Monthly Archives: October 2001

Uncategorized

Hefnarinn

Leið eins og ég væri í hlutverki kvikmyndapersónu þegar ég fór til vinnu í morgun. Draghaltur á vinstri löpp þannig að minnti á staurfót, einstaklega snyrtilega klæddur og með þessa líku flottu regnhlíf, þannig að minnti næstum á karakter í hinni annars ömurlegu mynd The Avengers.

Regnhlífin er raunar töfrum gædd, við Sigurrós keyptum okkur tvær í Frakklandi þegar að mest rigndi, og auðvitað þurftum við ekki á þeim að halda eftir að hafa keypt þær. Ég fór með regnhlífina í gær líka, og í hvert sinn sem ég fór út fyrir hússins dyr með regnhlífina með mér brást ekki að ég þurfti ekki á henni að halda. Ég held ég fari með hana alla daga hvert sem er, láta reyna á töframáttinn.

Brá mér í Glæsibæ í dag eftir vinnu, nema hvað að þegar ég ætla að fara út af bílastæðunum er myndarleg röð sem er að reyna að komast inn á Álfheimagötu, og stíflar því báðar innkeyrslurnar að aðalplaninu. Ég fer á þá sem er nær Laugardalnum enda ætlaði ég þá leið heim, röðin hreyfist og gat myndast sem ég hugsa með mér að ég gæti nýtt mér ef að bíllinn sem er næstur í röðinni sýnir tillitsemi og skilur eftir smá gat fyrir mig. Bíllinn er lengi á leiðinni þannig að ég geri ráð fyrir þessari tillitsemi og byrja að færa bílinn að götunni, nema hvað að þá gefur bíllinn í og potar sér í rassinn á bílnum fyrir framan og gjörsamlega stíflar þessa innkeyrslu. Sökudólgurinn var fimmtug kelling á gylltum Polo sem tók svo til við að varalita sig um leið og hún var búin að loka mig inni á bílastæðinu, og loka þá sem vildu komast inn á bílastæðið úti. Ökumaður jeppans á eftir henni hins vegar sýndi þessa tillitsemi sem kostaði ekki neitt, en leysti vanda minn og þeirra sem voru að fara inná bílastæðið. Þetta ergði mig alveg hrikalega, sérstaklega vegna þess að þessi kona virtist gjörsamlega ómeðvituð um að aðgerðir hennar hafa áhrif á aðra ökumenn. Almennt finnst mér að hlutfallslega fleiri karlar sýni tillitsemi en konur, konurnar eru alltaf svo einbeittar í því sem þær eru að gera að aðrir bílar virðast stundum ekki vera til fyrir þeim.

Þetta ergelsi sem að nú brýst fram hefur í rauninni verið að magnast upp hægt og rólega. Íslendingar eru bölvaðir villimenn í umferðinni, svona tillitsemi eins og ég var að vonast eftir (og fékk á endanum) er því miður ekki nógu algeng hér á landi. Erlendis hins vegar eru menn mjög tillitsamir, þeir sem að eru að koma inn á hraðbrautir til að mynda geta treyst á það að aðrir ökumenn skipti um akgrein til að rýma fyrir þeim, eða að þeir hægi á sér til þess að búa til rými. Hér á landi spítta menn hins vegar í til þess að vera öruggir með það að hinn fari ekki fram úr þeim. Það ætti að taka harðar á þessu í ökukennslu og umferðarfræðslu. Við erum öll á sama báti í umferðinni, og eigum að sýna tillitsemi, samfélagið endar ekki við bíldyrnar.

Það hefur stundum legið við að ég færi að taka niður númer þeirra sem að eru fautar í umferðinni, svigmennirnir og allir hinir sem að keyra eins og svín, og birti skammarlista. Anda djúpt, það þarf mikla hugarfarsbreytingu til þess að þetta lagist hér á landi.

