Uncategorized

Þá eru það rammarnir

Líf mitt snýst þessa dagana um það að vinna og læra. Það verður tími til að slappa af í sumar, enginn sumarskóli þetta árið.

Fagið í dag eru tölvusamskipti, rammar og ljóshraði koma þar við sögu. Ljóshraðinn er reyndar mismunandi, hraðastur í tómarúmi en hægastur í ljósleiðara (merkilegt nokk).

Rakst á eina þokkalega grein í dag, barnaklám er vissulega grafalvarlegt en menn ættu að slaka aðeins á nornaveiðunum. Mæður geta ekki lengur ljósmyndað börnin sín í bölum nema vera kallaðar á lögreglustöðina til að svara fyrir þær sakir.

Uncategorized

Nú var það strjált

Dagurinn farið að mestu í fag sem ber nafnið strjál stærðfræði, það er víst þýðing á discrete mathematics. Bein þýðing væri reyndar laumuleg stærðfræði og á það betur við. Ljóta torfið sem er að finna í bókinni þar sem menn slá um sig með stórum orðum í löngum bunum en afar fáum sýnidæmum. Maður á víst að geta lesið það út úr þulunum hvernig maður reiknar svo út úr dæmunum.

Þessi bók er þó sögð vera sú besta sem er til á markaðnum upp á læsileika. Örgreinarnar um mikilmenni í stærðfræðinni eru forvitnilegar reyndar, skemmtilegra að lesa um Fermat sjálfan en litlu kenninguna hans svo ég taki nú einn þessara manna sem dæmi (hingað til hefur aðeins ein kona verið nefnd, Ada Lovelace sem hefur fengið forritunarmál nefnt eftir sér).

Uncategorized

Gagnaflutningur

Í gær sáum við þátt í seríunni Vinir þar sem kom fram að Monica vissi að starf Chandlers væri flutningur og umbreyting á gögnum (ég var næstum búinn að kjafta frá en mundi að almennar útsendingar hér á landi eru ekki komnar svo langt). Í dag hefur dagurinn hjá mér farið í ofangreint, ég hef verið að flytja gögn úr MySQL-gagnagrunni og yfir í PostgreSQL-gagnagrunn. Þetta ætti að vera einfaldasta mál í heimi ef ekki væri fyrir eitt oggulítið vandamál.

Stafasettið sem MySQL er að nota er ISO 8859-1 (sem er meðal annars notað í Vestur-Evrópu) en PostgreSQL setti ég upp með UTF-8 stafasettinu, UTF-8 var reyndar hluti af því hvers vegna ég er að flytja gögnin yfir. UTF-8 er sumsé hluti af Unicode staðlinum en með honum er hægt að skrifa öll þekkt skriftákn eins og til dæmis íslenska stafi, kínverska stafi, japanska stafi og meira að segja Klingon.

Eftir miklar pælingar, vangaveltur og tilraunir fann ég loksins aðferð sem virkar:

  1. Gera “dump” úr MySQL í .cvs skrá
  2. Opna “dumpið” í Excel, hentugt fyrir dálkatilfærslur
  3. Vista skrána sem Tab-delimited text
  4. Opna þá skrá með jEdit sem iso8859-1 skrá en vista sem UTF-8 skrá
  5. Senda skrána á gagnagrunnsþjóninn
  6. Flytja skrána inn í PostgreSQL með psql-tólinu og COPY skipuninni

Krókaleið en hún virkar.

Uncategorized

Tenglasúpa

Vinna, verkefni og Vinir.

Lögin sem kveða á um mesta eftirlit ríkis með þegnum sínum fyrr og síðar eru að mæta einhverri andstöðu á þingi Bandaríkjanna, þingmönnum er farið að finnast þetta kannski aaaaðeins of mikið.

Það sem lengi hefur verið hugarfóstur í sci-fi heiminum er nú orðið að raunveruleika, vísindamönnum tókst að láta önd fæðast með gogg kornhænu og kornhænu með andargogg með því að víxla erfðaefni á milli. Þetta gæti verið skref í átt að því að koma í veg fyrir ýmsa erfðagalla í fóstrum.

