Uncategorized

Tölvuleikir, Hillary og fimm foreldra munaðarleysingi

Frétt frá því í janúar sem ég sá fyrst í dag, skemmtilegar fréttir fyrir okkur leikjaunnendur.

Hillary Clinton gaf nú á dögunum út bók um ár sín sem forsetafrú, tvær áhugaverðar greinar um þá bók og hvort hún fari fram í forsetaslaginn árið 2008.

Erfðabreytingarnar eru svo að valda mjög flóknum málum, barn sem á fimm foreldra en er samt munaðarlaust… þetta eru hinir nýju tímar.

Uncategorized

Kökur, Neil Gaiman, gasblöðrubílar og bökuhaldari

Í dag var haldið smá kaffiboð eins og Sigurrós greinir frá.

Rithöfundurinn Neil Gaiman stoppar kannski á Íslandi á næstu dögum, hann eins og aðrir útlendingar fær betra verð hjá Flugleiðum Icelandair en við hér heima.

Það er fjör eins og vanalega hjá bullukollum Bush og félaga. Efnavopnabílarnir svokölluðu voru bara til að vinna gas. Þessar teiknimyndir segja flest sem segja þarf.

Ekki veit ég hvað menn borða á fótboltavöllum hér á landi en þetta væri kannski sniðugt.

Uncategorized

Sigurrós B.Ed.

Sumum finnst víst skammstöfunin B.Ed. fyndin (ég er líklega of vanur henni í þessu samhengi til að hafa sama húmor).

Í dag útskrifaðist mín ástkæra frá Kennaraháskólanum með 8.97 í meðaleinkunn.

Útskriftarathöfnin var hátíðleg, tvær aríur sungnar. Ræðuhöld sem betur fer í lágmarki fyrir utan rektor sem vill fá einn ofurháskóla. Spurning hvernig það fari en svo mikið er víst að það þarf að fara með vendi í Háskóla Íslands og sópa þar til og henda fullt af smákóngum út sem eru baggi á þeim deildum sem þeir bera ábyrgð á eða kenna við.

Eftir útskriftina fórum við í Ráðhúsið þar sem veitingar í boði tengdó voru innbyrðar.

Litum við í útskriftarteiti Steinunnar sem var haldið í svaðalega flottu raðhúsi með garð á við meðal fótboltavöll.

Svo var það Perlan þar sem tengdó borgaði enn og aftur. Við hjónaleysin fengum okkur andarbringur sem smökkuðust afar vel og allir kátir með matinn.

Svo var það partý hjá Sigrúnu sem var góðmennt og góðar samræður fóru í gang.

Nýju jakkafötin mín virtust vekja almenna ánægju en ég var þó spurður hvort ég væri í viðskiptadeild… *hóst*ónei!*hóst*.

Fínn dagur í alla staði og komum þreytt en ánægð heim.


Úr fótboltaheiminum er það að frétta að “Joey” Guðjónsson er kannski á leið til Aston Villa sem skiptimynt fyrir Juan Pablo Angel, ekki slæmt fyrir “Joey” að komast þangað sem menn vilja hann og hann er að standa sig.

Uncategorized

Spikk og span

Það er ekkert svo slæmt að hjóla í svona rigningu ef maður er í réttu fötunum utan yfir skrifstofufötunum. Kostur þó hversu stutt er að fara (þó allt sé upp í móti á leiðinni heim).

Sigurrós er búin að vera eins og Mr. Muscle í auglýsingunum og þeyst um alla íbúð og gert spikk og span. Á morgun er stór dagur hjá henni þegar hún útskrifast úr Kennó.

Uncategorized

Uppstrílun

Í tilefni af því að konan mín er að fara að útskrifast nú um helgina þá var ég dreginn í Kringluna með því loforði að þaðan út færi ég ekki nema með jakkaföt og skó. Það varð eftir þó að marmaragólfin hafi farið illa með mig og ég verið orðinn tvöfalt haltur á öðrum fæti.

Klipping í dag líka þannig að maður ætti að vera þokkalegur.

Uncategorized

Fagmenn

Kom í dag nokkrum sinnum við hjá Örtækni og í sameiningu tókst okkur að leysa undarlegt vandamál með eldgamla græju. Á endanum varð úr að snúru og tvö millistykki þurfti til að tengja saman þessa græju og aðra. Þeir eru algjörir fagmenn og kunna sitt fag og eru með öll millistykki og allar snúrur og kapla sem hægt er að hugsa sér. Fer þangað af og til og alltaf er þjónustan til fyrirmyndar.

Ég skrapp líka í fyrsta sinn í aðra verslun en ljóstra ekki meiru þar um fyrr en eftir helgi. Þar var fagmennskan líka í fyrirrúmi.

Neil Gaiman benti svo á þakkarræðu Gollums fyrir Óskarinn og örstutta útgáfu af Hringadróttinssögu.

Uncategorized

Sérpöntun

Já… í vinnunni gerði ég sérpöntun á stórum SCSI-diskum og mér til mikillar furðu birtust þeir klukkutíma seinna með DHL. Ótrúlegur hraði.

Áhugaverð tíðindi af tölvuleikjum og ritskoðun vestan um haf.

Uncategorized

Sælukot – Selfoss – Reykjavík (og Mýrin)

Eftir morgunmat var röðin komin að Mýrinni, eftir Arnald Indriðason, í lestrarpakkanum. Fyrsta bókin sem ég les eftir þennan konung íslenskra sakamálasagna og hún reyndist vera fantagóð. Gaf Ian Rankin hvergi eftir né öðrum sakamálahöfundum sem ég hef lesið.

