Uncategorized

Pólitískur dagur

Sigurrós fékk eintak af launatöflu kennara í dag, rannsóknir hennar leiddu í ljós að henni verður mismunað vegna aldurs og mun fá laun óháð getu. Svona fyrirkomulag er víst víða í opinbera geiranum, þar er það lífaldur en ekki starfsaldur eða geta sem skiptir mestu máli.

Pravda voru ekki hrifnir af tilraunum Colin Powell til að sýna fram á að Írakar væru stórhættulegir og að það ætti að ráðast á þá hið snarasta. Ekki hrifnir er reyndar “understatement”, þeir tæta hann og félaga hans í sig.

Framtaksamir einstaklingar hafa svo smellt upp vef þar sem þeir mælast til þess að nefnd verði send til að skoða stöðu gjöreyðingarvopna í Bandaríkjunum. Tilvitnun í einn gestanna sem er Bandaríkjamaður:

“How can anyone accuse the U.S. of being a rogue nation? Just because we have illegally asssassinated (or attempted), jailed or deposed legimately elected heads of state in Haiti, Panama, Iran, the Dominican Republic, Viet Nam, and more? “

-Steve Garcia Cary IL

Meira af pólitíkinni, alveg fyrirtaks grein á Huga þar sem eðli einstaklingsfrelsis er borið saman við það sem Sjálfstæðismenn boða.

Uncategorized

Námur Skútuvogar

Lentum í áhugaverðri reynslu í kvöld, fórum með kertaljós niður hringstiga og gengum koldimman gang þar sem vatn lak úr sprungnu röri sem hafði slegið út rafmagnið. Kom ekki nálægt rafmagnstöflunni. Minnti að mörgu leyti á Námur Moríu.

Í fréttum í dag heyrðist þingmaðurinn, stærðfræðingurinn og verndari umkomulausra peninga sem gengur daglega undir nafninu Pétur H. Blöndal segja að þrír menn hefðu haft samband við hann og sagst lifa góðu lífi á launum sem væru 90.000 kr og minna. Það þurfti ekki meira til að stærðfræðingurinn drægi þá ályktun að allir geti því lifað af atvinnuleysisbótum (77.000 kr) eða verkamannalaunum. Held ég að hann fengi bágt fyrir ef hann hefði skilað þessum niðurstöðum inn sem námsmaður við háskóla. Eins óvísindaleg aðferð og hægt er til að draga ályktanir af. Maðurinn er sprenglærður í ýmsum greinum stærðfræðinnar sem gerir þetta ennþá vafasamara.

Í Singapore er klám, erótík og hvers kyns nekt stranglega bönnuð. Landið er nú samkvæmt könnunum það land í heiminum þar sem pör hafa sjaldnast samfarir og er með lægstu fæðingartíðni sem er til. Þetta helgast að stórum hluta til af því að allir eru að eltast við að græða meiri pening og ná sem lengst á framabrautinni. Stjórnvöld eru því farin að hafa áhyggjur af því þar sem það stefnir í talsverða fólksfækkun þar í landi. Framtakssamur læknir hefur því hrundið af stað ástarfleyi sem á að koma pörum til.

Ævintýrin halda áfram að gerast hjá Saparmurat Niyazov, forseta Túrkmenistan sem er ítrekað í fréttum fyrir undarlegheit sín og einræðistilburði. Það nýjasta nýtt er að allir topparnir fá núna nýjan bíl og eiga að gefa undirmönnum sínum bílinn sem þeir fengu í fyrra, það sama á víst að gerast aftur að ári. Niyazov er búinn að leggja tekjur Túrkmenistan inn á eigin bankareikninga undanfarin ár og er líklega eini maðurinn í landinu sem á bót fyrir rassinn á sér.

Í Gambíu er annar ráðamaður með ákveðnar skoðanir, nú eiga allir unglingar að gjöra svo vel og vinna á ökrunum þegar regntímabilið kemur. Þeir sem sjást leika sér í fótbolta skulu í steininn!

Uncategorized

Salon með púlsinn

Best að byrja á stuttsögu sem segir frá því hvernig allir fara á taugum þegar að uppsagnir eru yfirvofandi, það eru margir sem eru á nálum þessa dagana.