Útvarpsstöðvar eru alltaf með einhverja vitlausa leiki í gangi til að fá smá athygli, idjótunum á BRMB stöðinni tókst þó að ganga lengra en flestir hafa gert hingað til. Þeir létu fjóra keppendur sitja á þurrís til að keppa um miða á tónleika. Eftir keppnina þurfti að fara með alla keppendurna á sjúkrahús þar sem þurrísin var -108°C og allir hlutu veruleg kalsár.

Allir skrifa matreiðslubækur þessa dagana og nú hafa húmoristanir í þýsku leyniþjónustunni (BND) gefið út matreiðslubók og krydda hana með sögubrotum af njósnurum, bæði sönnum og skálduðum.

Langar þig til að sjá kvikmyndastjörnur aðeins öðruvísi en vanalega? Hérna er að finna síðu með mörgum myndum sem menn hafa leikið sér að búa til í myndvinnsluforritum þar sem þeir taka stjörnurnar og breyta um kyn á þeim. Margt listavel gert en varúð, síðan er með mörgum stórum myndum og því hæg hjá sumum heimanotendum.

Að lokum þá er tilvalið að enda daginn með smá leik í fótboltaspili, þú getur keppt við tölvuna, vin þinn eða bara einhvern á Internetinu.

Uncategorized

Nafnahefð

Í ættarlínu minni að Ingólfi Arnarsyni koma þeir feðgar Narfi Snorrason, Snorri Narfason, Narfi Snorrason og Snorri Narfason allir fjórir fyrir sem og feðgarnir Jón Jónsson og Jón Jónsson.

Mér finnst það alltaf frekar klént að skíra börnin eftir sjálfum sér, mun betra að skíra eftir öfum eða ömmum. Ef að verið er að skíra börnin eftir ættmennum þá ætti þó að hafa millinafn, helst þá úr hinni ættinni eða bara óskylt að öllu. Börn eiga að koma í heiminn með hreint borð, enga erfðasynd takk fyrir og þau eiga ekki að vera spegilmyndir foreldranna. Í mörgum fjölskyldum virðist það vera hefð að það þurfi alltaf að vera Jón Jónsson, spurning hversu einstakur manni finnst maður þá vera þegar maður er Jón Jónsson áttundi?

Öllum Jónum Jónssonum sem gætu tekið þetta sem móðgun bið ég forláts, ekki völdu þeir nöfnin sjálfir á sig en gætu kannski íhugað það að skíra son sinn Jón Millinafn Jónsson svona svo að pattinn finni aðeins til þess að vera einstaklingur en ekki einræktaður klóni.

Er ég að fella sleggjudóm yfir nöfnum manna? Líklega, þetta eru ekki heilög vísindi, aðeins fagurfræðilegt mat mitt á sama hátt og að mér finnst fátt ljótara en skærbleikt og ljósblátt herbergi. Ég tek fram að ég tel Jón Jónsson ekki vera minni mann þó hann, sonur hans og afinn beri það nafn, mér finnst það bara ekki mjög smekklegt svona svipað og golfbuxur.

Það vakti líka talsverða kátínu í mínum einstaklingsmiðaða huga að í Íslandssögunni er ég sá eini sem hefur hingað til borið fullt nafn mitt og sama gildir með Sigurrós og Elínu, við erum þau fyrstu sem berum nafnasamsetningar okkar hvert um sig.

Bersi benti á mjög áhugaverða grein sem gefur eilitla innsýn í þá stjórnmála”skóla” sem eru í Bandaríkjunum, umfjöllunin er mest um Jacksonians sem eru einmitt þessir villtu kúrekar sem manni finnst stýra vondri utanríkisstefnu Bandaríkjanna (vond fyrir alþjóðasamfélagið, góð fyrir bandaríska kjósendur).

Gollum var ekki tölvuteiknaður! Over the Hedge gróf upp sannleikann.