Eftir að hafa kvatt Örn og Regínu gengum við frá eftir okkur og héldum heim á leið með viðkomu á Selfossi þar sem við þáðum veitingar á nýja pallinum hjá tengdó.

Sigurrós segir svo sína ferðasögu í dag. Þetta var hin ágætasta hvíld og gaman að geta lesið almennilega svona af og til.

Uncategorized

Samúel, The Worthing Saga og gestir

Aftur hoppuðum við snemma á fætur, reyndar á nákvæmlega sama tíma og í gær. Líkamsklukkan að virka í sveitinni?

Las Samúel í dag. Tja… hvað skal segja. Enn ein íslensk angistarbókin um firringu geðveiks manns og skot á núverandi skipan samfélagsins. Íslenskar angistarbókmenntir eru ekki í miklu uppáhaldi hjá mér, því miður virðist angist það sem flestir höfundar íslensks skáldskapar hafa fram að færa?

Eftir þessa lesningu var röðin komin að The Worthing Saga eftir Orson Scott Card, þann sama og skrifaði Ender’s Game og það allt. Ender’s Game hreif mig ekki mjög enda víst meira miðuð á unglinga. The Worthing Saga hreif mig ekki ýkja heldur. Það er eitthvað við það þegar menn fórna börnum og fjölskyldum fyrir undarleg markmið eða hugsjónir sem er ekki að finna hljómgrunn hjá mér. Abrahams-complexar.

Örn og Regína litu við í kvöld með nýjasta Trivial Pursuit, jarðarber og fleira góðgæti. Við opnuðum aðra rauðvín og gæddum okkur á góðgætinu okkar og þeirra.

Búið er að stytta Trivial Pursuit umtalsvert eins og kom í ljós í mínu fyrsta kasti. Ég fékk 6 og lenti strax á köku, fékk ofurlétta spurningu og fékk kökuna. Hoppaði svo á milli og át þrjár kökur í viðbót áður en ég klikkaði á spurningu. Ég dauðskammaðist mín fyrir að taka svona fjórar kökur í minni fyrstu umferð, hvað voru Trivial Pursuit menn að hugsa með að stytta svona spilið! Það gekk svo reyndar mun rólegar hjá mér eftir þetta og tók dágóðan tíma að að vinna fullnaðarsigur.

Að þessu loknu var tekið í spil og Kani varð fyrir valinu. Þar endaði Regína sem sigurvegari með okkur Örn hnífjafna í öðru sæti og Sigurrós varð neðst. Við fórum seint í rúmið, klukkan þrjú.

Uncategorized

Vísindi Discworld, Little People og The Eternity Code

Vöknuðum eldsnemma í sveitaloftinu og trítluðum framúr fyrir 9, ekki mjög algengt um helgar.

Eftir lestur um morguninn héldum við á Hellu á Kristján X til að fá okkur hamborgara. Við lentum inn í miðjum hóp miðaldra og eldri franskra túrista sem sátu þar að kaffidrykkju eftir matinn. Kristján X er víst bara heil keðja á Hellu, þeir eru með tvö veitingahús við sömu götuna, annað við þjóðveginn (þar sem við vorum) og hitt lengra inn í þorpinu.

Appelsínið kostaði 250 krónur og það reyndist dýr flaskan sú. 250ml flaska og verðið því á við áfengisflösku. Hamborgarinn reyndist algjör hnullungur, svipaður því sem að sést í öllum þessum auglýsingum en reynist aldrei satt. Hann var svo þykkur að hann var orðinn nokkuð svartleitur að utan en að innan var hann medium rare. Sigurrós leist ekkert voða vel á það en mér fannst hann fínn, þetta er svona testesterón/karla-hamborgari og vel boðlegur sem slíkur.

Aftur fórum við í Sælukot og þangað komu Amma Bagga (Sigurrósar) og Ingi með varadæluna. Við Ingi kíktum á dæluna og hann grunaði lofttappa. Eftir smástund vorum við búnir að leysa málið og dælan dældi nú loksins ísköldu vatninu.

Eftir að hafa boðið þeim upp á kaffi og kvatt þau héldum við áfram með bókalesturinn. Ég kláraði The Science of Discworld sem er verulega fróðleg bók um jörðina séða frá Discworld. Tveir vísindamenn skrifa þar annan hvern kafla (Terry Pratchett skrifar styttri kafla sem gerast í Discworld) þar sem þeir útskýra ýmis fyrirbæri eins og mótun heimsins, jarðar og margt margt fleira. Bókin er fróðleg og góð en nokkuð augljóst að vísindamennirnir eru með ákveðnar skoðanir og verulega á móti öðrum þannig að gagnrýninn huga þarf við lesturinn.

Næsta bók á listanum var Little People eftir Tom Holt. Hún kláraðist rétt eftir kvöldmat (grillað svínakjöt og rauðvín með) og reyndist ein af hans betri bókum í þessum pakka (hann skrifar líka sögulegar skáldsögur sem eru hans langbestu verk).

Síðasta lesning dagsins var þriðja bókin um Artemis Fowl, The Eternity Code. Bókin reyndist fín lesning, fyrsta bókin er síst og svei mér þá ef önnur bókin er bara ekki sú besta.