Uncategorized

Fyrsti dagur lokaverkefnis og margt, margt fleira

Vinna við stóra lokaverkefnið okkar hófst formlega í dag með fundi með verkefniskennara. Allir gera sér grein fyrir því að þetta er stór pakki sem við ætlum að ráðast á, við þurfum bara að skipuleggja þetta ofboðslega vel og þá blessast þetta.

Gott dæmi um stærð verkefnisins er að þeir eru nú tveir kennararnir sem hafa spurt “og hvaða hluta ætlið þið að gera” þegar þeir líta á heildarplanið. Svar okkar er stutt: “allt”.

Myndin stórfína Bend it like Beckham hefur hrundið af stað miklu fótboltaæði meðal stúlkna á Indlandi og orðið enn eitt lóðið í vogarskál jafnréttisbaráttunar þar. Myndin er nefnilega ekki bara skemmtun, hún breiðir líka út boðskap jafnréttis. Kvikmyndir sem opna augu þeirra sem á horfa fyrir nýjum hlutum eru að mínu skapi, þetta rusl sem hin 95% kvikmynda eru er eingöngu ætlað til að hafa ofan af fyrir manni í rétt tæpa tvo tíma. Margt nýtilegra hægt að gera en að horfa á þannig rusl.

Menn gera ýmislegt til að komast í metabækurnar, til dæmis stinga þeir 702 nálum í sig.

Menn gera líka ýmislegt til að eignast bíl, til dæmis gerast þeir leigumorðingjar. Þessum fórst það sem betur fer illa úr hendi.

Aðrir gera sitt besta til að sleppa úr þessu lífi sem gæti verið svo miklu betra en er það ekki vegna okkar eigin heimsku. Þessi smíðaði sína eigin fallexi og tókst ætlunarverkið.

Áhugaverð tíðindi frá Kúvæt, maður hefur óskað eftir því að hann verði löglega skráður sem kvenmaður eftir að hafa gengist undir aðgerð í Bangkok. Kúvæt er með frjálslyndari múslimaríkjum og þetta gæti verið stórt skref í þessum málum í araba- og múslimaheiminum.

Loksins hefur vísindamönnum tekist að sanna það sem marga hefur lengi grunað. Föðurætt mín er nefnilega að stærstum hluta til skipuð fólki sem hefur talsvert af aukakílóum, nær undantekningalaust fá karlmennirnir misstórar ístrur eftir tvítugt. Ítalskir vísindamenn hafa fundið gen sem kallast DD sem virðist hafa þessi áhrif. Ég held að margir kannist við fólk sem borðar eins og hestar og hreyfir sig lítið en er alltaf grennra en ljósastaur, það er væntanlega með “and-genið” við DD.

Meira úr vísindaheiminum, bananar eru nú í útrýmingarhættu! Bananaplöntur virðast hafa lítið mótstöðuafl gegn ýmis konar sjúkdómum og svo virðist sem að líftækni og erfðafræði séu eina von þeirra.

Meira af fæðu… súkkulaði er nú líklega að fara að hækka í verði sökum minnkandi framboðs á kakó-baunum. Stærsti þátturinn í þessu eru átök í Afríkuríkinu Fílabeinsströndinni en þar hafa uppreisnarmenn hertekið norðurhluta landsins þar sem kakó-ekrurnar eru. Fílabeinsströndin hefur hingað til framleitt helming ársframleiðslunnar.

Úr matnum í matseld. Sumar eldunarpönnur getur verið hættulegt að nota við eldamennsku, eins fáránlega og það hljómar. Sjónvarpsmarkaðurinn í Bandaríkjunum var sumsé að selja pönnur nema hvað að við háan hita (eins og títt er við eldamennsku) geta þær sprungið eða dottið í sundur.

Strangtrúaðir menn eru ennþá með leiðindi út í ævintýrið um Harry Potter, núna eru það rétttrúnaðarklerkar á Kýpur sem vilja láta banna strákgreyið.

Vetur konungur hefur vaknað hér á landi, það hefur snjóað undanfarið hér í höfuðborginni. Á Ítalíu hefur verið meiri snjór og vetraríþróttir mikið stundaðar. Þar í landi eru nú í vinnslu lög sem myndu skylda snjóbrettafólk til að nota aðrar brautir en venjulegt skíðafólk, þetta er í kjölfar margra slysa og síðasta stráið var dauðaslys á sunnudaginn. Venjulegt skíðafólk kvartar undan því að snjóbrettafólk (sem er iðulega yngra) fari ekki eftir háttvísireglum í brautunum.