Uncategorized

Íslendingabók

Í dag fékk ég í pósti notandanafn mitt og lykilorð að Íslendingabók. Hingað til hef ég ekki verið þekktur fyrir mikla ættfræðiþekkingu eða áhuga. Man þó vel eftir plaggi sem sýndi hvernig ætt föður míns var rakin til Ingólfs Arnarsonar og þaðan yfir til norskra höfðingja, til 600 eða svo… man það ekki svo gerla.

Annars virtust flestir sem ég fletti upp vera skyldir mér í 6.-9. ættlið. Öllum Íslendingum gefst kostur á að fletta upp sér og sínum ættingjum og svo að rekja saman ættir sínar við aðra á vefnum. Aðeins þarf að stimpla inn kennitölu sína og þá berst brátt póstur með notandanafni og lykilorði til að fá aðgang.

Þegar tæknilegir hnökrar (fékk alloft “Óvænt villa hefur komið upp!”) voru ekki að trufla rannsóknir mínar þá gekk bara vel að fletta upp vinum og öðrum. Við Sigurrós eigum sameiginlega langalangalangalangalanga (5x langa) -afa og ömmu, þau hjónin Illuga Þorgrímsson og Hólmfríði Hallgrímsdóttur, sem fædd voru upp úr 1730.

Ég fann líka forföður minn sem hét því magnaða nafni Hallgrímur “sterki” Hallgrímsson. Það er vonandi að æfingarnar hjá mér geti orðið til þess að ég fái svona viðurnefni 🙂

Á Ítalíu hafa nú fallið dómar sem eru aðeins á skjön við hvorn annan, annars vegar er föður falið forræði yfir syni þeirra þar sem móðirin ofverndar drenginn um of, í hinum þá missir faðir forræði þar sem að hann fær stundum aðra til að passa drenginn.

Kosningabaráttur í fullum gangi um allan heim. Í Mexíkó hefur forsetinn Vicente Fox fengið ófæddan sonarson sinn með í baráttuna, á sónarmynd af drengnum virðist sem að hann myndi sigurtáknið (V) sem forsetinn notaði grimmt í síðustu kosningabaráttu. Þetta er nú líklega ein útbreiddasta sónarmynd sem tekin hefur verið. Magnaðir kosningastjórar þarna í Mexíkó.

Nú virðist vera komin æfingatækni sem getur aukið minni okkar mannanna um 10%, BBC er með meira um þetta.

Smá hugleiðingar um stöðu forritunarumhverfisins (og málsins) Java.

Uncategorized

Sundfatarenglur

Í dag var slökkvitæki sett inn í sjónvarpið okkar. Við erum við öllu búin alls staðar.

Setti upp RealOne Player í gær og þegar ég opnaði hann í dag þá birtust skilaboð um að það væri eitthvað í innhólfinu. Þar beið mín listi yfir 10 vinsælustu myndbönd ársins 2002 samkvæmt Real.com. Þar var efst á lista myndband sem var tekið við gerð “Swimsuit edition” af Sports Illustrated blaðinu. Þessi útgáfa kemur út einu sinni á ári og selst í gríðarlegu magni. Þarna má sjá stelpur sem hafa hvorki rass né mjaðmir sitja eða liggja í óþægilegum stellingum afar fýldar á svip á meðan að ljósmyndarar skipa þeim að hreyfa rassinn, fara í bólakaf, fikta í hári þeirra eða hvað allt þetta er. Ef þetta fær ekki sumar stúlkur til að hætta við fyrirsætudraumana veit ég ekki hvað, þetta virðist vera hrikalega leiðinlegt starf ef að marka má svipinn á spýtustúlkunum sem fötin eru hengd á til sýnis.

Viltu leggja þitt af mörkum til að bæta heiminn? Tékkaðu á idealist.org. Það er ekki til auvirðulegra fólk en það sem hugsar aðeins um sjálft sig þó það hafi efni á (peninga eða bara tíma) að leggja sitt af mörkum (er mín mjög svo persónulega skoðun). Mín lífsspeki er sú að reyna að skila heiminum af mér betri en þegar ég kom í hann, þó það sem ég skil eftir mig sé ekki nema nanóbrot af því sem þarf þá er það skref í rétta átt. Ef að allir eru með svipaðan hugsunarhátt þá safnast nanóbrotin saman og fara að skipta verulegu máli.

