Uncategorized

Skóli, örbylgjur, fiskar og Unicode

Margt gert í dag, fór í fyrsta tíma annarinnar í morgun. Það verður svo mikið að gera hjá mér á þessari önn vegna skóla (lokaverkefni plús bókleg fög), vinnu, ýmissa persónulegra verkefna og svo verður konan að fá eitthvað líka, að ég verð að vera afskaplega agaður og skipulagður í öllu því sem ég geri.

Fórum í dag og fengum okkur nýjan örbylgjuofn, okkar lést sviplega en þar sem hann var saddur lífdaga (15 ára eða svo) þá tókum við því með jafnaðargeði. Tæpar 8.000 krónur fyrir eitt stykki í Heimilistækjum er nokkuð vel sloppið! Af þessu tilefni var gamla tölvuborðið mitt dubbað upp og gert að vinnuborði í eldhúsinu og bætir aðstöðuna verulega.

Sigurrós finnst fiskabúr mjög skemmtileg en sökum vesens við þrifnað hefur slíkt ekki verið keypt á heimilið hjá okkur, held að við reynum ekki heldur að hafa fisk í baðkerinu hjá okkur… örugglega svipað vesen við þrifin!

Af tæknimálum er það að frétta að loksins loksins tókst mér að koma PostgreSQL (gagnagrunnur) og phpPgAdmin á lappirnar á vefþjóninum. Gerði smá Unicode tilraunir og það blessaðist allt. Framtíðin alltaf að verða betri og betri fyrir magnaðasta gagnagrunnsverkefni heims!

Góðar fréttir frá Noregi, Bjarni skrifar meira um þessi tíðindi.

Smellti færslu gærdagsins á Huga til að fá viðbrögð þar.

Sumir bloggarar pota sér á fleiri staði en aðrir.

Uncategorized

Kvikmyndaskoðun

Eftir að hafa séð litlu börnin í bíó í gær og tekið eftir því að aldursstimplar eru horfnir af auglýsingum kvikmynda fórum við Sigurrós á stúfana til að grafa upp staðreyndir málsins.

Þetta er allt hið flóknasta mál, þessi lög um kvikmyndir virðast vera í fullu gildi og Kvikmyndaskoðun er að leggja dóm sinn á þær kvikmyndir sem eru í bíóum þessa dagana en ekki stafkrókur birtist um það í auglýsingum blaðanna né á netinu. The Two Towers fær stimpilinn “Bönnuð innan 12” (sem mér finnst mjög eðlilegt) en enginn auglýsir það.

Hér virðist um hrein og klár lögbrot að ræða, sjá greinar 7 og 8.

  • 7. gr. Aðilum skv. 1. mgr. 4. gr. er skylt að sjá til þess að öll eintök hinnar skoðuðu kvikmyndar séu merkt af Kvikmyndaskoðun. Dreifingaraðilar og sýnendur kvikmynda skulu láta niðurstöður Kvikmyndaskoðunar fylgja öllum auglýsingum og kynningu á kvikmyndum með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Kvikmyndaskoðun skal a.m.k. tvisvar á ári gefa út heildaryfirlit yfir skoðaðar kvikmyndir þar sem fram kemur mat á sýningarhæfni þeirra.

  • 8. gr. Ef kvikmynd, sem sýna á í kvikmyndahúsi, er bönnuð börnum innan tiltekins aldurs ber forstöðumaður kvikmyndahússins ábyrgð á að banninu sé framfylgt. Bannið gildir einnig þó að barn sé í fylgd þess sem heimild hefur til að sjá viðkomandi kvikmynd.
    Óheimilt er að lána, leigja eða selja börnum eintak kvikmyndar ef hún er bönnuð börnum á viðkomandi aldri. Hver sá sem rekur myndbandaleigu ber ábyrgð á að banninu sé framfylgt að því er tekur til kvikmyndaefnis sem þar er á boðstólum.

  • (feitletranir mínar)

    Þetta er líka áréttað í 8. grein reglugerðar frá sama ári. Einhver staðar virðast allir aðilar hafa blindast?

    Hlutverk Kvikmyndaskoðunar er leiðbeinandi, að gefa myndum stimpla sem segja til um hversu gömul börn ættu að vera til að fá að sjá þær. Hlutverk hennar er ekki að banna fullorðnu fólki að sjá kvikmyndir, börn eru ekki litlar fullorðnar manneskjur, þau eru börn sem eru að taka út þroska. Maður setur ekki smábarn við stýrið á bíl, alveg eins og maður setur það ekki niður til að horfa á Night of the Living Dead.

