Vísindi Discworld, Little People og The Eternity Code

Vöknuðum eldsnemma í sveitaloftinu og trítluðum framúr fyrir 9, ekki mjög algengt um helgar.

Eftir lestur um morguninn héldum við á Hellu á Kristján X til að fá okkur hamborgara. Við lentum inn í miðjum hóp miðaldra og eldri franskra túrista sem sátu þar að kaffidrykkju eftir matinn. Kristján X er víst bara heil keðja á Hellu, þeir eru með tvö veitingahús við sömu götuna, annað við þjóðveginn (þar sem við vorum) og hitt lengra inn í þorpinu.

Appelsínið kostaði 250 krónur og það reyndist dýr flaskan sú. 250ml flaska og verðið því á við áfengisflösku. Hamborgarinn reyndist algjör hnullungur, svipaður því sem að sést í öllum þessum auglýsingum en reynist aldrei satt. Hann var svo þykkur að hann var orðinn nokkuð svartleitur að utan en að innan var hann medium rare. Sigurrós leist ekkert voða vel á það en mér fannst hann fínn, þetta er svona testesterón/karla-hamborgari og vel boðlegur sem slíkur.

Aftur fórum við í Sælukot og þangað komu Amma Bagga (Sigurrósar) og Ingi með varadæluna. Við Ingi kíktum á dæluna og hann grunaði lofttappa. Eftir smástund vorum við búnir að leysa málið og dælan dældi nú loksins ísköldu vatninu.

Eftir að hafa boðið þeim upp á kaffi og kvatt þau héldum við áfram með bókalesturinn. Ég kláraði The Science of Discworld sem er verulega fróðleg bók um jörðina séða frá Discworld. Tveir vísindamenn skrifa þar annan hvern kafla (Terry Pratchett skrifar styttri kafla sem gerast í Discworld) þar sem þeir útskýra ýmis fyrirbæri eins og mótun heimsins, jarðar og margt margt fleira. Bókin er fróðleg og góð en nokkuð augljóst að vísindamennirnir eru með ákveðnar skoðanir og verulega á móti öðrum þannig að gagnrýninn huga þarf við lesturinn.

Næsta bók á listanum var Little People eftir Tom Holt. Hún kláraðist rétt eftir kvöldmat (grillað svínakjöt og rauðvín með) og reyndist ein af hans betri bókum í þessum pakka (hann skrifar líka sögulegar skáldsögur sem eru hans langbestu verk).

Síðasta lesning dagsins var þriðja bókin um Artemis Fowl, The Eternity Code. Bókin reyndist fín lesning, fyrsta bókin er síst og svei mér þá ef önnur bókin er bara ekki sú besta.

Comments are closed.