Íslendingabók

Í dag fékk ég í pósti notandanafn mitt og lykilorð að Íslendingabók. Hingað til hef ég ekki verið þekktur fyrir mikla ættfræðiþekkingu eða áhuga. Man þó vel eftir plaggi sem sýndi hvernig ætt föður míns var rakin til Ingólfs Arnarsonar og þaðan yfir til norskra höfðingja, til 600 eða svo… man það ekki svo gerla.

Annars virtust flestir sem ég fletti upp vera skyldir mér í 6.-9. ættlið. Öllum Íslendingum gefst kostur á að fletta upp sér og sínum ættingjum og svo að rekja saman ættir sínar við aðra á vefnum. Aðeins þarf að stimpla inn kennitölu sína og þá berst brátt póstur með notandanafni og lykilorði til að fá aðgang.

Þegar tæknilegir hnökrar (fékk alloft “Óvænt villa hefur komið upp!”) voru ekki að trufla rannsóknir mínar þá gekk bara vel að fletta upp vinum og öðrum. Við Sigurrós eigum sameiginlega langalangalangalangalanga (5x langa) -afa og ömmu, þau hjónin Illuga Þorgrímsson og Hólmfríði Hallgrímsdóttur, sem fædd voru upp úr 1730.

Ég fann líka forföður minn sem hét því magnaða nafni Hallgrímur “sterki” Hallgrímsson. Það er vonandi að æfingarnar hjá mér geti orðið til þess að ég fái svona viðurnefni 🙂

Á Ítalíu hafa nú fallið dómar sem eru aðeins á skjön við hvorn annan, annars vegar er föður falið forræði yfir syni þeirra þar sem móðirin ofverndar drenginn um of, í hinum þá missir faðir forræði þar sem að hann fær stundum aðra til að passa drenginn.

Kosningabaráttur í fullum gangi um allan heim. Í Mexíkó hefur forsetinn Vicente Fox fengið ófæddan sonarson sinn með í baráttuna, á sónarmynd af drengnum virðist sem að hann myndi sigurtáknið (V) sem forsetinn notaði grimmt í síðustu kosningabaráttu. Þetta er nú líklega ein útbreiddasta sónarmynd sem tekin hefur verið. Magnaðir kosningastjórar þarna í Mexíkó.

Nú virðist vera komin æfingatækni sem getur aukið minni okkar mannanna um 10%, BBC er með meira um þetta.

Smá hugleiðingar um stöðu forritunarumhverfisins (og málsins) Java.

Comments are closed.