Fyrsti dagur lokaverkefnis og margt, margt fleira

Vinna við stóra lokaverkefnið okkar hófst formlega í dag með fundi með verkefniskennara. Allir gera sér grein fyrir því að þetta er stór pakki sem við ætlum að ráðast á, við þurfum bara að skipuleggja þetta ofboðslega vel og þá blessast þetta.

Gott dæmi um stærð verkefnisins er að þeir eru nú tveir kennararnir sem hafa spurt “og hvaða hluta ætlið þið að gera” þegar þeir líta á heildarplanið. Svar okkar er stutt: “allt”.

Myndin stórfína Bend it like Beckham hefur hrundið af stað miklu fótboltaæði meðal stúlkna á Indlandi og orðið enn eitt lóðið í vogarskál jafnréttisbaráttunar þar. Myndin er nefnilega ekki bara skemmtun, hún breiðir líka út boðskap jafnréttis. Kvikmyndir sem opna augu þeirra sem á horfa fyrir nýjum hlutum eru að mínu skapi, þetta rusl sem hin 95% kvikmynda eru er eingöngu ætlað til að hafa ofan af fyrir manni í rétt tæpa tvo tíma. Margt nýtilegra hægt að gera en að horfa á þannig rusl.

Menn gera ýmislegt til að komast í metabækurnar, til dæmis stinga þeir 702 nálum í sig.

Menn gera líka ýmislegt til að eignast bíl, til dæmis gerast þeir leigumorðingjar. Þessum fórst það sem betur fer illa úr hendi.

Aðrir gera sitt besta til að sleppa úr þessu lífi sem gæti verið svo miklu betra en er það ekki vegna okkar eigin heimsku. Þessi smíðaði sína eigin fallexi og tókst ætlunarverkið.

Áhugaverð tíðindi frá Kúvæt, maður hefur óskað eftir því að hann verði löglega skráður sem kvenmaður eftir að hafa gengist undir aðgerð í Bangkok. Kúvæt er með frjálslyndari múslimaríkjum og þetta gæti verið stórt skref í þessum málum í araba- og múslimaheiminum.

Loksins hefur vísindamönnum tekist að sanna það sem marga hefur lengi grunað. Föðurætt mín er nefnilega að stærstum hluta til skipuð fólki sem hefur talsvert af aukakílóum, nær undantekningalaust fá karlmennirnir misstórar ístrur eftir tvítugt. Ítalskir vísindamenn hafa fundið gen sem kallast DD sem virðist hafa þessi áhrif. Ég held að margir kannist við fólk sem borðar eins og hestar og hreyfir sig lítið en er alltaf grennra en ljósastaur, það er væntanlega með “and-genið” við DD.

Meira úr vísindaheiminum, bananar eru nú í útrýmingarhættu! Bananaplöntur virðast hafa lítið mótstöðuafl gegn ýmis konar sjúkdómum og svo virðist sem að líftækni og erfðafræði séu eina von þeirra.

Meira af fæðu… súkkulaði er nú líklega að fara að hækka í verði sökum minnkandi framboðs á kakó-baunum. Stærsti þátturinn í þessu eru átök í Afríkuríkinu Fílabeinsströndinni en þar hafa uppreisnarmenn hertekið norðurhluta landsins þar sem kakó-ekrurnar eru. Fílabeinsströndin hefur hingað til framleitt helming ársframleiðslunnar.

Úr matnum í matseld. Sumar eldunarpönnur getur verið hættulegt að nota við eldamennsku, eins fáránlega og það hljómar. Sjónvarpsmarkaðurinn í Bandaríkjunum var sumsé að selja pönnur nema hvað að við háan hita (eins og títt er við eldamennsku) geta þær sprungið eða dottið í sundur.

Strangtrúaðir menn eru ennþá með leiðindi út í ævintýrið um Harry Potter, núna eru það rétttrúnaðarklerkar á Kýpur sem vilja láta banna strákgreyið.

Vetur konungur hefur vaknað hér á landi, það hefur snjóað undanfarið hér í höfuðborginni. Á Ítalíu hefur verið meiri snjór og vetraríþróttir mikið stundaðar. Þar í landi eru nú í vinnslu lög sem myndu skylda snjóbrettafólk til að nota aðrar brautir en venjulegt skíðafólk, þetta er í kjölfar margra slysa og síðasta stráið var dauðaslys á sunnudaginn. Venjulegt skíðafólk kvartar undan því að snjóbrettafólk (sem er iðulega yngra) fari ekki eftir háttvísireglum í brautunum.

Um daginn var greint frá því að lögreglan í Los Angeles væri hætt að fara í útköll þegar þjófavarnir færu í gang. Það nýjasta að vestan er að lögreglubílar munu nú einnig gegna hlutverki sem auglýsingaskilti, meira um það má lesa hér.

George W. Bush er ekki aðeins að valda skaða á mannslífum og eignum. Nýjasta fórnarlambið er ensk tunga en margvíslegar málvillur hans eru nú að festa sig í sessi hjá fólki sem veit ekki betur eða er að gera grín að vankunnáttu forsetans. Hljómar ótrúlega líkt Davíð reyndar… “yfirgripsmikið þekkingarleysi” er ekki ósvipað “misunderestimate” hvað hræðilega málfræði varðar og svo má Davíð ekkert gult sjá nema það sé í útlöndum og hann fái ókeypis ferð þangað (hann er staddur í Japan og hittir þar ráðamenn sem eru næstum því ráðherrar, ráðherrarnir eru of uppteknir til að heilsa upp á sveitavarginn).

Comments are closed.