Uncategorized

Örsnöggt

Jújú.. próf á morgun.

Hermenn í Írak bera á sér nokkurs konar Babelfish/Star Trek þýðanda sem þeir mæla í á ensku og á að lesa upp arabísku þýðinguna.

Suðurríkjamenn eru frekar óhressir með styttu af Abraham Lincoln sem er verið að reisa.

Skoski dómarinn með ameríska nafnið, hann Hugh Dallas, var að láta af störfum sem alþjóðadómari sökum aldurs, heil 45 árin sem karlinn telur. Hann skrifar nú pistla í The Scotsman um dómarastarfið og sína reynslu af því. Skemmtileg er sagan um síðasta Evrópuleikinn sem hann dæmdi.

Uncategorized

McLaren!

Þetta var skrautleg keppni, fyrstu 6-7 hringirnir keyrðir í öðrum gír á eftir öryggisbíl, menn flutu út af brautinni hægri vinstri og svaðalegur árekstur í lokin stoppaði allt á 55. hring af 71. Öryggisbíllinn hefur sjaldan komið jafnt oft út áður held ég.

Mínir menn hjá McLaren með mun betra tímabil í ár en í fyrra, Räikkonen var dæmdur sigur en grey Coulthard tapaði á því að hafa farið inn í viðgerðarhlé skömmu áður. Maður verður aðeins að benda á Ferrari og hía, þeir voru alvaldir í fyrra en í ár eru þeir seinir í gang. Þetta getur allt breyst snögglega en á meðan að McLaren eru að gera frábæra hluti er heimilisfólk Betrabóls ánægt.

Í dag fórum við í fermingarveislu Bjarka. Þar með er búið að ferma alla úr kynslóð Sigurrósar, næst eru það “krakkar” af hennar kynslóð sem fara að ferma sín börn, nokkur ár í það enn.

Uncategorized

Shanghai Knights

Man ekki einu sinni hvenær ég fór síðast í kvikmyndahús. Poppið er enn óætt en samt kaupa allir það. Ljótu hjarðdýrin sem við erum.

Shanghai Knights var auðvitað frábær skemmtun. Ég tilnefni Jackie Chan til heiðurslistamanns, senunnar engu líkar og “Singing in the rain” atriðið frábært.

Uncategorized

Símabreyting

Mikill verslunarleiðangur í Kringluna í dag, matarinnkaup og símastúss. Færðum ADSL og heimasíma frá Landssímanum til Íslandssíma. Í dag fékk ég svo loksins svar frá Símneti við pósti sem ég sendi 24. mars, sá póstur var ítrekun á öðrum sem var sendur í byrjun mars.

Það er vegna svona lélegrar þjónustu og þess að tengingin deyr nokkrum sinnum á dag sem ég er að færa okkur yfir, að auki fáum við tvöfalt hraðari tengingu á sama verði!

Þegar við komum út frá Íslandssíma sáum við Gumma baða höndunum út að lýsa einhverju spennandi fyrir viðskiptavinum, heyrðum óminn frá honum alveg út að Sock Shop 🙂

Samtök fréttamanna standa fyrir auglýsingaherferð þessa dagana til að minna á mikilvægi þess að þeir séu ekki þaggaðir niður. Auglýsingarnar eru í sjokkerandi stílnum, lifandi fréttamenn sýndir sem dauðir:
Sjónvarpsfréttamaðurinn Christine Ockrent með kúlufar í enninu
Fréttamaðurnn Guillaume Durand skotin til bana
Fréttamaðurinn Emmanuel Chain skorin til ólífis

Uncategorized

Félagsmaður?

Spurningin sem ég er að velta fyrir mér þessa dagana er hvort ég eigi að gerast félagsmaður í tvennum samtökum.

Annars vegar er það Femínistafélagið en ég hef verið á póstlista þar undanfarið.

Hins vegar er það Samfélag trúlausra.

Ég hef reyndar forðast þátttöku í félagasamtökum síðan að ég sá villu míns vegar fyrir 7-8 árum síðan. Hef svo sem ekki mikinn tíma þessa dagana til annars en að senda einstaka tölvupóst þannig að þátttaka mín yrði fyrst um sinn aðeins táknræn.

Þetta er að gerjast.

Próf í morgun, gekk rétt svo þokkalega, vil fá að minnsta kosti 8 þannig að ég fer bara í endurtekt ef mér gekk ekki nógu vel. Smá metnaður svona seinni hluta skólagöngunnar.

Uncategorized

ADSL

Hmmm. Próf á morgun, í strembnari kantinum.

Tengdó fékk sér ADSL í dag. Hún getur víst ekki valið milli þjónustuaðila, bara Síminn sem þjónustar Selfoss enn sem komið er. Hún er búin að vera með 33.6K módem síðan að hún fór í sveitina, alveg skelfilegt á þessum hátæknitímum. Pabbi er næstur í röðinni, það gæti líka tekið ár að koma honum í eitthvað betra…

Ég er aftur á móti að skoða tilboð Íslandssíma, orðinn vel þreyttur á stopulu netsambandi Betrabólsins og fullyrðingum um að allt sé í lagi þegar það er greinilega ekki svo.

