Slagviðri

Ég blotnaði meira við það að labba 30 metra í bílinn minn frá World Class en ég gerði undir sturtunum hjá þeim. Um leið og ég var kominn hundblautur inn í bílinn greip ég rakt handklæðið og þurrkaði mér um hausinn, svo tók við haglél á Grensásveginum.

Sullandi slagviðri af og til svo í dag, og einnig í kvöld aðeins á meðan við vorum að spila æfingaleik. Vinstri kálfinn var tæpur eftir World Class tímann (samt er ég að reyna að fara rólega af stað) og ég fékk þrisvar krampa í leiknum í hann, síðasti krampinn var á lokasekúndu leiksins og það var djöfullegur krampi, lá á vellinum lengi vel á meðan að félagi minn lét braka í kálfanum og teygði hann og togaði.

Kíkti í kvöld aðeins á phpNuke sem að hmmm.is og fleiri fleiri íslenskir og erlendir vefir notast við. Áhugavert tól, ég er að skoða það til að sjá hvaða fítusa væri sniðugt að hafa í Vefkofanum mínum, mér finnst sumar lausnirnar svolítið undarlegar en alltaf áhugavert að sjá hvernig aðrir leysa hlutina.

Þingvaktin
Af Alþingi er það að frétta að Pétur Blöndal er að reyna að gera það auðveldara að leggja Rás 2 niður, sjálfum finnst mér algjör óþarfi að ríkið sé að reka 2 útvarpsstöðvar, breytingartillögur Péturs við útvarpslög má sjá hér. Greinargerðin mælir raunar fyrir meiri breytingum, og ég verð að segja að ég er sammála þessu frumvarpi.

Svo er eitthvað verið að leggja það til að leyfa sérverslanir með áfengi, og að almennar verslanir fái að selja smá áfengi líka, hafi þær fengið blessun sveitarstjórnar. Soldið skondinn þessi seinni partur, til dæmis er mælt til um að ekki meira en 5% hillurýmis verði þá fyrir áfengi. Svona kvótar eru alltaf skondið mál.

Ég sé svo að menn vilja aðeins laga til erfðafjárskattinn, sem að er auðvitað skattur sem að mér finnst vera bara blóðpeningar. Það er þá búið að borga skatt af sömu hlutunum að minnsta kosti 4 sinnum telst mér til, ef við athugum skatt á laun, virðisaukaskatt, lífeyrisskatt og svo erfðafjárskatt. Fleiri skattar að sjálfsögðu í gangi en ég ætla ekki að verða endurskoðandi þannig að ég fer ekki dýpra í þetta.

Comments are closed.