Kvikmyndaskoðun

Eftir að hafa séð litlu börnin í bíó í gær og tekið eftir því að aldursstimplar eru horfnir af auglýsingum kvikmynda fórum við Sigurrós á stúfana til að grafa upp staðreyndir málsins.

Þetta er allt hið flóknasta mál, þessi lög um kvikmyndir virðast vera í fullu gildi og Kvikmyndaskoðun er að leggja dóm sinn á þær kvikmyndir sem eru í bíóum þessa dagana en ekki stafkrókur birtist um það í auglýsingum blaðanna né á netinu. The Two Towers fær stimpilinn “Bönnuð innan 12” (sem mér finnst mjög eðlilegt) en enginn auglýsir það.

Hér virðist um hrein og klár lögbrot að ræða, sjá greinar 7 og 8.

  • 7. gr. Aðilum skv. 1. mgr. 4. gr. er skylt að sjá til þess að öll eintök hinnar skoðuðu kvikmyndar séu merkt af Kvikmyndaskoðun. Dreifingaraðilar og sýnendur kvikmynda skulu láta niðurstöður Kvikmyndaskoðunar fylgja öllum auglýsingum og kynningu á kvikmyndum með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Kvikmyndaskoðun skal a.m.k. tvisvar á ári gefa út heildaryfirlit yfir skoðaðar kvikmyndir þar sem fram kemur mat á sýningarhæfni þeirra.

  • 8. gr. Ef kvikmynd, sem sýna á í kvikmyndahúsi, er bönnuð börnum innan tiltekins aldurs ber forstöðumaður kvikmyndahússins ábyrgð á að banninu sé framfylgt. Bannið gildir einnig þó að barn sé í fylgd þess sem heimild hefur til að sjá viðkomandi kvikmynd.
    Óheimilt er að lána, leigja eða selja börnum eintak kvikmyndar ef hún er bönnuð börnum á viðkomandi aldri. Hver sá sem rekur myndbandaleigu ber ábyrgð á að banninu sé framfylgt að því er tekur til kvikmyndaefnis sem þar er á boðstólum.

  • (feitletranir mínar)

    Þetta er líka áréttað í 8. grein reglugerðar frá sama ári. Einhver staðar virðast allir aðilar hafa blindast?

    Hlutverk Kvikmyndaskoðunar er leiðbeinandi, að gefa myndum stimpla sem segja til um hversu gömul börn ættu að vera til að fá að sjá þær. Hlutverk hennar er ekki að banna fullorðnu fólki að sjá kvikmyndir, börn eru ekki litlar fullorðnar manneskjur, þau eru börn sem eru að taka út þroska. Maður setur ekki smábarn við stýrið á bíl, alveg eins og maður setur það ekki niður til að horfa á Night of the Living Dead.

    Lagatillaga var svo sett fram árið 2002 um að afnema þessa stofnun, einkaaðilar ættu sjálfir að meta myndirnar. Þeir eru einmitt svo ábyrgðarfullir þessa dagana, brjótandi lögin og ekki að veita foreldrum neinar upplýsingar (eins og Heimdellingar láta sig dreyma um). Reyndar skil ég ekki hvaða máli það skiptir að einkaaðilar meti myndirnar, þeir ættu mjög erfitt með að vera hlutlausir því að ef að þeir koma ekki með réttu dómana fara kvikmyndahúsin bara til annara aðila! Ég er ekki að segja að Kvikmyndaskoðun sé óskeikul, aðeins að hún er ekki eins háð kvikmyndahúsunum og því líklegri til að vera hlutllæg í dómum sínum. Hvað skorður á tjáningarfrelsi varðar (sem er nefnt í lagafrumvarpinu) þá hefur Kvikmyndaskoðun ekki bannað neina mynd undanfarin ár eftir því sem ég get best séð, aðeins sett á þá aldursstimpla. Hvar er brotið þar?

    Áhugavert:

  • Nákvæmari lýsingu er ekki hægt að gefa á amerísku siðferði.
  • Britney Spears að leika Sherlock Holmes!
  • Comments are closed.