Uncategorized

Hótel Örk

Skruppum að Hlemmi rétt fyrir þrjú og kíktum á skrúðvagna Gay Pride-göngunnar þar sem að þeir biðu eftir því að gangan hæfist. Þar sem að við vorum á leið út úr bænum nenntum við ekki að bíða eftir göngunni sjálfri.

Leiðin lá á Hótel Örk þar sem við höfðum fengið gott tilboð. Sundlaugin var hlý og notaleg, rennibrautin óþægileg og stiginn þar upp hættulegur. Eftir sund og fyrir kvöldmat las ég Saga af stúlku eftir Mikael Torfason. Hann er duglegur að tala digurbarkalega og því ákvað ég að tékka á því hvort að yfirhöfuð væri eitthvað varið í það sem frá drengnum kemur. Stíllinn sem hann notast við er nokkuð sem ég kalla brotastíl, líklega heitir þetta einhverju öðru nafni hjá lærðum fræðingum en það skiptir mig minnstu. Sjálfum finnst mér þessi brotastíll þar sem henst er á milli persóna og sjónarhorna í hverri setningu ekki mjög skemmtilegur, en get lifað með honum. Pælingin í sögunni er þokkaleg, smá spöglering um eðli tilverunnar, ekkert nýtt á ferðinni.

Aðalsöguhetjan minnir mig reyndar talsvert á aðalsöguhetjuna í The Wasp Factory eftir Iain Banks (sem einnig skrifar sci-fi sögur undir nafninu Iain M. Banks).

Svo vildi einmitt til að næsta bók í lestur hjá mér (eftir kvöldmat reyndar) var eftir Iain Banks, skáldsagan Espedair Street. Skáldsaga um ungan klaufa sem að getur samið dægurlög og verður rokkstjarna án mikillar fyrirhafnar, eins og hann var búinn að undirbúa sig undir gífurlega vinnu í áratug áður en hann myndi slá í gegn. Við komum að honum þar sem að hann er búinn að draga sig í hlé, rétt þrítugur að aldri. Hann segir okkur sögu sína og veltir fyrir sér framtíðinni. Bókin er skemmtileg lesning, mun meira svo en þessi þurra upptalning mín gefur til kynna. Iain Banks er fínn rithöfundur og með skemmtilegan stíl.

Á milli bókalestursins gripum við í skeið, hníf og gaffal í matsal Hótel Arkar. Ég verð að segja að mér fannst maturinn í matarboðinu okkar í gær:

slá út það sem að Arkarmenn framreiddu:

  • Sjávarréttasúpa (ágæt)
  • Lambakjöt (ofmetið)
  • Súkkulaðikökusneið (mjög óspennandi)

Koddarnir eru svo ekki neinum bjóðandi, sem betur fer var minn heilsukoddi með í för og verður það hvert sem ég fer.

Þrátt fyrir neikvæðu punktana sem hér finnast verður þó að viðurkennast að þetta var ágætis frí frá uppvaskinu og matargerðinni. Sundlaugin var mjög fín, við höfðum hana útaf fyrir okkur líka.

Uncategorized

Matarboð: Elín

Buðum Elínu loksins í mat í kvöld. Ungt fólk á framabraut á erfitt með að púsla tímanum saman þannig að rétt hittist á tímaplön annara. Fjör og skemmtun, skot og varnir, og rætt um allt á milli himins og jarðar.

Fyndna “frétt” dagsins er auðvitað sú að Travolta stoppaði í um klukkutíma á Íslandi. Að sjálfsögðu náðist mynd af kappanum, hann steig ekki úr flugstjórnarklefanum og þarna náði hugdjarfur ljósmyndari mynd af klefanum!

