Nafnahefð

Í ættarlínu minni að Ingólfi Arnarsyni koma þeir feðgar Narfi Snorrason, Snorri Narfason, Narfi Snorrason og Snorri Narfason allir fjórir fyrir sem og feðgarnir Jón Jónsson og Jón Jónsson.

Mér finnst það alltaf frekar klént að skíra börnin eftir sjálfum sér, mun betra að skíra eftir öfum eða ömmum. Ef að verið er að skíra börnin eftir ættmennum þá ætti þó að hafa millinafn, helst þá úr hinni ættinni eða bara óskylt að öllu. Börn eiga að koma í heiminn með hreint borð, enga erfðasynd takk fyrir og þau eiga ekki að vera spegilmyndir foreldranna. Í mörgum fjölskyldum virðist það vera hefð að það þurfi alltaf að vera Jón Jónsson, spurning hversu einstakur manni finnst maður þá vera þegar maður er Jón Jónsson áttundi?

Öllum Jónum Jónssonum sem gætu tekið þetta sem móðgun bið ég forláts, ekki völdu þeir nöfnin sjálfir á sig en gætu kannski íhugað það að skíra son sinn Jón Millinafn Jónsson svona svo að pattinn finni aðeins til þess að vera einstaklingur en ekki einræktaður klóni.

Er ég að fella sleggjudóm yfir nöfnum manna? Líklega, þetta eru ekki heilög vísindi, aðeins fagurfræðilegt mat mitt á sama hátt og að mér finnst fátt ljótara en skærbleikt og ljósblátt herbergi. Ég tek fram að ég tel Jón Jónsson ekki vera minni mann þó hann, sonur hans og afinn beri það nafn, mér finnst það bara ekki mjög smekklegt svona svipað og golfbuxur.

Það vakti líka talsverða kátínu í mínum einstaklingsmiðaða huga að í Íslandssögunni er ég sá eini sem hefur hingað til borið fullt nafn mitt og sama gildir með Sigurrós og Elínu, við erum þau fyrstu sem berum nafnasamsetningar okkar hvert um sig.

Bersi benti á mjög áhugaverða grein sem gefur eilitla innsýn í þá stjórnmála”skóla” sem eru í Bandaríkjunum, umfjöllunin er mest um Jacksonians sem eru einmitt þessir villtu kúrekar sem manni finnst stýra vondri utanríkisstefnu Bandaríkjanna (vond fyrir alþjóðasamfélagið, góð fyrir bandaríska kjósendur).

Gollum var ekki tölvuteiknaður! Over the Hedge gróf upp sannleikann.

Comments are closed.