Da Vinci, lax, einhyrningur og fornrapp

Þar sem ég velti mér um í sjúkrabeði mínu, með hita og fleiri krankleika, þá endist ég oft í fátt annað en að glápa á sjónvarp. Tölvur og bækur eru mun erfiðari viðfangs í veikindum.

Síðasta sunnudag sá ég þátt sem verður endursýndur næstkomandi sunnudag, Unlocking Da Vinci’s code. Þetta er eitthvað versta rusl sem ég hef séð á þessari ágætu stöð. Spyrillinn/þulurinn Elizabeth Vargas er hrikaleg og atriðin þar sem hún endurtekur í hneykslunartón orð viðmælandans og rúllar augunum ættu að vera kennsluefni í “Hvernig á ekki að gera heimildaþætti”.

Í veikindum mínum hafa landsmenn notið sólarblíðu, þeim er bent á að til að brenna ekki er ráðlegt að borða lax og aðra fæðu sem inniheldur Omega-3 fitusýruna. Hún ku víst vera mjög öflug sólarvörn.

Við höfum nú opnað á myndahluta Brúðkaupsins. Þeir sem eru enn í makaleit ættu að hafa þessar vísindalegu niðurstöður í huga… gefið konum gjafir sem endast ekki. Þetta á víst að minnka hættuna á að giftast konu sem er bara gullgrafari.

Eitt af því sem að ég er mjög viðriðinn í vinnunni er að geyma safnmuni á stafrænu formi. Þegar maður les um Capturing the unicorn fyllist maður lotningu… ekki erum við með svona fín tæki hjá okkur.

Að lokum, hálf vinnutengt líka, Chaucer’s tales become rap songs. Spurning um að prufa þetta með fornsögurnar? DJ Ari með Sturlungarapp?

Comments are closed.