Uncategorized

Spámaðurinn Ayn Rand og fylgjendur hennar

Nú er varað við því að þessi gönuhlaup ráðamanna að hola niður stórvirkjunum geti leitt til þess að hagkerfið ofhitni. Til þess að koma í veg fyrir það yrðu vextir líklega hækkaðir. Þannig að til þess að kaupa sér atkvæði á Austfjörðum og peninga í kosningasjóðina ætla ráðamenn landsins að láta okkur skattborgarana borga með rafmagninu sem að stóriðjan myndi kaupa og að auki hækka vexti þannig að það er útséð með það að maður muni klára að borga lánin á þessari lífstíð. Sem nýr íbúðareigandi geri ég mér nefnilega fulla grein fyrir því hvað vaxtaprósentan er að taka mig mikið aftanfrá, ég borga tugþúsundir í hverjum mánuði og ekki helmingur þess er vegna höfuðstólsins, mér telst svo til að 60-70% af því sem ég greiði fari beint ofan í pytt vaxta og verðbóta og greiðslugjalds og hvað þetta heitir allt. Borgaði af litlu láni, sem að við tókum yfir af fyrri eigendum, núna um daginn, ekki nema 13.000 krónur en þar af voru 3.000 krónur af upprunalegu skuldinni, 10.000 krónur voru vegna vaxta og annars vesens. Ef að ég fengi svo eitthvað fyrir skattana væri ég kannski sáttari, en það er margra mánaða biðlisti á sjúkrahúsum, margra vikna hjá læknum, landhelgisgæslan er nú að leita sér að góðum árabátum, símagjöld voru að hækka, bókasöfn geta ekki keypt nema örfáar bækur á ári, lögreglan er notuð til að ganga í augun á vargmennum og ég gæti haldið áfram og áfram og áfram. En það bíður annars tíma.

Hmmm.. einhver ritsmíð úr smiðju Rand-stofnunarinnar mælir með því að Bandaríkin fari í stríð við Sádi-Araba og aðrar þjóðir. Vissulega eru stjórnendur Sádi-Arabíu með þeim verri, en að svona lagað komi frá Ayn Rand fólki er merkilegt, þar sem að þeir vilja helst að ríkið sé ekki til, góða ríka fólkið og duglega heilbrigða fólkið geti reddað þeim sem að minna mega sín. Hvernig beiting hersins á alþjóðavettvangi samræmist því veit ég ekki. Á vef þeirra eru þeir núna búnir að setja Capitalism Defense Kit, þar sem að allir góðir kapítalistar geta náð sér í orð í munn til að skylmast við þá sem kalla þá svín. Ætli Ayn Rand sitji ekki við hönd Guðs í sæluríki þessa fólks?

Meira merkilegt er að finna þarna, eins og In Moral Defense of Israel, þar sem að þeir greina frá því meðal annars að “United States should unequivocally support Israel”, sama hvað. Bullið sem að streymir þarna fram er allt hið skelfilegasta í mínum augum.

In America’s war against terrorism, it is imperative that America distinguish friend from foe, good from evil, the opponents of terrorism from the perpetrators. In the name of justice and self-preservation, therefore, America should uncompromisingly encourage and support Israel in the common fight against the enemies of freedom.

Þarf að segja meira en Good vs Evil? Svo nenni ég ekki einu sinni að minnast á þessa grein, lykilorðin sem að höfund vantar er náungakærleikur og samfélag. Ef hann vill lifa í frumskógi þá er væntanlega einhver staðar hægt að finna þannig skika handa honum. Lyfjafyrirtækin eiga auðvitað að geta grætt, en það er munur á gróða og mannvonsku og græðgi.

Best að forða sér af þessum vef áður en maður býr til sinn eigin sem svar við því sem þarna vellur upp.

Nei andskotinn! Þarna halda þeir áfram að toppa sig. Sjálfboðaliðastarf er af hinu illa!

Skrapp í dag með Elínu í fataferð í Smáralindina, og svo var það osborgari á Ak-Inn. Vel ætur og ekkert að þessum stað að finna.