    Lagatillaga var svo sett fram árið 2002 um að afnema þessa stofnun, einkaaðilar ættu sjálfir að meta myndirnar. Þeir eru einmitt svo ábyrgðarfullir þessa dagana, brjótandi lögin og ekki að veita foreldrum neinar upplýsingar (eins og Heimdellingar láta sig dreyma um). Reyndar skil ég ekki hvaða máli það skiptir að einkaaðilar meti myndirnar, þeir ættu mjög erfitt með að vera hlutlausir því að ef að þeir koma ekki með réttu dómana fara kvikmyndahúsin bara til annara aðila! Ég er ekki að segja að Kvikmyndaskoðun sé óskeikul, aðeins að hún er ekki eins háð kvikmyndahúsunum og því líklegri til að vera hlutllæg í dómum sínum. Hvað skorður á tjáningarfrelsi varðar (sem er nefnt í lagafrumvarpinu) þá hefur Kvikmyndaskoðun ekki bannað neina mynd undanfarin ár eftir því sem ég get best séð, aðeins sett á þá aldursstimpla. Hvar er brotið þar?

    Áhugavert:

  • Nákvæmari lýsingu er ekki hægt að gefa á amerísku siðferði.
  • Britney Spears að leika Sherlock Holmes!
  • Uncategorized

    Tveggja turna tal

    Þá erum við komin í tölu þeirra sem hafa séð aðra myndina í myndabálknum um Hringadróttinssögu. Mun betri en fyrsta myndin, sögupersónur fengu meiri dýpt, þetta var ekki endalausir eltingaleikir og læti (nema að hluta til). Lítur ágætlega út fyrir lokamyndina.

    Verð þó að segja að mér fannst þessi börn ekki eiga heima á myndinni, frá 5 ára og upp í 10 ára grislingar sem óku sér um í sætunum á upphækununum og hvískruðu. Er maður orðinn svo gamall og ráðsettur að maður vilji láta framfylgja bönnum á myndir?

    Talandi um bönn, er búið að leggja kvikmyndaeftirlitið niður? Ekki ein einasta mynd er nú merkt sem “bönnuð börnum” og skiptir þá engu máli hvaða viðbjóður (fyrir börn) þar er á ferð. Auðvitað taka foreldrar lokaákvörðunina en það mætti nú aðstoða þá við að meta hvað er ekki við hæfi barna þeirra. Ég færi aldrei með unga krakka á þessar myndir, þau verða nógu hrædd af því að sjá ógeðslega drauga í jólastundinni okkar!

    Það þarf nefnilega ekki að standast próf til að verða foreldri… ég held að það væri samt ekki vitlaus hugmynd að taka upp skyldunámskeið fyrir verðandi nýja foreldra þar sem þeim eru kennd helstu handbrögð við umönnun ungbarna og messað yfir þeim að barni fylgir ábyrgð. Eru börn kannski ómerkilegri en mótorhjól, bílar og vinnuvélar?

    Var að rekast á þessa merkilegu frásögn af eiturlyfjaæði sem rann á konu eina í Bretlandi. Hún hélt að stór græn fluga hefði flogið upp í munninn á sér og hóf því (hún eða kærastinn…. aðeins þau vita það) að rífa úr sér tennur með venjulegum töngum. Greinilega ekki með svona þrefaldar rætur eins og ég fyrst að tennurnar fljúga út!

    Varð ekki svefnsamt í gærkveldi og greip því eina af þeim bókum sem ég fékk í jólagjöf (mikil bókajól hjá mér). Þetta var draugasagan The Time of the Ghost eftir Díönu Wynne Jones. Kláraði hana á tæpum þremur tímum, prýðisgóð lesning með áhugaverðu plotti.

    Uncategorized

    Hringadróttinn eitt, aftur

    Vaknaði 7 í morgun til að klára að lesa yfir fyrir prófið sem ég fór í klukkan 9. Gekk þokkalega en blessaðar EJB-baunirnar eru alltaf að rugla í mér.