Um daginn var greint frá því að lögreglan í Los Angeles væri hætt að fara í útköll þegar þjófavarnir færu í gang. Það nýjasta að vestan er að lögreglubílar munu nú einnig gegna hlutverki sem auglýsingaskilti, meira um það má lesa hér.

George W. Bush er ekki aðeins að valda skaða á mannslífum og eignum. Nýjasta fórnarlambið er ensk tunga en margvíslegar málvillur hans eru nú að festa sig í sessi hjá fólki sem veit ekki betur eða er að gera grín að vankunnáttu forsetans. Hljómar ótrúlega líkt Davíð reyndar… “yfirgripsmikið þekkingarleysi” er ekki ósvipað “misunderestimate” hvað hræðilega málfræði varðar og svo má Davíð ekkert gult sjá nema það sé í útlöndum og hann fái ókeypis ferð þangað (hann er staddur í Japan og hittir þar ráðamenn sem eru næstum því ráðherrar, ráðherrarnir eru of uppteknir til að heilsa upp á sveitavarginn).

Uncategorized

Útlitið blekkir

Titill dagsins helgast af því hvernig komið er fram við mann í umferðinni eftir að maður yngdi upp ökutækjakostinn. Toyotan sem er nú okkar þarfasti þjónn er með veglegri vindskeið (spoiler) að aftan og bíllinn hinn rennilegasti. Mér finnst núna bera á því að ökumenn annara bíla með vindskeiðar (oft í yngri kantinum) séu eitthvað að vilja fara í meting við mig þegar við erum stopp á ljósum og botna allt til að komast örugglega fram úr mér.

Þeim er það guðvelkomið því ekki ætla ég að keyra Sæbrautina (keyri hana minnst tvisvar á dag og oft tíðar) á 100 eða yfir. Ég fer ekki einu sinni upp í 90. Mín langa reynsla af Sæbrautinni segir mér að 65 km hraði frá grænum ljósum þýðir að maður lendir á grænum ljósum ALLA Sæbrautina. Þess vegna verð ég að hrista hausinn yfir öpunum sem að botna bílana bara til að bíða svo á næstu ljósum eftir að ég fari framúr. Þá botna þeir auðvitað aftur til að komast fram úr og lenda á rauðu og sagan endurtekur sig.

Held að maður ætti að fara að taka niður númer þessara bíla, fletta upp eigendum og heilsa upp á fólkið með kort af Sæbrautinni og útskýra fyrir þeim hvernig þetta virkar. Kannski ég sýni þeim líka þessa glærusýningu sem sýnir hvernig glæsileg ung kona eyðilagðist hrikalega í bílslysi. Nota bene: verulega viðbjóðslegt en svona er lífið, það er fúlasta alvara.

Hraði drepur eða örkumlar, aðeins vitleysingar keyra á ofsahraða annar staðar en á tilhlýðilegri keppnisbraut. Það þarf ekki að nefna það að keyra undir áhrifum efna, reykjandi, fálmandi undir sæti eða önnur brot gegn samborgurum (þeir eru í lífshættu vegna fíflaláta þessa aðila).

Í dag var fyrsti tíminn í ræktinni, fituprósentan orðin… nokkuð há. Tók nokkrar æfingar, mesti tíminn fór í að búa til áætlun og kenna mér á tölvukerfið í Sporthúsinu. Búinn að vera mjög sprækur í allan dag eftir þetta þó litla púl.

Gleymdi í gær að minnast á þetta myndband (í stærri kantinum, 3 MB). Fótboltamyndband sem allir kvenmenn ættu að dýrka, ekki bara fótboltastelpurnar, kvenmenn sem þola ekki fótbolta ættu sérstaklega að líta á þetta.

Uncategorized

Ár ofurmennisins

Þetta ár verður þéttpakkað! Í ár ætla ég að:

  • taka skólann af fúlustu alvöru (loksins)
  • vinna 60 – 80% með náminu
  • komast í sama líkamlega horf og ég var í fyrir fimm árum
  • koma WFO á fulla ferð
  • hitta vinina oftar en í fyrra
  • Til þess að þetta takist verð ég að vera ofursamviskusamur og ofurduglegur. Aðalmálið er að springa ekki á þessu heldur koma upp áætlun og standa við hana. Ekki eyða nema í mesta lagi einum degi per mánuð í vitleysu, hina dagana er það lærdómur og líkamsrækt sem að ráða öllu.

