Nýtt tímabil

Á fimmtudaginn átti ég 5 ára starfsafmæli hjá vinnuveitanda mínum. Við það tækifæri breytti ég yfir í tímavinnu og fer að hugsa mér til hreyfings. Það er verra að staðna.

Ég er að vinna í lokaverkefni fyrir skólann í samstarfi við áðurnefndan vinnuveitanda þannig að ég verð þarna inni á gafli til sumars.

Kostirnir eru þeir að ég hef nú meiri tíma til að sinna námi, líkamsrækt og áhugamálum.

Flestir spá því að vinnuumhverfi 21. aldarinnar muni einkennast af mun meira flæði fólks í atvinnulífinu. Fáir munu vinna hjá sama fyrirtæki í 20-50 ár heldur muni meðalstarfsaldur verða um 7 ár, þá langi fólk líklega til þess að spreyta sig á öðrum hlutum. Fyrirtæki munu líka verða duglegri við ráðningar og uppsagnir til að stækka og minnka hratt eftir þörfum.

Nú er bara málið að finna þokkalega sumarvinnu, kannski einhverja sem býður upp á 30% starf eða svo yfir næsta vetur þegar ég ætla mér að klára B.Sc.-gráðuna. Konan verður þá vonandi fyrirvinnan næsta vetur og heldur mér uppi. Sá reyndar stöðu í atvinnuauglýsingunum í dag sem að gæti smellpassað fyrir mig en þar sem ég gæti ekki verið þar í meira en hlutastarfi næstu mánuði er best að gleyma því í bili.

Næsta skref, búa til ferilskrá og spöglera í því hvort ég vilji spreyta mig á svipuðum hlutum og síðustu 5 ár eða hvort ég eigi að prófa nýja hluti. Það eru aldrei til vandamál, bara hlutir með mismunandi lausnir.

Lisa Simpson Did you know that the Chinese use the same word for crisis as they do for opportunity?
Homer Simpson Yes. Crisatunity!
fengið héðan í gegnum Egil

Comments are closed.