Hefnarinn

Leið eins og ég væri í hlutverki kvikmyndapersónu þegar ég fór til vinnu í morgun. Draghaltur á vinstri löpp þannig að minnti á staurfót, einstaklega snyrtilega klæddur og með þessa líku flottu regnhlíf, þannig að minnti næstum á karakter í hinni annars ömurlegu mynd The Avengers.

Regnhlífin er raunar töfrum gædd, við Sigurrós keyptum okkur tvær í Frakklandi þegar að mest rigndi, og auðvitað þurftum við ekki á þeim að halda eftir að hafa keypt þær. Ég fór með regnhlífina í gær líka, og í hvert sinn sem ég fór út fyrir hússins dyr með regnhlífina með mér brást ekki að ég þurfti ekki á henni að halda. Ég held ég fari með hana alla daga hvert sem er, láta reyna á töframáttinn.

Brá mér í Glæsibæ í dag eftir vinnu, nema hvað að þegar ég ætla að fara út af bílastæðunum er myndarleg röð sem er að reyna að komast inn á Álfheimagötu, og stíflar því báðar innkeyrslurnar að aðalplaninu. Ég fer á þá sem er nær Laugardalnum enda ætlaði ég þá leið heim, röðin hreyfist og gat myndast sem ég hugsa með mér að ég gæti nýtt mér ef að bíllinn sem er næstur í röðinni sýnir tillitsemi og skilur eftir smá gat fyrir mig. Bíllinn er lengi á leiðinni þannig að ég geri ráð fyrir þessari tillitsemi og byrja að færa bílinn að götunni, nema hvað að þá gefur bíllinn í og potar sér í rassinn á bílnum fyrir framan og gjörsamlega stíflar þessa innkeyrslu. Sökudólgurinn var fimmtug kelling á gylltum Polo sem tók svo til við að varalita sig um leið og hún var búin að loka mig inni á bílastæðinu, og loka þá sem vildu komast inn á bílastæðið úti. Ökumaður jeppans á eftir henni hins vegar sýndi þessa tillitsemi sem kostaði ekki neitt, en leysti vanda minn og þeirra sem voru að fara inná bílastæðið. Þetta ergði mig alveg hrikalega, sérstaklega vegna þess að þessi kona virtist gjörsamlega ómeðvituð um að aðgerðir hennar hafa áhrif á aðra ökumenn. Almennt finnst mér að hlutfallslega fleiri karlar sýni tillitsemi en konur, konurnar eru alltaf svo einbeittar í því sem þær eru að gera að aðrir bílar virðast stundum ekki vera til fyrir þeim.

Þetta ergelsi sem að nú brýst fram hefur í rauninni verið að magnast upp hægt og rólega. Íslendingar eru bölvaðir villimenn í umferðinni, svona tillitsemi eins og ég var að vonast eftir (og fékk á endanum) er því miður ekki nógu algeng hér á landi. Erlendis hins vegar eru menn mjög tillitsamir, þeir sem að eru að koma inn á hraðbrautir til að mynda geta treyst á það að aðrir ökumenn skipti um akgrein til að rýma fyrir þeim, eða að þeir hægi á sér til þess að búa til rými. Hér á landi spítta menn hins vegar í til þess að vera öruggir með það að hinn fari ekki fram úr þeim. Það ætti að taka harðar á þessu í ökukennslu og umferðarfræðslu. Við erum öll á sama báti í umferðinni, og eigum að sýna tillitsemi, samfélagið endar ekki við bíldyrnar.

Það hefur stundum legið við að ég færi að taka niður númer þeirra sem að eru fautar í umferðinni, svigmennirnir og allir hinir sem að keyra eins og svín, og birti skammarlista. Anda djúpt, það þarf mikla hugarfarsbreytingu til þess að þetta lagist hér á landi.

Nú þegar ég loksins komst í gegnum Laugardalinn á leið minni heim fór ég fram hjá Laugardalshöll þar sem flokksþing X-D stendur nú yfir. Þar fannst mér mjög skondið og sorglegt að sjá jeppaflotann (plús einn gamlan Chevrolet) sem að stóð á grasinu frá höllinni að hringtorginu. Það sem mér fannst athugavert við þetta var að sjálfsögðu það að við gervigrasvöllinn er að finna heilan helling af bílastæðum, sem voru tóm. Að auki eru hundruð bílastæða nokkrum metrum fjær, við Laugardalsvöllinn sjálfan, og svo einhver við Fjölskyldugarðinn. Ég bíð spenntur eftir því að yfirvöld fari að taka á þessu máli, grasið á það nógu erfitt hér á landi þó að ekki sé verið að leggja á því þegar þess þarf ekki. Ef að fyrrnefndu bílastæðin hefðu verið orðin full hefði kannski mátt horfa í gegnum fingur sér með að leggja á grasi, en fyrst að þau voru tóm þá var það bara eintóm leti og hugsunarleysi sem að varð til þess að lagt var á grasinu. Þetta á ekki bara við um þetta flokksþing heldur aðrar samkomur sem haldnar eru og hafa verið í Laugardalshöllinni.

Nú er ég að fá diskinn sem ég pantaði í síðasta mánuði frá Barnes & Noble, ég fékk bréf frá Íslandspósti um það, ég þarf að undirrita það og faxa til þeirra, þá opna þeir pakkann, finna reikninginn, reikna út tollinn plús tímagjald fyrir að opna pakkann, og keyra hann svo út heim til mín. Ef ég er ekki heima þá fara þeir með hann á næsta pósthús og þangað verð ég að vitja hans. Þetta er orðið voðalegt vesen síðan að allir pakkar voru færðir frá pósthúsunum.

Þingvaktin
Sumir þingmenn hafa orðið fyrir of miklum áhrifum af ofsatrú Bandaríkjamanna með sinn “Star Spangled Banner”. Nokkrir þingmenn vilja núna að íslenski fáninn sé ávallt sýnilegur í þinginu, enda sé hann “ímynd þeirra hugsjóna sem þjóð vor á fegurstar”. Sjálfur er ég að sjálfsögðu stoltur Íslendingur, en mér finnst svona hugsunarháttur vera ofboðslega þjóðhverfur og úreltur, og að leggja hrikalega djúpa meiningu í svona tákn leiðir sjaldan til góðs. Þetta verður bara að einskonar trúarbrögðum, og eðli flestra trúarbragða er það að amast út í það sem er öðruvísi. Ég er sumsé ekki meðmæltur þessu frumvarpi. Annað frumvarp sem er áhugaverðara er milliliðalaust lýðræði, þar sem að menn vilja láta kanna betur kosningar á netinu. Ég er að sjálfsögðu meðmæltur þessu, en geri mér fyllilega grein fyrir því að ekki allir gætu nýtt sér þetta.

Áhugavert lesefni:

  • Lone Senator thwarts Dubya’s anti-terror excesses
  • US Cyber-Czar makes a sound suggestion
  • Afskipti af fjölmiðlum sögð áhyggjuefni
  • At U.S. Request, Networks Agree to Edit Future bin Laden Tapes
  • At home with the Taliban
  • Serial child killer commits suicide
  • Comments are closed.