    Keypti í dag árskort í Sporthúsinu sem er í gömlu tennishöllinni þar sem ég forðum daga lék fótbolta (og tók eina skriðtæklingu sem að brenndi stóran hluta af mér). Í þriðja sinn sem ég kaupi árskort, mætti samtals sjö sinnum í World Class og Hreyfingu.

    Vigtin og fallið um jólin hafa kveikt í mér, keppnismaðurinn er kominn í gang og eins og vinir mínir vita þá er betra að vera ekki maðurinn með boltann í hinu liðinu þegar það gerist. Ég er Ofurmennið!

    Já. Eitt takmarkið er að vera flottur í gömlu jakkafötunum um jólin, þetta er langtímaplan, ef ég held þetta ár út þá held ég að ég verði flottur næstu áratugina þegar álagið minnkar og duglegheitin komin í vana.

    Þá að öðrum málum.

    Eftir því sem að dreifikerfi farsíma og önnur þráðlaus net breiða úr sér þarf sífellt fleiri og betri loftnet til að tryggja gott samband. Frétt í Wired greinir frá því að menn eru farnir að dulbúa loftnetin til að þau stingi ekki illa í stúf, í þessari frétt má lesa meira um þetta sem og sjá 7 merkilegar myndir. Platið í gömlu njósnamyndunum orðinn raunveruleiki.

    Stóru kallarnir í Bandaríkjunum hafa náð samkomulagi um rétt neytenda varðandi höfundarrétt, neytendur fengu að sjálfsögðu ekki að leggja orð í belg. Stóru kallarnir voru æstir í að ná samkomulagi til að þingið færi ekki að skoða málin betur. Vondar fréttir fyrir neytendur vestra og líklega alls staðar, meira um það á Wired.

    Uncategorized

    Sólarhringnum náð

    Vippuðum okkur framúr rétt rúmlega 7 í morgun. Sólarhringurinn var að verða tæpur hjá okkur en núna ætti þetta allt að vera að koma.

    Foreldrar geta nú leitað aðstoðar Barbie við uppeldið, hún svarar í símann og getur hvatt börn til þess að vera góð við systkyni sín, taka til eða fara snemma að sofa.

    Man ekki hvort ég minntist um daginn á þetta túristatrikk sem bærinn Sápuvatn (Soap Lake) er að íhuga. Planið er sumsé að athuga hvort að einhverjir fáist til að kaupa sig inn í það fyrirtæki að reisa 20 metra háan hraunlampa, áhugasamir geta litið á vefsíðuna.

    Uncategorized

    Duglegheit halda áfram

    Hlustað á fyrirlestra og bækur lesnar. Engin miskunn þessa önn.

    Uglurnar voru nú að missa sinn aðalmarkaskorarar, Hollendingurinn Gerald Sibon var að fara heim til Hollands, gengur þar til liðs við Heerenveen. Kaupverðið er talið vera hálf milljón punda og að auki sparast svipuð upphæð út tímabilið vegna launa sem ella hefði þurft að greiða honum. Þetta gerir baráttuna fyrir sæti í 1. deildinni enn erfiðari en ella.

    Ef að konur væru hestar væru kannski meiri líkur á að misyndismenn þyrftu að sitja inni í nokkur ár. Konur greinilega sífellt að verða verðminni en hestar miðað við gjaldskrár dómstólanna.

    Áhugaverðir þessir velferðarsjúkdómar!

    Uncategorized

    Snjókast

    Stefan Schwarz (sænskur landsliðsmaður í knattspyrnu) var að lenda í klandri í Englandi. Einhverjir óþekktarpjakkar hentu snjóboltum í bíl hans og hann stökk þá bara út og á eftir þeim. Einn pjakkurinn ökklabraut sig á flóttanum og nú lítur út fyrir að Schwarz gæti verið ákærður. Ég er á hans bandi í þessu máli, snjókast í eignir annara geta valdið tjóni, hvað þá ef kastað er í bíl á ferð, bílstjóra getur auðveldlega fipast og stórslys getur orðið úr þessu. Rassskella ökklabrotna kjánann fyrir aulaskapinn! Foreldrar ættu að brýna þetta fyrir börnum sínum, það er þó auðvitað langt í frá trygging fyrir betri hegðun barna. Hvað ætli lagasmiðurinn Pétur Blöndal segi… lög gegn snjókasti?

    Frá Bandaríkjunum er það helst að frétta að stóri bróðir seilist æ lengra, nú eru allir erlendir námsmenn undir reglulegu eftirliti skólayfirvalda og eftirlitsstofnanna.

