Boltinn

Mér til ánægju þá var vináttuleikur Frakklands og Alsírs sýndur á Eurosport. Magnað andrúmsloft á leiknum, leikið á Stade de France en 80% áhorfenda voru á bandi Alsír, enda milljón manns í Frakklandi sem að er alsírskir ríkisborgarar. Alsír var meira með boltann í fyrri hálfleik og spilaði vel, en vantaði lokasnertinguna, og Frakkar skoruðu 3 mörk eftir hraðar sóknir (Candela, Petit, Henry), áður en Alsír skoraði úr aukaspyrnu á lokamínútu hálfleiksins (Belmadi).
Í seinni hálfleik skoraði Pires eftir enn eina hraða sóknina, rétt potaði boltanum inn af markteig.

Mjög skemmtilegur leikur þar sem tvö lið skiptust á að sækja og sýna tilþrif. Alltaf gaman að sjá góðan fótbolta. Hins vegar bar skugga á þegar að 20 mínútur voru eftir, þegar að einn áhorfandi hljóp inná. Hann var tekinn afsíðis fljótlega, en 4 mínútum síðar voru allt í einu komnir 10 áhorfendur inná völlinn, og 2 mínútum síðar voru líklega 100 manns komnir á völlinn, og leikurinn flautaður af, allt of snemma því miður.

Á meðan er Ísland tekið í sundur og skilið eftir þannig af Danmörku. Sama snilldarbragð Atla og skilaði okkur glæsilega stóru tapi gegn Tékkum gerði það sama núna gegn Dönum, að setja besta miðvörð Íslands (Hermann Hreiðarsson) á kantinn til þess að dekka fljótan vængmann er svo mikil heimska að það er erfitt til þess að hugsa að Atli hafi einu sinni leikið fótbolta, hvað þá verið margfaldur landsliðsmaður. Atli er vafalaust besta skinn, en þegar hann ætlar að sýna svona taktísk klókindi (og gefa Lárusi Orra tækifæri í bakverðinum) þá bara er stórt skilti yfir höfði hans þar sem stendur “Ég ætla að vera sniðugur, ég bara er það ekki”. 6-0 tap gegn Dönum er skammarlegt, við erum með mun betri mannskap en þessar tölur segja. Íslenskir stuðningsmenn klikka samt ekki, nema hvað að það er ekki hægt að syngja þjóðsönginn, ég vil fá “Ísland er landið”!

Ætti KSÍ að endurnýja samninginn? Ég myndi frekar fá Bjarna, sem er líklega færasti þjálfarinn á Íslandi í dag.

Jæja, kvöldinu bjargað með því að horfa á State & Main, fín mynd, David Mamet helvíti lúmskur oft.

Áhugavert lesefni:

  • Misþroski menningarsjúkdómur?
  • Comments are closed.