þeir sjálfir og vitna jafn duglega í Biblíuna. Nýjasta “fréttin” frá þeim er vegna samkynhneigðrar náttúru sem birtist í The Two Towers. Snilldarlesning, ef maður vissi ekki betur héldi maður að þetta væri beint frá Billy Graham, Pat Buchanan eða öðrum af þeirra sauðarhúsi (Ísland, sjá Omega og Gunnar í Krossinum).

Ágætis tækifæri fyrir auðmenn sem vilja eignast sinn eigin bæ, Playas í Nýju-Mexíkó (BNA) er til sölu eins og hann leggur sig. Aðeins 280 milljónir sem eru kjarakaup fyrir 259 heimili, félagsmiðstöð, keilusal, tvær kirkjur (tvær!), ródeóhring, flugbraut, pósthús, lögreglustöð, banka, heilsugæslu og slökkvistöð.

Í dag lýkur sölu á öðru krummaskuði í Bandaríkjunum, Bridgeville í Kaliforníu. Það var hins vegar boðið upp á eBay og er nú verið að fara í gegnum tilboðin til að sjá hvort þau standast.

Ættu íslensk sjávarþorp sem hafa verið tekin aftan frá af óréttlæti núverandi kvótakerfis og siðspilltum mönnum að grípa til þessa örþrifaráðs að hreinlega bjóða sig á eBay?

Það er ekki öll vitleysan eins í Ameríkunni, verslunarkeðjan Wal-Mart selur byssur og skotfæri í verslunum sínum en kippti ófrískri vinkonu Barbie úr hillunum eftir kvartanir viðskiptavina. Ameríka, þar sem kynlíf er verra en morð.

Comments are closed.