    Uncategorized

    Umferðarmálin

    Mikið ofboðslega eru margir vondir ökumenn til á Íslandi. Þetta er algjör frumskógur þarna eins og aðalhákarlarnir vita. Þeir keyra um á tveggja tonna, 5 milljóna (og meira) bryndrekum sem stúta öllum fólksbílum sem lenda í vegi fyrir þeim. Bryndrekamennirnir fá auðvitað ekki skrámu á meðan að pöpullinn sem hefur ekki efni á neinu stærra en tindollu missir líf eða limi við viðureignina og skiptir þá ekki máli hver var í rétti.

    Okkur var boðið í mat til ömmu í kvöld, pabbi skaffaði matinn en amma sá um matseldina. Úrvalsmatur á ferð. Eins og oftast þá sjáum við Sigurrós nær aldrei fréttir nema þegar að við erum í heimsókn einhver staðar.

    Þarna mátti sjá á skjánum þegar verið var að taka skóflustungu að tvöföldun Reykjanesbrautar og mér heyrðist samgönguráðherra fara með örstutta líkræðu, svo ábúðarfullur og hikandi var hann að stauta einhverju bulli út úr sér.

    Að sjálfsögðu var Reykjanesbrautinni lokað við þetta tækifæri! Merkilegheitin í brynvarða liðinu að drepa það og ekki minnkaði drambið þegar að bryndrekafylkingin með 10 milljón króna jeppana í broddi fylkingar (þessir 5 milljóna voru líklega aftast… ekki nógu fínir í þessum hópi) keyrði á báðum akreinum einhverja kílómetra svona til að fá fílinginn fyrir því hvernig væri að keyra á tvöfaldri akrein á Reykjanesbrautinni. Engum sögum fór af þeim ökumönnum sem urðu að breyta ferðum sínum sökum drambslátanna né segir hversu margir lögregluþjónar sáu um að stöðva umferð almúgans á meðan á þessu stóð.

    Af einhverjum ástæðum þá ergir það mig alltaf ofsalega þegar opinberir starfsmenn (lögregluþjónar) eru settir í störf sem að snúast í rauninni um það að láta suma einstaklinga (bryndrekahersinguna) finnast þeir vera mikilvægari og flottari en þeir eru. “Fína fólkið” fær snittur, umferðinni er haldið í skefjum og “fína fólkið” fær að labba yfir Reykjanesbrautina, keyra á móti umferð þar eða að heilum bæjarhlutum er lokað á meðan að “fína fólkið” fundar eða heldur ræðu. Þetta lið getur bara gert þetta í sínum draumum og fyrir sína peninga heima hjá sér! Ég sé á eftir öllum mínum skattpeningum sem fara í svona prjál og fínerí.

    Aftur að ökumannshlutanum, ég hef orðið var við það að ekki allir fylgja mér þegar ég fer úr einu í annað, þó að mér finnist tengslin á milli umræðuefnanna eðlileg þá sjá allir ekki hvað ég hugsa (sem betur fer! :p ). Í kvöld var ég að keyra á Miklubrautinni þegar ég heyrði í sjúkrabíl og sé blikkandi ljós í fjarska fyrir aftan mig. Ég gerði því eins og mér var kennt, færði mig yfir á hægri akrein og hægði ferðina. Bíllinn sem var fyrir framan mig á vinstri akreininni gerir hins vegar ekki slíkt hið sama heldur hægði bara ferðina og sama gilti um marga aðra á vinstri akreininni. Sjúkrabíllinn þurfti því að stunda svig á 100 kílómetra hraða sem er ekki það sniðugasta, einkum í myrkri og rigningu.

    Grundvallarreglan er þessi þegar að bílar með forgangsljós eru fyrir aftan þig:

  • ef að þú ert á tvöfaldri braut þá ferðu á hægri akreinina, ef þú ert á hægri akreininni þá gefurðu þeim sem eru á vinstri akrein tækifæri til þess að komast á þá hægri
  • ef þú ert á einfaldri braut þá ferðu út í hægri kant og stoppar á meðan að forgangsbíllinn fer hjá
  • Íslendingum er annars ekki tamt að gefa neina sénsa í umferðinni, þeir halda fast í frumskógarlögmálið eins og sést á fylgi Sjálfstæðisflokksins, míns fyrrum stjórnmálavettvangs.

    Spurning hvort maður leggi í enn eitt verkefnið, henda upp smá Flash-vef sem sýnir Íslendingum hvernig siðaðar þjóðir hegða sér í umferðinni.

    Að þessum útblástri afloknum þá get ég minnst á það að ég hef verið afskaplega duglegur við lærdóminn í dag. Mikill lúxus að hafa skrifstofu sem er eingöngu ætluð til lærdóms á þessari önn, við Steinunn höfum reiknað í allan dag. Mín besta byrjun á önn hvað lærdóm varðar held ég í fjöldamörg ár.