Uncategorized

Engin aprílgöbb hér

Einar bendir á síðu með 100 skemmtilegum aprílgöbbum. Mörg í betri kantinum þarna.

Í dag var ég snöggur að benda á aprílgabb annars manns sem reyndi þó að halda því lifandi.

Besta lesningin í dag var þó póstur á Bugtraq-póstlistann þar sem lýst var því hvernig lítill hluti kjósenda gæti kollvarpað kosningum. Skemmtileg pæling.

Uncategorized

Sveiattans

Loksins kom eitthvað bitastætt í Survivor, 2 stúlkur fóru úr bolunum og girtu niðrum sig fyrir hnetusmjör og súkkulaðikex, og haldiði ekki að Kanarnir hafi blurrað allt nema axlirnar! Sveiattan.

Fór í próf í dag, held að það hafi gengið þokkalega.

Uncategorized

Miðaldir hinar seinni

Jújú.. það sem ég hef tautað undanfarna mánuði um að við upplifum nú nýjar miðaldir er sífellt að verða greinilegra.

Hermenn fá sendar bækur með bænum sem þeir eiga að fara með og eiga að biðja fyrir forseta sínum. Hinum megin víglínunnar biðja menn fyrir sínum forseta. Sonur prédikarans Billy Graham er í startholunum, tilbúinn að mæta með herskara kristniboða til Írak til að frelsa grey múslimina. Frakkar eru orðnir tákn hins illa af því að þeir fara ekki eftir því sem páfinn… afsakið.. forseti Bandaríkjanna segir. Páfinn er á móti stríðinu, kaþólska kirkjan aðeins að linast greinilega frá fyrri tíð.

Í Bandaríkjunum skrifar svo lítill strákur reglulega pistla þar sem hann segir frá hættulegum árásum frjálslyndra á amerísku fjölskylduna og að Frakkar séu “Such a morally repugnant and arrogant nation should be no friend of the United States.” (src). Verðandi forseti Bandaríkjanna?

Blöðin vestra hafa verið dugleg að kippa þeim burtu sem skrifa greinar gegn innrásinni, þetta er ekkert til að undrast þar sem að Bandaríkin hafa nú ekki verið þekkt sem lýðræðislegasta ríki heims hingað til, þó þau geri tilkall til þess titils.

The United States is far behind other Western countries, such as, Canada, Norway, Iceland, and France when it comes to press freedom
src

Örlítið léttari mál, sorpritið The Sun, sem er nota bene ákafur stuðningsaðili innrásarinnar, er með stuttfréttir á vefnum og í dag mátti lesa þar:

A FIRM in Southport, Merseyside, is supplying a plastic ice rink to Reykjavik, Iceland. Boss Bill Thorpe said: “It’s like sending coals to Newcastle.”

Þess má geta að Newcastle er mesti kolanámubær Bretlands.

Uncategorized

Áfram Færeyjar!

Í dag gafst manni enn einu sinni kostur á að fylgjast með tölvuleik í beinni. Þetta átti nú að heita landsleikur Skotlands og Íslands í knattspyrnu en eins og Atli hefur sýnt og sannað þá er hann að prufa sig áfram með hluti sem hann skilur alls ekki. Championship Manager 4 var að koma út núna og ég er tilbúinn til þess að kaupa handa honum eitt eintak gegn því að hann segi af sér sem landsliðsþjálfari. Hann er víst nokkuð góður að peppa menn upp og það sést stundum í byrjun seinni hálfleiks þegar hann hefur fengið að lesa yfir mönnum yfir hvað þeir áttu vondan fyrri hálfleik.

Það hvarflar ekki að honum að hann ber sökina á þessum hræðilegu leikjum sem Íslendingar hafa sýnt. Menn spila í bandvitlausum stöðum miðað við hvað þeir gera vikulega í leikjum og daglega á æfingum og svo er það auðvitað gullmolinn hans Atla. Að bakka með allt liðið, nema Eið Smára, fyrstu 30 mínútur hvers leiks til að þreyta andstæðingana og gera þá pirraða þegar þeim tekst ekki að skora.

Hingað til hefur voðalega lítið reynt á þetta þar sem öll alvörulið sem við höfum mætt hafa auðvitað tekið því fegins hendi að fá að liggja í sókn og skora snemma.

Ég nenni ekki að eyða fleiri orðum í Atla. Líklega fínn náungi en hann er bara ekki með það sem þarf sem stendur. Þjálfari sem er ekki með taktík á hreinu og stillir ekki upp í leikkerfi sem allir þekkja fyrr en fimm mínútur eru til leiksloka er ekki mikill þjálfari. Að sjálfsögðu eyði ég engum orðum í þulina sem míga í sig af spennu þegar að Ísland kemst að vítateig andstæðinganna, nokkuð sem á að vera eðlilegur hlutur en ekki sjaldgæfur eins og raunin er.

Ég held með Færeyingum í riðlakeppninni núna, það er útséð með að Ísland komist neitt með Atla við stýrið.

Í kvöld er matarboð hjá mömmu og Tedda. Líklega eitthvað gott í gogginn þar.