Fékk einkunnina úr endurtektinni, náði en ekki eins glæsilega og ég hafði vonast eftir. Mér gengur alltaf frekar illa þegar ég skrifa kóða í prófum, ég bara finn mig ekki með blað og penna, allt annað mál með tölvuskjá og lyklaborð.
Dave Hughes er magnaður maður eins og má lesa um í þessari frétt. Karlinn er löngu kominn á eftirlaun en hefur undanfarna áratugi unnið að því að nettengja sem flesta staði og einbeitt sér að afskekktum svæðum. Hann vill láta grafa sig með fartölvu tengda við þráðlaust net og svo snúra upp í sólarrafhlöðu til að halda tölvunni gangandi. Öll hans verk eiga að liggja á fartölvunni sem og spjallforrit sem svarar fyrirspurnum í hans nafni. Magnaður frumherji, vel þess virði að renna yfir þessa stuttu en góðu grein um merkilegan mann.
Á morgun mun Kevin Mitnick logga sig inn á internetið í fyrsta sinn í lengri tíma. Fyrir þá sem vita ekki hver maðurinn er þá var hann fundinn sekur um margvísleg tölvuafbrot. Refsingin sem hann fékk var reyndar í þyngri kantinum, hann var sumsé notaður til að senda þau skilaboð að tölvuafbrot væru gríðarlega alvarleg. Hluti af refsingunni var að hann mátti ekki koma nálægt nettengdum vélbúnaði, ættingjar hafa hingað til þurft að tékka á tölvupóstinum fyrir hann og prentað hann út.
Það er enn nóg í gangi varðandi baráttuna fyrir rétti neytenda til að eiga það sem þeir kaupa. Hollywood og félagar eru auðvitað á öðru máli og unnu seinustu lotu. Baráttan er langt í frá búin þó.
Sjónvarpskokkurinn Delia Smith hefur kennt Bretum að elda síðastliðin 30 ár (og sumir segja að það hefði mátt byrja á því mun fyrr) en er nú orðin uppiskroppa með uppskriftir. Hún hefur því hætt eldamennskunni og snúið sér að knattspyrnunni!
Hérna er áhugaverð niðurstaða, konur nú til dags stunda kynlíf sjaldnar en ömmur þeirra! Kynlíf var víst vinsæl dægradvöl fyrir 50 árum en nú fyllir sjónvarpið það pláss að stórum hluta. Gömlu konurnar brosa væntanlega í kampinn yfir þessu, þær vissu þetta alveg.
Að auki þá breytist smekkur kvenna fyrir karlmönnum eftir því hvort þær eru á pillunni eður ei. Þær sem taka pilluna laðast frekar að macho-mönnum en þær sem ekki taka pilluna laðast frekar að fíngerðari karlmönnum. Þetta á víst líka að útskýra fjölda sambandsslita eftir fyrsta barn þegar konurnar hætta á pillunni og líst ekki lengur vel á macho-manninn sinn.
Úr heimi vísindanna berast þær fréttir að aðferð til að mæla lengd
telomera sé nú til. Telomerar eru á endum litninga og í hvert skipti sem fruma skiptir sér minnka telomerarnir. Þannig fæddist kindin Dollý miðaldra, hún byrjaði ekki með 100% telomera eins og ungviði gerir almennt. Þessar fréttir þýða það að auðveldara verður að mæla öldrun og ef til vill verður hægt að hægja á henni seinna meir.
Nú er byrjað að kenna námskeið sem fjallar um stjórnartíð Bill Clinton í Hvíta Húsinu (the good old days).
Mótmæli gegn stríði fara stigvaxandi, fólk um allan heim fækkar fötum til að sýna friðarþel sitt í raun. Noam Chomsky fækkar reyndar ekki fötum en skrifar fína grein í dag.