    Uncategorized

    Steik, rauðvín og með því

    Höfðum það náðugt í kvöld, nautasteik, rauðvín og bakaðar kartöflur.

    Á eftir var svo horft á þrjá Enterprise-þætti og eftirréttur í gervi íspinna lagður að velli. Prinsessan í einum þáttanna er víst þekktur matgæðingur sem og fyrirsæta.

    Í framhaldi af umræðunni um þroska barna til að fara á kvikmyndir þá hafa nýlegar niðurstöður vísindamanna í Kanada leitt það í ljós að börn undir 10 ára aldri skilja ekki kaldhæðni. Þetta getur þýtt að höfundar barnaefnis þurfi aðeins að endurskoða vinnubrögðin. Held að sumt barnaefni sé einmitt að stíla upp á kaldhæðni og þykir því afskaplega leiðinlegt hjá börnum. Ekki lái ég börnunum þess að skilja ekki kaldhæði, finnst að hana ætti að varast að nota, niðurrif er aldrei til góðs í mannlegum samskiptum. Játa upp á mig þó einhver ummæli í þessum kanti, hefur farið mjög fækkandi undanfarin ár.

    Sá einn þátt af Viltu vinna milljón þar sem vinningar runnu til ýmissa samtaka. Þar kom einmitt fram nafnið Helo Pinheiro. Hún er kvenmaður í Brasilíu sem lagasmiður og textasmiður féllu í stafi fyrir og sömdu lagið “The Girl from Ipanema” um. Það lag fór mikla sigurför um heiminn á sínum tíma. Núna mun umræddur kvenmaður (55 ára) og dóttir hennar (24 ára) koma fram í brasilísku útgáfunni af Playboy, hún er víst flott ennþá, stúlkan frá Ipanema.

    Fengum næturgest í nótt, tengdó var voða þæg og góð á beddanum sem hún gaf okkur fyrir akkúrat svona tækifæri.

    Uncategorized

    Bólur, sparnaður og fátækt

    Stórleikkonan Cameron Diaz (sem er í miklu uppáhaldi hjá mér) er víst með mjög slæma húð og hélt sig því heima við frumsýningu Gangs of New York í London. Hún hefur víst talað opinberlega um þetta til að fá ungar stúlkur til að fatta það að kvikmyndastjörnur eru svona ofsafallegar vegna alls förðunarfólksins, þær eigi ekki að líta á kvikmyndastjörnur sem fyrirmyndir hvað útlit varðar (hvað hegðun varðar þá eru margar ekki góðar fyrirmyndir heldur). Annar plús í kladdann hennar þar.

    Snilldarráð hjá lögreglunni í LA, til að spara peninga ætla þeir að hunsa þjófavarnarkerfi sem fara í gang.

    Það væri ekki vitlaus hugmynd að gefa út svona bækling hér á landi sem benti fátækum á hvar má komast í nauðsynlega þjónustu. Þörfin því miður að stigmagnast á hverjum degi.

    Survivor 5 lauk um daginn með sigri besta leikmannsins, ágætis grein um leikjafræði í Survivor er að finna hér fyrir næstu þátttakendur.

    Uncategorized

    Stíllinn dettur niður

    Fátt markvert í dag. Fór með Elínu á American Style. Alls ekki nógu góður hamborgarinn sem ég fékk og Elín var ekki ánægð með sinn heldur, kaldir hamborgarar og að auki óspennandi á bragðið. American Style er nú kominn í svarta kladdann ásamt Aktu Taktu sem að hafa ekki afgreitt mannsæmandi hamborgara undanfarin ár.

    Lögreglumenn á Ítalíu hafa viðurkennt sekt sína, þeir fölsuðu sönnunargögn til að fá afsökun til að ráðast á hóp mótmælenda. Hérna heima virðist sem að lögreglan þurfi ekki einu sinni að grípa til þeirra ráða, hún þarf enga afsökun fyrir neinu sem hún gerir, svo sýnist manni eftir atburði ársins 2002.

    Mig minnir að það hafi verið skrifað um svipað húllumhæ þegar fyrsti rúllustiginn kom til Íslands, í Kjörgarð á sínum tíma.

    Það eru enn allmargir jarðarbúar sem hafa ekki enn séð rúllustiga og stór hluti þeirra mun aldrei sjá þá, mikil er misskiptingin og rúllustigar langt frá því að vera lífsnauðsynjar.