Nú þegar ég loksins komst í gegnum Laugardalinn á leið minni heim fór ég fram hjá Laugardalshöll þar sem flokksþing X-D stendur nú yfir. Þar fannst mér mjög skondið og sorglegt að sjá jeppaflotann (plús einn gamlan Chevrolet) sem að stóð á grasinu frá höllinni að hringtorginu. Það sem mér fannst athugavert við þetta var að sjálfsögðu það að við gervigrasvöllinn er að finna heilan helling af bílastæðum, sem voru tóm. Að auki eru hundruð bílastæða nokkrum metrum fjær, við Laugardalsvöllinn sjálfan, og svo einhver við Fjölskyldugarðinn. Ég bíð spenntur eftir því að yfirvöld fari að taka á þessu máli, grasið á það nógu erfitt hér á landi þó að ekki sé verið að leggja á því þegar þess þarf ekki. Ef að fyrrnefndu bílastæðin hefðu verið orðin full hefði kannski mátt horfa í gegnum fingur sér með að leggja á grasi, en fyrst að þau voru tóm þá var það bara eintóm leti og hugsunarleysi sem að varð til þess að lagt var á grasinu. Þetta á ekki bara við um þetta flokksþing heldur aðrar samkomur sem haldnar eru og hafa verið í Laugardalshöllinni.

Nú er ég að fá diskinn sem ég pantaði í síðasta mánuði frá Barnes & Noble, ég fékk bréf frá Íslandspósti um það, ég þarf að undirrita það og faxa til þeirra, þá opna þeir pakkann, finna reikninginn, reikna út tollinn plús tímagjald fyrir að opna pakkann, og keyra hann svo út heim til mín. Ef ég er ekki heima þá fara þeir með hann á næsta pósthús og þangað verð ég að vitja hans. Þetta er orðið voðalegt vesen síðan að allir pakkar voru færðir frá pósthúsunum.

Þingvaktin
Sumir þingmenn hafa orðið fyrir of miklum áhrifum af ofsatrú Bandaríkjamanna með sinn “Star Spangled Banner”. Nokkrir þingmenn vilja núna að íslenski fáninn sé ávallt sýnilegur í þinginu, enda sé hann “ímynd þeirra hugsjóna sem þjóð vor á fegurstar”. Sjálfur er ég að sjálfsögðu stoltur Íslendingur, en mér finnst svona hugsunarháttur vera ofboðslega þjóðhverfur og úreltur, og að leggja hrikalega djúpa meiningu í svona tákn leiðir sjaldan til góðs. Þetta verður bara að einskonar trúarbrögðum, og eðli flestra trúarbragða er það að amast út í það sem er öðruvísi. Ég er sumsé ekki meðmæltur þessu frumvarpi. Annað frumvarp sem er áhugaverðara er milliliðalaust lýðræði, þar sem að menn vilja láta kanna betur kosningar á netinu. Ég er að sjálfsögðu meðmæltur þessu, en geri mér fyllilega grein fyrir því að ekki allir gætu nýtt sér þetta.

Áhugavert lesefni:

  • Lone Senator thwarts Dubya’s anti-terror excesses
  • US Cyber-Czar makes a sound suggestion
  • Afskipti af fjölmiðlum sögð áhyggjuefni
  • At U.S. Request, Networks Agree to Edit Future bin Laden Tapes
  • At home with the Taliban
  • Serial child killer commits suicide
  • Uncategorized

    Slagviðri

    Ég blotnaði meira við það að labba 30 metra í bílinn minn frá World Class en ég gerði undir sturtunum hjá þeim. Um leið og ég var kominn hundblautur inn í bílinn greip ég rakt handklæðið og þurrkaði mér um hausinn, svo tók við haglél á Grensásveginum.

    Sullandi slagviðri af og til svo í dag, og einnig í kvöld aðeins á meðan við vorum að spila æfingaleik. Vinstri kálfinn var tæpur eftir World Class tímann (samt er ég að reyna að fara rólega af stað) og ég fékk þrisvar krampa í leiknum í hann, síðasti krampinn var á lokasekúndu leiksins og það var djöfullegur krampi, lá á vellinum lengi vel á meðan að félagi minn lét braka í kálfanum og teygði hann og togaði.

