Author Archives: Jóhannes Birgir

Ristin

Skrapp í boltann í kvöld og fór út af eftir 20 mínútur eða svo, haltrandi mjög. Þetta er vinstri ristin sem er að plaga mig eins og hún hefur gert af og til í sumar. Málið með hana er nefnilega það að í móðurkviði var ég orðinn svo stór að vinstri löppin sat bara pikkföst og fór því að vaxa skakkt, þannig að ég fæddist með klumbufót.

Fyrstu árin fóru í aðgerðir og svoleiðis, ég hoppaði um með gifs á vinstri löpp í lengri tíma, en þetta gekk vel og fyrir utan að vinstri löppin er 1 cm styttri hefur þetta verið bara í fínu lagi.

Núna er mig farið að verkja í samskeytin þar sem ég var púslaður saman (það sem var gert var eiginlega að fremsti hluti fótarins var klipptur af, aukadót hreinsað burt og svo festur aftur á).

Panta á morgun tíma hjá bæklunarlækninum mínum, vil láta tékka á því hvort ég eigi bara að leggja skóna á hilluna eða gera eitthvað annað.

Út með WinAmp

WinAmp er fínasta forrit, sá mp3-spilari sem ég hef notað lengst af. Í dag hins vegar varð ég mjög pirraður á því hvað hann er frekur á örgjörvann þegar að verið er að skipta á milli laga. Þá frýs öll önnur vinnsla og önnur forrit sem ég er að vinna með eru gjörsamlega óstarfhæf í 2-3 sekúndur, þetta er mjög bagalegt til dæmis þegar að ég er að skrifa mikinn texta og missi fleiri fleiri slög úr.

Því kíkti ég á netið og prufaði í annað sinn forritið Sonique, sem ég hafði gefið tækifæri fyrir löngu síðan og litist ágætlega á en WinAmp hafði þó yfirhöndina þá.

Núna setti ég inn þessa nýju útgáfu, og stóðst hún helstu kröfurnar sem ég geri til svona forrita, og að auki fraus vélin ekki þó að skipt væri á milli laga. Miklar líkur til þess að þetta verði MP3-forritið mitt í bráð.

Tók eitthvað “Geek-test” í dag, reyndist vera 52% geek, tek svona próf mér til gamans þó að mér finnist allir svona stimplar vera broslegir.

Talandi um broslegt, lesið neðsta lesendabréfið á þessari síðu, þvílík fóbía, meira grátlegt kannski en broslegt.

Áhugavert lesefni:

Cartoon Network

Heilsuátak þessa vikuna í vinnunni, og maturinn víst í hollari kantinum sökum þess. Ýsa í tómatsósu í dag, og var bara þokkalegasti matur, frekar þurr fiskur en vel ætt.

Cartoon Network er snilldarstöð með mörgum góðum (og reyndar nokkrum vondum) teiknimyndum. Mér finnst reyndar áhugavert hvað mikið af teiknimyndunum er frekar við hæfi eldri áhorfenda, Power Puff stelpurnar eru alveg æðislegar oft, vel skrifaðir þættir með skemmtilegar skírskotanir í Star Wars, Monty Python og fleira, hins vegar ekki alveg eitthvað sem ég myndi leyfa börnunum mínum að sjá fyrr en þau væru orðin 10-12 ára eða svo. Dexter’s Laboratory er önnur snilli með húmor í svipaða átt, en ég veit ekki alveg hvað litlum börnum finnst um hann. Scooby Doo hins vegar er það allra leiðinlegasta sem að sést hefur á sjónvarpsskjá, þó virðist þetta vera hrikalega vinsælt?

Áhugavert lesefni:

Shakespeare & Jones

Horfðum á Draum á Jónsmessunótt á Stöð 2 í gær, Shakespeare alltaf helvíti nettur með orðaleikina sína.

Skruppum á Osmosis Jones í kvöld, þokkaleg og saklaus skemmtun en ekki þess virði að fara á í bíói, eins dýrt og það er orðið. Mæli samt alveg með því að kíkja á hana, ódýrara á myndbandsspólu.

Fróðlegir þessir “Design on Your …” þættir sem eru á Discovery Channel, síðast reyndu þeir Richard Seymour og Dick Powell að betrumbæta brjóstahaldarann sem að er illræmd hönnun, núna voru þeir að reyna að búa til betri klósett, enda eru þau flest illa hönnuð, föst í sama gamla forminu sem að er frekar óheppilegt að mörgu leyti, einkum fyrir karlmenn. Japanir eru þó framarlega í klósetttækninni, tölvustýrð klósett með upphituðum setum og vatnsnuddi. Sorglegt hvað við tökum hluti sjálfsagða, þegar þeir gætu verið mun betri.