    Fyrsta myndin í Hringadróttinssögu féll mér ekki alveg í geð þegar við fórum á hana. Fékk hana núna lánaða hjá Reyni Erni og við horfðum á hana (extended version). Kannski hef ég bara mildast svona eða að þessi lenging atriða hafi bætt söguna svona mikið, slefar alveg upp í þrjár stjörnur núna í stað tveggja síðast.

    Uncategorized

    Fleiri fréttir

    Dagurinn í dag farið í lestur fyrir endurtektarprófið sem er í fyrramálið. Því fátt annað að frétta en…

    Bush yngri hefur sett í gang viðamikla gagnaleynd í Bandaríkjunum. Í stað þess að skjöl séu gerð opinber er nú allt kapp lagt á að neita aðgangi að þeim, þetta er mikil breyting frá stjórnartíma Clintons og var vel að merkja löngu ákveðið áður en hryðjuverkin urðu. Fyndið þegar sumir benda til Bandaríkjanna sem lýðræðisríkis, það telst víst lýðræði að hljóta kosningu sem forseti þrátt fyrir að fá færri atkvæði en andstæðingurinn (Gore fékk fleiri atkvæði á landsvísu en Bush en fornt kosningakerfið þýddi annað), það telst víst líka lýðræði að neita almenningi um aðgang að opinberum skjölum. Lifi lýðræðið!

    Það fer ekki heldur mikið fyrir lýðræðinu í Ísrael þegar að palestínskum þingmönnum á ísraelska þinginu er meinað að bjóða sig aftur fram vegna yfirlýsinga þeirra, bæði frjálslyndir gyðingar og palestínskir Ísraelsmenn eru afar uggandi yfir þessu eins og vænta má. Lifi lýðræðið!

    Sjaldgæfur mannréttindasigur unnin í Kína, kínversk lögregluyfirvöld hafa beðist afsökunar á því að hafa brotist inn á heimili og gert þar upptæk klámmyndbönd, mikill hasar sem hefur staðið yfir eins og lesa má hjá Reuters. Ætli íslensk lögregluyfirvöld muni biðjast afsökunar við Ástþór Magnússon? Helvíti hart þegar að Kínverjar eru lýðræðislegri en við.

    Jón Steinsson hjá Deiglunni virðist ótrúlega vel að sér hvað varðar fyrirætlanir bandarískra yfirvalda í Írak. Hann virðist hafa það beint frá æðstu mönnum hvað verði sprengt upp og hvað ekki og að Bandaríkjamenn ætli sér að halda landinu uppi í mörg ár. Þær fréttir sem ég hef lesið austan og vestan hafs virðast ekki jafn nákvæmar, allt er ennþá óljóst. Hann virðist fylgjandi stríðinu þannig að ég vona að hann sjái ekki meira af sprengjuárásum sem verða saklausum borgurum að fjörtjóni, hann hefur það eftir góðum heimildum að svo verði nefnilega ekki. Reyndar er svolítið seint í rassinn gripið þar, fjöldi Íraka hefur látið lífið í sprengjuárásum Bandaríkjamanna undanfarna mánuði en ekki nógu margir til þess að það komi í helstu fjölmiðlum.

    Kínverski gjörningamaðurinn, sem virðist hafa borðað látið barn, svaraði gagnrýnendum á þann veg að list gæfi ekki svör heldur vekti upp spurningar. Hann tók það jafnframt fram að hvergi í Biblíunni væri mannát bannað, hann segist vera dyggur mótmælandi (sjá Martein Lúther).

    Meira af líkamsleifum, starfsmenn í þvottahúsi í Svíþjóð fundu kvenmannslöpp í óhreina tauinu frá sjúkrahúsi. Rannsókn stendur yfir.

    Ó ef glæpamenn væru allir jafn vitlausir þá gætum við brosað að þeim öllum í stað þess að horfa upp á mikið tjón.

    Önnur góð frétt að lokum, barnungar stúlkur eru stærsti aðdáendahópur froðupoppstjarnanna Christinu Aguilera og Britney Spears (reyndar óteljandi fleiri froður en hvað um það) og þær horfa auðvitað á tónlistarþátt stílaðan inn á þær. Eftir að Aguilera kom fram í nærbuxum með NASTY rituðu aftan á brugðust margir foreldrar reiðir við og siðanefnd áminnti sjónvarpsstöðina fyrir að sýna svona efni á þessum tíma, öðru máli gegndi ef það væri seint um kvöld. Aguilera varð því að mæta nokkurn vegin fullklædd núna þegar henni var aftur boðið í þáttinn. Börn eiga að vera börn, 10 ára stúlkur ættu ekki (að mínu mati náttúrulega) að vera að varalita sig, ganga um í toppum og örstuttum pilsum. Það er nógur tími fyrir það seinna! Algjör óþarfi að stela sakleysi æskunnar fyrir nokkra dollara í vasa froðuframleiðenda.