    Kíkti í kvöld aðeins á phpNuke sem að hmmm.is og fleiri fleiri íslenskir og erlendir vefir notast við. Áhugavert tól, ég er að skoða það til að sjá hvaða fítusa væri sniðugt að hafa í Vefkofanum mínum, mér finnst sumar lausnirnar svolítið undarlegar en alltaf áhugavert að sjá hvernig aðrir leysa hlutina.

    Þingvaktin
    Af Alþingi er það að frétta að Pétur Blöndal er að reyna að gera það auðveldara að leggja Rás 2 niður, sjálfum finnst mér algjör óþarfi að ríkið sé að reka 2 útvarpsstöðvar, breytingartillögur Péturs við útvarpslög má sjá hér. Greinargerðin mælir raunar fyrir meiri breytingum, og ég verð að segja að ég er sammála þessu frumvarpi.

    Svo er eitthvað verið að leggja það til að leyfa sérverslanir með áfengi, og að almennar verslanir fái að selja smá áfengi líka, hafi þær fengið blessun sveitarstjórnar. Soldið skondinn þessi seinni partur, til dæmis er mælt til um að ekki meira en 5% hillurýmis verði þá fyrir áfengi. Svona kvótar eru alltaf skondið mál.

    Ég sé svo að menn vilja aðeins laga til erfðafjárskattinn, sem að er auðvitað skattur sem að mér finnst vera bara blóðpeningar. Það er þá búið að borga skatt af sömu hlutunum að minnsta kosti 4 sinnum telst mér til, ef við athugum skatt á laun, virðisaukaskatt, lífeyrisskatt og svo erfðafjárskatt. Fleiri skattar að sjálfsögðu í gangi en ég ætla ekki að verða endurskoðandi þannig að ég fer ekki dýpra í þetta.

    Uncategorized

    Þriðjudagur

    Gaman að sjá að Hrafnkell er í Discovery Channel stuði, sjá þessa færslu hans um gullfiskana og myndbandið af þeim. Næsta stopp Discovery Channel eða Animal Planet?

    Á meðan að eitthvað gáfulegt er reyndar að koma frá Alþingi, sjá þetta frumvarp sem að gerir eitthvað í því að aflétta ofurvaldi tryggingafélaganna, þá hefur snjöllum sprengjum (smart bombs) Bandaríkjamanna tekist að granda starfsmönnum SÞ, við munum auðvitað að Íslendingar standa víst heilshugar á bakvið þessar aðgerðir (formenn stjórnarflokkanna reyndar, skoðanakannanir sýna að almenningur er á öndverðu máli) og að þessum aðgerðum er eingöngu beint gegn hernaðarlegum skotmörkum.

    Undir hernaðarleg skotmörk falla að sjálfsögðu þær stofnanir sem eru að reyna að uppræta jarðsprengjur. Bandaríkjamenn eru einmitt hörðustu andstæðingar banns á jarðsprengjur sem til eru, enda myndu einhverjir tuga starfa tapast í Bandaríkjunum ef að framleiðslu þeirra yrði hætt þar.

    Er risinn í vestri ekki góður kall?

    Fékk sent skjátákn, líklegast vitlaust númer. Þetta vakti athygli mína á því að loksins núna get ég tekið við skjátáknum, hef reynt það oft af vit.is (grr.. við þurftum að skrá vit.tf vegna þess að Síminn er búinn að skrá heilan helling af lénum fyrir vörurnar sínar) en aldrei komið neitt annað en SMS með fáránlegum táknum. Reyndi núna og tókst að láta það virka, teiknaði mitt eigið og er nú með Half-Life nafnið mitt (gamla góða) á símanum mínum. Hins vegar virka hringitónar ekki, fæ bara SMS með villuskilaboðum þegar ég reyni að hlaða inn hringitóni.

    Uncategorized

    Áfram Bora!

    Fór í morgun í World Class, tek þetta rólega til að byrja með, smá labb og hlaup.

