Námur Skútuvogar

Lentum í áhugaverðri reynslu í kvöld, fórum með kertaljós niður hringstiga og gengum koldimman gang þar sem vatn lak úr sprungnu röri sem hafði slegið út rafmagnið. Kom ekki nálægt rafmagnstöflunni. Minnti að mörgu leyti á Námur Moríu.

Í fréttum í dag heyrðist þingmaðurinn, stærðfræðingurinn og verndari umkomulausra peninga sem gengur daglega undir nafninu Pétur H. Blöndal segja að þrír menn hefðu haft samband við hann og sagst lifa góðu lífi á launum sem væru 90.000 kr og minna. Það þurfti ekki meira til að stærðfræðingurinn drægi þá ályktun að allir geti því lifað af atvinnuleysisbótum (77.000 kr) eða verkamannalaunum. Held ég að hann fengi bágt fyrir ef hann hefði skilað þessum niðurstöðum inn sem námsmaður við háskóla. Eins óvísindaleg aðferð og hægt er til að draga ályktanir af. Maðurinn er sprenglærður í ýmsum greinum stærðfræðinnar sem gerir þetta ennþá vafasamara.

Í Singapore er klám, erótík og hvers kyns nekt stranglega bönnuð. Landið er nú samkvæmt könnunum það land í heiminum þar sem pör hafa sjaldnast samfarir og er með lægstu fæðingartíðni sem er til. Þetta helgast að stórum hluta til af því að allir eru að eltast við að græða meiri pening og ná sem lengst á framabrautinni. Stjórnvöld eru því farin að hafa áhyggjur af því þar sem það stefnir í talsverða fólksfækkun þar í landi. Framtakssamur læknir hefur því hrundið af stað ástarfleyi sem á að koma pörum til.

Ævintýrin halda áfram að gerast hjá Saparmurat Niyazov, forseta Túrkmenistan sem er ítrekað í fréttum fyrir undarlegheit sín og einræðistilburði. Það nýjasta nýtt er að allir topparnir fá núna nýjan bíl og eiga að gefa undirmönnum sínum bílinn sem þeir fengu í fyrra, það sama á víst að gerast aftur að ári. Niyazov er búinn að leggja tekjur Túrkmenistan inn á eigin bankareikninga undanfarin ár og er líklega eini maðurinn í landinu sem á bót fyrir rassinn á sér.

Í Gambíu er annar ráðamaður með ákveðnar skoðanir, nú eiga allir unglingar að gjöra svo vel og vinna á ökrunum þegar regntímabilið kemur. Þeir sem sjást leika sér í fótbolta skulu í steininn!

Comments are closed.