    Uncategorized

    Nú eru sagðar fréttir (ekki koma blöðin út!)

    Góðar pælingar um heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum.

    Deiglan útnefnir Árna Sigfússon sem pólitíkus ársins, Árni er örugglega mjög vænn og góður maður en virðist hafa eitthvað ákveðið “touch-of-death” sem að fer illa með fjármál þeirra stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga sem hann kemur nálægt.

    Hef verið að heyra að myndin frábæra Cinema Paradiso sé aftur á leiðinni til landsins, 15 árum eftir frumsýninguna. Þetta ku vera lengri útgáfa, munar einum 40 mínútum. Vakti athygli mína að myndin er stranglega bönnuð börnum í Ameríkunni þar sem að það er smá erótík í henni. Það er eins og alltaf… brjóst bönnuð, morð velkomin. Ameríka er með hæstu tíðni barneigna meðal unglinga af vestrænu ríkjunum, það er vegna þess að það er bannað að ræða um kynferðismál, þeir óttast að börnin verði þá duglegri ef þau vita meira!

    Maður frá Montana hefur kært aðstandendur Jackass sjónvarpsþáttana fyrir að eyðileggja nafnið fyrir sér. Bob Craft missti bróður sinn og annan vin í bílslysi 1997 þar sem þeir óku fullir, hann breytti nafni sínu í Jack Ass (asni) til að vekja athygli á því hversu heimskulegt það er að keyra fullur. Hann heldur líka úti vef þar sem hann reynir að koma þeim skilaboðum á framfæri, svona baráttumenn fyrir góðum málstað vantar oft.

    Konum sem vilja styrkja brjóstin á sér ættu að fara að panta miða til Tælands, þar sem tælenska heilbrigðisráðuneytið ætlar að vera með sérstaka leiðbenendur til að kenna brjóstastyrkjandi dansa svo að skorurnar líti betur út.

    Það er áhugaverðara kynlífið sums staðar en annar staðar. Kolkrabbi af ákveðinni baneitraðri tegund (blue-ringed) við strendur Ástralíu hefur ekki hugmynd um hvort að hinn kolkrabbinn sé karl eða kvenkyns fyrr en hann hefur stungið einum armi sínum á þar til gerðan stað til maka, ef að tvö karldýr lenda saman skilja þau í mesta bróðerni eftir tilraunina en ef karldýr hittir á kvendýr heldur það sig við það í rúman klukkutíma til að tryggja að getnaður hafi tekist. Ég sé fyrir mér drukkin ungmenni á íslenskum skemmtistað þreifandi í klofinu á hvor öðru, ef að tveir gagnkynhneigðir karlar myndu þreifa á hvor öðrum myndi það væntanlega enda með miklum ósköpum, svo rík er macho-hefðin ennþá.

    Íslendingar eru ekki einir um það að leyfa öllum að kaupa sér flugelda, það er gert á fleiri stöðum eins og í Venesúela. Þar hétu stærstu flugeldarnir “tengdamömmumorðingi” og “húsaspillir” en hafa nú fengið nafnið Bin Laden. Eitthvað eru nú Ingólfur Arnarson og félagar hófsamari nöfn hérna hjá okkur.

    Uncategorized

    2002 2003

    Gærkveldið fór ekki það glæsilega af stað, klukkan 16 braut Sigurrós tönn og fyllingu, nákvæmlega sama dæmi og hjá mér á Þorláksmessu. Við brunuðum á neyðarvakt tannlækna, að þessu sinni ofar í Hlíðarsmára. Öðrum sem kunna að leita til neyðarvaktar í Hlíðarsmára er bent á að sléttu húsnúmerin eru efst á hæðinni en oddatölurnar er neðst… það er svo skemmtilega raðað húsunum þarna. Tannlæknirinn rétt slípaði þar sem hafði brotnað, rukkaði fyrir það 2.030 krónur og sendi Sigurrós svo heim með þau skilaboð að panta tíma hjá tannlækni sem allra fyrst.

