Ágúst Flygenring birtir grein á Frelsi.is í dag þar sem hann talar um réttindi samkynhneigðra. Neðst minnist hann á að “enn vill kirkjan ekki kvæna homma og gifta lesbíur.” (heimild).
Ég held að það sé ekkert skylda kirkjunnar að kvæna homma og gifta lesbíur. Kirkjan er bara enn einn trúarsöfnuðurinn og trúarbrögð eru misfrjálslynd hvað samkynhneigð varðar. Kirkjan er ekki frjálslynd að því leyti. Sjálfur er ég guðleysingi og er nokkuð sama hvað kirkjan vill og vill ekki gera, en að beyta ytri þrýstingi á trúarbrögð til að breyta þeim þannig að þau brjóti ekki í bága við núverandi samfélagsnorm held ég að sé ekki rétta skrefið. Reyndar væri það bara öllum til hagsbóta að kirkjan héldi áfram að vera stíf á þessu, þá myndu fleiri sjá hversu úrelt stofnunin og hugmyndir hennar eru og fara að snúa sér að uppbyggilegri málum (erfðasyndin.. hver sættir sig við að fæðast sekur?) eða umburðarlyndari hreyfingum, til dæmis búddisma sem er heimspekistefna frekar en trúarbrögð.
Uppfært: Unnur minnist aðeins á þessa færslu mína og nefnir þar að erfðasyndin sé kaþólsk, ekki lúthersk. Á vef kirkjunnar er að finna trúarjátningar lútherskra manna: “að ein sé skírn til fyrirgefningar syndanna (heimild)”. Hvað syndum er verið að skíra börnin frá örfárra mánaða ef ekki erfðasyndina? Óborganleg er svo lögfræðingajátningin þar sem að reynt er að koma á hreinu hverning Guð þríeinn virkar.
Uppfært aftur: UMB (nú hún vill nota skammstafanir…) ræðir meira um erfðasyndarmálið, sjálfur gríp ég í það hálmstrá að þetta sé allt frekar óljóst hjá kirkjunnar mönnum, svona eins og fleira sem þaðan kemur.
Enn og aftur uppfært: Unnur svarar smáskotinu með góðum punkti. Ég kalla hana Unni þar sem að það er hluti URL-sins á vef hennar, og hún virðist nefnd það af öðrum netverjum. Sjálfur get ég alveg lifað með því að vera kallaður Jói, JBJ, Jóhannes (í formlegri tilvikum) og jafnvel fyrri tvö nöfnin eða fullt nafn, en aldrei aldrei skal kalla mig Jóhannes Jensson, ekkert er verra en þegar að miðnafninu mínu er stolið! Þetta er reyndar nokkuð sem að ýmsar opinberar stofnanir iðka mjög og er það miður.
Of oft uppfært: Ágúst virðist lesa mun meira í þessar pælingar mínar en ég setti í þetta, sem er akkúrat það sem að hann sakar mig um. Hann dæmir mig egócentrískan sem að honum er frjálst að gera, en ég held raunar að allir séu egócentrískir þar sem að erfitt er að vera ekki sammála eigin sjónarmiðum (nema þú sért atvinnupólitíkus eins og Vilhjálmur Egilsson sem að greiðir atkvæði gegn eigin sannfæringu og lýsir því yfir). Ágúst les það sem hann vill lesa en ekki það sem stendur, ég talaði um sjálfan mig sem guðleysingja en hann segir að ég kalli mig trúleysingja en ætti að kalla mig guðleysingja… sem ég gerði. Nauðsynlegur aðskilnaður er annað mál já en þarna sést hættan, stefna kirkjunnar og stefna samfélagsins í málefnum ýmissa hópa er ekki sú sama. Varðandi þá sem að eru trúaðir en jafnframt vilja samkynhneigðar giftingar þá geta þeir fylgt gömlum og góðum sið sem að ekki minni menn en Englandskonungar hafa iðkað, að stofna eigin söfnuð, nóg er af þeim. Þeim sem að ofbýður heimska kirkjunnar geta reynt að taka völdin (mjög erfitt) eða stofnað þennan nýja söfnuð (mun einfaldara). Ég virði þá sem trúa, ýmsir mér nákomnir eru trúaðir og ég atyrði ekki Guð þeirra þó ég atyrði kirkjuna og hennar embættismenn.
Síðasta uppfærsla: Ágúst leiðrétti ruglið með trúleysið og við lukum deginum með tölvupósti. Þetta var hressandi umræða milli aðila sem allir voru með eitthvað í kollinum :p
Langsíðasta færsla: Óli Njáll kastar steinvölum úr glerhúsi! Reyndar minnir mig að Ágúst hafi sjálfur ritað “gifta lesbíur og kvæna homma” og taldi það vera hótfyndni hjá honum.
Búið!