Hmmm.. Sigurrós tók eftir undarlegum hlut sem flaug yfir Reykjavík þar sem við sátum við matborðið. Þetta sýnist nú ekki stórt á þessari mynd en þetta virtist fjarska langt í burtu og talsverður eldhali. Ég veit ekki hvort þetta var lofsteinn eða flugferlíki með langan eldhala eða geimdrasl að koma til jarðar. Veit einhver þetta? Fór nokkuð hratt yfir í beinni línu.
Stóra verkefnið komið í gang, “proof of concept” vél keyrir og þá er það bara að snurfusa skýrsluna. Ég verð alltaf jafn barnslega glaður þegar að svona hlutir ganga upp.
Nú utan úr hinum stóra heimi er svo auðvitað áhugavert að lesa játningu George W. Bush:
“I think the American people are patient during an election year, because they tend to be able to differentiate between, you know, politics and reality.” (src)
Sko… meira að segja Bush er farinn að viðurkenna að pólitík og raunveruleikinn eiga ekkert skylt saman. Það frýs þó í helvíti áður en íslenskir pólitíkusar játa það.
Þjálfari íraska landsliðsins í knattspyrnu vandar svo ekki bandaríska hernámsliðinu kveðjurnar enda fótboltavellir nú orðnir að bílastæðum skriðdreka. Fótbolti sem vinsælasta íþróttagrein heims (í áhorfendum talið amk, held að iðkendur í einhverjum öðrum greinum séu fjölmennari) hefur nefnilega alveg ótrúleg áhrif og getur verið uppbyggjandi. Annars er það svo að Morgunblaðið kallar nú hernámsliðið í Írak “setulið”. Ætli þeir viti meira en við? Talandi um það, Davíð og Halldór hafa ekkert þurft að svara fyrir hvaða óyggjandi sannanir þeir sáu sem leiddu til þess að Ísland gerðist aðili að stríði í fyrsta sinn.
Frá Súdan kemur svo óhugguleg frétt, 11 manns hafa látist af völdum engisprettna… nánar tiltekið lyktarinnar af milljónum þeirra. Þær fara víst svona illa með astma-sjúklingana. Ég með minn lélega háls er guðslifandi feginn að vera ekki á staðnum.