    Kvöldið notað til að gera UML-skemu í ProxyDesigner, sem að er ókeypis skemaforrit, og bara mjög fínt fyrir mínar þarfir. Mæli hiklaust með því.

    Rétt leit við hjá pabba sem að var að koma úr axlaraðgerð og verður heima næstu vikurnar, nú er bara að kenna honum aðeins á tölvuna, hann getur notað hægri hendina til að pikka inn.

    CNN er alltaf að ávinna meiri og meiri “aðdáun” hjá mér, þeir eru svo einhliða í allri sinni fréttamennsku, og svo eru þeir með landafræðina á hreinu, eða þannig.

    Bora Milutinovic hefur núna sett einstakt met, Kína er fimmta landið sem hann nær að koma á HM, fimm HM í röð með sitthvert landið. Maðurinn er snillingur, ég hitti hann á HM98 í Metro-inu, spjallaði stuttlega við hann og lét að sjálfsögðu taka mynd af mér með honum (eina skiptið sem að ég hef látið taka svona “ég-og-einhver-þekktur” mynd af mér).

    Uncategorized

    Keila

    Skruppum í keilu í kvöld með nokkrum skólafélögum Sigurrósar. Vorum 4 og 4 saman, og mér tókst með duglegum endaspretti að vinna minn riðil. Ég bætti upp fyrir það með því að verða svo neðstur í seinni leiknum sem við tókum. Verst hvað það er dýrt í keilu, 900 kr á mann fyrir tvær umferðir. Við Sigurrós hefðum getað tekið 4 myndbönd fyrir peninginn sem fór í tæplega klukkutíma af keilu.

    Það er ekkert tæknilegt sem hamlar því að setja dagbókina á vefinn, ég á bara eftir að klára að skrifa inn færslurnar úr Frakklandsferðinni.

    Bush byrjaður að “tryggja frið með því að heyja stríð”, hvað gagn halda þeir að einhverjar eldflaugar geri eiginlega?

    Uncategorized

    Boltinn

    Mér til ánægju þá var vináttuleikur Frakklands og Alsírs sýndur á Eurosport. Magnað andrúmsloft á leiknum, leikið á Stade de France en 80% áhorfenda voru á bandi Alsír, enda milljón manns í Frakklandi sem að er alsírskir ríkisborgarar. Alsír var meira með boltann í fyrri hálfleik og spilaði vel, en vantaði lokasnertinguna, og Frakkar skoruðu 3 mörk eftir hraðar sóknir (Candela, Petit, Henry), áður en Alsír skoraði úr aukaspyrnu á lokamínútu hálfleiksins (Belmadi).
    Í seinni hálfleik skoraði Pires eftir enn eina hraða sóknina, rétt potaði boltanum inn af markteig.

    Mjög skemmtilegur leikur þar sem tvö lið skiptust á að sækja og sýna tilþrif. Alltaf gaman að sjá góðan fótbolta. Hins vegar bar skugga á þegar að 20 mínútur voru eftir, þegar að einn áhorfandi hljóp inná. Hann var tekinn afsíðis fljótlega, en 4 mínútum síðar voru allt í einu komnir 10 áhorfendur inná völlinn, og 2 mínútum síðar voru líklega 100 manns komnir á völlinn, og leikurinn flautaður af, allt of snemma því miður.

    Á meðan er Ísland tekið í sundur og skilið eftir þannig af Danmörku. Sama snilldarbragð Atla og skilaði okkur glæsilega stóru tapi gegn Tékkum gerði það sama núna gegn Dönum, að setja besta miðvörð Íslands (Hermann Hreiðarsson) á kantinn til þess að dekka fljótan vængmann er svo mikil heimska að það er erfitt til þess að hugsa að Atli hafi einu sinni leikið fótbolta, hvað þá verið margfaldur landsliðsmaður. Atli er vafalaust besta skinn, en þegar hann ætlar að sýna svona taktísk klókindi (og gefa Lárusi Orra tækifæri í bakverðinum) þá bara er stórt skilti yfir höfði hans þar sem stendur “Ég ætla að vera sniðugur, ég bara er það ekki”. 6-0 tap gegn Dönum er skammarlegt, við erum með mun betri mannskap en þessar tölur segja. Íslenskir stuðningsmenn klikka samt ekki, nema hvað að það er ekki hægt að syngja þjóðsönginn, ég vil fá “Ísland er landið”!