Áhugavert:

  • Rauntímakort yfir flug í Norður-Ameríku
  • Unreal Fortress Gold
  • X Man
  • Do the math
  • A parable
  • Uncategorized

    Á þúsund daga fresti

    Fór í dag í verslunarferð, sem er í frásögur færandi þar sem ég fór að versla mér föt. Það gerist á 3 ára fresti að meðaltali. Eftir að hafa urrað á afgreiðslumanninn í Herra Hafnarfirði í Kringlunni, en þar voru aðeins seldar ýmist útvíðar buxur eða jafnbreiðar (eins og ökklinn þurfi jafn mikið pláss og lærin…) og gengið hring um aðrar búðir sem að seldu að því er virðist aðeins gallabuxur, reyndar í mörgum útgáfum, endaði för mín í Dressmann þar sem ég fann svona fínni hversdagsbuxur sem að voru nokkuð eðlilegar í háttum og pössuðu fínt á mig. Gulldebetkortið mitt var því næst vígt með því að strauja á það tvenn pör af þessum buxum.

    Þetta tískudæmi er annars alveg óþolandi, ef að fólk vill klæða sig eftir því hvað einhverjir ruglaðir menn í útlöndum ákveða þá er það þess mál, en ef að verslanir höfða bara til svona liðs þá er bókað að ég versla ekki þar. Það dræpi nú varla að hafa eins og örfá föt sem eru nokkuð normal og svipuð frá ári til árs.

    Moby kallinn mælir oft satt orð af munni. Gullkornið frá honum um in the future we’re all going to regret this period in music where our tastes were determinedby 11 year old girls and wrestling fans er rétt að mörgu leyti. Vandamálið eru heilalausu idjótarnir sem að eru í stjórnunarstöðum hjá fjölmiðlum og halda að þeir séu guðir. Aðeins listamenn frá risaútgefendum komast á lagalistann, aðrir eru hunsaðir. Skítur flýtur.

    Kláraði í dag að lesa enn eina Tom Holt bókina, Nothing But Blue Skies. Satíra, fyndni, þjóðfélagsádeila og gagnrýnin sýn á okkur mennina sem að gerum allt erfiðara en það þarf að vera.

    Áhugavert:

  • The happiest victim of theft – ever
  • Sögubækurnar munu dæma okkur öll fyrir aðgerðir Ísraelsmanna
  • Uncategorized

    Tölvuvesen enn einu sinni

    Google með allra ljótasta móti í dag, þeir skipta oft um aðalmyndina sem er í hausnum svona til að vera í takt við það sem er í gangi þann daginn (fótboltaþema þegar HM var, Ólympíuþema, þjóðhátíðir nokkura landa, afmælisdagar listamanna), en í dag er viðbjóður þar, þessi mynd sem er forljót.

    Kvöldið fór í tölvuvesen fyrir litla bróður, ljósu punktarnir voru þeir að skjákortið fór að haga sér siðsamlega, en dökku punktarnir þeir að 3 tíma törn við að reyna að stilla ADSL-router skilaði akkúrat engu. Svo er nýja 256MB vinnsluminnið hans nú að spila sig lítið og kannast bara við að vera 128MB. Hvorugur dökku punktana verður liðinn, þeim verður kippt í hann.

    Uncategorized

    Gervisunnudagur

    Sigurrós skrapp nú fyrir kvöldmat til Rögnu og Hauks á Selfossi, þannig að ég skellti 1944 rétti í örbylgjuna. Ég eldaði reyndar hádegismatinn þannig að mér er ekki alls varnað í eldhúsinu, fjarri því.

    Las í dag Foundation and Empire, annað bindið í Foundation-seríu Isaacs Asimov. Ætli ég fari ekki á morgun og reddi mér þeim sem upp á vantar svo ég geti lokið seríunni af, stórgóðar pælingar í gangi hjá honum.

