Á sunnudaginn fór vefþjónninn að láta frekar illa, það má rekja til þess að annar diskanna sagði krzzzz krzzzzz krzzzzz.
Stýrikerfisdiskurinn er sumsé orðinn nær ónýtur. Á miðvikudaginn fóru vefirnir aftur í loftið eftir að nýjir harðir diskar voru keyptir og stýrikerfi og forrit sett aftur upp. Jafnframt voru myndaalbúm allra uppfærð. Fleiri uppfærslna verður að vænta í vetur.
Áður en við fórum til Hollands, í brúðkaup Jolöndu og Jeroens, kom ég við í bókasöfnum Kópavogs og Reykjavíkur og tók óvart tvisvar sinnum fleiri bækur en ég ætlaði mér. Kláraði að lesa þær núna í vikunni, og að auki las ég nokkrar P.G. Wodehouse bækur á rafrænu formi með honum Bosman sem og bók eftir Tom Holt sem ég virðist hafa hætt að lesa fyrir langa löngu, þá rétt nýbyrjaður á henni.
Listinn er sem svo síðastliðinn mánuð, í réttri lestrarröð:
Ringworld’s Children eftir Larry Niven.
Fjórða bókin í seríunni um Ringworld. Kannski bara fínt að stoppa hérna í seríunni, bókin er vel leshæf en þó örlítið síðri en fyrri verk.
Limits eftir Larry Niven.
Smásagnasafn, fantasíur og vísindaskáldsögur.
The sun, he dies eftir Jamake Highwater.
Jamake þessi er af bandarískum indjánaættum. Í þessari bók segir hann frá falli Aztekana frá sjónarhóli talsmanns Montezuma. Bókin byggir á sögulegum heimildum og maður undrast enn og aftur hvernig nokkur hundruð Spánverjar náðu að knésetja stórveldi, ef ekki hefði verið fyrir spádóm um loðna menn úr austri þá hefði þeim líklega verið slátrað rétt eftir að þeir námu land.
The Butterfly Tattoo eftir Philip Pullman.
Ungur og ólífsreyndur drengur með maníu, hittir stelpu, lærir að trúa öllu sem aðrir segja er ekki félegt til langframa.
A gift from Earth eftir Larry Niven.
Nýlenda langt frá jörðu hefur orðið að fámennisveldi. Fólki er raðað í virðingarstiga og stéttaskiptingin er skýr. Þá berast fréttir frá jörðu sem geta umturnað þessu skipulagi…
World of Ptaavs eftir Larry Niven.
Jörðin og nýlendur hennar í sólkerfinu eiga í erjum. Geimvera með ofurnáttúrulega hæfileika er vakin upp af dvala. Mannkynið í hættu að verða þrælar hans.
How to be good eftir Nick Hornby.
Læknir heldur fram hjá eiginmanni sínum, á í tilvistarkreppu og vill skilja enda eiginmaðurinn fúllyndur með eindæmum. Eiginmaðurinn hittir óvenjulegan hnykklækni, umturnast og verður svo ofboðslega hjartahreinn að það pirrar hana enn meir.
Destiny’s road eftir Larry Niven.
Nýlenda langt frá jörðu. Ungur maður heldur í leiðangur til að sjá hvar annað lendingarfarið endaði. Fólk ekki vant því að ferðast, hann er því nokkurs konar Marco Polo og kemst að sláandi hlutum um sess sinn og þorpsins í tilverunni.
Saturn’s race eftir Larry Niven og Steve Barnes.
Stórfyrirtækin eru að byggja sér gervieyjur þar sem þau geta verið í friði með tilraunir sínar og laus undan lögum og reglum þjóðríkja. Ung stúlka kemst að skuggalegum aðgerðum sem draga stórlega úr fæðingartíðni í þriðja heiminum. Ekkert spes.
A Wodehouse Miscellany eftir P. G. Wodehouse.
Samansafn smásagna, ljóða og greina eftir meistarann.
Mike eftir P. G. Wodehouse.
Las þessa bók reyndar í tvennu lagi (þetta er sameinuð útgáfa), sem “Mike at Wrykyn” og Mike and Psmith. Psmith þarna kynntur til sögunnar í fyrsta sinn, man að ég las Wodehouse fyrst fyrir tæpum 20 árum síðan!
Psmith in the City eftir P. G. Wodehouse.
Psmith og Mike halda nú til London og fara að vinna í banka. Psmith lætur sér aldrei bregða.
The Portable Door eftir Tom Holt.
Ungur vonlaus maður og ung vonlaus kona fá óvænt vinnu hjá ótrúlega undarlegu fyrirtæki. Holt er oft áþekkur Pratchett en með eigin stíl og að auki er sögusviðið jörðin, þó svo að í bókum hans komi jafnframt fyrir hin norrænu goð, álfar, púkar og fleiri ævintýra- og trúarbragðapersónur. Held ég eigi allt safnið hans, vel yfir 20 bækur.
Var að byrja á enn einni Psmith sögunni, ætli ég greini ekki betur frá henni síðar, þetta er orðið nokkuð gott eins og er!