Íslenskir reykingamenn ættu kannski að apa þetta eftir?

Það eru kosningar í nánd víðar en hér á landi. Ísraelsmenn (jæja… Ísraelar af gyðingaættum, fæstir arabískir Ísraelsmenn fá eða munu vilja taka þátt) ganga brátt að kjörborðinu. Maður einn setti konu sinni stólinn fyrir dyrnar og sagðist skilja við hana ef hún kysi gegn hans vilja, þau leituðu til sinna trúarleiðtoga og þeir kváðu upp þann dóm að hún ætti bara að sitja heima til að bjarga hjónabandinu.

Svona rétt í lokin fyrir tískufólkið þá er hægt að sjá nokkra stjörnukjóla hjá meisturum slúðursins (Mogginn telst ekki með).

Uncategorized

Endurtekt náð, fréttir sagðar

Fékk einkunnina úr endurtektinni, náði en ekki eins glæsilega og ég hafði vonast eftir. Mér gengur alltaf frekar illa þegar ég skrifa kóða í prófum, ég bara finn mig ekki með blað og penna, allt annað mál með tölvuskjá og lyklaborð.

Dave Hughes er magnaður maður eins og má lesa um í þessari frétt. Karlinn er löngu kominn á eftirlaun en hefur undanfarna áratugi unnið að því að nettengja sem flesta staði og einbeitt sér að afskekktum svæðum. Hann vill láta grafa sig með fartölvu tengda við þráðlaust net og svo snúra upp í sólarrafhlöðu til að halda tölvunni gangandi. Öll hans verk eiga að liggja á fartölvunni sem og spjallforrit sem svarar fyrirspurnum í hans nafni. Magnaður frumherji, vel þess virði að renna yfir þessa stuttu en góðu grein um merkilegan mann.

Á morgun mun Kevin Mitnick logga sig inn á internetið í fyrsta sinn í lengri tíma. Fyrir þá sem vita ekki hver maðurinn er þá var hann fundinn sekur um margvísleg tölvuafbrot. Refsingin sem hann fékk var reyndar í þyngri kantinum, hann var sumsé notaður til að senda þau skilaboð að tölvuafbrot væru gríðarlega alvarleg. Hluti af refsingunni var að hann mátti ekki koma nálægt nettengdum vélbúnaði, ættingjar hafa hingað til þurft að tékka á tölvupóstinum fyrir hann og prentað hann út.

Það er enn nóg í gangi varðandi baráttuna fyrir rétti neytenda til að eiga það sem þeir kaupa. Hollywood og félagar eru auðvitað á öðru máli og unnu seinustu lotu. Baráttan er langt í frá búin þó.

Sjónvarpskokkurinn Delia Smith hefur kennt Bretum að elda síðastliðin 30 ár (og sumir segja að það hefði mátt byrja á því mun fyrr) en er nú orðin uppiskroppa með uppskriftir. Hún hefur því hætt eldamennskunni og snúið sér að knattspyrnunni!

Hérna er áhugaverð niðurstaða, konur nú til dags stunda kynlíf sjaldnar en ömmur þeirra! Kynlíf var víst vinsæl dægradvöl fyrir 50 árum en nú fyllir sjónvarpið það pláss að stórum hluta. Gömlu konurnar brosa væntanlega í kampinn yfir þessu, þær vissu þetta alveg.

Að auki þá breytist smekkur kvenna fyrir karlmönnum eftir því hvort þær eru á pillunni eður ei. Þær sem taka pilluna laðast frekar að macho-mönnum en þær sem ekki taka pilluna laðast frekar að fíngerðari karlmönnum. Þetta á víst líka að útskýra fjölda sambandsslita eftir fyrsta barn þegar konurnar hætta á pillunni og líst ekki lengur vel á macho-manninn sinn.

Úr heimi vísindanna berast þær fréttir að aðferð til að mæla lengd
telomera sé nú til. Telomerar eru á endum litninga og í hvert skipti sem fruma skiptir sér minnka telomerarnir. Þannig fæddist kindin Dollý miðaldra, hún byrjaði ekki með 100% telomera eins og ungviði gerir almennt. Þessar fréttir þýða það að auðveldara verður að mæla öldrun og ef til vill verður hægt að hægja á henni seinna meir.

