Það að snúsa (ýta á snooze-takka vekjaraklukku trekk í trekk og vera því milli svefns og vöku í lengri tíma) getur verið stórhættulegt, því að það er einmitt þá sem að mann (ég) dreymir alla rugldraumana. Nú í morgun dreymdi mig að þrír nafnkunnir bloggarar hefðu komið í afgangamat hjá mér, fyrst kom einn og gerði sæmileg skil á fiskiréttinum, skömmu eftir að hann fór komu svo tveir í einu og dásömuðu matinn og kláruðu.
Ég held að ég minnki snúsið aðeins. Ég þekki þessa menn ekkert en samt koma þeir í mat til mín í draumum mínum og eru voða kammó. Ég held að sumarbústaðarferðin í órafvædda bústaðinn sé orðin tímabær.
Góðar fréttir úr fótboltanum, enda koma þær ekki frá FIFA. UEFA er búið að laga Meistaradeildina aðeins til, nú er bara riðlakeppni og strax eftir hana útsláttarkeppni (en ekki riðlakeppni tvö). Næst komast kannski bara meistararnir í hana.
Reyndar tekur þetta ekki gildi fyrr en eftir ár. Heyrði á BBC World Service áðan í Arsene Wenger sem sagði að sér fyndist þetta ekkert mjög sniðugt. Færri leikir (liðin sem komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þurfa að spila 13 leiki í stað 17 áður) þýði minni peninga, og að auki sé hann nú með svo stóran hóp að það vanti fleiri leiki svo að leikmenn fái að spreyta sig.
Arsene Wenger missti allt það álit sem ég hef haft á honum sem skynsemdarmanni við þessi orð, hann er greinilega ennþá í fótboltaheiminum sem er var, geðveikin þar sem að hver einasti Knoll og Tott var keyptur fyrir andvirði fimm eyja í Karabíska hafinu og allir syntu í peningum (sem fengnir voru að láni… hver vill veðja við mig um að Leeds muni selja 3 stjörnur fyrir jól?).
Af Meistaradeildinni er það annars að frétta að ÍA munu mæta Zeljeznicar Sarajevo í fyrstu umferðinni.