    Ætti KSÍ að endurnýja samninginn? Ég myndi frekar fá Bjarna, sem er líklega færasti þjálfarinn á Íslandi í dag.

    Jæja, kvöldinu bjargað með því að horfa á State & Main, fín mynd, David Mamet helvíti lúmskur oft.

    Áhugavert lesefni:

  • Misþroski menningarsjúkdómur?
  • Uncategorized

    Dagbókina á vefinn

    Kvöldið notað í að gera dagbókina veffærari, allt að koma, enda ekki seinna að vænna, búinn að skrifa í hana í 7 vikur núna.

    Sá eina klassík, var að horfa á PartyZone á MTV í fyrsta sinn í áratug eða svo, Barthezz – On the Move, mikil klassík sem ég vissi aldrei hvað hét reyndar. Louis Armstrong með What a Wonderful World og svo Massive Attack syrpa fylgdu á eftir. MTV fær plús í kladdann.

    Var að leika mér með að kalla mig Antioch á irc-inu, samanber Holy Hand Grenade (sem ég hef stundum kallað mig í Half-Life moddum) of Antioch, frasi frá Monty Python sem heyra má hér. Alltaf gaman að Monty Python 🙂

    Uncategorized

    Herstöðin

    Fyrsta heimsókn mín í herstöð var í dag, við skruppum þrjú úr vinnunni á fund hjá Housing Office sjóhersins vegna verkefnis sem við erum að vinna fyrir þau. Það er Bravo ástand þar víst ennþá, þannig að hermenn voru með alvæpni í hliðinu (það eru víst tvö en hitt er lokað núna), og skúrinn sem þeir eru í er víst núna orðinn skotheldur. Fékk að sjá í extreme closeup M16 riffilinn sem tveir hermenn þarna báru, vanur honum úr Counter-Strike sem við félagarnir spilum í hádegishléinu okkar núna, flesta virka daga. Mikið uppáhald mitt í leiknum, kom mér svolítið á óvart hversu mikill hann er um sig, en þeir staðfestu að þeir geta sett hljóðdeyfi á riffilinn, alveg eins og í leiknum. Þeir höfðu reyndar ekki heyrt um Counter-Strike, en voru greinilega mjög ánægðir með riffilinn sjálfir.

    Alþingi sendi mér svo svarpóst, búnir að laga innskráninguna á vefnum þannig að ég var snöggur að skrá mig, verst að ég vildi geta breytt meiru, færa þingmálin ofar á síðunni, en þau eru nú neðst.

    Annar tíminn í frönsku var svo í kvöld, þetta er allt að koma.

    Uncategorized

    Trúfrelsið

    Kíkti á Vísindavefinn og fann þartengil á áhugaverðan vef, þar sem ég rakst á þessa merkilegu síðu sem segir að opinberum starfsmönnum megi vísa úr starfi trúi þeir ekki á æðri máttarvöld. Neðar á síðunni eru svo önnur jafn mögnuð dæmi úr stjórnarskrám annara ríkja Bandaríkjanna. Trúfrelsi er fínt svo lengi sem maður trúir víst :p

    Uncategorized

    Lestur er hollur

    Enn að lesa ritgerð Elínar og Huldu yfir.

    Nýr vefur hjá Alþingi, lítur ágætlega út en ómögulegt að skrá sig inn, öllu er hafnað, jafnvel þó það eigi að standast reglurnar hjá þeim. Sendi þeim póst og lét vita af þessu.

    Ætla að hafa vakandi auga núna á þeim málum sem þingmenn leggja fram, fyrstu málin sem vöktu velþóknun mína voru aðskilnaður ríkis og kirkju, og svo réttlátari stimpilgjöld

    Áhugavert lesefni:

  • The Taliban’s bravest opponents