Fleiri fréttir

Dagurinn í dag farið í lestur fyrir endurtektarprófið sem er í fyrramálið. Því fátt annað að frétta en…

Bush yngri hefur sett í gang viðamikla gagnaleynd í Bandaríkjunum. Í stað þess að skjöl séu gerð opinber er nú allt kapp lagt á að neita aðgangi að þeim, þetta er mikil breyting frá stjórnartíma Clintons og var vel að merkja löngu ákveðið áður en hryðjuverkin urðu. Fyndið þegar sumir benda til Bandaríkjanna sem lýðræðisríkis, það telst víst lýðræði að hljóta kosningu sem forseti þrátt fyrir að fá færri atkvæði en andstæðingurinn (Gore fékk fleiri atkvæði á landsvísu en Bush en fornt kosningakerfið þýddi annað), það telst víst líka lýðræði að neita almenningi um aðgang að opinberum skjölum. Lifi lýðræðið!

Það fer ekki heldur mikið fyrir lýðræðinu í Ísrael þegar að palestínskum þingmönnum á ísraelska þinginu er meinað að bjóða sig aftur fram vegna yfirlýsinga þeirra, bæði frjálslyndir gyðingar og palestínskir Ísraelsmenn eru afar uggandi yfir þessu eins og vænta má. Lifi lýðræðið!

Sjaldgæfur mannréttindasigur unnin í Kína, kínversk lögregluyfirvöld hafa beðist afsökunar á því að hafa brotist inn á heimili og gert þar upptæk klámmyndbönd, mikill hasar sem hefur staðið yfir eins og lesa má hjá Reuters. Ætli íslensk lögregluyfirvöld muni biðjast afsökunar við Ástþór Magnússon? Helvíti hart þegar að Kínverjar eru lýðræðislegri en við.

Jón Steinsson hjá Deiglunni virðist ótrúlega vel að sér hvað varðar fyrirætlanir bandarískra yfirvalda í Írak. Hann virðist hafa það beint frá æðstu mönnum hvað verði sprengt upp og hvað ekki og að Bandaríkjamenn ætli sér að halda landinu uppi í mörg ár. Þær fréttir sem ég hef lesið austan og vestan hafs virðast ekki jafn nákvæmar, allt er ennþá óljóst. Hann virðist fylgjandi stríðinu þannig að ég vona að hann sjái ekki meira af sprengjuárásum sem verða saklausum borgurum að fjörtjóni, hann hefur það eftir góðum heimildum að svo verði nefnilega ekki. Reyndar er svolítið seint í rassinn gripið þar, fjöldi Íraka hefur látið lífið í sprengjuárásum Bandaríkjamanna undanfarna mánuði en ekki nógu margir til þess að það komi í helstu fjölmiðlum.

Kínverski gjörningamaðurinn, sem virðist hafa borðað látið barn, svaraði gagnrýnendum á þann veg að list gæfi ekki svör heldur vekti upp spurningar. Hann tók það jafnframt fram að hvergi í Biblíunni væri mannát bannað, hann segist vera dyggur mótmælandi (sjá Martein Lúther).

Meira af líkamsleifum, starfsmenn í þvottahúsi í Svíþjóð fundu kvenmannslöpp í óhreina tauinu frá sjúkrahúsi. Rannsókn stendur yfir.

Ó ef glæpamenn væru allir jafn vitlausir þá gætum við brosað að þeim öllum í stað þess að horfa upp á mikið tjón.

Önnur góð frétt að lokum, barnungar stúlkur eru stærsti aðdáendahópur froðupoppstjarnanna Christinu Aguilera og Britney Spears (reyndar óteljandi fleiri froður en hvað um það) og þær horfa auðvitað á tónlistarþátt stílaðan inn á þær. Eftir að Aguilera kom fram í nærbuxum með NASTY rituðu aftan á brugðust margir foreldrar reiðir við og siðanefnd áminnti sjónvarpsstöðina fyrir að sýna svona efni á þessum tíma, öðru máli gegndi ef það væri seint um kvöld. Aguilera varð því að mæta nokkurn vegin fullklædd núna þegar henni var aftur boðið í þáttinn. Börn eiga að vera börn, 10 ára stúlkur ættu ekki (að mínu mati náttúrulega) að vera að varalita sig, ganga um í toppum og örstuttum pilsum. Það er nógur tími fyrir það seinna! Algjör óþarfi að stela sakleysi æskunnar fyrir nokkra dollara í vasa froðuframleiðenda.

Comments are closed.