    Við náðum því að komast í matinn heima hjá mömmu í tæka tíð þar sem fínn kalkúni (fínn þegar búið er að baða hann upp úr sósu á diskinum) var á boðstólum og ís í eftirrétt. Skaupið lagðist afar vel í heimilismenn enda mjög lýðræðissinnað heimili og skotin á Falun Gong málið eiga meira en lítið rétt á sér. Prýðisgott skaup, spurning hvaða atriði það voru sem urðu að víkja til að skauparar gætu skeytt inn öllum Ingibjargar Sólrúnar atriðunum sem voru gerð á síðustu stundu.

    Útsýnið af svölunum í Miðhúsum er glæsilegt, við sáum yfir til vesturbæjar Reykjavíkur og yfir allan Mosfellsbæ og Grafarvog.

    Leiðin lá svo til Arnar og Regínu sem voru með áramótapartý í nýju íbúðinni sinni. Hitti þar í fyrsta sinn í nokkur ár þá Alla og Magga sem nú spila með Reisn. Hitti líka Eini og aðra grislinga úr Vesturbænum (í Kópavogi… vesturbærinn í Reykjavík fær ekki stórt v í mínum fræðum) enda er Regína grislingur úr Vesturbænum.

    Fórum tiltölulega snemma heim, klukkan hálf-fjögur enda margt sem þarf að gera í dag og vinna á morgun.

    Í dag hef ég svo leikið mér og lesið fræðin fyrir endurtektarprófið á laugardaginn. Maður hefur gott af því að falla á áratugsfresti svona til að hrista upp í manni… alltaf að líta á björtu hliðarnar.

    Sá áðan einhverjar 10 sekúndur af gjörningi þar sem maður í kassa þóttist vera útvarp með hendi og var að búa til auglýsingu á kínversku. Fannst þetta afskaplega óspennandi þannig að ég tékkaði ekki frekar á þessu, gjörningar í Kína eru nefnilega mun öflugri en þessi útvarpskassi.

    Árið byrjar sæmilega samt, Uglurnar vinna og ítalskar kjötbollur í kvöldmat. Nú er bara að sjá hvort að það verði eitthvað meira traðkað á mannréttindum á þessu ári, held við höfum sloppið skammlaust í dag þannig að það lofar vonandi góðu.

    Uncategorized

    Árið endað með hláturkasti

    Fékk smá astmakast í vinnunni í dag. Greindist í fyrra með áreynsluastma sem ég hef reyndar verið með í mörg ár en ekkert pælt í. Áreynslan í morgun var hins vegar ekki beint vinnunni að kenna heldur hlátrasköllum, Gunni gróf upp myndband frá stuttmyndahátíð sem fékk okkur til að kúgast af hlátri. Ég held ég fái harðsperrur eftir hláturkastið sem maður var í þær rúmu 8 mínúturnar sem myndbandið varir. Þetta er æðisleg splatter-útgáfa af venjulegu kennslumyndbandi fyrir lyftara, við Gunni og Konni höfum allir verið lyftarakallar og gátum því metið þetta enn meira en Stefán sem lá þó auðvitað í krampa yfir þessu.

    Myndbandið er 91 MB (of stórt fyrir venjuleg módem!) og ég hef sett eintak af því hér (ókeypis niðurhal innanlands!).

    Upplýsingaleynd er farin að verða minni og minni, forráðamenn fyrirtækja eru farnir að þora ekki öðru en að afhenda yfirvöldum upplýsingar án þess að úrskurður frá dómstólum komi þar nálægt. Þetta er varhugavert þegar að hvaða embættismaður sem er getur fengið hvaða upplýsingar sem er. Forráðamenn fyrirtækjanna þora oft ekki öðru, óttast að þá fái fyrirtækið á sig einhver stimpil um að þeir vilji fela hryðjuverkamenn og barnaníðinga.

    Málið er það að ef að grunur leikur á að um sé að ræða glæpamenn þá ber yfirvöldum að leita til dómstóla og svo til fyrirtækjanna ef að dómstólar samþykkja röksemdir yfirvalda. Hvaða embættismaður sem er ætti ekki að geta fengið allar upplýsingar um mig (eða félaga minn í Bandaríkjunum) þó svo að hann hafi illan bifur á mér.