Nú er byrjað að kenna námskeið sem fjallar um stjórnartíð Bill Clinton í Hvíta Húsinu (the good old days).

Mótmæli gegn stríði fara stigvaxandi, fólk um allan heim fækkar fötum til að sýna friðarþel sitt í raun. Noam Chomsky fækkar reyndar ekki fötum en skrifar fína grein í dag.

Uncategorized

Matarboð

Takmarkið að hafa meira saman að sælda við vini mína þetta árið er enn ekki komið almennilega í gang. Í kvöld fengum við þó Elínu í heimsókn og hún fékk tilsögn frá vefara heimilisins um hvernig ætti að henda upp sinni fyrstu heimasíðu á meðan að ég kenndi henni undirstöðuatriði þess að taka öryggisafrit af eigin geisladiskum.

Kvöldmaturinn samanstóð af cantaloupe-melónubitum í forrétt, piparsteik í aðalrétt ásamt bökunarkartöflum og rauðvínssósu, í eftirrétt var það svo Viennette ískaka sem var snædd. Góður rómur gerður að öllu fyrrnefndu.

Uncategorized

Spider-Man

Tókum í dag (eftir heimsóknina í Sorpu) á leigu DVD-útgáfuna af Spider-Man. Myndin var frábær skemmtun, persónurnar voru ljóslifandi og Kirsten Dunst og Tobey Maguire gerðu Mary Jane og Peter Parker verulega góð skil sem alvöru fólki. Mér tókst meira að segja að fá ekki æluna upp í hálsinn þegar maður sá þessi 2-3 velluatriði sem hafði verið bætt við eftir 911 eins og þeir í Kanaveldi kalla atburðina 11. september 2001.

Ég hef alltaf vitað að ég væri af spretthlauparakyni frekar en langhlauparakyni. Þetta kom í ljós í grunnskóla þegar ég var lengi vel allra fótfráastur á stuttum vegalengdum. Samanburðarrannsóknir á Kenýumönnum og Dönum hafa leitt grun að því að það er ekki hæðin yfir sjávarmáli, lappalengd, hlaup í skóla eða aðrir þættir sem hingað til hafa verið taldir upp sem eru ábyrgir fyrir því að kenýsku hlaupararnir einoka langhlaupin. Grunurinn beinist nú að spóaleggjunum! Svo virðist sem að pendúl-hreyfingin sem kemur á leggina sé veigamikill þáttur, spóaleggirnir eyða mun minni orku en stæltir kálfar. Þar með get ég bókað það að ég mun aldrei vinna maraþonhlaup, of stæltir kálfar!

Talandi um líkamsrækt þá fór ég í Sporthúsið í morgun. Mig grunaði að það væri nú slatti af fólki þarna upp úr 10 á laugardagsmorgni og það var hárrétt hjá mér. Biðröð í einstaka tæki og svona.

Plúsarnir: astma-pústið svínvirkar! Ég er ekki eins þollaus og ég hélt, þetta er bara áreynsluastminn. Allt annað líf að hafa heyrnartól og hlusta á eitthvað í kerfinu.
Mínusarnir: vond tímasetning – athuga betur áætlun, klúðraði með því að ýta á vitlausan takka, allt sem ég gerði í dag skráist ekki í tölvukerfið sem að mun svo skamma mig næst!

Beint úr hjarta slúðursins berast þær fréttir að Fatboy Slim sé að skilja við skutluna Zoe Ball. Leiðinlegt að heyra en karlinn er víst að vinna að nýrri plötu þannig að maður bíður spenntur eftir henni.

Morgunblaðið er ekki minna slúðurblað eins og bent er á í þessari færslu frá fólki sem þekkir vel til í Egyptalandi. Hvaða lið er þetta sem býr til eigin fréttir við myndir sem það fær frá útlöndum? Nóg er af fólki sem trúir því að fréttamennska Morgunblaðsins sé til sóma, það bara veit ekki betur því miður.