Dick Cheney, hinn hjartveiki varaforseti Bandaríkjanna og grunaður fjárglæframaður, var meðal ræðumanna á ráðstefnu sem að CPAC hélt, þessi frásögn er þaðan og sýnir hvers konar argandi afturhaldsseggir sitja við katlana í Washington. Hægt er að lesa greinina alla ef horft er á 15-sekúndna auglýsingu, sú auglýsing opnar læstan hluta Salon í einn sólarhring. Ekki slæm skipti.

Meira frá Salon, að þessu sinni heldur gleðilegra efni, tveir feðgar sem eru framarlega í tónlistarmálum í Bandaríkjunum skrifa hér afar vandaða grein um það hvernig Kaaza og skyld forrit geta bjargað tónlistariðnaðinum. Vönduð grein og góð lesning.

Endum þetta á aðeins spaugilegri nótum þó að meiðsli séu það sjaldnast. This is London tók saman nokkur ævintýraleg meiðsli sem atvinnumenn í knattspyrnu hafa lent í, þarna er til dæmis á listanum fjarstýring sem fór illa með einn og ruslafata sem tók annan úr umferð.

Uncategorized

Ævintýri

Til að kúpla mig aðeins út úr öllu þessu tölvuveseni ákvað ég að lesa bók í gær sem ég fékk í jólagjöf en hefur þurft að bíða vegna anna. Þetta var Power of Three, bók í unglingar/ævintýraheimur huldufólks og manna – geiranum. Ágætis lesning.

Las líka nokkrar strumpabækur sem við eigum. Þeir klikka aldrei.

Ef ég væri duglegri í eldhúsinu gæti ég kannski verið með svona neyðarlínu fyrir matargerð sem tekjulind.

Það er stutt síðan að Frakkar lögðu niður dauðarefsingar, 1981 voru þær afnumdar en síðasta aftakan fór fram 1977. Böðull sem svipti 395 manns lífi hélt nákvæmar dagbækur yfir öll embættisverk sín og eru þær nú á uppboði.

Uncategorized

Nýtt tímabil

Á fimmtudaginn átti ég 5 ára starfsafmæli hjá vinnuveitanda mínum. Við það tækifæri breytti ég yfir í tímavinnu og fer að hugsa mér til hreyfings. Það er verra að staðna.

Ég er að vinna í lokaverkefni fyrir skólann í samstarfi við áðurnefndan vinnuveitanda þannig að ég verð þarna inni á gafli til sumars.

Kostirnir eru þeir að ég hef nú meiri tíma til að sinna námi, líkamsrækt og áhugamálum.

Flestir spá því að vinnuumhverfi 21. aldarinnar muni einkennast af mun meira flæði fólks í atvinnulífinu. Fáir munu vinna hjá sama fyrirtæki í 20-50 ár heldur muni meðalstarfsaldur verða um 7 ár, þá langi fólk líklega til þess að spreyta sig á öðrum hlutum. Fyrirtæki munu líka verða duglegri við ráðningar og uppsagnir til að stækka og minnka hratt eftir þörfum.

Nú er bara málið að finna þokkalega sumarvinnu, kannski einhverja sem býður upp á 30% starf eða svo yfir næsta vetur þegar ég ætla mér að klára B.Sc.-gráðuna. Konan verður þá vonandi fyrirvinnan næsta vetur og heldur mér uppi. Sá reyndar stöðu í atvinnuauglýsingunum í dag sem að gæti smellpassað fyrir mig en þar sem ég gæti ekki verið þar í meira en hlutastarfi næstu mánuði er best að gleyma því í bili.

Næsta skref, búa til ferilskrá og spöglera í því hvort ég vilji spreyta mig á svipuðum hlutum og síðustu 5 ár eða hvort ég eigi að prófa nýja hluti. Það eru aldrei til vandamál, bara hlutir með mismunandi lausnir.

Lisa Simpson Did you know that the Chinese use the same word for crisis as they do for opportunity?
Homer Simpson Yes. Crisatunity!
fengið héðan í gegnum Egil

Uncategorized

Úr A í D

Flutti mig um set í dag, vinnutalva (talva), stóll og meðfylgjandi fóru nú yfir í D-bilið. Held að þar með sé ég endanlega búinn að slá metið í að flytja á milli þessara rýma (A, B, C og D). Þegar flutningum lauk var hafist handa í lokaverkefninu.