    Uncategorized

    Höft og málfrelsi

    Tolli benti á þessa mögnuðu sögu frá Bandaríkjunum sem sýnir gjörla hversu langt okkur er að fara aftur í mannréttindum. Það eru svona aðgerðir sem að íslensk lögregluyfirvöld hafa stundað nokkuð lengi, handtökur byggðar á fordómum opinberra starfsmanna.

    Textavarpið birti áðan frétt um að átta hermönnum í varaliði ísraelska hersins hefði verið synjað að gegna herþjónustu annar staðar en á Vesturbakkanum, þeir vilja ekki þjóna þar sökum þess að það stríðir gegn samvisku þeirra. Dómurinn sagði meðal annars að:

    Í úrskurði Hæstaréttar segir að ekki sé viðurkennt að taka megi tillit til samvisku einstaklinga, slík stefna kynni að losa böndin, sem tengja saman ísraelsku þjóðina, og skaða hagsmuni ríkisins.

    Þetta vill Björn Bjarnason fá til Íslands, fleiri kjötskrokka sem að mega ekki hlusta á samvisku sína heldur gera það sem ríkið skipar þeim. Ríkið er ekki fólkið, ríkið eru kerfiskarlar sem að lifa í vel stæðum úthverfum og þurfa aldrei auman mann að sjá. Lögreglan var greinilega ekki nógu fólskuleg í ólöglegum aðgerðum sínum á þessu ári, Björn er æstur í her sem framfylgir skipunum hans manna í blindni, ekki verra að fá liðleskjurnar í Hæstarétti til að geta gúterað það.

    Meira af dómstólum, svona ákvarðanir takmarka málfrelsið. Ég veit ekki hvað var sagt og er nokk sama um það í þessu máli, en að dómstóll í einu landi geti ákveðið að þeir hafi lögsögu yfir einhverju sem er birt í öðru landi er afskaplega hæpið og stórhættulegt fordæmi. Við gætum fengið núna hrúgu af kærum frá kínverskum dómstólum vegna frétta okkar af Falun Gong, væri röksemdafærsla ástralska dómstólsins notuð.

    Uncategorized

    Það var pólitíkin

    Amma bauð okkur feðgunum í lambalæri í kvöld. Sjaldan sem að við hittumst allir fimm (Sigurrós mætti auðvitað sem eini makinn og maturinn var prýðisgóður).

    Kannski við förum að hafa fisk tvisvar í mánuði eða svo fyrst að hann virkar svona vel. Síðast þegar við keyptum fiskrétt var hann fullur af beinum og það pirrar mann óstjórnlega að þurfa að tyggja hvern einasta bita hægt og vandlega til að maður sé öruggur um að drepa sig ekki á matnum.

    Óvenju góður pistill frá Pawel Bartoszek.

    Það er víst svo að stjórnmálamenn gala það sem fólk vill heyra, Herman gerir þessu góð skil í dag.

    Þessi frétt veltir upp enn einni hliðinni á friðhelgi einkalífs nú þegar að allar mögulegar upplýsingar er að finna á netinu. Undarleg grein um þetta sama málefni í Morgunblaðinu í dag þar sem að frekar súr útgáfa af framtíðinni er kynnt, ég tel höfund greinarinnar vera að rugla en það er annað mál.

    Stórtíðindi í íslenskri pólitík í dag þegar Ingibjörg Sólrún tilkynnti afsögn sína. Sjónvarpsfréttamönnum er reyndar fyrirmunað að greina frá þessu á viðunandi hátt, þeir fóru yfir atburði dagsins með því að tafsa ofan í myndir þar sem að menn og konur gengu inn í Ráðhúsið og fóru í lyftur, ótrúlega fræðandi og spennandi fréttamennska það. Amatörar amatörar amatörar!

    Ingibjörg Sólrún að hætta sem borgarstjóri, enn og aftur er það hún sem stendur uppi sterk, þetta var hennar tillaga og hennar ákvörðun og bæði gekk eftir. Alvöru leiðtogar vinna sigra jafnvel þegar að þeir virðast vera í ómögulegri stöðu. Held ég að mennirnir í hvíta kassanum séu nú orðnir uggandi, hvað þá nátttröllið Halldór Ásgrímsson sem að á það fyllilega skilið að hverfa af þingi.