    Kvöldið notað í forritun og pælingar fyrir World Football Organization, og gagnagrunn þess.

    Uncategorized

    Heima er betra(ból)

    Vaknaði líklega um sex í morgun og hlýddi kalli náttúrunnar í faðmi náttúrunnar. Bjart var og engin rigning en ég skreið bara aftur í svefnpokann enda enginn annar á ferli. Það sem eftir lifði morguns vöknuðum við Sigurrós af og til en þegar að við heyrðum róandi nið regnsins á tjaldinu duttum við aftur útaf.

    Loks stauluðumst við á fætur á hádegi, og fórum að planleggja heimferð. Upphaflega hugmyndin hafði alltaf verið að vera bara eina nótt, og stóðum við við hana. Rúmlega tvö fór ég svo að taka saman tjaldið okkar í úrhellisrigningunni á meðan að Sigurrós hafði ofan af fyrir börnum Guðbjargar sem að tók sitt tjald saman. Guðbjörg kom svo og aðstoðaði mig við að troða tjaldinu bara í skottið, rennandi blautt og það tók því alls ekki að reyna að troða því í neinn poka.

    Við fórum svo í samfloti til Rögnu og Hauks þar sem að nýbakaðar skonsur og vöfflur hleyptu krafti í okkur eftir hráslagalega ferð.

    Á leiðinni heim svo yfir Hellisheiðina fóru tveir geðsjúklingar framúr okkur, annar yfir tvöfalda óbrotna línu og hinn yfir einfalda brotna línu. Við fórum einmitt framhjá skilti þar sem stóð “Hraðann eða lífið?” þegar að sá fyrri fór framúr. Mér er svo sem andskotans sama þó að þessir geðsjúklingar drepi sig, en verra er ef þeir taka saklaust fólk með sér, farþega í eigin bíl eða þá sem að eru í bílum í næsta nágrenni við þá. Ég vil bara að menn missi skírteinin ævilangt ef að þeir reynast óargadýr í umferðinni, 20 manns látnir á árinu í umferðinni og enn er nóg eftir af því. Lögreglan var við litlu kaffistofuna þegar að seinni bíllinn fór þar framúr okkur á ólögmætan hátt. Mikið gagn af henni sem fyrri daginn, maður ætti kannski að fá flokkskírteini frá Kína til að verða öruggur í umferðinni?

    Áhugavert:

  • Yellow Alert
  • Uncategorized

    Sælukotshátíð

    Í dag fórum við út fyrir bæinn og stefnan var sett á Sælukot þar sem að stórfjölskylda Sigurrósar í föðurætt var samankomin eins og flestar verslunarmannahelgar.

    Við lögðum af stað úr bænum upp úr tvö og gerðum svo stopp á Selfossi þar sem við fengum vatn og með því. Hellisheiðin var sú gráasta í lengri tíð, skyggni 12 metrar og það var ekki fyrr en við komum niður úr Kömbunum að við sáum númerið á bílnum sem við höfðum ekið á eftir síðustu 30 kílómetra.

    Þegar að við komum svo í Sælukot að verða fimm var farið í það að tjalda, jörð var blaut en nánast engin rigning. Við rétt náðum að velja stað og smella upp tjaldi og henda himninum lauslega yfir áður en demban byrjaði. Til allrar lukku vorum við með stórt tjald sem að er skráð sem 4-5 manna tjald, líklega fyrir einhverja sem eru plássminni en við, og þannig tjöld eru með alvöru himni. Síðast þegar við vorum í tjaldi við Sælukot var það í kúlutjaldi, en þar er himininn svo nálægt tjaldinu að það blotnar alltaf í gegn.

    Ég las svo Foundation eftir Asimov, fyrsta bindið (reyndar er svo komið bindi sem er Prelude to Foundation.. og er þá núllta bindið ef talið er í tölvumáli) í Foundation-seríunni sem er með mestu stórvirkjum bókmentanna á síðustu öld. Bókin var vel skrifuð, með áhugaverðum pælingum. Næsta bók í seríunni er á náttborðinu.