Rakst á mjög skemmtilega uppskrift að bók sem myndi bera heitið Dating for Geeks in a Nutshell ef að hún væri gefin út. Margir skemmtilegir punktar þarna, hvort sem lesendur eru að leita eður ei.

Nú er ár geitarinnar/kindarinnar að hefjast í Kína og eru lambakrullur hugsanlega að fara að slá í gegn. Kínverska notar eins og margir vita ekki bókstafi heldur tákn yfir hluti, einfölduð kínverska sem er mest notuð í dag hefur að geyma þúsundir tákna en hefðbundin kínverska er mun ítarlegri. Til að spara tákn hafa þeir því slegið saman sumum heitum, geit og kind eru skrifuð á sama hátt sem getur leitt til smá misskilnings.

Annars er elsta stjörnukort sem hefur fundist 32.500 ára gamalt, ekki kemur fram þar hvaða stjörnumerki voru við lýði þá.

Uncategorized

Menn í svörtu og vísindin

Já. Próf í morgun í strjálli stærðfræði, gekk þokkalega en skildi ekki eina spurningu, maður les fræðin á ensku og svo á maður að svara á íslensku með allt öðrum orðaforða!

Kaldir vindar blása um vinnumarkaðinn þessa dagana. Það virðist þó ekki vera sama Jón eða ríkisbubbi Jón. Forráðamenn fyrirtækja reka starfsmenn og þeir fá 3 mánuða uppsagnarfrest en þegar forráðamennirnir hætta fá þeir tugi eða hundruð milljóna til að bæta fyrir óþægindin. Svona. Fólk. Flengja.

Til þess að létta aðeins á brúninni tókum við gamanmyndina Men in Black II, hún stóðst væntingarnar sem gerðar voru til hennar sem létt afþreying.

Úr heimi vísindanna er gaman að lesa um kynlífsráðgjafa skordýra, spendýra og ótal annara tegunda. Hún Dr. Tatiana er með dýralífsþátt þar sem tekið er á óheppilegum atriðum eins og grænleitum typpum hjá fílum og önnur vandræðalega málefni.

Meira af kynlífi dýra, hingað til hafa vísindamenn grínast með það að karlkyns köngulær reyni að ríða öllu sem þeir sjá, hvort sem það er lífs eða liðins. Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar afsannað þessa kenningu. Karlarnir virðast vera mjög vandfýsnir og vilja helst stelpur með djarfar línur.

Öllu verra er að heyra um skaðleg áhrif A-vítamíns sé það tekið í of miklu mæli. Það virðist auka líkur á beinbrotum talsvert.

Ef við færum okkur um set í heimi vísindanna þá finnum við þessa frásögn af huldueindum sem þjóta í gegnum jörðina á ofsahraða og bora sig án vandkvæða í gegnum jörðina þvera. Varasamt að lenda í vegi fyrir þeim.

Af tölvumálum er það helst að frétta að á meðan að bandaríski herinn þjáist af bandvíddarskorti sökum tíðra PowerPoint sendinga og lifandi strauma frá hernaðartækjum þá er enn eitt forritið til að auðvelda skráaflutninga milli notenda í vinnslu, hæpið að það komist í tölvur hermannanna.

Endum á friðsamlegum nótum með ljóðum gegn stríði.

Uncategorized

5 ár

Nákvæmlega 5 ár í dag.

Í Noregi hefur þingmaður beðist afsökunar á því að hafa spilað stríðsleik á tölvunni sinni á meðan að á þingfundi stóð. Davíð Oddsson þarf hins vegar ekki að biðjast afsökunar á því að skrifa smásögur í vinnunni á Alþingi, hann er svo fyndinn nefnilega.

Það er mikið pundað á Bandaríkjamenn núna eins og gefur að skilja. Berlusconi, Blair og hinir kjölturakkarnir hafa hins vegar gefið út yfirlýsingu sem best er að lesa “við líka!” og lýsa þar yfir stuðningi við stríð sem á að vernda friðinn (hvernig sem Bush reiknar það út).

Pravda skjóta nokkrum skotum. Þeir nefna hryðjuverkasveitir Bandaríkjamanna og Breta sem eru í Írak þessar vikurnar, þeir eru góðu karlarnir þannig að það má örugglega ekki kalla þá hryðjuverkamenn samt. Þeirra málstaður er réttari.

