Hótel Örk

Skruppum að Hlemmi rétt fyrir þrjú og kíktum á skrúðvagna Gay Pride-göngunnar þar sem að þeir biðu eftir því að gangan hæfist. Þar sem að við vorum á leið út úr bænum nenntum við ekki að bíða eftir göngunni sjálfri.

Leiðin lá á Hótel Örk þar sem við höfðum fengið gott tilboð. Sundlaugin var hlý og notaleg, rennibrautin óþægileg og stiginn þar upp hættulegur. Eftir sund og fyrir kvöldmat las ég Saga af stúlku eftir Mikael Torfason. Hann er duglegur að tala digurbarkalega og því ákvað ég að tékka á því hvort að yfirhöfuð væri eitthvað varið í það sem frá drengnum kemur. Stíllinn sem hann notast við er nokkuð sem ég kalla brotastíl, líklega heitir þetta einhverju öðru nafni hjá lærðum fræðingum en það skiptir mig minnstu. Sjálfum finnst mér þessi brotastíll þar sem henst er á milli persóna og sjónarhorna í hverri setningu ekki mjög skemmtilegur, en get lifað með honum. Pælingin í sögunni er þokkaleg, smá spöglering um eðli tilverunnar, ekkert nýtt á ferðinni.

Aðalsöguhetjan minnir mig reyndar talsvert á aðalsöguhetjuna í The Wasp Factory eftir Iain Banks (sem einnig skrifar sci-fi sögur undir nafninu Iain M. Banks).

Svo vildi einmitt til að næsta bók í lestur hjá mér (eftir kvöldmat reyndar) var eftir Iain Banks, skáldsagan Espedair Street. Skáldsaga um ungan klaufa sem að getur samið dægurlög og verður rokkstjarna án mikillar fyrirhafnar, eins og hann var búinn að undirbúa sig undir gífurlega vinnu í áratug áður en hann myndi slá í gegn. Við komum að honum þar sem að hann er búinn að draga sig í hlé, rétt þrítugur að aldri. Hann segir okkur sögu sína og veltir fyrir sér framtíðinni. Bókin er skemmtileg lesning, mun meira svo en þessi þurra upptalning mín gefur til kynna. Iain Banks er fínn rithöfundur og með skemmtilegan stíl.

Á milli bókalestursins gripum við í skeið, hníf og gaffal í matsal Hótel Arkar. Ég verð að segja að mér fannst maturinn í matarboðinu okkar í gær:

slá út það sem að Arkarmenn framreiddu:

  • Sjávarréttasúpa (ágæt)
  • Lambakjöt (ofmetið)
  • Súkkulaðikökusneið (mjög óspennandi)

Koddarnir eru svo ekki neinum bjóðandi, sem betur fer var minn heilsukoddi með í för og verður það hvert sem ég fer.

Þrátt fyrir neikvæðu punktana sem hér finnast verður þó að viðurkennast að þetta var ágætis frí frá uppvaskinu og matargerðinni. Sundlaugin var mjög fín, við höfðum hana útaf fyrir okkur líka.

Comments are closed.