Samúel, The Worthing Saga og gestir

Aftur hoppuðum við snemma á fætur, reyndar á nákvæmlega sama tíma og í gær. Líkamsklukkan að virka í sveitinni?

Las Samúel í dag. Tja… hvað skal segja. Enn ein íslensk angistarbókin um firringu geðveiks manns og skot á núverandi skipan samfélagsins. Íslenskar angistarbókmenntir eru ekki í miklu uppáhaldi hjá mér, því miður virðist angist það sem flestir höfundar íslensks skáldskapar hafa fram að færa?

Eftir þessa lesningu var röðin komin að The Worthing Saga eftir Orson Scott Card, þann sama og skrifaði Ender’s Game og það allt. Ender’s Game hreif mig ekki mjög enda víst meira miðuð á unglinga. The Worthing Saga hreif mig ekki ýkja heldur. Það er eitthvað við það þegar menn fórna börnum og fjölskyldum fyrir undarleg markmið eða hugsjónir sem er ekki að finna hljómgrunn hjá mér. Abrahams-complexar.

Örn og Regína litu við í kvöld með nýjasta Trivial Pursuit, jarðarber og fleira góðgæti. Við opnuðum aðra rauðvín og gæddum okkur á góðgætinu okkar og þeirra.

Búið er að stytta Trivial Pursuit umtalsvert eins og kom í ljós í mínu fyrsta kasti. Ég fékk 6 og lenti strax á köku, fékk ofurlétta spurningu og fékk kökuna. Hoppaði svo á milli og át þrjár kökur í viðbót áður en ég klikkaði á spurningu. Ég dauðskammaðist mín fyrir að taka svona fjórar kökur í minni fyrstu umferð, hvað voru Trivial Pursuit menn að hugsa með að stytta svona spilið! Það gekk svo reyndar mun rólegar hjá mér eftir þetta og tók dágóðan tíma að að vinna fullnaðarsigur.

Að þessu loknu var tekið í spil og Kani varð fyrir valinu. Þar endaði Regína sem sigurvegari með okkur Örn hnífjafna í öðru sæti og Sigurrós varð neðst. Við fórum seint í rúmið, klukkan þrjú.

Comments are closed.