Áhugavert lesefni:

  • Bush-feðgarnir eru mjög svo umburðarlyndir, eða þannig
  • Stop this benefit!
  • Enski boltinn

    Stöð 2 og Skjár 1 eru núna um helgina að halda upp á annars vegar 15 ára afmæli og hins vegar 2 ára afmæli. Af því tilefni er Stöð 2 órugluð núna og því horfði á á enska boltann í fyrsta sinn í lengri tíma. Leikurinn var ekki slæmur, Man Utd 1-2 Bolton, og var mjög sætt að sjá Man Utd tapa á lokamínútunum. Skondið að sjá David May mættan í vörnina eftir söluna á Stam og meiðsli Johnsen, mig minnir að May hafi verið dýrasti varnarmaður í heimi á sínum tíma. Gaman að sjá Guðna svo eins og herforingja í vörninni, kom sínum mönnum til bjargar þegar þeir lentu í vandræðum og sá um flest allt sem að vítateig kom. Mark Man Utd skrifast pínulítið þó á hann, aukaspyrna dæmd á hann sem að Verón skoraði úr.

    Svo las ég að Peter Schmeichel hefði skorað mark á lokamínútunum, í 2-3 tapi Aston Villa á útivelli gegn Everton, var mikið fagnað af öllum áhorfendum sem þó voru flestir á bandi Everton.

    Ég elska það hvað knattspyrnan getur oft verið upplífgandi.

    Fínt framtak hjá Stöð 2 að reyna að trekkja fólk að, en ég er samt ekki tilbúinn til þess að borga fyrir hana og Sýn til þess að fá enska boltann aftur.

    Grim Fandango

    Fyrst að ég var að leita uppi Edith Piaf á mp3 (og fann að auki nokkra aðra eins og Maurice Chevalier) þá ákvað ég að finna Grim Fandango soundtrackið sem að ég gjörsamlega féll fyrir 1998. Ég rakst strax á þessa síðu frá LucasArts og náði í þessi þrjú mp3 sem þar er að finna. Eftir að þær skrár voru búnar að kitla eyrun í smástund hélt ég áfram leitinni tvíefldur, og ekki leið á löngu þar til að þessi síða kætti mig með því að upplýsa mig um það að soundtrackið (það er bara ekki til íslenskt orð yfir þetta er það?) hefði verið gefið út á sér disk.

    Ég brá mér í netverslun LucasArts en komst þar að því mér til mikillar mæðu að þeir sinna bara Bandaríkjunum. Ætla að leysa það mál með því að fá félaga minn í Bandaríkjunum til þess að panta þetta, og senda svo bara á mig. Af hverju eru svona margar verslanir í Bandaríkjunum með “USA only” netverslanir?

    Áhugaverður tengill:

  • Jam Echelon
  • 12°C

    Ekkert á móti því að það sé yfir frostmarki á veturna, og sól og 12°C í dag, ekki slæmt.

    Kennsla í morgun og lærdómur í kvöld, mennt er máttur.

    Gaman að sjá að IBM er búið að fá einkaleyfi á því sem ég og fleiri höfum verið að vinna í og forrita í fleiri fleiri ár, þessi bandaríska einkaleyfastofa er brandari.

    Kennsla

    Byrjaði í dag aftur með námskeiðsþrennuna mína, gekk svo sem ágætlega.

    Áfram heldur Bandaríkjaher að ráðast á alþjóðlegar stofnanir í Afganistan, nú síðast var það vöruhús Rauða Krossins sem var víst kyrfilega merkt honum. Njósnaþjónusta hersins er að gera svo góða hluti eins og oftar.

    Svo er alltaf fróðlegt að sjá hvað Sharon er duglegur að grafa undan Arafat, og nú síðast að kenna honum um allt og gera allt illt verra.

    Eins árs

    Í dag er WFF vefurinn okkar eins árs gamall, meira um það má lesa hér.

    Hlustaði á Edith Piaf í vinnunni í dag, algjör snilldartónlist og söngur.

    Tók þetta Star Wars persónuleikapróf og það kom í ljós mér til mikillar undrunar að ég er “Emperor Palpatine”, ég sem er Mr. NiceGuy!

    Svolítið magnað að RIAA vilja að það sé í lögum að þeir séu ekki ábyrgir fyrir tjóni sem þeir valda tölvum þeirra sem þeir telja að séu að dreifa ólöglegu efni, eins og lesa má hér, að auki virðist sem þeir ætli að fara að gera nokkurs konar DDoS árásir á þá sem þeir gruna um græsku, sumsé að nota öll dirty trickin í bókinni og fá jafnframt leyfi stjórnvalda til þess að haga sér eins og verstu bófar. Magnað.

    Áhugavert lesefni:

  • Salvaging Electronic Last Words
  • It’s a weirdo thing: Why I do what I do by Robert Rankin
  • Gillingham FC fan hires plane to protest Web site ban
  • Piaf

    Var að leita mér að einhverjum skemmtilegum frönskum mp3-skrám á netinu, svona til þess að hlusta á í vinnunni og stuðla að meiri frönskukunnáttu. Rakst á þessa frábæru síðu, þar sem að hann skiptir franskri dægurtónlist í nokkur tímabil. Að auki er hann með hinn stórskemmtilega leik MasterMind þarna, ókeypis til notkunar og niðurhleðslu, auk annara.

    MP3-væddi líka 2 Edith Piaf diska sem við áttum hérna heima, frönsk MP3-vika framundan hjá mér, það er að segja nema þegar ég er að kenna á námskeiðum niðri í vinnu.

    Áhugavert lesefni:

  • Fulltrúi SÞ segir matvæladreifingu Bandaríkjanna ótrúverðuga