Voðalegt vesen er þetta, maður þarf að fara að brjóta færslurnar niður í kafla er maður er aftur kominn í þennan gír! Byrja á bókadögum og enda á annari bókaumræðu.
Undanfarna daga hef ég lesið tvær síðustu bækurnar í Foundation-sögunni. Forward the Foundation og Foundation and Earth. Eitthvað var Asimov farinn að slappast í lokin en þokkalegasta lesning þó.
Ég las einnig tvær (mun styttri) bækur frá Philip K. Dick. Hef lesið þó nokkrar bækur áður eftir hann og lesið eina B.A.-ritgerð (minnir mig) um karlinn. Að þessu sinni voru það Clans of the Alphane Moon og Ubik sem enduðu í lestrarkistunni. Maðurinn hafði mikla náðargáfu, þvílík steypa en hann nær að troða öllu saman þannig að þetta virðist óskaplega rökrétt og passa vel og flæðið heldur manni við efnið.
Framhaldssögunni er ekki alveg lokið. Þar sem mér finnst fátt verra en að baktala fólk þá lét ég Björn auðvitað vita af færslum mínum. Björn á hrós skilið fyrir að vera netvæddasti stjórnmálamaður landsins og fyrir að sinna því af alvöru og svara fólki, hversu illa sem honum líkar málflutningur þess.
Hann bendir á að hann hafi ekki tekið neina afstöðu með Ann Coulter þar sem hann nefnir bók hennar. Það er vissulega rétt og ég biðst afsökunar á að hafa sett Björn í ból Ann.
Ég benti á móti á það að hann segir að:
Þetta er baráttubók, rituð af sannfæringu, þar sem brotnar eru til mergjar fullyrðingar og afhjúpaðir sleggjudómar
Afhjúpanir verða að vera byggðar á staðreyndum, bókin er hins vegar uppfull af staðreyndavillum. Því er frekar vafasamt að segja að hún brjóti eitthvað til mergjar og afhjúpi, að nefna þetta felur í sér meðmæli þó óbein séu.
Varðandi skot mitt á Björn, Microsoft og íslenskun þá bendir Björn á ræðu sem hann hélt varðandi þetta málefni. Vissulega var vel að verki staðið hjá honum og hans fólki að ná í einhvern hjá Microsoft sem gat samþykkt að íslenska yrði meðal tungumála sem hægt væri að fá Microsoft-vörur á, Microsoft er mikið bákn og langt á milli vinstri og hægri handar. En eftir stendur að ég hef ekki séð enn eina einustu tölvu með íslensku stýrikerfi frá Microsoft? Ég man ekki eftir því einu sinni að hafa séð það til sölu? Fór þarna mikil vinna í ekkert?
Einar minnist á þessi skoðanaskipti okkar og bendir á grein sem hann skrifaði sjálfur um Ann Coulter.
Jæja á nýjum vettvangi getur Björn kannski komið aðskilnaði ríkis og kirkju í gegn… er það ekki?
Verð sem áður að klykkja út með enn einu íhaldsruglinu frá WND (þar sem Ann Coulter er í miklum metum), áætlun múslima að taka Ameríku. Þar má meðal annars nefna fjölda múslimskra lækna, lög gegn hatursáróðri og enga notkun getnaðarvarna meðal múslima (hmmm.. og WND eru einmitt öflugir talsmenn íhaldsmanna sem vilja ekki sjá getnaðarvarnir?).