    Grillað var svo að verða níu að kveldi til, kokkarnir stóðu við tvö grill utandyra íklæddir regnstökkum eða með regnhlífar yfir sér.

    Eftir matinn var mikið húllumhæ, og tróðumst við öll 25 talsins inn í þennan litla bústað. Gítar og munnharpa voru undirleikur við söng, og talsvert af léttu áfengi haft við hönd. Sumir háskólanemar sendu unga krakka út í rigninguna til að ná í meira áfengi, sem að krökkunum fannst spennandi enda heyrt sögur af háskólanemanum þegar hann væri fullur. Þegar miðnætti nálgaðist fjölgaði svo enn meir, þegar að 8 manns og hvolpur bættust í hópinn og þá voru sumsé einir 33 einstaklingar og hvolpur samankomin í litla kotinu.

    Gleðskapurinn fjaraði rólega út rétt rúmlega tvö um nóttina þegar að einn og einn fór að ganga til náða.

    Uncategorized

    Sjónvarpsstólar

    Þegar ég kom heim eftir vinnu voru Ragna og Haukur mætt með fínu sjónvarpsstólana, við fáum þá þar sem að þau fjárfestu í ennþá fínni, LazyBoy. Aðtaða til lestrar mun stórbatna við þetta!

    Microsoft hafa verið að breyta hugbúnaðarleyfum hjá sér. Í gær kom út Service Pack 3 fyrir Windows 2000 og þar má finna í smáa letrinu að þú samþykkir að Microsoft fái nú reglulega sent:

  • kerfisnúmer og raðnúmer Windows
  • kerfisnúmer Internet Explorer
  • kerfisnúmer ANNARA forrita
  • kerfisnúmer ýmissa tækja í tölvunni (skjákort, hljóðkort og svo framvegis)
  • Þær Windows 2000 tölvur sem ég er með puttana í munu ekki setja upp þennan þjónustupakka, glætan að ég fari að senda Microsoft kennitölu og skónúmer. Að auki eru Microsoft að breyta leyfismálum, þú kaupir aldrei neitt forrit frá þeim heldur leyfi til þess að nota það, þú átt aldrei forritið. Frétt hjá Zdnet um leyfismálin sjálf, en þar er Microsoft nú að taka alla í görnina.

    Ég held að ég haldi áfram að skoða hversu mikið maður getur fært yfir á Linux og þvíumlíkt hér í vinnunni.

    Fótboltaheimurinn er í mikilli krísu þar sem að félög borguðu leikmönnum svimandi upphæðir í laun og eru nú mörg hver gjaldþrota eða nærri því, mér sýnist að þetta útspil Microsoft geti haft svipuð áhrif á almenn fyrirtæki og stofnanir um heim allan ef að leyfin hækka um 33% til 130%, Oracle er nýbúnir að hækka sín leyfi enn meira.

    Fyrir þá sem að ofbýður þetta rugl og þola ekki hvað Microsoft Office er oft pirrandi í aðgerðum sínum, bendi ég á þennan Office-pakka sem að er ókeypis og mjög skemmtilegur og nothæfur.

    Áhugavert:

  • MP3-flokkurinn
  • The Shadow President
  • Uncategorized

    Húsfélagið

    Mættum á okkar fyrsta húsfélagsfund í kvöld, það er margt sem að má skoða hvort að eigi að bæta og svo þarf að klára eignaskiptasamningana áður en að við fáum afsalið í hendur.

    Baggalútsmenn eru komnir aftur úr sumarfríi, jákvætt að þeir bjóða upp á fréttir á rss þannig að maður fær nú fyrirsagnirnar réttar. Sólin lét sjá sig í dag, fundurinn hins vegar rændi kvöldinu og dagurinn nýttist lítið í að spóka sig.