Svo eru það marmelaðiverksmiðjurnar sem að vopnaeftirlitsmennirnir leita að efnavopnum í, vel völdum skotum miðað þarna að Bandaríkjamönnum frá Rússum.

Það eru þó ekki bara Rússar, Nelson Mandela lætur þung orð falla og segir Bandaríkjamenn vilja helför.

Mexíkóar vilja svo klippa “United States” hlutann úr nafni sínu, reyndar er það ritað Estados Unidos Mexicanos á spænsku. Þeim finnst það minna um of á gráðuga nágrannann sem hefur ekki verið þeim góður stóri bróðir.

Ummæli dagsins á þó maður uppalinn í Bandaríkjunum, Dimitri Piterman, sem fæddur er í Úkraínu. Hann var að kaupa ráðandi hlut í knattspyrnufélaginu Racing Santander og vill stjórna þar öllu sjálfur. Aðspurður hvort að hann ætti að stjórna liðinu þar sem hann er ekki með þjálfararéttindi svaraði hann:

“There’s a complete idiot running a very powerful country without a qualification to his name – and you tell me that I have to have a diploma to manage a football team?”

Uncategorized

Heimsfréttirnar

Indverjum fjölgar afskaplega ört og til þess að reyna að stemma stigu við því geta menn nú fengið nýtt reiðhjól ef þeir láta kippa sér úr sambandi.

Rússum fer hins vegar fækkandi, mjög umdeilanleg kenning er sett fram hér varðandi ástæður þess.

Meira af Rússum, ungur maður slapp líklega með skrekkinn þegar hann frysti vininn við biðskýli þar sem hann var að míga eftir kráarferð, ekki hefur spurst frekar til hans síðan hann forðaði sér eftir björgunina.

Í Hong Kong er það víst brottrekstrarsök að lita hárið á sér ljóst. Þetta fékk lögreglukona þar í landi að reyna þar sem hún mætti með nýju klippinguna og litinn til vinnu.

Ef við lítum vestur um haf fáum við frétt af manni sem að sat inni í 29 ár vegna rúðubrots. Grey karlinn hvarf í kerfinu og er loksins núna, næstum áttræður að aldri, laus úr prísundinni.

Önnur frétt að vestan er um grey konuna sem fékk fótlegg látins föður síns sendan í kælikassa. Hún fer nú í mál og vill skaðabætur vegna andlegs áfalls sem hún varð fyrir vegna þessa (enda óhuggulegt að fá líkamshluta látinna senda heim til sín óumbeðið).

Frá Vesturheimi kemur líka þetta skemmtilega ádeilubréf, prófessorinn sem reit það tók saman nokkra góða punkta um Íraksáhuga Bush-feðga og setti í búning nígerísks ruslpósts sem að allir hafa án efa fengið.

Ef við lítum okkur nær þá eru breskir bændur frekar óhressir með það að vera núna skikkaðir til þess að sjá svínum sínum fyrir leikföngum. Mér finnst þetta reyndar ekki eins vitlaust og þeim, ánægt svínakjöt er gott svínakjöt!

Örlitlu sunnar fréttum við af traktor sem að á víst að hafa mælst á 100 km hraða á gatnamótum. Bóndinn kannast ekkert við málið enda aldrei farið hraðar en á 8 km hraða á klukkustund hingað til á gripnum.

Úr tækniheiminum kemur svo þessi litla elska, heimagræjur í fínasta tölvukassa á kjaraverði.

Færslu dagsins lýkur með einni góðri myndasögu með víkingnum Hrolli.

Uncategorized

Sandkassaleikur

Gleymdi að minnast á það í gær að Daði bróðir tók Toyotuna í smá fegrun í gær, þreif bílinn, skipti um perur og fleira smálegt.

Gleymdi líka að nefna það í gær að ég fór í sandkassaleik í vinnunni. Ákvað að taka til á borðinu til að fá betra vinnupláss og gróf upp skjöl frá síðustu 18 mánuðum, ekki oft tekið til hjá mér. Nú vill svo til að ég sit við glugga.

