Grillveisla og sól

Skaust á Völlinn í morgun sem oftar áður. Af einskærri hugulsemi nýtti ég mér ekki nokkrar dauðar mínútur til þess að hrella ungan sagnfræðinema með því að heimsækja vefinn hans frá herstöðinni.

Því næst lá leiðin í miðborg Reykjavíkur, hvar ég leysti mál og annað og rölti um í sólarblíðunni og horfði furðu lostinn á túristana og gamla fólkið sem að gekk upp í úlpum og með trefla. Mér var funheitt og fékk mér af því tilefni bragðaref til að fagna sólinni og heimsókn minni á Borgarbókasafnið þar sem ég tók einar 8 bækur sem endast kannski yfir helgina þegar við förum í sumarbústaðinn.

Af þjóðfélagslegum málum er það að frétta að ég ætla mér nú að fara að safna saman reynslusögum þeirra sem að hafa lent í klóm mannréttindabrjóta og bramlara sem að klæðast svörtu og hafa hvítar húfur. Nei, ekki nýstúdenta þó að æla á Ingólfstorgi sé hvimleið, heldur lögreglumanna sem að margir hverjir virðast hafa farið vel út fyrir ramma laganna í tengslum við heimsóknir kínverskra ráðamanna.

Reynslusögur (sagt að pilla mig úr Öskjuhlíðinni því að Zemin var í Perlunni að borða fyrir skattpeninginn minn/sagt að taka svarta klútinn frá munninum/neyddur út af Geysissvæðinu þar sem Zemin átti að fá að skoða það/og svo framvegis) sendist á brot@totw.org, merktar nafni, kennitölu og símanúmeri. Þetta þrennt er nauðsynlegt til að ég geti staðfest söguna hjá viðkomandi, þetta verður hins vegar ekki gert opinbert nema að fengnu samþykki sem ég myndi leitast sérstaklega eftir við viðkomandi. Davíð fær ekkert að sjá hverjir senda, þannig að svarti listinn hans ætti ekkert að stækka. Sjá meira um þetta hér.

Fengum pabba yfir í kvöldmat og héldum fyrstu grillveisluna okkar. Svínakjöt, grillkartöflur, epli og bananar lentu á grillinu og komu öll í ætu formi af því. Grillun er líka ofmetin list af mörgum karlmönnum, maður stingur þessu á grillið, snýr við 2-3 sinnum og tekur af áður en það verður að koli. Ekki flókið og þó tekst mörgum að gera þetta að stórhátíð.

Áhugavert:

  • Blatter orðinn hræddur og bítur allt og alla
  • Comments are closed.