Góðar fréttir

Var að frétta að Fribba og Gústi hefðu eignast stúlku síðastliðin laugardag, fyrir eiga þau son. Hamingjuóskir til þeirra!

Örn og Regína eru svo að gera tilboð í íbúð, það er svona á mínum aldri, allir að koma sér fyrir og koma sér upp eigin ætt.

Kláraði í kvöld að lesa Ring of Swords eftir Eleanor Arnason. Bókin vakti athygli mína í sci-fi deild Borgarbókasafnsins vegna eftirnafns höfundar, greinilega af Vestur-Íslendingum komin. Í sögunni kemur jafnframt fyrir skandinavi sem heitir Gislason, og síðasti kafli bókarinnar eru tungumálaskýringar við mál sem að hún býr til, framburðurinn greinilega af íslensku bergi brotinn.

Sagan sjálf er um það þegar að mennirnir hitta loks aðra tegund, hwahrhatha, sem að flakkar um geiminn. Þeir eru á svipuðu stigi tæknilega en hafa allt öðruvísi þjóðfélag. Þar er mæðraveldi það öflugt að hvatt er til samkynhneigðar og allir karlmenn eru í hernum og haldið sem fjarri heimahögum og unnt er. Þannig losna börnin og konurnar við ofbeldið í köllunum, það er spekin sem liggur þar á bakvið. Því líta þeir með viðbjóði á mennina þar sem gagnkynhneigð er ráðandi og karlmenn lifa á heimilunum.

Ein af aðalsöguhetjunum er maður sem að er samkynhneigður og lendir í klóm hwahrhatha í njósnaför. 20 ár líða og þá hefst sagan.

Lipurlega skrifuð bók, með mannfræðilegum og heimspekilegum pælingum. Áhugamenn um kynferðismál, jafnrétti og mannréttindi gætu haft gagn af að lesa um mismunandi viðhorf manna og hwahrhatha til gagnkynhneigðar og samkynheigðar. Aðrir geta lesið bókina bara sem góða skáldsögu og velt sér ekki upp úr pælingunum.

Comments are closed.