Það vill líka svo til að undanfarna mánuði hafa verið miklar framkvæmdir við ströndina, uppfyllingar verið gerðar allt frá athafnasvæði Viðeyjarferju og næstum upp að Elliðaósi (hvað það nú heitir) og í það hafa stór sandfjöll verið notuð. Að auki hefur verið dýpkað við athafnasvæði Samskipa sem er rétt fyrir neðan okkur og þar hafa ófá tonninn af sandi fokið upp. Því er oft svört slikja á skrifborðinu mínu, ofboðslega fíngerð sandkorn sem smjúga inn um gluggann og þekja allt.

Við þrifin í dag þá safnaðist þetta saman í litla hrúgu sem ég held að hefði verið hægt að nota í eins og eina litla sandköku. Er ekki hægt að fá miskabætur frá þessum sandgreifum, þeirra framkvæmdir þýða sandstorm innandyra hjá mér og svo held ég að tölvurnar séu ekki voðalega jákvæðar fyrir því að fá agnarsmá sandkornin inn í viðkvæman vélbúnaðinn. Eitt sandkorn sem kemst inn í harðan disk getur gert svipaðan skaða og glerbrot sem er stungið ofan í geislaspilara á ferð.


Ég kíki einu sinni í mánuði á fréttavef Morgunblaðsins, í gær var dagur janúarmánaðar og þar sá ég þessa frétt þar sem Powell segir : “Neitun Íraka við því að afvopnast ógnar enn friði og öryggi á alþjóðavettvangi”. Á sama tíma berast fréttir af enn einum voðaverkum Ísraela á heimilum palestínskra borgara þar sem íbúðarhverfin sitja eftir með gapandi sár og fjölskyldur á vergangi og/eða syrgjandi sína nánustu. Þetta er daglegt brauð. Að auki hafa Ísraelsmenn hunsað ALLAR ályktanir sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sent frá sér vegna þessarar óaldar sem þarna er í gangi.

Það er greinilega ekki sama Jón og séra Jón, eða í þessu tilfelli Abdullah og Abraham. Gereyðingarmáttur Ísraela er nýttur daglega og þeir brjóta allt sem hægt er að brjóta í alþjóðasamfélaginu en samt heyrist ekki píp um það að þeir ógni friði og öryggi á alþjóðavettvangi.

Abraham er æðri Abdullah.


Fékk í dag sem aðra daga slatta af ruslpósti en náði þó að stöðva mig í tæka tíð áður en ég eyddi út einum pósti sem sagði að ég hefði unnið eitthvað. Ég hafði nefnilega unnið eitthvað! Piltarnir hjá Zend (þeir búa til PHP vélina sem að fjöldamargir vefir keyra á) drógu mig og fjóra aðra út og gáfu okkur Zend Studio, flott (en þungt) þróunarumhverfi fyrir PHP.


Þetta er búinn að vera öflugu dagur á vafrinu (engin vinna í dag sökum skóla).

Þeim sem sakna móðurmjólkarinnar er bent á að fara til Changsha í Kína en veitingahús þar er með rétti með brjóstamjólk í boði.

Fann alveg magnaða smásögu, læknisfræðileg sci-fi með miklu tölvuívafi, varla hægt að stíla meira inn á mig!

Sá að það er verið að gefa út Adult Edition af fimmtu Harry Potter bókinni. Eini munurinn er víst kápan þó að Adult Edition gæti gefið meira í skyn.

Eins og flestir vita fór Internetið illa út úr helginni sökum öryggisholu sem þeir hjá Microsoft voru með í SQL-gagnagrunninum hjá sér og fleiru. Þeir gáfu reyndar út plástur fyrir þessu fyrir 6 mánuðum en mönnum er oft illa við að setja inn nýja plástra þar sem að þeir laga kannski einn hlut en skemma 4 aðra í staðinn. Því voru margir veikir fyrir þessum tölvuormi, meira að segja Microsoft sjálfir en netið þeirra hrundi sökum álagsins sem ormurinn olli innanhús hjá þeim.

Þá er Pravda komin í vefgáttina mína. Gott að fá fréttir að sem víðast!

Fyrsta fréttin frá Prövdu er um sæorma sem kannast ekkert við sólarljós né hafa þörf fyrir það, þeir nýta sér hitann úr iðrum jarðar og þykir þetta mikil uppgötvun varðandi líkur á lífi á öðrum hnöttum.

Lýkur þar með færslu dagsins.